Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Andi liðinnar ríkisstjórnar og vinstri fótar hagfræði

Við höfum gengið í gegnum tíma sem að einkenndust af mikilli uppsveiflu, tímum þar sem að heil ríkisstjórn þurfti að taka pokann sinn fyrir að hafa sofið á vaktinni og fyrir að hafa ekki beitt nægjanlegu aðhaldi  og eftirliti með fjármálamarkaðinum. Andi liðinnar ríkisstjórnar hefur markað djúp sár í sálartetri þúsunda Íslendinga, venjulegra fjölskyldna sem að unnu sér ekkert til saka nema þá helst fyrir að hafa tekið lán á vildarkjörum í útlöndum í gegnum bankann sinn.

Upp hefur risið ný ríkisstjórn með holdgerfinga hins gamla tíma í forsæti með þekkt meðöl í farteskinu. Maðurinn í græna góða Volvóinum er sestur undir stýri og keyrir lipurlega frú Jóhönnu um götur þessa lands. Sú vegferð verður án efa þyrnum stráð og ljóst að græna þruman mun stoppa víða, jafnt hjá þeim sem minna mega sín sem og meðaljóninu sem er innilokað í fjármálagildrunni, ævisparnaðurinn farinn og ævikvöldið sjálft í hættu. Börnin munu að endingu borga brúsann, þeirra framtíð og þeirra vegferð er skuldsett. Græni Volvóinn mun líka stoppa hjá mér og taka sitt, og líka af þeim sem voru skynsamir og tóku ekki þátt í neyslukapphlaupinu eða fóru offari í fjárfestingum.

Gríðarleg skattheimta á fyrirtæki og einstaklinga mun ríða mörgum að fullu og þær auknu álögur munu ekki vera það morfín sem að linar kvalirnar. Lítið hefur verið gert til þess að veita fyrirtækjum landsins meiri viðspyrnu í því árferði sem núna ríkir. T.d. er erfitt að skylja afhverju tollar og gjöld á bifreiðum eru enn í sannkölluðum ofurflokki á meðan bílgreininni blæðir út þar sem að fáir hafa efni á að endurnýja tæki og tól miðað við skráð gengi núna. Væri t.d. ekki hægt að lækka tolla til þess að blása lífi í greinina og fá hjólin til þess að snúast og svo þessi fyrirtæki geti skilað hinu opinbera sköttum og gjöldum af einhverju?

Dæmi um slæman (nef)skatt er útvarpsgjaldið svokallaða, dæmi um skatt sem að flokkur einkaframtaksins og demókratarnir komu á til þess að halda úti ríkisrekstri sem er í fullri samkeppni við einkaframtakið. Er þessi skattur réttlátur og mun hann ekki koma helst niður á venjulegum fjölskyldum sem að hafa nóg með sitt og þurfa á hverri krónu að halda? Það verður lítið bros hjá fólki þegar það fær álagningarseðlana í ágúst.

Hækkun tryggingargjalds mun leggjast af fullum þunga á fyrirtækin og sveitarfélögin, en hækkunin mun skila milljörðum í ríkiskassann en spurningin er hver verða áhrifin? Fyrirtæki og stofnanir munu segja upp fólki og draga úr þjónustu til þess að mæta hækkuninni. Er þetta aðgerð sem er til þess fallin að hleypa lífi í ráðningar fyrirtækja eða hjálpa skuldsettum sveitarfélögum með að halda úti grunnþjónustunni.

Til skamms tíma mun neysluvísitalan ekki fara varhluta af þessum aðgerðum þar sem skuldir íslenskra heimila, afborgunarbyrði lána og aðföng fyrirtækja munu hækka. Ruðningsáhrifin eru þekkt enda neyðast flestir til þess að laga sig að nýjum kostnaðarforsendum sem mun þrýsta verðlagi upp og verðbólguskot mun fylgja í kjölfarið.

Hækkun á staðgreiðslusköttum og hátekjuskattur mun skila einhverju til skamms tíma en spurning er hvort að áhrifin leiði til þess að svört atvinnustarfssemi aukist til muna? Með háu skatthlutfalli þá er líklegt að áhrifin verði letjandi á vinnuframlag einstaklinga og því mun þjóðarframleiðslan dragast saman. Dr. Art Laffer skýrði grundvallarhegðun einstaklinga á markaði og vilja þeirra til þess að taka þátt í framleiðsluaukningu og starfssemi á markaðnum ef skattar eru sanngjarnir. Það eru engin ný vísindi að hóflegir skattar skapa ríki meiri tekjur en ella og það er ljóst að ríkið mun ekki endilega fá fleiri krónur í kassann með hærri tekjuskattsprósentu, sérstaklega í núverandi árferði. Stóra spurningin er hvort skatttekjur minnki og hvort áhrifin verði önnur en lagt var upp með og það er því eðlilegt að setja spurningarmerki við framkvæmdina?

Laffer áhrifin skýrð

Laffer og áhrifin í skattkerfinu á Írlandi og Rússlandi
Hugmyndir stjórnmálanna og raunveruleikinn

Hækkun á áfengisgjöldum mun án efa skila miklu í kassann og það verður fróðlegt að sjá hvort að almenningur þessa lands muni sætta sig við slík ofurgjöld á áfengi og tóbaki. Hér krystallast eitt grundvallaratriðið í rekstri fyrirtækja á markaði en það er sú staðreynd að neytendur hafa ákveðið þol þegar kemur að verðhækkunum enda fælir það viðskiptavina oftast nær í burtu. Stjórnendur fyrirtækja á markaði þekkja líka nálægðina við neytendur á meðan stjórnmálamennirnir byggja sína aðferðarfræði á væntingum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að ríkið mun uppskera minni tekjur og hvort neytendur muni breyta neyslumynstri sínu. Munu menn fara að brugga, smygla eða neyta minna áfengis? Þetta virðast embættis- og stjórnmálamenn oft ekki skilja. Vinstri fótar hagfræðin er oft góð í orði en sársaukafull í framkvæmd og það munu fjölskyldur þessa lands fá að kynnast á komandi mánuðum.

Sú vinstri fótar hagfræði sem að byggir á aukinni skattheimtu ríkisins í árferði þar sem að flestar fjölskyldur og fyrirtæki landsins eru í öndunarvélunum er ekki sú aðferðarfræði sem er ekki líkleg til þess að blása lífi í efnahag landsins.

 


Bera Flosi og Ómar ábyrgð?

Það er ótrúlegt að fylgjast með stjórnmálaforingjunum í Kópavogi þessa dagana og það virðist sem að þeir hafi misst sjónar á grundvallargildunum, þ.e. að starfa með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Það stendur enn óhaggað að bæjarfulltrúarnir Flosi og Ómar bera pólitíska ábyrgð á ákvörðunum Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar og það er kjarni málsins. Hvernig geta pólitískt kjörnir fulltrúar sem að fá greitt fyrir stjórnarsetu sína í sjóðnum og bera ábyrgð á athöfnum og gerðum hans reynt að segja sig frá ákvörðunum sjóðsins. Það er með ólíkindum hvernig fjölmiðlar þessa lands láta þessa menn komast upp með slíkan málflutning. Eitt grundvallaratriðið í stjórnun hagsmunasamtaka eins og LSK er einimitt fólgin í því að skipa stjórn sem fer með boðvald og ákvarðanir í þágu félagsmanna og þar af leiðandi bera menn ábyrgðir á gerðum stjórnar, enda hafa umræddir stjórnarmenn allar forsendur og upplýsingar til þess að fylgja störfum sínum eftir á ábyrgan hátt. Ef menn eru ekki vissir þá eiga menn að gera við það athugasemdir á fundum og kalla eftir frekari upplýsingum. Það er ekki trúverðugt núna að menn stígi á stokk og sverji af sér ákvarðanir, slíkt ber vitni um að menn hafi ekki verið að sinna sínum störfum. Ábyrgðin hlýtur að liggja hjá öllum stjórnarmönnum nema ef kynni að vera um saknæmar blekkingar að ræða. Áleitin spurning er samt þessi: Voru menn að sinna stjórnarstörfum sínum nægjanlega vel? Gátu Flosi og Ómar ekki haft samband við Fjármálaeftirlitið beint en þeir voru í vafa? Gátu þeir ekki gert fyrirvara við ákvarðanir sínar með bókunum á fundum? Önnur spurning kemur líka upp: Af hverju gengur Fjármálaeftirlitið ekki fram með fullri hörku sérstaklega eftir alla gagnrýnina sem að sett hefur verið fram í fjölmiðlunum? Ber ekki viðskiptaráðherra ábyrgð á því að regluverkið virki?


mbl.is Stendur við fyrri orð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það ku vera gott að búa í Kópavogi þótt það kraumi undir!

Það kraumar undir í Kópavoginum og ljóst að það verða samstarfsslit ef fram fer sem horfir. Menn eru hættir að tala saman og fyrir það líða íbúar í Kópavogi. Pólitíkin er óvægin húsbóndi og hollusta er oft minni en menn gera ráð fyrir á ögurstund. Það ótrúlegt að fylgjast með misvísandi ummælum og yfirlýsingum og þeir sem að flytja sannleikstíðindi og hafa allt á hreinu eiga að leggja fram sín gögn svo að fólk sé upplýst en þurfi ekki að geta í eyðurnar í þeim sandkassaleik sem að nú fer fram. Menn gerast sjálfskipaðir réttargæslumenn í eigin sök og reyna að beina kastljósinu að veikasta hlekknum, þannig er pólitíkin í sinni hörðustu mynd. Yfirleitt þarf einhver að taka skellinn í pólitíkinni og það virðist sem að Gunnar hafi strandað á skeri og nú er háflóð, en hver er pólitísk ábyrgð Ómars og Flosa?


Útsýnið yfir Tokyo flóa

Það hefur verið mikið um að vera síðustu vikurnar og lífið hefur snúist um ferðalög heimsálfa á milli, fundarhöld og flug. Læt hérna eina mynd fylgja en hún er tekin af 28. hæð þar sem að útsýnið var stórkostlegt yfir Tokyo borg. Eins og alkunna er, þá er heimurinn hættulegur staður, sérstaklega séð frá skrifborðinu og þaðan er ekki hollt að stjórna eingöngu frá. Það eru því mikil forréttindi að geta ferðast og séð hlutina með eigin augum, tekið púlsinn þegar það á við og kynnast annarri menningu og siðum. Það er alltaf gaman að koma til Japans og sjá hversu agað samfélagið er og hversu vestrænir menn eru í hugsun og gerðum.

Tokyo Bay

 


Með Obama á hælunum

Þessi vika hefur verið þrungin spennu hér í Kairó enda Obama sjálfur á ferðinni með fríðu föruneyti. Ég átti nú ekki von á því að sjálfur Obama yrði samferða maður minn þessa vikuna í Egyptalandi, en mér virðist sem að við höfum gert margt það sama, heimsótt eitt af sjö undrum veraldar og skoðuðum helstu þjóðargersemar Egyptalands.  Almennt virðast Egyptar hafa tekið vel í komu Obama en með honum fylgja nýir straumar í samskiptum austurs og vesturs. Umferðaröngþveitið var mikið síðustu dagana fyrir heimsóknina og það var ekki til að bæta á ástandið að fá Obama sjálfan enda skapaðist skipulagt kaos með komu hans og nógu er umferðin erfið í Kairó eins og maður hefur reynt. Af mér sjálfum er það að frétta að ég átti fundi með fulltrúum 40 Afríkuríkja um þróunarstarf alþjóðasambandsins og þar bar hæst að menn ætla að auka beina aðstoð til þeirra meðlima sem að starfa með okkur af fullum þunga. Það er skammt stórra högga á milli enda legg ég af stað til Japans á morgun þar sem nýtt þróunarsetur verður opnað. Myndin að neðan er tekin þegar ég sótti Giza svæðið heim og fór með annars alla leið inn í Pýramída það var svo sannarlega ótrúleg upplifun.

 

Pyramidar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband