Færsluflokkur: Fjármál

Hagar vs Costco

Það ber alltaf að fagna því ef útlendir aðilar hafa áhuga á því að stofna til reksturs á Íslandi. Íslendingar eru nýjungagjarnir og vilja prufa nýja hluti. Það er í þjóðarsálinni. Við megum  heldur ekki gleyma að Hagar reka þjóðþrifafyrirtæki sem heitir Bónus, fyrirtæki sem að hefur skilað fólki raunverulegri kjarabót.

Það er ljóst að Costco er ekki komið til Íslands til þess eins að gleðja neytendur heldur til þess að hámarka hag sinna eigenda sem eru útlendir og ekkert rangt við það. Hagar eru hins vegar fyrirtæki á íslenskum hlutabréfamarkaði og stórir eigendur eru lífeyrissjóðirnir sem að eru fulltrúar íslenskrar alþýðu. Auðvitað hefur verið góður hagnaður af matvöruverslun á Íslandi á síðustu árum og er það vel en fyrirtæki sem þjóna almenningi hvað mest verða að sýna samfélagslega ábyrgð í verki.

Fögnum ekki of snemma og gleymum ekki að bursta  tennurnar áður en við leggjumst á koddann í kvöld. Sjónarmið eigenda Costco og aðgerðir þeirra í þágu íslenskra neytenda hafa ekki verið í sviðsljósinu heldur frekar hvað þeir í Garðabæ ætla að gera til þess að liðka fyrir málum, skiljanlega því þar eru um gjaldstofn að ræða. Fjölbreyttara vöruúrval auk meiri og betri samkeppni er lykill að bættum hag neytenda til lengri tíma litið.

Rétt er að geta þess að undirritaður er hluthafi í almenningshlutafélaginu Högum.

 

 


mbl.is Reglur um merkingar stoppuðu Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að treysta á aðra

Það er ljóst að margir einstaklingar og fyrirtæki hafa farið illa út úr því að missa gamla viðskiptabankann og samskiptin ekki upp á það besta eins og fréttin greinir frá. Fall íslensku bankanna kallaði ekki eingöngu fram tap á fjármunum heldur töpuðust mikilvæg viðskiptatengsl og traust sem áður hafði verið byggt upp. Það sem áður þótti smámál virðist vera orðið að stórmáli í dag og er kannski tákn um breytta tíma, tíma sem einkennast af meiri hörku og minna af traustum samskiptum og skilningi á milli aðila.


mbl.is Furða sig á framkomu bankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Standa fyrirtækin undir þessu?

Dagurinn var án efa erfiður mörgum íslenskum fyrirtækjum og þar skiptir stærðin ekki máli. Nýtt tryggingagjald var á eindaga í dag 15. febrúar og það má með sanni segja að atvinnurekendur hafi verið bollaðir í dag. Tryggingagjaldið hefur hækkað á innan við ári um rúmlega 60% og það þýðir að fyrirtæki í rekstri sem að greiddi eina milljón í trygginagjöld af launum starfsmanna sinna þarf um þessi mánaðarmót að greiða rúmlega eina milljón og sexhundruð þúsund þ.e. ef laun og starfsmannafjöldi er sá sami og áður. Ég velti því fyrir mér hvort að íslensk fyrirtæki geti búið til þá verðmætaaukningu sem þarf til þess að standa undir þessum álögum. Að endingu fer þetta allt út í verðlagið og þann spírall þekkja flestir. Ég velti því lika fyrir mér hvort við eigum eftir að sjá aukningu í verktöku hjá einstaklingum.

Helstu upplýsingar um breytta skattlagningu má finna hér undir þessum tengli: http://www.rsk.is/fagadilar/breytskattl

 


Margir tapa miklu þessa dagana

Það er ljóst að ríkisbankarnir hafa gengið hart fram í því að keyra niður innlánsvexti og það langt umfram lækkun stýrivaxta. Ef markaðurinn virkar þá ættu sparifjáreigendur að flytja sitt fjármagn yfir til Sparisjóðakerfisins og MP banka sem núna standa fyrir utan ríkisbankakerfið sem er með mun lakari innlánakjör. Margur er því að tapa verulegum fjárhæðum þessa dagana, þ.e. ef þeir eiga fjármagn í ávöxtun hjá ríkisbönkunum, enda munar allt að 4% á innlánsvöxtunum, nokkuð sem fáir hafa efni á að láta framhjá sér fara. Ef hagfræðin um hinn hagsýna neytanda virkar þá ættu menn að flykkjast yfir til bankanna sem að bjóða betri kjör, fáir hafa efni á því að vera fórnarlömb og styrktaraðilar umfram það sem eðlilegt getur talist.


Af vöxtunum skuluð þér þekkja þá

Ríkisbankarnir eru duglegir við að færa niður vexti af innlánum þessa dagana á meðan það vekur athygli að einkabankarnir virðast bjóða betri innlánsvexti og betri kjör. Kannski virðist vandamálið fólgið í þeirri staðreynd að það er erfitt fyrir ríkisbankana að borga háa innlánsvexti á meðan lítið er um vaxtaberandi lán og allt er stopp í nýjum lántökum fyrirtækja og almennings.  Það er samt athygli vert að það getur munað allt að 4,15% á innlánsvöxtum svo að það er um að gera fyrir þá sem eiga eitthvað í handraðanum að fylgjast vel með sínum málum. Eldri sparifjáreigendur ættu að huga sérstaklega vel að sínum málum og athuga hvort kjörin séu þau sömu og áður eftir alla ríkisvæðingu bankakerfisins, % brot hér og þar geta skipt verulegum upphæðum í lok ársins. Það hafa fáir efni á því að fylgjast ekki vel með sínum málum sérstaklega í núverandi árferði.

Maður veltir því samt fyrir sér hvað liggi að baki því að S24 getur greitt allt að 4,15% hærri innlánsvexti? Er það vegna þess að yfirbyggingin er lítil sem engin, öll þjónustan á netinu og verið að höndla við einstaklinga en ekki fyrirtæki, eða er það eitthvað annað eins og vandamál með eiginfjárhlutfallið? Það er ljóst að ríkisbankarnir eru að létta undir með Seðlabankanum og hjálpa honum við að keyra niður vextina en sparifjáreigendur verða líka að vera á varðbergi og notfæra sér bestu kjörin hverju sinni, svo fremur sem að menn eru ekki fastir í skuldafeni og geti sig hvergi sig hvergi hreyft.

Vaxtatafla S24: http://www.s24.is/einstaklingar/um_s24/vextir_og_gjaldskra/

Nýi Kaupþing: http://www.kaupthing.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=17278


Eftir sorgina kemur sjokkið

Það er ljóst að heimamenn í Borgarbyggð og víðar verða fyrir miklum búsifjum af yfirtökunni og stærsta breytingin verður án efa fólgin í því að viðskiptavinir Sparisjóðs Mýrarsýslu verða núna hluti af N. Kaupþing banka sem er með tugi þúsunda viðskiptavina á sínum snærum. Eftir að hafa reynt þjónustuna hjá N. Kaupþing banka undanfarið þá er ljóst að starfsmenn bankans anna engan veginn öllum þeim viðskiptavinum sem að nú tilheyra bankanum. Í þessari viku og síðustu hef ég þurft að bíða í allt að klst. eftir að ná sambandið við þjónustufulltrúana. Að sjálfssögðu er það ekki starfsfólkinu að kenna en það þarf að úthugsa breytingar eins og þegar heill sparisjóður eins og SPRON og SPM eru teknir yfir. Ég er alveg klár á því að menn missa vildarkjör og einnig verður tap í þjónustugæðum og það mun taka verulegan tíma fyrir fólk að byrja í viðskiptum undir nýjum formerkjum. Það vekur einnig furðu að SPRON skyldi ekki hafa verið rekinn áfram og reynt þannig að hámarka hag ríkisins og sér í lagi þeirra viðskiptavina sem að voru fyrir í kerfinu. Það er líka erfitt fyrir N. Kaupþing banka að hámarka hag viðskiptavina sinna undir slíkum kringumstæðum og sér í lagi að setja sig inn í aðstæður þúsunda nýrra viðskiptavina. Slíkt gerist ekki á einni nóttu það þarf mikla vinnu til að nálgast nýju viðskiptavinina og setja sig inn í þeirra mál. Draumurinn um litla sæta bankann er þó enn fyrir hendi og ég skora á menn að skoða þetta vídeó: http://www.swissinfo.org/eng/multimedia/video/detail.html?siteSect=15045&sid=10604329 Það er ekki lögmál að bankar þurfi að vera stórir til þess að þjónusta einstaklinga eða jafnvel heilan bæ!


mbl.is Örlög SPM sorgleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Good, the Bad and the Ugly

Við lifum á óvenjulegum tímum og á óvenjulegum tímum gerast óvenjulegir hlutir. Við lifum á tímum þar sem að menn lýsa því yfir í sjónvarpi að það kunni að skella á fjárhagsleg borgarastyrjöld því fjölskyldur hafa engin ráð í hendi sér til þess að takast á við fjárhagslegan veruleika eftir atvinnumissi. Bankakerfið fer sínu fram og virðist hafa fáar lausnir til handa þeim sem eru hvað verst settir, og stundum fást engin svör, annað en 2007 þegar það voru ráð undir rifi hverju.

Nýji Kaupþing banki er búinn að gleypa þúsundir viðskiptavina á síðustu vikum, SPRON og Sparisjóð Mýrarsýslu og það fékk ég að reyna í dag að það er engum hollt að taka of stórt upp í sig. Eftir að hafa hringt erlendis frá og lagt á þrivsvar sinnum eftir að hafa beðið ca. 20. mínútur í hvert skipti þá var farið að fjúka í mig. Ég ákvað því að hringja í Höfuðstöðvar nýja Kaupþings og þar svaraði skiptiborðið um hæl og mér létti nokkuð. Ég var hins vegar eins og Eastwood í gamalkunnum reyfara, til í slaginn og bað um að fá að tala við bankastjórann, því ég taldi að bankinn sem að hann stýrði væri almennt ekki til viðtals. Þrátt fyrir að hafa verið tengdur við ritara hans þá náðist ekki samband, og að síðustu bað ég skiptiborðið ítrekað um að tengja við ákveðið útibú bankans en allt kom fyrir ekki. Góðhjartaðan samskiptafulltrúan þraut öll ráð líka.

Sú aðgerð að gleypa tvo heila Sparisjóði hefur umtalsverð áhrif á þjónustuveitingarkerfi nýja Kaupþings banka, og það er engum vafa undirorpið að bankinn ræður ekki almennilega við að veita öllum þeim þjónustu sem á henni þurfa að halda. Þetta hef ég ítrekað reynt með nýja Kaupþing banka. Bankarnir virka sem daufildi og virðast ekki hreyfast þótt að fólk beri sorgir sínar á torg, kannski ekki nema von þar sem þeir virðast ekki vera til viðtals. Það er líka engin samkeppni til staðar og það var sérstaklega áberandi að Íslandsbanki og Landsbanki gerðu ekkert til þess að krækja sér í bita af SPRON kræsingunum enda viðskiptavinirnir margir góðir í innlánunum.

Sú hringekja sem að fór af stað með yfiröku SPRON hefur leitt af sér mikinn afleiddan kostnað fyrir samfélagið enda hafa margir sett mikinn tíma í að koma sínum málum á hreint og mér til efs að strákarnir í Fjármálaeftirlitinu hafi hugsað út í það. Í stað þess að halda SPRON gangandi eftir öðrum leiðum þá var flóknasta agerðin valin, aðgerð sem að einnig virkar letjandi á samkeppni milli fjármálastofnana.

Já, við lifum svo sannarlega á Eastwood tímum, þegar sá Góði, sá Illi og sá Ljóti berast á og enginn veit hvað snýr upp eða niður. Ætli bankastjóranir viti það nokkuð sjálfir frekar en almenningur? Kannski þeir gætu tekið hann vin minn  Flavian til fyrirmyndar: http://www.swissinfo.org/eng/multimedia/video/detail.html?siteSect=15045&sid=10604329

Hvet ykkur til þess að skoða vídeóið!

 


Besta bankamódel í heimi - eins banka maður!

Flavian Kippel er dæmi um mann sem að margir geta tekið til fyrirmyndar, þar á meðal ég. Hann fer með forræði á næst minnsta banka Sviss. Flavian er í senn bankastjóri, gjaldkeri og almennur skrifstofumaður. Heildareignir bankans hans eru 20 milljónir svissneskra franka og bankinn fagnar jafnframt 80. ára starfsævi. Húsakynni bankans láta lítið yfir sér og það er enginn íburður og engan marmara að sjá, né eru þar stórfengleg listaverk látinna meistara til þess að prýða veggina. Bankinn gerir út frá venjulegri svissneskri blokkaríbúð og hóværðin er algjör, enda markmið Spar und Leihkasse Leuk að þjóna íbúum bæjarins þar sem að hann er staðsettur. Flavian hefur engan Range Rover jeppa til þess að koma sér á milli heldur gengur um á tveimur jafnfljótum þegar á þarf að halda og hann þekkir ekki neina bónusa heldur hefur eingöngu heyrt af þeim í fréttum.

Hér má sjá Flavian að störfum og ég bið ykkur að gefa ykkur tíma til þess að horfa á þetta stutta en áhrifamikla vídeó: http://www.swissinfo.org/eng/multimedia/video/detail.html?siteSect=15045&sid=10604329

Reiðin er ekki góður ráðgjafi en þegar ég hugsa um adrif SPRON og þá staðreynd að einni vinsælustu fjármálastofnun landsins var sett í þrot og samningaleiðin ekki reynd þá er ljóst að almenningur sem og viðskiptavinir SPRON urðu fyrir miklu tjóni. Ég ætla ekki að ræða þá staðreynd að stjórnendur SPRON misstu sjónar á þeim gildum sem að gerðu SPRON að einni vinsælustu fjármálastofnun landsins og fóru fram úr sér, sérstaklega þegar þeir Háeffuðu sjóðinn og hófu að stunda einnig fjárfestingastarfssemi í stað þess að beina sjónum að grunngildunum þar sem þekkingin og reynslan lá. Það vekur athygli að þegar að bankinn varð að hlutafélagi þá voru fáir stjórnarmenn með mjög langa reynslu af bankastarfssemi heldur aðallega af rekstri fyrirtækja. Ummræðan um SPRON var öll í þá áttina að hann þyrfti að stækka til þess að vera samkeppnisfær. Eftir að hafa fylgst með mörgum smærri sparisjóðum hérna í bankalandinu Sviss þá efast ég um að það hafi verið rétta stefnan, smæðin getur líka verið mikill kostur sérstaklega þegar að arðsemiskröfurnar er hógværar og markmiðin að þjónusta samfélagið.

Flavian hlær núna að kreppunni enda vex kúnnahópurinn jafnt og þétt núna, sérstaklega eftir að traustið hefur horfið hjá mörgum stærri bönkunum. Ráðlegging Flavian á einmitt erindi núna, sérstaklega til þeirra sem að starfa í banka- og fjármálastarfssemi, sem og þeirra sem að setja reglur og hafa eftirlit með fjármálageiranum: ,,HALDIÐ YKKUR VIÐ ÞAÐ SEM ÞIÐ KUNNIÐ OG LÁTIÐ ANNAÐ VERA!" Eftir að hafa horft á vídeóið með Flavian og séð hversu einfalt lífið getur verið þá getur maður ekki annað fyllst réttlátri reiði vegna þess að við fórum fram úr okkur, og við misstum sjónar á grunngildunum eins og í tilfelli SPRON sem var með einstaklega tryggan viðskiptavinahóp, og svo það að Fjármálaeftirlitið hafi ekki enn náð að klára dæmið og úrskurða um hvort selja megi SPRON eða ekki er dæmi um veikleika kerfisins. Það má heldur ekki gleyma framkomu Nýja Kaupþings banka og stjórnar hans sem að hefur með aðgerðum sínum skaðað stóran hóp saklausra neytenda með aðgerðum sínum. Hver ber svo ábyrgð á kerfinu, er það ekki bankamálaráðherra? Því miður hefur umfjöllunin verið lítil og menn hafa komist frá uppbyggilegri gagnrýni, og með vísan í þetta þá hefði umboðsmaður neytenda mátt láta málið til sín taka af meir þunga, en það er kannski of seint núna.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er Flavian og banki hans hinir raunverulegu sigurvegar bankakreppunnar, enda allt miðað við að gera það sem menn kunna og gera það vel og hógværðin höfð að leiðarljósi. Því miður tóku margir hæfir bankamenn mikla áhættu og stjórnuðust ekki af skynsemi heldur var í farteskinu krafan um að vaxa þar sem vöxturinn og gróðinn var línuleg stærð með óþekktum endastað. 

Dæmið um Flavian ætti að vera skólabókardæmi fyrir alla bankamenn og þá sem að sinna opinberum rekstri. Það er vel hægt að gera meira fyrir minna!

 

 

 


Hefur legið ljóst fyrir

Jæja það er merkilegt að þetta rati í fréttir að innistæður séu fyrir hendi að stórum hluta. Auðvitað hefur það legið fyrir að innistæður í íslenskum bönkum séu til staðar, en málið er hins vegar hversu mikið fæst þegar búið er að gera upp og selja eignir. Það er eins og fréttamenn gleymi því að fall íslensku bankanna snérist um lausafjárþurrð og þá staðreynd að verðmat eigna ásamt vanskilum og pólitískri íhlutun áttu þátt sinn í því að fella íslensku bankana en ekki eins og með marga aðra erlenda banka sem að fóru fram úr sér og fjárfestu og seldu verðlausa skuldabréfavafninga til fjárfesta víða um  heim. Afleiðingarnar þekkja flestir í dag og það þarf ekki að koma á óvart að stór hluti innlána séu enn til staðar í íslensku bönkunum og það er ekki einstök uppfinning forsætisráðherra og Seðlabankans eins og mætti ætla af fréttaflutningi.


mbl.is Óvænt fé í íslenskum banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlendar umsagnir og meðvirkni

Það er orðið hálf hjákátlegt að fylgjast með gengisskráningu okkar ágæta gjaldmiðils og ég held að best væri að birta upplýsingar frá Glitni og athuga síðan í leiðinni hvaða gengi erlendir miðlarar gefa upp. Það er ljóst að það yrðu tvær niðurstöður þar. Það eru jafnvel erlendis miðlarar sem að segja "almost impossible to value" það nánast ómögulegt að verðmeta íslensku krónuna. Íslendingar sem að búa erlendis og leggja inn erlendan gjaldmiðill inn í viðskiptabanka sinn á Íslandi geta ekki millifært þann gjaldeyri út aftur nema þá að þeir framvísuðu farseðli sem að sýndi að viðkomandi væri að fara erlendis, og þá fengist einungis ákveðin upphæð til ráðstöfunar. Það er ljóst að neyðarlögin hafa sett alla fjármagnsflutninga úr skorðum og gengisskráningin eða svokölluð uppboðsskráning gefur ekki rétta mynd af stöðunni.

Í grein vefsíðunnar This is money frá því í mars 2008 segir hreinlega að íslenskir bankar hafi tapað miklu og það er hreinlega sagt menn telji líkur á því að Kaupþing banki verði þjóðnýttur. Greinin er hérna:

http://www.thisismoney.co.uk/news/article.html?in_article_id=434432&in_page_id=2&in_page_id=2#StartComments

Tilvitnunin er skýr en þar segir að orðrómur um að Kaupþing banki verði þjóðnýttur ..Icelandic banks have had millions of dollars wiped off their share prices recently and Kaupthing, the biggest lender there, has been the subject of nationalisation rumours. ´´

Það er eins og margir í okkar ágæta þjóðfélagi hafi ekki viljað hlusta á erlendu aðilana sem að sendur sterk viðvörunarskeyti, á þetta við um þá sem stýrðu bönkunum, opinberar eftirlitsstofnanir sem og almenning.

Þann 16. mars segir á sama vef að íslenskir bankar séu á toppi listans yfir þau fjármálafyrirtæki sem að séu í mikilli hættu á að falla. Því miður voru við of meðvirk og trúðum ekki því sem að erlendir aðilar sögðu okkur. Það voru fáar forsendur fyrir því að íslenskir bankar myndu komast óáreittir í gegnum þá kreppu og vantraust sem að ríkti á markaðnum og felldi m.a. Bear Stearns, Nothern Rock og fleiri. Hér má sjá pistil um málið:

http://www.thisismoney.co.uk/investing-and-markets/article.html?in_article_id=433257&in_page_id=3

Það er ljóst að áhættuálagið á íslensku bankana var ekki tilviljun ein eins og menn héldu fram en menn sögðu hvað eftir annað að hátt áhættuálag endurspeglaði ekki þann veruleika og stöðugleika sem að íslenskir bankar byggju við.

Meðvirkni var eitthvað sem að gerði ástandið enn verra og það vitum við fyrir víst núna.


mbl.is Óbreytt gengi krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband