Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Þarf foringinn ekki að líta til baka

Það hefur aldrei verið öfundsvert að gegna opinberu embætti og bjóða fram krafta sína í þágu samfélagsins. Helsti vandi leiðtoganna í stjórnmálunum þessa dagana birtist helst í því að það eru fáir fylgjendur sem hreinlega trúa á þá framtíðarsýn sem boðuð er - vantraustið virðist ráða ríkjum á mörgum víðstöðvum. Það kom mér svo sem ekkert á óvart að forsætisráðherra sé ósáttur við þá staðreynd að kjörfylgi stjórnarflokkanna mælist lítið þessa dagana eins og hann lýsir í viðtali í Fréttablaðinu í gær.

Einn helsti vandi forsætisráðherra í dag fólgin í þeirri staðreynd að það er erfitt að leiða og stýra málefnum landsmanna ef þeir eru á öndverðum meiði í flestum meiriháttar málum. Hlutirnir í stjórnmálunum verða ekki skýrari en það. Það þurfti ekki að segja kaupmönnunum í Silla & Valda hvað væri best, hagsmunir viðskiptavinanna voru alltaf í fyrsta sæti.

Stjórnmálamenn sem að ganga ekki í takt við vilja þjóðar sinnar, geta ekki dregið upp skýra framtíðarsýn, né sýnt með afgerandi hætti að þeir séu hæfir til þess að leiða þjóðina áfram ættu að líta til baka og sjá hverjir eru í stuðningsliðinu. Það er ekkert rangt við að viðurkenna að hafa mistekist ætlunarverkið en það er sínu verra að neyða afarkostum upp á þá sem ekki vilja þiggja dúsuna. Af ávöxtunum skulum við þekkja þá hljómaði iðulega hjá Silla & Valda, það sama á við um í dag og stjórnamálamenn verða að skilja að kjósendur taka ekki endalaust við skemmdum eplum.


Af frændsemi í norðurhöfum

Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að það er aldrei gott að gera samning á forsendum þriðja aðila eða vera í þeirri stöðu að geta sig hvergi hrært. Hugtakið norræn samvinna hefur kannski aldrei gagnast íslenskri þjóð með afgerandi hætti. Það sem vekur hins vegar athygli er að okkur hefur mistekist að koma skilaboðum okkar á framfæri svo mark sé á tekið. Auðvitað segja embættis- og stjórnmálamennirnir okkur annað. Kannski hefði verið betra að opna upplýsinga- og samskiptaskrifstofur í þeim löndum þar sem eigum hvað mest undir, í stað þess að vera að eyða himinháum upphæðum í rekstur skilanefnda, lögfræðinga og endurskoðenda á óraunverulegum töxtum (ekki illa meint). Í samskiptum mínum við erlenda aðila sem eru margir þá fæ ég oft spurningar um það hvort Ísland sé ekki gjaldþrota og hvort að fólk hafi yfirleitt í sig og á!

Er það ekki einmitt málið að okkur hefur mistekist að kynna hagsmuni okkar á afgerandi hátt. Ef málflutningur okka og málstaður er svo góður eins og við höfum haldið fram afhverju styðja þá norrænu frændþjóðirnar okkur ekki betur? Hefur núverandi staða ekki sýnt okkur Íslendingum að við verðum í framtíðinni að treysta á að misstíga okkur ekki á efnahagssviðinu heldur vera sjálfum okkur næg.

Það er alltaf sárt að reka sig á að vinirnir bregðist á ögurstund, það þýðir þó ekki að lífinu sé lokið. Ísland er ekki nafli alheimsins eins og fjölmiðlar og ferðamálafyrirtækin hafa keppst við að segja okkur. Við erum lítið land með mikilar auðlindir, vel menntaða þjóð sem býr við mikla lýðræðishefð. Við getum ræktað garðinn víðar en á Norðurlöndum. Lífsbjörgin í norðurhöfum verður að byggja á íslenskum raunveruleika en ekki frændsemi sem talað er um á hátíðarstund.

 

 


mbl.is Sænsk lán háð Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti vagninn farinn í bili

Ég skil það svo sem vel að menn séu óánægðir eftir að hafa misst af síðasta vagninum. Það er alltaf erfitt að koma prúðbúinn í partýið þegar langt er á það liðið og ætla sér að starta nýjum veisluhöldum.

Kannski hugsun Sir Winston Churchill sé gott innlegg í dæmið um það hvernig nálgunin hefur verið í Icesave málinu:

 

What could you hope to achieve except to be sunk in a bigger 
and more expensive ship this time

Sir Winston Churchill to Admiral Mountbatten


mbl.is „Vorum nálægt samkomulagi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðustjórnmál það sem koma skal?

Það læðist að manni sá grunur að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi leikið af sér með því að sitja heima í þessum kosningum og þannig gefið þjóðinni langt nef. Forystumennirnir láta eins og ekkert sé og virðast ekki skynja hjartslátt þjóðar sinnar, ekki frekar en fyrri stjórnvöld gerðu rétt fyrir hrun. Það segir mér svo hugur að það sé vaxandi undiralda gagnvart stjórnarflokkunum vegna þess hvernig þeir hafa umgengist fjöreggið. Kannski stefnum við til skamms tíma að samstöðustjórnmálum þar sem breið sátt þarf að ríkja um aðgerðir í helstu efnahags- og framfaramálum þjóðarinnar, Icesave, atvinnuppbyggingu o.s.frv. Það kann að vera að það sé besti leikurinn í stöðunni? Þjóðin kallar forystumennina til ábyrgðar og til þess að starfa á ábyrgan hátt að framförum og frekari velferð, finna lausnir sem gagnast fjölskyldum og fyrirtækjum þessa lands á næstu mánuðum. Of lengi hefur verið beðið eftir afgerandi lausnum og of mikill tími hefur farið til spillis. Nú er mál að girða í brók og stjórnmálamenn taki sér tak og finni aðrar lausnir en skattpíningu og flatan niðurskurð!


mbl.is Ríkisstjórnin þarf að þétta raðirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn Íslands verður að ganga í takt við vilja þjóðarinnar

 Það er rétt skilið að málið er innanríkismál Íslands en menn verða auðvitað að setja hlutina í samhengi. Engin ríkisstjórn á lýðveldistímanum hefur fengið eins afgerandi skilaboð frá þjóðinni. Auðvitað getur fjármálaráðherra haldið áfram að miðla málum en hann verður að hlusta á vilja þjóðarinnar og stíga gætilega til  jarðar í þeim samskiptum sem framundan eru við Breta og Hollendinga. Þjóðin hefur sagt skýrt NEI - stjórnvöld verða að hugsa næsta leik og ná afgerandi niðurstöðu. Það er ekki óeðlilegt að almenningur velti því fyrir sér hvort að ríkisstjórn Íslands sé í raun umboðslaus í málinu og það þurfi að ná mun breiðari samstöðu um næstu skref og framhjá því geta stjórnvöld ekki litið. Þessi fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla á lýðveldistímum hefur einnig sent stjórnmálaöflum samtímans skilaboð um að það þurfi að auka beina þátttöku landsmanna í lýðræðinu. Við lifum á nýjum tímum þar sem ný gildi og aukin lýðræðisvitund hafa markað djúp spor í samfélaginu. Niðurstaða kosninganna leysa ekki málin, en þau sýna svo ekki verður um villst að þjóðin hefur sent skýr skilaboð og þau eru vantraust á það hvernig haldið hefur verið á málum.

Ég velti því fyrir mér hvort að forystumenn ríkisstjórnar Íslands sem að kusu ekki í þessum kosningum hafi gert stór misstök sem forystumenn á pólitíska sviðinu, orðið uppvísir að pólitískum afglöpum. Tíminn mun leiða í ljós hversu mikil hyggindi það voru að mæta ekki á kjörstað! Hvernig getur fólk kosið leiðtoga sem að snýta lýðræðinu!


mbl.is Aðeins málefni Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin sýnir vilja sinn í verki

Þjóðin hefur tjáð hug sinn með afgerandi hætti - stórt NEI. Það er spurning hvernig ber að túlka niðurstöðurnar, ein líkleg túlkun er sú að ríkisstjórn Íslands hafi tapað trausti almennings. Þjóðaratkvæðagreiðslan er söguleg fyrir lýðveldið Ísland þar sem gert er út um deilumál í beinum kosningum þ.e. meirihlutalýðræði ræður úrslitum. Í stjórnmálum þá er það svo að kjósendur velja þingmennina en þeir hafa takmörkuð áhrif þegar kemur að beinum ákvarðanatökum. Í Sviss er þess öfugt farið þar sem beinar atkvæðagreiðslur fara fram um mörg stærri mál sem hluti af beinu lýðræði. Það vekur furðu mína eftir að hafa fylgst með þessu máli utan frá í langan tíma að stjórnvöld hafa þverskallast við að hlusta á vilja þjóðarinnar og menn hafa hreinlega ekki gengið í takt við tíðarandann. Það er með hreinum ólíkindum að vel menntað og vel gefið fólk hafi ekki skynjað veruleikann.


mbl.is Nær allir segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kjósa eða kjósa ekki.....

Er það ekki skylda kosningabærra að mæta á kjörstað og uppfylla samfélagslegar skyldur sínar? Er það ekki eitt höfuðeinkenni lýðræðisþjóðfélaga að fólk sinnir samfélagslegum skyldum og kýs í þeim kosningum sem boðað er til í samræmi við gildandi lög og reglur viðkomandi ríkis? Það að forsætisráðherra lýðveldisins Íslands mætir ekki á kjörstað og jafnvel heldur ekki fjármálaráðherrann hljóta að teljast mjög sérstök tíðindi. Margur kann að segja að slík framkoma sé hrein móðgun við þá sem leggja mikið á sig til þess að sinna kalli samfélagsins. Margir Íslendingar í útlöndum þurfa að fara langan veg til þess eins að sækja kjörseðilinn og síðan þurfa menn að senda hann heim, jafnvel með hraðflutningafyrirtæki og greiða fyrir það þúsundir króna. Það má heldur ekki gleyma þeim sem þurfa að fara um lang veg innanlands til þess að kjósa. Er það sanngjarnt að leiðtogarnir sýni slæmt fordæmi og mæti ekki á kjörstað, er ekki eðlilegra að þeir þegi og mæti á kjörstað og ráðstafi sínu atkvæði á eigin forsendum eins og aðrir þegnar lýðveldisins Íslands?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband