Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Verður ábati af þessari aðgerð?

Það eru ekki margir sem að gleðjast yfir þessari ákvörðun enda mun hún snerta pyngjuna hjá mörgum. Það er fyrirsjáanlegt að mikill fjármagnskostnaður og stórfellt tap verður hjá mörgum fyrirtækjum landsins þetta árið og það skilar náttúrulega engu í ríkissjóð auk þess sem að það er búið að slátra mörgum skattberandi gullkálfum. Það þarf náttúrulega að halda úti grunnþjónustu í samfélaginu, en stóra spurningin er hinsvegar sú hvort að það sé hentugt að auka opinberar álögur við þær aðstæður sem að nú ríkja því þær munu leiða til hækkunar á aðföngum fyrirtækja sem að hækka verð sín til neytenda. Auðvitað geta auknar álögur sem nú eru boðaðar a verðeinugis dæmdar af ábatanum sem þær færa ríkissjóði en það er einmitt vandséð, gatið sem brúa þarf er stórt og upphæðirnar sem um ræðir eru litlar í því samhengi. Kannski ber að skoða frumvarpið um auknar álögur sem hreina neyðaraðgerð og hluta af því að halda kerfinu gangandi til skamms tíma.


mbl.is Álögur á eldsneyti og áfengi hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur sykurmaðurinn fátæku þjóðunum í vanda

Það er oft stutt á milli hláturs og gráturs, það höfum við mannfólkið fengið að reyna mörgum sinnum. Það eru líka margar hliðar á málum líðandi stundar og oft þarf að kafa dýpra og lengra til þess að setja hlutina í samhengi, sérstaklega þegar ein ákörðun getur haft áhrif til hins verra. Mér er til efs að Ögmundur, sykurmaðurinn, hafi leitt hugann að því að sykurskattur kann að vega að hagsæld margra af fátækustu þjóðum heimsins, þjóðum sem að eiga allt undir því að geta ræktað sykurreyr, framleitt sykur og selt hann án hindrana.

Á síðustu árum hefur verð á algengum útflutningsafurðum þróunarríkja, sér í lagi þeirra sem að treysta á landbúnað farið lækkandi en það hefur bitnað á velferð milljóna manna. Um langan tíma hefur sykuriðnaðurinn ekki leitt af sér mikla hagsæld fyrir þróunarríkin og ríki á norðurhveli jarðar verða að taka það með í reikninginn þegar þau auka skattlagningu á mikilvægar útflutningsafurðir þróunarríkja.

Það hefur verið áætlað að verð á sykri, kaffi, kakói og baðmulli hafi á síðustu tveim áratugum fallið á milli 30-60% í dollurum mælt.  Það eitt og sér segir okkur að vandinn er mikill hjá þeim sem að treysta á framleiðslu þessara afurða og þurfa síðan að eiga  við kvótasetningu á innflutningi, tollamúra og hugsanlega skattlagningu í anda sykurmannsins. Það eru mörg þróunarríki sem að glíma við þann vanda að hafa eina til þrjár meginstoðir í sínu hagkerfi og þær þurfa á því að halda að verslun og viðskipti gangi upp við umheiminn, á meðan slíkar landbúnaðarþjóðir eru í ,,sykurgildrunni" þá glímír Ísland við ,,þorskgildruna".

Skattar geta verið réttlátir en sú forræðishyggja eins og er í umræðunni núna bitnar ekki bara á íslenskum neytendum heldur getur hún haft áhrif á velferð milljóna manna á suðurhveli jarðar. Það er alþekkt að siðaðar þjóðir á norðurhveli jarðar hafa ekki gengið götuna til góðs þegar kemur að því að setja hlutina í hnattrænt samhengi og treysta sjálfbæra þróun þeirra ríkja sem á þurfa að halda. Kannski teljum við okkur vera siðaða þjóð af því við teljum að við eigum að geta selt fiskinn okkar án hindrana en að sama skapi bakað öðrum vanda með ákvörðunum okkar og hindrað aðgengi að markaði. Hugmyndir að slíkum skattlagningum eru slæmar því þeim fylgir afleiðing og alger óvissa um það hvort markmiðunum um bætta tannheilsu náist!

Auðvitað er þessar línur hér að ofan hugleiðing en þegar öllu er á botninn hvolft er þá ekki bara betra að kenna börnunum að bursta tennurnar Ögmundur? Er það ekki staðreynd að heilbrigðiskerfið hefur gefist upp við að reyna að ná tökum á heilbrigðisvandamáli eftir skysamlegum leiðum, einfaldlega vegna þess að það þykir of dýrt? Það er einnig skrýtið að sjá fyrrum landlækni og núverandi forstöðumann heilbrigðisvísinda HÍ tala fyrir neyslusköttum (sykurskatti) í Kastljósi kvöldsins, hefði ekki verið elilegt að hann hefði talað fyrir aðgerðum og fræðslu í málaflokknum?

 


Davíð rangur maður á röngum stað?

Davíð greindi frá mörgu og margt þoldi ekki dagsljósið eins og nú er vitað. Hér að neðan er nú þessi fræga skýrsla frá því febrúar 2008, sumt af því sem þar kemur fram segir hreinlega að við höfum flotið sofandi að feigðarósi. Núverandi ráðherrar í ríkisstjórn íslands eru á meðal þeirra sem sagan mun horfa til auk helstu eftirlitsstofnanna landsins sem að virkuðu ekki þegar á þurfti að halda. Davíð var hins vegar rangur maður á röngum stað á röngum tíma og fékk að gjalda fyrir það með embættismissi, en hann sagði þó sína skoðun hispurslaust  og það er meira heldur en margir ráðherrar sem að jafnvel könnuðust ekki við varnarorð Seðlabankans í aðdraganda hrunsins. Minnisblað SB síðan 2008 má lesa hér að neðan.

Maður er samt hræddur um að þær aðgerðir sem að embætti sérstaks saksóknara hefur í frammi komi fram of seint enda eru skilaboðin núna til margra að drífa sig í að nota tætarana og hylja slóðina áður en farið verður í næstu heimsóknir í beinni útsendingu! Þegar upp er staðið mun útlagður kostnaður við allan gauraganginn skila einhverju til baka eða erum við að friðþægja land og þjóð og skrifa okkar frá einum dapurlegasta kafla Íslandssögunnar?


mbl.is Davíð vakti athygli lögreglu á Kaupþingsviðskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fífluðu VG kjósendur!

Það er hægt að taka undir með Rafni að staða VG er mjög sérstök nú um stundir, sérstaklega eftir allar yfirlýsingarnar um stefnu flokksins í Evrópumálum. Kannski treysta VG á þá forsjón að kjósendur séu fífl og muni ekki á morgun hvað þeir kusu í gær. Það er engum vafa undirorpið að íslenska þjóðin stendur klofin í afstöðu sinni til Evrópusambandsaðildar og það er hæpið að ætla að stýra stór skref í þeim málaflokki meðan undiraldan er eins þung og hún er nú um stundir. Það fyrsta sem þarf að gerast núna er að snúa sér að því að vinna að uppstokkun og endurskipulagningu efnahagslífsins það mun ekki gerast í Brussel. Við töpum tíma og missum af lausnum því lengur sem við bíðum. Fyrirtækin og þjóðin þurfa aðgerðir á Íslandi en ekki í Brussel.


mbl.is Óttast klofning í VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í kápu í ræðustól á Alþingi

Að koma til dyranna eins og maður er klæddur er vel þekkt í íslensku máli það er þó rétt að taka fram að ég er enginn sérfræðingur hvað það varðar. Það hefur vakið athygli mína sú breyting sem hefur átt sér stað í störfum Alþingis þá sér í lagi reglurnar um klæðaburðinn, reyndar er ég meira fyrir það að halda í hefðir eins og bindisskylduna og messuna þar sem biskup Íslands blessar ríkisstjórn og þingheim og óskar hlutaðeigandi velfarnaðar í störfum fyrir land og þjóð. Tímarnir breytast og mennirnir með en kannski er maður af gamla skólanum þegar að maður vill halda í hefðirnar.

Það vakti athygli mína að hæstvirtur Iðnaðarráðherra mætti í ræðustól Alþingis þegar umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fóru fram og flutti ræðu sína í ljósbrúnni kápu, þeirri sömu kápu og hún heilsaði Utanríkisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna í eins og myndir Morgunblaðsins á blaðsíðu 13 sl. þriðjudag sýna. Kápan er ekki málið heldur sú smekkleysa að flytja ræðu úr ræðustól Alþingis í yfirhöfn er nokkuð sem að ég hef aldrei séð áður. Er þetta ekki smekkleysa eða er þetta kannski hluti af því sem koma skal? Maður vandist við það sem ungur maður að greiða sér og laga sig til þegar að maður fór í sunnudagsskólann kannski var það tákn um virðingu fyrir umhverfinu og óskrifuðum siðareglum þess tíma. Þingmenn sem að koma oft fram opinberlega ættu að huga að fatavali sínu og útliti, kannski hefði tíma þeirra þingmanna sem að tóku ekki þátt í kirkjuathöfninni fyrir þingsetningu verið betur varið hjá stílista, enda sýnist mér ekki veita af!

 


Þjóðin komin á þing

Jæja þá er þjóðin komin á þing ef svo má til orða taka en Borgarahreyfingin náði góðum árangri í nýafstöðnum alþingkosningum. Á engan er hallað þótt sagt sé með réttu að hreyfingin hafi brotist fram í kreppu, og eins og önnur afkvæmi kreppunnar þá eru slík börn oft á tíðum harðger og líkleg til þess að fara óhefðbundnar leiðir eins og sást best í upphafi þings þegar að hreyfingin samdi sig til áhrifa. Það er reyndar þekkt að borgarahreyfingar hafa lengi náð þokkalegum árangi víða um lönd og það má ekki gera lítið úr því að menn reyni að komast til áhrifa, það er eðlilegt.

Það má kannski segja í gríni að Borgarahreyfingin hafi lagt sjálfa sig niður í dag því að þegar rýnt er í málefnaskrá flokksins: http://www.borgarahreyfingin.is/stefnan/ þá eru þar mörg göfug markmið og í endan segir:

Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.

Ég held að Borgarahreyfingin verði að taka sig alvarlega og fjarlægja komment sem þetta út af heimasíðu sinni enda verða pólitískt kjörnir fulltrúar að reyna að hafa áhrif til hins betra en ekki hætta strax á fyrsta borði eins og skilja má ummælum hérna að ofan. Lýðræðið á götunni er oft annað og meira heldur en það sem fer fram í þingsölum og því eiga menn eftir að kynnast á komandi þingi.


Fyrirhyggjuveiran skýtur upp kollinum!

Það er ekki annað hægt en að taka undir með framkvæmdastjóra SI með tillöguna um sykurskattinn. Í flestum tilfellum er orsakir tannskemmda vanhirða og það er ljóst að það er sykur í fleiru en gosdrykkjum og mikil einföldun að halda að sykurskattur einn og sér muni bæta tannheilsu barna. Er orsökin á hnignandi tannheilsu ekki einmitt fólgin í lélegu eftirlit og ónógri fræðslu auk þess sem að þátttaka hins opinbera í tannlæknaþjónustu barna og ungmenna er ekki viðunandi? Er þetta ekki kjarni málsins?

Eftir að hafa lesið nýlega blaðagrein, eftir Njörð P. Njarðvík rithöfund og prófessor við Háskóla Íslands, þar sem að hann talar um frjálshyggjuveiruna þá dettur mér helst í hug að við séum að fara inn í tímabil fyrirhyggjunnar núna. Fyrirhyggjuveiran lýsir sér í því að hið opinbera og þeir sem fara með forráð hafa vit fyrir okkur hinum. Í niðurlagi greinar prófessorsins segir að margur hafi veikst illa af veiru frjálshyggjunnar en þegar öllu er á botninn hvolft þá er ekki víst að neysluskattar eins og heilbrigðisráðherra hyggst koma á muni skila tilætluðum árangri, þeir eru hins vegar hluti af fyrirhyggjuveirunni sem lýsir sér í því að menn stökkva á málefnin um leið og þeim er lýst í fjölmiðlum, stundum án þess að menn hafi hugsað málið til enda. Fyrirhyggjuveiran hefur víst sýkt marga illa og það er ekki gott, ekki frekar en hnignandi tannheilsu barna.


mbl.is Tillaga um sykurskatt ótrúleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður okkur bakkað inn í Evrópusambandið?

 

Skallagrimur

 

Það verður fróðlegt að fylgjast með næstu dögum og vikum í stjórnmálunum. Bloggheimar loga vegna umræðunnar um hugsanleg aðild að Evrópusambandinu og auðvitað hafa menn ýmsar skoðanir eins og gengur. Það er hinsvegar gaman að fylgjast með þeim umsnúningi sem að hefur orðið á skrifum þeirra sem að hafa farið mikinn í nafni þeirra vinstra megin í stjórnmálunum og jafnvel örlar á því að menn séu bara orðnir sáttir við að gangast Evrópusambandinu á hönd, þvert á allar fyrri yfirlýsingar. Það verður fróðlegt að fylgjast með Volvo manninnum, sú manntegund er þekkt fyrir að setja öryggið á oddinn og fara sér hægt, líka þegar á að bakka. Það skyldi þó aldrei vera að okkur verði bakkað inn í Evrópusambandið?


Nú þurfa menn að taka á honum stóra sínum

Það virðist sem að það mörg fyrirtæki í vertaka- og byggingarstarfssemi heyji nú lífróður og það sama á um fyrirtæki í mörgum öðrum atvinnugreinum. Það er grafalvarlegt mál ef ríki, bæjar- og sveitarfélög eru í einhliða framkvæmdastoppi. Fyrirtæki eins og Vegagerðin verða einmitt að taka myndarlega á málum, ef ekki núna hvenær þá? Ef verktakar sjá ekki fram á verkefni eða almenn útboð á verkefnum þá setur það náttúrulega af stað hringrás með hliðaráhrifum út í aðrar atvinnugreinar og frekari skellir kunna að lenda á fjármálastofnunum enda þurfa menn að greiða af tækjum og tólum.  Það er ljóst að þar til bærir aðilar verða að sýna samfélagslega ábyrgð og styðja við bakið á þessum aðilum og það ber að varast að koma á markaði þar sem að verktakar eru píndir niður í verðum. Nú bíð eftir því að vinur minn gangastjórinn Kristján Möller taki fyrsta skrefið...það er lítið skref fyrir hann en kann að vera stórt fyrir verktakageirann.


mbl.is Öllum sagt upp hjá Nesprýði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getum við eitthvað lært af öðrum?

Stoltir svissneskir karlmenn

1. maí er ekki haldinn hátíðlegur í mörgum kantónum í Sviss, og það var ekki nýtt fyrir mig að vinna á þessum sólríka degi. Það brá hinsvegar út af vananum þegar að stærsta 1. maí ganga í áratugi átti sér stað í Zurich þar sem að menn mótmæltu kreppunni og áhrifum hennar, og í grunninn er það sama við að glíma og hjá íslensku þjóðinni þar sem að launaskandalar bankamanna og uppsagnir eru aðalatriðin auk þess sem að hart hefur verið sótt að bankaleyndinni. Það er ekki bara á Íslandi þar sem að fólk er óánægt með lífið og tilveruna en flest er svona í lágstemmdara kantinum hérna. Stærsti munurinn á íslenska veruleikanum og þeim svissneska er að hér leigir 80% af þjóðinni enda dýrt að byggja og jarðnæði takmarkað og verð eftir því. Að stærstum hluta glímir svissnesk alþýða ekki við greiðsluklafa vegna endurgreiðslu á húsnæðislánum eða öðrum óraunhæfum neyslulánum. Vandinn hérna er kannski fólginn í því að hér hafa menn verið duglegir að spara og í því að lána öðrum þjóðum sem að núna geta ekki borgað!

Þrátt fyrir að margir svissneskir þegnar séu andvígir því að menn geti sest að í Sviss í þeim einum tilgangi að komast hjá skattlagningu og reka skúffufyrirtæki héðan þá er rétt að geta þess að mikill meirihluti fólks er ekki á því að gefa bankaleyndina eftir. Bankaleyndin er sennilega einn af þeim þáttum sem að hefur tryggt Sviss vænjar tekjur, enda er svo komið að það er ekki hægt að þverfóta fyrir arabískum furstum ásamt öðru auðmannaliði sem fær næstum því að fóta sig að vild. Að sama skapi hefur þeim svissnesku tekist að laða að fjöldann allan af alþjóðastofnunum og samtökum sem að eru mikilvægar fyrir efnahag landsins og þá sér í lagi ferðaiðnaðinn. Skattar er almennt lágir í Sviss og t.d. er virðisaukaskattur 7.6% og algengir tollar 4% af innfluttum vörum. Verslanir eru almennt lokaðar á sunnudögum og hér er hvíldardagurinn raunverulegur hvíldardagur og fólk vakið upp með hringingum kirkjuklukkna og svissneska þjóðfánanum að morgni sunnudags.

Það vekur líka mikla athygli að þetta land leyndardómanna er í senn frjálslynt þar sem að þegnarnir geta haft áhrif á mörg mál í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur. Þær þekkja menn vel í Sviss enda eru þjóðaratkvæðagreiðslur allt að fjórum sinnum á ári ef þurfa þykir, auðvitað með misjafnri þátttöku.

Hér hafa menn lifað með eigin gjaldmiðill, innilokaðir og oft á tíðum illa þokkaðir af umheiminum vegna sérvisku og afstöðuleysis til margra mála, en þó með þúsundir manna undir vopnum og öflugan her tilbúin til þess að verja svissneska ættjörð. Hér hafa menn verið sérlundaðir á reguverkið og fært stjórnsýsluna nær fólkinu enda stjórnar hver kantóna í takt við vilja fóksins á hverjum stað öfugt miðað við mörg evrópsk ríki þar sem miðstýring er mikil. Klukkuverkið og frábært samöngukerfi heldur þessu svo öllu saman og sér til þess að menn gangi í takt!

Þessi þjóð hefur sýnt í erlendum úttektum að hún hefur það einna best þegar kemur að erlendum samanburðarmælingum?

Getur íslenska þjóðin gæti eitthvað lært af þessari ,,eyju''?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband