Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Hvort gilda landslög eða knattspyrnulög?

Það er ekki nýlunda að þjálfarar, leikmenn og forystumenn íþróttafélaga hafi skoðanir á ýmsu því er kemur upp í keppni á Íslandsmótum í hinum ýmsu greinum.  Gildir þá einu hvort um er að ræða knattspyrnu, handbolta og svo framvegis. Nú heyrði ég í Guðjóni Þórðarsyni þjálfara ÍA í kvöldfréttunum þar sem að hann gagnrýndi störf dómara og sagði þá hafa ákveðið að taka ÍA föstum tökum. Slæmt ef satt er. Ekki ætla ég mér að leggja neitt inn í þá umræðu en ljóst að mönnum svíður þegar á móti blæs og segja þá stundum eitthvað sem betur hefði mátt kyrrt liggja. Í vetur sem leið kom upp svipað atvik í handboltanum þegar að þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í Garðabæ fór mikinn í fjölmiðlum. Báðir þessir þjálfarar vísuðu í málfrelsið máli sínu til stuðnings og sögðu að landslög giltu í þessu landi (Íslandi).

Forystumenn og þjálfarar eru fyrirmyndir og til þeirra eru gerðar miklar kröfur um að þeir stígi varlega til jarðar, það er oft erfitt og sér í lagi að halda haus þegar mönnum finnst að sér vegið. Ég hef alltaf haft mikið álit á Guðjóni en hann virðist ekki hafa verið upp á sitt besta þarna. Íþróttahugsjónin gengur út á að allir séu jafnir í leik og ekkert manngreiningarálit þar á ferðinni en íþróttir eru ekki fullkomnar og auðvitað koma upp atvik sem oft orka tvímælis. Það sem vekur furðu mína er að virtir þjálfarar eru farnir að vísa í landslög og telja þau æðri lögum leiksins. Því er til að svara að það gilda agareglur fyrir allar íþróttagreinar og eru þær í samræmi við lög og reglur viðkomandi sérsambands og alþjóðasérsambands þess, í tilfelli Guðjóns reglur FIFA og í tilfelli þjálfara Stjörnunnar reglur IHF. Ef menn eru taldir brjóta agareglur þá fá leikmenn og þjálfarar refsingar í samræmi við agareglur viðkomandi greinar en ekki samkvæmt landsdómstólum í viðkomandi landi. Þessu virðast fjölmiðlamenn gleyma og láta menn hafa uppi stór orð um landslög sem eðli máls hafa ekkert með hlutina að gera jafnvel þó að menn vísi í það að um þeirra atvinnu sé að ræða.

Eitt af einkennum íþróttanna er að menn ganga til leiks með það í farteskinu að virða lög og reglur viðkomandi leiks. Ef menn telja á sér brotið þá verða menn að sækja rétt sinn í samræmi við lög og leikreglur þeirrar greinar þar sem hið meinta ástand átti sér stað. Það sér hver heilvita maður að erfitt yrði að láta starfið ganga upp ef menn sendu erindi sín alltaf áfram til landsdómstóla. Fjölmiðlar verða að gera sér grein fyrir þessu þegar þeir skjóta fréttum sínum í loftið án þess að setja fram skýringar.  Ekkert alþjóðasérsamband tekur við skipunum frá dómstól í því landi sem að upp hefur komið ástand enda væri þá engin þörf á því alþjóðasérsambandi sem þyrfti að glíma við landslög í hverju landi fyrir sig. Það sama er væntanlega í kortunum hjá íþróttahreyfingunni  en þar gildir að mál sem koma upp á hennar vettvangi verða að vera útkljáð þar og hvergi annarsstaðar.

Nú er bara að vona að menn setji niður deilur og gangi aftur til leiks.


Af svissneska samkeppniseftirlitinu

Liðin vika hefur verið annasöm í meira lagi og margir fundir og þá sér í lagi hafa heimsóknirnar verið margar og tíðar, kannski ekki nema von þar sem að nýju höfuðstöðvarnar voru opnaðar með pomp og prakt. Þegar rykið er fallið og kyrrðin tekin við þá halda menn áfram störfum eins og vanalega. Mér brá heldur betur í brún á síðasta miðvikudag þegar ég fékk bréf frá svissnesku samkeppnisstofnuninni í Bern eftir að hafa talið að samkomulag hefði verið í höfn og sérstaklega eftir að hafa staðið í bréfaskiptum við stofnunina síðustu 3 árin. Það er nú svo, að í íþróttaheiminum eiga alþjóðlegu sérsamböndin í miklum viðskiptum við framleiðendur íþróttavara og hlaupa upphæðirnar á háum tölum. Margir minni framleiðendur hafa reglulega klagað alþjóðlegu sérsamböndin fyrir ólögalega viðskiptahætti og talið að þau meini mönnum aðgang að íþróttunum með vörur sínar. Því er til að svara að dyrnar standa öllum opnar, en auðvitað líta málin allt öðruvísi út þegar að opinberir aðilar opna skýrslu um málið og það fer í farveg. Þessi farvegur verður síðan að möppu sem á endanum verður skrifleg skýrsla enda verða embættismennirnir að réttlæta sín störf. Ég hef mætt í höfuðstöðvarnar eftirlitisins í Bern og gert ítrekaða grein fyrir málefnum mín sambands og hélt að við værum að ná samkomulagi þegar menn vöknuðu af værum blundi í Bern og hófu að skrifa mér aftur, enda miklu nær að halda lífi í skýrslunni eftir ár án samskipta manna í millum. 

Vandamál margra alþjóðasérsambanda er fólgið í þeirri staðreynd að þau eru ekki rekin áfram af hagnaðarsjónarmiðinu þrátt fyri að miklir fjármunir streymi þar um, en alþjóðasérsamböndin hafa mikil áhrif á viðskipti með vörur sem notaður eru i íþróttum. Helsta hagsmunamál alþjóðasérsambandanna er að tryggja að framleiðendur íþróttavara framleiði vörur sem að uppfylla alþjóðlega staðla og til að mynda að verksmiðjurnar noti ekki börn við t.d. boltaframleiðsluna jafnhliða því að starfsskilyrði starfsmanna séu boðleg. Það eru þó margir aðrir þættir sem að spila inn í málin en því miður hefur skrifstofuklanið í Bern enga hugmynd um þann veruleika heldur horfir blákalt á málin út frá þröngu sjónarhorni sem er að greiðslur til okkar séu of háar. Því er til að svara að mörg alþjóðasérsambönd eru bundin í klafa eigin reglna sem heimilar þeim að útbúa staðla og útbúa leyfiskerfi sem að allir geta sótt um aðild að og boðið sínar vörur fram. Náttúrulega er það svo að það hugnast ekki öllum og hér eru engir leynifundir eða samráð í gangi og hér halda menn ekki til fjalla og ræða saman málin, því fer fjarri þar sem að hvert og eitt alþjóðasérsamband hefur sína aðferð. Það gleymist oft að það er í verkefnahring alþjóðasérsambandanna að setja reglur og staðla fyrir framleiðendur íþróttavara sem miðast að því að tryggja jafnræði þeirra á gagnsæjan hátt auk þess að tryggja að framleiðendur noti engin hráefni eða efni sem geta verið skaðleg iðkendunum. Það er líka kostnaðarsamt að halda úti slíku eftirliti og það er spurning hvort að sá kostnaður sé nægjanlega gegnsær. Það er líka ljóst að fjárhagslegir hagsmunir alþjóðasérsambandanna eru miklir og vonandi að ásættanlegt samkomulag náist enda ótækt að standa í stappi við samkeppnisyfirvöld.

Að verðleggja ímyndina

Mörg stórfyrirtæki leggja himinháar fjárhæðir í það að viðhalda ímynd sinni á markaðnum og stundum tekst illa til. Á fundi mínu með Robert de Kock framkvæmdastjóra samtaka íþróttavöruframleiðanda á fimmtudaginn þá tjáði hann mér að Credit Suisse bankinn hefði skotið sig í löppina þegar að nýrri ímyndarherferð þeirra kom vegna Euvrópumótsins í knattspyrnu sem að fram fer í Austurríki og í Sviss nú í júní mánuði.  Credit Suisse leitaði tilboða hjá Adidas, Puma og Nike vegna kaupa á 200.000 fótboltum sem þeir ætluðu að gefa viðskiptavinum sínum. Tilboð stórfyrirtækjanna með vottaðar verksmiðjur áttu ekki upp á pallborðið hjá Credit Suisse sem að samdi við verksmiðju sem að þykir stunda viðskipti á lágu siðferðilegu plani. Verðmunurinn var 30 sent á bolta og það var nóg til þess að Credit Suisse fór í ferðalag sem að nú hefur snúiist upp í andhverfu sína og skaðað ímynd bankans stórlega hér í Sviss. Það kom fram á fundinum að því miður vantar mikið upp á að stórfyrirtæki hjálpi til við að uppræta starfssemi sem að viðheldur barnaþrælkun og viðsjárverðum viðskiptaháttum þegar þau horfa í aurinn og gleyma ímyndinni eitt andartak. Þegar upp er staðið er skaðinn margfalt meiri en sparnaðurinn.


Síðasti vagninn

Ég ber virðingu fyrir því fólki sem að þráir að starfa í forystusveit íþróttanna og þá sérstaklega fyrir þeim sem að stíga á stokk og vilja fórna sínum tíma í þágu íþróttahreyfingarinnar. Það er alltaf að verða erfiðara að fá hæft fólk til þess að bjóða sig fram til starfa í samtökum sem að eru ekki rekin áfram af hagnaðarsjónarmiðinu. Það er miður. Eitt af einkennum íþróttasamtaka er sú staðreynd að margir fá að spreyta sig við stjórnunina en Það sem vekur athygli mína er sú staðreynd að menn geta boðið sig fram til formanns á síðasta degi og það er náttúrulega eitthvað sem hefði verið átt að vera búið að ræða í samtökum sem að byggja á sjálfboðastarfi. Öll óvissa er slæm.  Eitt af megineinkennum leiðtogans er að hann er hefur skýra framtíðarsýn um það hvernig hlutrnir eiga að vera og hefur þess utan ltillögur að gefandi lausnum. Því miður lenda forystumenn sérsambandanna oftast í því að vinna meira að málefnum líðandi stundar í stað þess að vinna að því að móta framtíðarsýnina og ákveða stefnuna. Það verður fróðlegt að fylgjast með kosningunni og þá hvort að menn verði starfhæfir á eftir. Menn mega heldur ekki gleyma því að þingin eru starfsvettvangur þar sem að ákvarðanir um framtíðina eru teknar. Vonandi ganga allir sáttir frá borði. Það er rétt hjá Hlyni að það er ekki sjálfgefið að eiga landslið í fremstu röð og ljóst að mikið þarf að gerast í því að skapa afreksíþróttum þá umgjörð og stefnu sem virkar til lengri tíma.

FIVB Sports Management Conference

Jæja þá er annasamri viku lokið og opnunarathöfninni á nýju höfuðstöðvum FIVB var fram haldið í gær en einn af hápunktunum var ráðstefnan sem að ég hafði umsjón með (FIVB Sports Management Conference) sem að haldin var í Ólympíusafninu í Lausanne.  Ég verð að segja að það var gaman að fá að hitta fyrir vel þekkta einstaklinga á þessu sviði og hlusta á þeirra visku. Það var náttúrulega búið að vera mikið stress í gangi enda 200 þjóðir viðstaddar og að auki þurfti ég að vera með fyrirlestur en þetta var skemmtilegur dagur í það heila og svo þegar ég heyrði íslensku talaði í Ólympíusafninu og hitti þá fyrir fjórar landa mína sem að fylgdu íslensku fimleikasveitinni sem að tók þátt í Evrópumótinu hérna í Lausanne sem er tölfræðilega ekki liklegur atburður (hlátur).

Það er alltaf gaman að hitta forseta landssambandanna og það er ekki lítið verk að samræma alla þætti og kannski má segja að starfsmenn okkar hafi verið orðnir lúnir í enda dagsins enda að hitta fyrir fólk sem kom frá Afghanistan og Írak, Vanatu og Fiji allt til Níger og Namibíu. Auðvitað hafði þetta fólk allt sína sögu að segja og ýmislegt hafði drifið á daga þeirra. Svo sem ekki í fyrsta skipti fyrir mig en það er alltaf eitthvað nýtt og það gefur starfinu gildi að sjá andlitin eftir að hafa staðið í tölvupóst samskiptum og átt símtöl við viðkomandi.

Það voru heilmiklar umræður um framtíð frjálsra félagasamtaka sem að eru ekki rekin áfram af hagnaðarsjónarmiði og sérstklega þá staðreynd að engin á þau í raun og veru, og þau lúta mismunandi stjórnun og aðhaldi á hinu ýmsu tímum. Sérstaklega var umræðan mikil um þann þáttinn og þá staðreynd að hæfasta fólkið fengist ekki lengur til þessa að stýra slíkum samtökum vegna þeirrar ábyrgðar sem að fylgir, svo sem hættu á málssóknum og annarri ábyrgðarsskyldu sem að menn gætu skapað sér. Þetta kom mér svo sem ekki á óvart en þetta er staðreyndin í N-Ameríku og víða í Evrópu. Ég hef reyndar sagt það að það þurfi að styrkja íslensku sérsamböndin til þess að halda úti sterkri skrifsstofu með fastráðningu á hæfu starfssfólki sem að haldi utan um þekkingu sérsambandsins vegna þess að stjórnarskipti eru tíð í samtökum sem að rekin eru áfram án hagnaðarsjónarmiðsins. Ég gæti skrifað langa pistla um málið en læt það vera að sinni.

Annars var dagsskrá ráðstefnunnar sem  hér segir á ensku:

Lausanne, May 10, 2008 - The Fédération Internationale de Volleyball, the world’s governing body for Volleyball, hosted a well-received sports management seminar on Saturday. FIVB President Dr. Rubén Acosta led the speakers with an absorbing presentation on “The manager as official, leader, coordinator and communicator” that drew appreciative applause from the audience of more than 200 people at the Olympic Museum.

Gudmundur Thorsteinsson, FIVB Technical and Development Director, opened the working session with a presentation focused on the National Federations’ planning fundamentals.

Sports marketing experts Professor Hans Westerbeek and Scott Kirkpatrick also made presentations to the contingent of FIVB Board Members, National Volleyball Federation Presidents, FIVB Council and Commission Presidents and special guests who attended the day-long conference.

The seminar was part of the wider celebrations surrounding this weekend’s inauguration of “Château Les Tourelles,” the new global headquarters of the FIVB situated on the banks of Lac Léman in Lausanne
.

Dr. Acosta, the President of the FIVB since 1984 who wrote the acclaimed book “Managing Sport Organizations,” has worked tirelessly in the four roles outlined in the title of his presentation to make the FIVB the success story it is today.

Professor Westerbeek, Head of the School
of Sport, Tourism and Hospitality Management at La Trobe University in Australia, discussed the “Role of the sport manager.” Prior to being appointed as Head of School, Professor Westerbeek worked as both an academic and consultant in the fields of international marketing and sport business.

The seminar closed with Kirkpatrick, U.S.
Director of Sports Marketing for Hill & Knowlton, Inc., making a presentation on “How to maximise media coverage of your events and partnerships.”

Friday saw the grand opening ceremony of “Château Les Tourelles,” with VIPs including International Olympic Committee President Jacques Rogge, Swiss Federal Councillor and former Swiss President Samuel Schmid, Lausanne Mayor Daniel Brélaz, His Highness Sheik Rashid Bin Hamdan Al Maktoum and His Highness Sheik Saeed Bin Hamdan Al Maktoum attending an occasion deemed a huge success.


100 ára arfleið fagnað hjá Víkingum

100 ára afmæli Víkings var vel fagnað í gærkvöldi og fékk ég af því tilefni hringingu af landinu góða í norðri þegar partíið stóð sem hæst og menn voru að undirbúa koníaksstaupið til að hress sig. Heyrðist mér á viðmælendum mínum að þeir væru vel haldnir og ræddumu við meðal annars þá góðu daga þegar ég spilaði meðal með Víkingi í blaki. Blakiþróttin var þá tiltölulega ung og er það reyndar enn á Íslandi. Á þessum árum var margt brallað og ég man það vel að stelpurnar í mfl. kvenna gerðu það sérstaklega vel á þessum árum og ef menn horfa til rjáfurs í Víkinni þá blasir við sú staðreynd að engin deild í flokkaíþrótt á Íslandi átti annari eins velgengni að fagna. Flestar stelpurnar byrjuðu frá grunni og ef ég man rétt þá töpuðu flestum leikjum sínum í fyrstu en með þrotlausum æfingu og kínverska þjálfaranum Jia Chang Wen heitir reyndar núna Jóhannes Karl Jia nálastungusérfræðingur á Skólavörðustígnum og vel þekktur sem slíkur þá snerist dæmið við. Undir hans stjórn vann liðið öll helstu blakmótin ár eftir ár en þar voru líka margir skemmtilegir karakterar innanbúðar svo sem Særún Jóhannsdóttir, Björg Erlingsdóttir, Birna Hallsdóttir, Sigrún Kristjánsdóttir, Snjólaug Bjarnadóttir, Berglind Þórhallsdóttir og fleiri sem að ég man ekki eftir í augnablikinu. Þessar stelpur voru sannkallaðar hetjur á sínum tíma en því miður hefur afrekum þeirra ekki verið haldið hátt á lofti í allri umræðunni um afmæli Víkings. Það er eins og fólk geri sér ekki grein fyrir því að blakíþróttin er stór grein á heimsvísu og það hefði mátt gera blaksögunni betri skil þarna. Sérstaklega man ég vel eftir Lukkudögum blakdeildar Víkings sem voru dagatöl þar sem einn vinningur var dreginn út á dag og jafnvel bílar voru í vinnig. Blakdeildin var á endanum svo efnuð að hún þurfti að lána knattspyrnudeildinni en ég held að það hafi fengist seint og illa til baka ef þá nokkurn tímann. Annars mun einhverjir félaga minna það betur! Það voru margir þekktir einstaklingar sem að þjálfuðu mfl. karla á þessum árum og man ég þá helst Björgólfur Jóhannsson núverandi forstjóri Icelandair Group, Friðbert Traustason núverandi framkvæmdastjóri Sambands Íslenskra Bankamanna, Hannes Karlsson núverandi stjórnarformaður KEA, Guðmundur Arnaldson Rekstrarverktak auk allra kínverjanna sem þjálfuðu. Það var mikið líf í blakinu í þá daga! Ég fór reyndar mína leið og gekk til liðs við Íþróttafélag Stúdenta seinna meir en karlablakið lagðist af hjá Víkingi.

 

Ég tel reyndar að mörg íslensk íþróttafélög gætu sótt mikið til blakíþróttarinnar enda kostnaður við að stunda greinina margfalt minni en í öðrum greinum, á síðustu Ólympíuleikum var það opinberað að mest áhorf í sjóvarpi var á blak og standblak. Jæja núna er bara að vona að Víkingur hressist á næstu hundrað árum og hefji blakboltann til lofts á ný!


Læti í Lausanne í dag

Það var átakanlegt að sjá grímuklædda mótmælendur hleypa öllu í bál og brand í Lausanne í dag. Þeir brutu rúður og úðuðu slagorð á ýmar byggingar en harðast varð þó Mcdonalds keðjan úti þar sem að rúður voru brotnar og ýmsar skemmdir aðrar voru unnar á staðnum í miðborginni. Það er óvanalegt að sjá svona mótmæli hérna og það segir mér svo hugur að þetta lið eigi ekkert skylt með verkalýðnum hérna enda voru þeir fljótir að láta sig hverfa þegar sérsveitin mætti á svæðið og hlupu þá eins og þeir ættu lífið að leysa enda vissu þeir að ekki var von á góðu ef til þeirra næðist. Ekkert gas eða þras kylfurnar hefðu verið látnar tala. Hérna taka menn því illa ef farið er út af norminu enda flestir sem lifa á 60 slögum  hérna í Sviss. Sviss er land stöðugleikans en hér er samt mikil hervæðing og töluverð útgjöld til hermála í þessu hlutlausa ríki ef svo má kalla. Hér mótmæla menn ekki mikið né hafa sig í frammi og það eru ekki fréttir að sjá hermann á leið í  þegnskylduvinnuna með vélbyssuna utan á sér hvort sem það er á Mcdonalds eða í strætó eða þá í lestinni. Hérna vita menn að varnarvæðingin hefur ákveðin fælingarmátt og almenningur er einnig meðvitaður um að lög og regla er meira en orðin tóm þegar því er að skipta.

Ólympíuleikarnir bestir í sjónvarpinu

Það er ljóst að þau mótmæli sem hafa verið höfð í frammi víðsvegar um heiminn hafa skaðað ímynd Ólympíuleikanna í Peking. Hvað sem því líður þá er ljóst að leikarnir munu fara fram og kínversk stjórnvöld hafa byggt upp mannvirki sem eru aðdáunarverð. Prufu leikarnir hafa þegar farið fram í flestum greinum og allt er til reiðu með útbúnað og mannvirki en það er annað sem á eftir að vekja athygli en það verður hrikalega ströng löggæsla og ljóst að margir sem sækja leikana heim munu aldrei sjá annað en leikvangana og náttstaðinn. Mótmæli víðsvegar um heiminn hafa einnig leitt til þess að öryggisgæslan verður mun strangari og engum vettlingatökum mun verða beitt í Peking þar sem að flestir utanaðkomandi án miða mun eiga erfitt með að komast að leikvöngum og íverustöðum fjölmiðla og íþróttamanna. Menn verða sem sagt fangar í eigin tilveru í Peking og hversu eftirsóknaravert verður það? Eftir samtöl mín við einn af stjórnendum Adidas í Þýskalandi þá er nánast búið að loka á allan innflutning á vörum sem tengjast leikunum og nánast útilokað að fá undanþágur.

Það er eins og umræðan um vanheilsu kínverjara í málefnum Tíbets hafa valdið því að menn fóru að blanda saman mannréttindum og íþróttum. Það eru mannréttindi líka að íþróttamennirnir líði ekki fyrir allt saman. Mér segir svo hugur að leikarnir verða á endanum jákvæðir fyrir Tíbet og kannski upphafið af frjálsri umræðu um mannréttindi og frelsi víðsvegar um heiminn.  Eina vandamálið er að stjórnmálamennirnir hafa átt erfitt með að fóta sig í þessum málum og hafa sumir gefið út vanhugsaðar yfirlýsingar um leikana sjálfa í stað þess að einbeita sér að pólitískri orðræðu. Eitt af grundvallargildum Ólympiuhreyfingarinnnar er að hafna öllum stjórnmálalegum og trúarlegum afskiptum en það hafa sumir stjórnmálamenn ekki skilið ennþá og þeir hafa sumir hverjir átt í erfiðleikum með sig hvort þeir ætluðu að mæta eður ei. Hverslags skilaboð eru það til umheimsins? Þurfa pólitískir foringjar ekki að ganga fram fyrir skjöldu og hvetja til heilbrigðrar umræðu þar sem sættir og gagnkvæm virðing eiga að vera í forsvari þegar leitað er lausna? Mun ástand Tíbeta batna við það að menn sitji heima? Það er lágmarkskrafa að stjórnmálamenn hagi sér af ábyrgð og sinni opinberum skyldum sínum með því að leita að bestu og hagkvæmustu niðurstöðunni hverju sinni, nema hvað?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband