Færsluflokkur: Íþróttir

Frábært hjá íslensku stelpunum

Gott hjá íslensku stelpunum að sigra í fyrsta leik sínum á HM. Það er ekki sjálfgefið að lítil þjóð eins og Ísland keppi á meðal þeirra bestu og það kostar mikla fjármuni fyrir íslensku sérsamböndin að halda úti afreksstarfinu. Það er mikilvægt að það verði vakning á Íslandi sem miðar að því að bæta starfsumhverfi sérsambandanna. Vonandi virkar þessi sigur eins og vítamínsprauta fyrir framhaldið hjá stelpunum!


mbl.is Ísland vann fyrsta leik á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær árangur

Í einu orði sagt frábær árangur! Það er ekki sjálfgefið að íslenskir íþróttamenn komist í efstu þrep á alþjóðlegum mótum. Ólympíuleikar eru að verða keppni hinna stóru þjóða og það er sífellt að verða erfiðara fyrir smærri þjóðir að keppa við íþróttamenn frá löndum sem að fá borgað fyrir að æfa og keppa. Til hamingju Þormóður!


mbl.is Þormóður fékk silfur á heimsbikarmóti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá Gana

Gott hjá Gana að leggja Bandaríkjamenn í kvöld og tryggja þannig Afríku áframhaldandi þátttöku á HM. Það verður gaman að sjá Gana og Úrúgvæ og ég ætla að leyfa mér að spá því að Gana fari áfram í undanúrslitin. Sjáum hvað setur! Það er hins vegar ljóst að það verður dansað á götum Accra í nótt og á morgun líka.

Hér í Sviss eru menn hættir að þeyta horn í tíma og ótíma og samgöngur komur í lag að mestu leyti en ég óttast að ef Portúgalir komast áfram í undanúrslitin þá verði lítið um svefn hér í Lausanne þar sem að fjöldi Portúgala býr, en þeir eru þekktir fyrir að þeyta bílflauturnar í tíma og ótíma.

 


mbl.is Gana áfram eftir framlengdan leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af litlum neista

Það hefur mikil umræða spunnist um íþróttahreyfinguna, þá sérstaklega vegna málefna KSÍ. Mörg misgáfuleg ummæli hafa fallið í þeirri umræðu. Einn penni hér á blogginu, Birgir Viðar Halldórsson setur fram þá skoðun sína að stjórn KSÍ ætti að segja af sér vegna atviks tengda einum starfsmanni sambandsins. Ekki eru færð önnur rök fyrir því en þau að KSÍ fái fjármuni frá hinu opinbera og framkoma starfsmanns þeirra hafi verið með þeim hætti að hún réttlæti afsögn stjórnar. Er í framhaldinu hægt að álykta að lögreglustjóri og dómsmálaráðherra eigi að segja af sér ef einhverjum lögreglumanni verða mislagðar hendur? Ætti stjórn knattspyrnufélags að segja af sér ef einn leikmanna liðsins gerðist sekur um líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur eftir næturrölt? Er ekki eðlilegt að menn færi meiri og betri rök fyrir máli sínu en að hrópa úlfur úlfur. Kannski sannast hið fornkveðna í þessari umræðu ,,af litlum neista verður of mikið bál". Þeir sem hafa starfað innan vébanda íþróttahreyfingarinnar eru ekki undanskyldir því að koma þannig fram að sómi sé af í útlöndum og fylgja sérsamböndin reglum ÍSÍ og eigin agareglum í slíkum ferðum. Það væri rangt af mér að segja að agavandamál hefðu ekki komið upp í slíkum ferðum. Þau mál sem hafa komið upp hafa undantekningalaust verið leyst innan vébanda viðkomandi aðila. Umræðan um að menntamálaráðherra blandi sér inn í þá umræðu er í hæsta máta einkennileg enda er ekki gert ráð fyrir því að ráðherra sem slíkur hafi eitthvað boðvald yfir sérsamböndunum, en auðvitað getur ráðherra haft sína skoðun og óskað eftir skýringum á málum ef efni standa til.

Birgir Viðar setur einnig fram gagnrýni á FIFA í morgun og ég velti því fyrir mér hvort að hann hafi kynnt sér starfssemi þeirrar hreyfingar eða annarra alþjóðasérsambanda. Sem starfssmaður eins af alþjóðasérsamböndunum þá er mér skylt að skýra aðeins málin. FIFA eins og önnur alþjóðasérsambönd fer samkvæmt skipulagi alþjóða hreyfingarinnar með æðsta boðvald í málefnum knattspyrnunnar í heiminum, svona rétt eins og Félag Kúabænda fer með æðstu völd í málefnum sinna félagsmanna. Það er einkenni á slíkum hreyfingum að þær starfa samkvæmt lögum og reglum sem að aðildarlöndin og félagsmenn hafa samþykkt. Það sér það hver heilvita maður að það er ekki hægt að vísa málefnum tengdum alþjóðahreyfingu til landsdómstóla í hverju landi fyrir sig. Til hvers þá að hafa FIFA starfandi? Sama hér á Íslandi, ef KR og Valur deila þá er það mál leyst innan vébanda hreyfingarinnar en ekki frammi fyrir Hérðasdómstól Reykjavíkur. Hjá flestum sérsamböndum er dómstóll og áfrýjunardómstóll til þess að leysa úr þeim ágreiningsefnum sem upp koma. Það er einmitt eitt einkenni alþjóða hreyfinga að innanbúðarmál eru leyst innan starfsramma viðkomandi samtaka sem starfa með dómstóla til þess að leysa úr ágreiningsefnunum og þar starfa alþjóðlegir sérfræðingar með mikla reynslu. Það er allt í lagi að setja fram skoðun, svona rétt eins og ég geri núna, en það er nú líka hægt að afla sér upplýsinga og setja málin í samhengi. Það er hins vegar annað og meira mál hvort að skipulag þessara alþjóðahreyfinga sé gott eða slæmt en það er önnur umræða.


Fem...in....eistar

Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með umræðunni um starfsmann KSÍ, og hvernig honum hefur verið hreinlega sturtað niður í fjölmiðlum landsins. Það er einkennilegt að sjá, að fjölmiðlar sem að hafa staðið sig illa í því að fjalla um íþróttir hafa farið hamförum í málinu. Ég man þá tíð þegar ég starfaði hjá mínu sérsambandi á Íslandi að það var erfitt að fá fjölmiðla til þess að greina frá helstu atburðum líðandi stundar, jafnvel þó svo að um úrslitaleiki væri að ræða. Yfirleitt voru fréttatilkynningar og fjölmiðlaefni afgreitt í einni til tveim línum, en það var þá og mér sýnist ástandið ekki hafa lagast mikið síðan. Ég sé það núna að stóru mistökin voru kannski það að hafa ekki femínista mér við hlið en þeir virðast kunna tökin á fjölmiðlunum.

Auðvitað hafa femínistar eins og allir aðrir rétt á því að segja sína skoðun á málum, en það er nokkuð sérstakt að hreyfingin fordæmi stærsta sérsambandið á Íslandi fyrir ógöngur eins starfsmanns, án þess að skýra rök sín með afgerandi hætti.  Það er ekki ósanngjarnt að ætla að þeir sem fara mikinn í gagnrýni sinni og ráðast svo heiftarlega að einum varnarlausum einstaklingi komi með lausnir og innlegg inn í umræðuna sitjandi við borð í stað þess að vera senda út stríðsyfirlýsingar.

Á sama tíma og þessu fer fram hefur t.d. Pressan einn æsilegast kvennmann landsins birtandi ,,bónusmyndir" af sjálfri sér, http://www.pressan.is/AsdisRan/Lesa_Asdisi_Ran/bonusmynd-vikunnar og markmiðið eitt að auka athyglina og selja miðilinn. Ég segi nú bara eins og Stormskerinn, ,,Þetta er nú meiri ófriðarsúlan" sem að Svissararnir hafa sent okkur. Jæja, við skulum vona að eitthvað gott komi út úr allri þessari umræðu og vonandi man fólk að baki umræðunni er fólk svona rétt eins og við sjálf.


Þáttakandi á SportAccord

Ég hef staðið í ströngu daga hérna í Lausanne þessa vikuna, en mér var boðið að stýra einum af vinnuhópum á SportAccord undir liðnum Youth and Sports (Æskan og Íþróttir) en umfjöllunarefni mitt var ,,Working with Governments and Schools to involve sports in their long-term planning".

Hér má sjá linkinn á ráðstefnuna: http://www.sportaccordconvention.com/vsite/vfile/page/fileurl/0,11040,5197-199378-216601-155856-0-file,00.pdf

SportAccord er samstarfsvettvangur alþjóðasérsambandanna auk þess sem að Alþjóða Ólympíuhreyfingin ásamt öðrum hagsmunasamtökum taka þátt í ráðstefnunni ár hvert. Umræðurnar voru fjörugar og mörg sjónarmið uppi um hvernig ætti að takast á við málin. Helstu niðurstöður voru þær að það eru mikil tengsl á milli íþrótta og náms, og margir möguleikar að sækja fram á þeim sviðum. Það kom einnig fram að mörg alþjóðasérsambönd vinna vel í þessum málum og starfa beint í grasrótinni með því að halda úti öflugum námskeiðum fyrir íþróttakennara víða um heim. Mönnum bar saman um að það er engin ein lausn til staðar heldur fara þær eftir aðstæðum, menningu og kúltúr þess lands sem í hlut á.

Ég varpaði fram þeirri spurningu hvort að allar íþróttir væru jafnar innan skólakerfisins? Það varð náttúrulega mikil umræða um þetta og heyra mátti á þátttakendum að helsta leiðin til þess að forðast árekstra væri að láta kennsluna taka mið af því að stunda margar greinar til 12 ára aldurs. Auðvitað verða menn aldrei á eitt sáttir en það var forvitinilegt að sjá hversu ólíkar áherslurnar eru eftir löndum og menningu þeirra sem í hlut eiga.


Meðan ég man!

Eftir að hafa lesið í íslensku fréttamiðlunum að íslenskir knattspyrnumenn séu að ganga til liðs við Vaduz liðið í Liecthenstein þá rifjast upp fyrir mér að sumir miðlar töluðu niður til Liechtenstein og íbúa landsins eftir að íslenska knattspyrnulandsliðið beið þar lægri hlut um árið. Það rifjast einnig upp fyrir mér að menn voru að tala um að stærð landsins og að það væri eins og eitt úthverfi á Íslandi. Þessir sömu fréttamiðlar minnast ekki einu orði á þetta núna og telja vistaskipti knattspyrnumannanna hið besta mál og það geri ég líka enda gott að sækja Liechtenstein heim. 


Tók Coopers hlaupaprófið

Það var stinningskaldi hérna í Lausanne í dag þegar að ég skeiðaði niður að vatninu til þess að hlaupa á hlaupabrautinni við EPFL háskólann. Gömlu fólki er allt fært ef það hefur sig til verka. Ég las einhvern tímann fyrr í sumar um þolpróf slökkviliðsmanna og inntökuskilyrðin. Og auðvitað vildi ég kanna ástandið á sjálfum mér. Ég var svo sem ekkert sérstaklega vel stemmdur en ég ætlaði mér að ná árangri á hlaupabrautinni þrátt fyrir að aðstæður væru ekki sem bestar. Ég hljóp 2.5 km á 11.50 sem segir skv. Coopers fræðunum að ég sé í nokkuð góðu formi. Maður getur ýmislegt ef að maður ætlar sér það. Ég er sérstaklega ánægður að geta þess að ég hringaði meðhlaupara minn sem var ekki yfir sig  hrifinn af framferði mínu.

Þetta var gott innlegg í sunnudaginn og lausn frá krepputalinu sem að nú tröllríður öllu!


My left foot

Það er alltaf gaman að fylgjast með ungviðinu þegar að það stígur sín fyrstu skref í íþróttunum. Einar Lár hefur verið iðinn við að skora og það er skemmtilegt að sjá að hann hefur náð að þróa vinstri fótinn til aðgerða. Kantónu mótin í fótbolta eru í fullum gangi núna og sá stutti sem sest hér að neðan, annar frá vinstri setti eitt í morgun og er það þriðja helgin í röð sem að hann skorar. Drengurinn á ekki langt að sækja hæfileikana enda var afinn Einar Halldórsson fyrrum Valsmaður og landsliðsmaður var vel þekktur fyrir fótfimi sína. Einar Lár á líka frænda í bikarúrslitaleiknum í dag en það mun vera Gunnlaugur Jónsson KR-ingur sonur Jóns Gunnlaugssonar Skagamanns.

 

Malley_08_09_E5


Af kjöri til framkvæmdastjórnar Alþjóða Ólympíunefndarinnar

Það hefur verið í mörgu að snúast hjá Alþjóða Ólympíunefndinni (IOC) á meðan á Ólympíuleikarnir í Peking fóru fram. Kjör til framkvæmdastjórnar hefur ekki hlotið mikla umfjöllun en það er rétt að geta þess að Bretar fengur ekki sinn mann kjörinn í framkvæmdastjórnina, Sir Craig Reddie, þrátt fyrir að hann hafi verið að reyna í annað skiptið að komast inn. Bretar hafa ekki átt fulltrúa í framkvæmdastjórninni í meira en hálfa öld, og það verður líka að teljast mjög sérstakt þar sem að næstu leikar fara fram í London 2012. Það er ljóst að þetta mun verða atriði sem að Bretar mun taka á í framhaldinu, enda einstök staða komin upp þar sem að enginn fulltrúi er frá framkvæmdaaðilum í æðstu stjórn Alþjóða Ólympíunefndarinnar, en það hafa verið óskrifuð lög að svo hafi verið. Ein kona var kjörin í framkvæmdastjórnina Nawal El Moutawakel frá Marokkó fyrrum gullverðlaunahafi frá Los Angeles leikunum 1984 en hún var jafnframt fyrst arabískra kvenna til þeirra afreka. Í dag er hún eina konan í selskap með 15 körlum. Þessi staða og mismunur á milli kynjanna eru náttúrulega neikvæð skilaboð og það er ljóst að Alþjóða Ólympíunefndin verður að taka á þessu, en erfiðleikarnir liggja náttúrulega í menningu og arfleið marga aðildarríkjanna þar sem að konur eiga erfitt með að starfa á opinberum vettvangi. Það má með sanni segja að Alþjóða Ólympíunefndin hafi fullnægt algjörum lágmörkum með þessari aðgerð og skilboðin út á við eru ekki jákvæð.

Þessir voru kjörnir í framkvæmdastjórnina í Peking og sitja næstu 4 árin:

Forseti IOC:  Jacques Rogge, Belgíu (2001)

Varaforsetar: Lambis Nikolao, Grikklandi (2005)

Chiharu Igaya, Japan (2005)

Thomas Bach, Þýskalandi (2006)

Zaiquing Yu, Kína (2008)

Meðlimir: Gerhard Heiberg, Noregi (2007)

Denis Oswald, Sviss (2008)

Mario Vazquez Rana, Mexíkó (2008)

Rene Fasel, Sviss (2008)

Richard L. Carrion, Puerto Rico (2008)

Ser Mian NG, Singapúr (2005)

Mario Pescante, Ítalíu (2006)

Sam Ramsamy, S-Afríku (2006)

Nawal EL Moutawakel, Marokkó (2008)

Frank Fredericks, Namibíu, (2008)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband