Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þjóðin á eftir að tala
16.7.2009 | 22:26
"The health of a democratic society may be measured by the quality of functions performed by its private citizens" - Alexis de Tocqueville
Það er nokkuð sérstakt að lesa erlendu vefsíðurnar í dag. Þar er iðulega talað um að Alþingi hafi sett stefnuna á Evrópusambandið. Þjóðin á eftir að tala og það er langur vegur framundan. Í dag gengu lýðræðislega kjörnir fulltrúar á bak orða sinna og í berhögg við kosningaloforð sín. Sagan mun auðvitað kveða upp sinn dóm. Kjósendur hafa bara val einu sinni á 4 ára fresti og margur kann að segja að nær væri að fela þjóðinni að ákveða niðurstöðuna í öllum meirháttar málum enda sýnir gjörningurinn í dag að lýðræðið er ekki fullkomið. Hugtakið þjóðaratkvæðagreiðsla fékk nýja og þýðingameiri merkingu í dag!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að þjóna hagsmunum kjósenda er það ekki málið?
10.7.2009 | 22:30
Það hefur verið einkennilegt að fylgjast með stjórnmálaumræðunni síðustu mánuðina, hugsanleg ESB aðild og hugleiðingar um aðildarviðræður hafa sýnt fram á að það er allt hægt í stjórnmálum. Stjórnmálamenn vita sem er að kjósendur muna ekki hvað þeir stóðu fyrir deginum áður. Þetta er raunveruleiki stjórnmálanna í hnotskurn. Svissneska þjóðin þekkir hvað orðið lýðræði merkir í orði enda eru flest meiri háttar mál eru borin undir hana. Það virðist það hafa skapað innri stöðugleika og þjóðin er sátt við stjórnmálamennina sína í landi þar sem hagsæld og almenn velferð eru aðalsmerkið. Kannski er kominn tími til þess að íslenska þjóðin hafi meira að segja um helstu þjóðþrifamál líðandi stundar. Er það þingræði sem að við búum við á 21. öldinni tímaskekkja? Á íslenska þjóðin að treysta þingmönnum til þess að taka ákvarðanir í nafni lýðræðisins, sérstaklega þegar að slík ákvörðunartaka er líkleg til þess að kljúfa þjóðina í tvær fylkingar? Er það ekki eðileg lausn að þjóðin fái að segja sitt álit á málum svo engin vafi leiki á niðurstöðunni? Forsætis- og fjármálaráðherra ættu að hugleiða stöðuna og tryggja sér afgerandi umboð frá þjóðinni sem að kaus eftir ákveðnum formerkjum í vor. Ef menn virða ekki vilja kjósenda sinna þá er lýðræðinu ógnað.
Erfitt mál fyrir VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Barátta garðyrkjumannsins og fjármálaráðherrans
5.7.2009 | 15:46
Það er með ólíkindum hvað garðyrkjumaðurinn Davíð hefur haft mikil áhrif á atvinnustjórnmálamanninn Steingrím með viðtalinu í Morgunblaðinu í dag. Greinilegt að grillveislan og svefninn hafa farið úr skorðum s.l. nótt hjá fjármálaráðherra. Ég verð að viðurkenna að mér varð ekki heldur svefnsamt enda varpaði viðtalið við garðyrkjumanninn sprengju inn í mánuðinn sem einatt er kenndur við gúrkutíðina hjá íslenskum fjölmiðlum. Ekki ætla ég að blanda mér í sandkassapólitíkina sem fram fer á milli garðyrkjumannsins og fjármálaráðherrans. Munurinn á garðyrkjumanninum og fjármálaráðherranum er þó nokkur, sá fyrrnefndi hefur haldið fast við skoðanir sínar og fylgt eigin sannfæringu í málinu. Sá síðarnefndi hefur tekið viðsnúningin af mikilli lyst og segir nú fólki allt aðra sögu en þegar hann sóttist eftir atkvæðunum í þingkosningunum í vor. Það sem íslenskur almenningur hefur áhyggjur af er ekki vinstri eða hægri pólitík heldur hvernig reikningurinn verður gerður upp og hvernig verður umhorfs á Íslandi 2016.
ICESAVE málið hefur allt verið sveipað leyndarpólitík sem þar sem að upplýsingum hefur verið haldið markvisst frá þjóðinni. Þegnar landsins eiga rétt á því að fá meiri upplýsingar og opnari umræðu um málið og jafnvel taka þátt í því að móta afstöðuna til eins stærsta gjörnings Íslandssögunnar. Þeir kraftar sem að nú brjóast út hjá þjóðinni verða stjórnmálamenn að virða að vettugi, málið snýst ekki um eitt viðtal og skammaryrði sem ganga á milli garðyrkjumannsins og fjármálaráðherrans. Það er eðlileg krafa að stjórnmálamennirnir skýri málin betur og að þau verði ekki keyrð áfram í gegnum Alþingi og verði að lögum ef menn eru ekki klárir með allar forsendur.
Eitt stærsta vandamálið á Íslandi í dag er fólgið í þeirri staðreynd að of fáir hlutast til með of mikla ábyrgð þegar að kemur að veigamiklum ákvörðunum sem að snerta framtíð heillar þjóðar. Meira samráð og meiri samvinnu hefur skort í ICESAVE málinu og þjóðin margklofin í afstöðu sinni til málsins. Sá klofningur er ekki ávísun á velferð lands og þjóðar!
Ósvífin og ódýr afgreiðsla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.9.2009 kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar kóngurinn talar þá hlusta hinir!
4.7.2009 | 16:49
Það var svo sem ekki við öðru að búast af Davíð en að hann stigi fram í sviðsljósið núna þegar að umræðan um ICESAVE stendur sem sem hæst. Það er líka sannleikskorn í því að helstu embættismenn þjóðarinnar hafa verið verið of meðvirkir og kannski ekki náð því besta út úr ICESAVE málinu, sérstaklega þegar að stór hluti vandræðanna er tilkominn vegna gallaðs regluverks EES samningsins, og íslenska þjóðin er ein og sér dæmd til þess að taka afleiðingum. Kannski er of seint í rassinn gripið núna og erfitt að taka upp þráðinn þegar að samningsdrögin liggja frammi. Já, það virðist sem að gallað regluverk hafi náð að setja eina þjóð á hausinn, þjóð sem vann sér það eitt til saka að hafa gerst aðili að EES. Hvaða réttlæti er í því að börnin og barnabörnin borgi brúsann? Er þetta leiðin að draumamarkmiðinu, hagsæld, hamingju og skjaldborgarinnar sem að stóru holskeflurnar brotna á?
Ekki setja þjóðina á hausinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
ICESAVE, ÓLAFUR OG FJÖLMIÐLAFRUMVARPIÐ
2.7.2009 | 21:11
Hér að neðan fer yfirlýsing forseta Íslands vegna fjölmiðlafrumvarpsins fræga. Frumvarps sem var sagt mynda djúpa gjá á milli þings og þjóðar.
Það er ekki óeðlilegt að velta því fyrir sér hvort að forseti Íslands muni blanda sér inn í Icesave málin miðað við yfirlýsingu hans hér að neðan og svo vegna stöðunnar sem uppi er í þjóðfélaginu útaf Icesave málinu. Miðað við mikilvægi málanna, þ.e. fjölmiðlafrumvarpið sem að snerti tiltölulega lítinn hluta þjóðarinnar þá er Icesave málið stórt að umfangi, það varðar framtíð heillar þjóðar og barnanna sem erfa munu landið.
Yfirlýsing Ólafs Ragnars er svohljóðandi:
"Í yfirlýsingu minni 2. júní 2004 var áréttað að mikilvægt sé að lagasetning um fjölmiðla styðjist við víðtæka umræðu í samfélaginu og almenn sátt sé um vinnubrögð og niðurstöður. Sjálfstæðir og öflugir, fjölbreyttir og frjálsir fjölmiðlar séu hornsteinar lýðræðisins.
Alþingi hefur nú fellt úr gildi lögin sem ollu hörðum og langvarandi deilum og mynduðu djúpa gjá milli þingvilja og þjóðarvilja.
Það er andi íslenskrar stjórnskipunar að túlka beri stjórnarskrá og lagareglur á þann veg að sem mest sátt takist í samfélaginu.
Í anda slíkrar sáttar hef ég ákveðið að staðfesta lagafrumvarpið sem fellir úr gildi fjölmiðlalögin nr. 48/2004.
Bessastöðum, 27. júlí 2004
Ólafur Ragnar Grímsson"
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Andi liðinnar ríkisstjórnar og vinstri fótar hagfræði
29.6.2009 | 21:54
Við höfum gengið í gegnum tíma sem að einkenndust af mikilli uppsveiflu, tímum þar sem að heil ríkisstjórn þurfti að taka pokann sinn fyrir að hafa sofið á vaktinni og fyrir að hafa ekki beitt nægjanlegu aðhaldi og eftirliti með fjármálamarkaðinum. Andi liðinnar ríkisstjórnar hefur markað djúp sár í sálartetri þúsunda Íslendinga, venjulegra fjölskyldna sem að unnu sér ekkert til saka nema þá helst fyrir að hafa tekið lán á vildarkjörum í útlöndum í gegnum bankann sinn.
Upp hefur risið ný ríkisstjórn með holdgerfinga hins gamla tíma í forsæti með þekkt meðöl í farteskinu. Maðurinn í græna góða Volvóinum er sestur undir stýri og keyrir lipurlega frú Jóhönnu um götur þessa lands. Sú vegferð verður án efa þyrnum stráð og ljóst að græna þruman mun stoppa víða, jafnt hjá þeim sem minna mega sín sem og meðaljóninu sem er innilokað í fjármálagildrunni, ævisparnaðurinn farinn og ævikvöldið sjálft í hættu. Börnin munu að endingu borga brúsann, þeirra framtíð og þeirra vegferð er skuldsett. Græni Volvóinn mun líka stoppa hjá mér og taka sitt, og líka af þeim sem voru skynsamir og tóku ekki þátt í neyslukapphlaupinu eða fóru offari í fjárfestingum.
Gríðarleg skattheimta á fyrirtæki og einstaklinga mun ríða mörgum að fullu og þær auknu álögur munu ekki vera það morfín sem að linar kvalirnar. Lítið hefur verið gert til þess að veita fyrirtækjum landsins meiri viðspyrnu í því árferði sem núna ríkir. T.d. er erfitt að skylja afhverju tollar og gjöld á bifreiðum eru enn í sannkölluðum ofurflokki á meðan bílgreininni blæðir út þar sem að fáir hafa efni á að endurnýja tæki og tól miðað við skráð gengi núna. Væri t.d. ekki hægt að lækka tolla til þess að blása lífi í greinina og fá hjólin til þess að snúast og svo þessi fyrirtæki geti skilað hinu opinbera sköttum og gjöldum af einhverju?
Dæmi um slæman (nef)skatt er útvarpsgjaldið svokallaða, dæmi um skatt sem að flokkur einkaframtaksins og demókratarnir komu á til þess að halda úti ríkisrekstri sem er í fullri samkeppni við einkaframtakið. Er þessi skattur réttlátur og mun hann ekki koma helst niður á venjulegum fjölskyldum sem að hafa nóg með sitt og þurfa á hverri krónu að halda? Það verður lítið bros hjá fólki þegar það fær álagningarseðlana í ágúst.
Hækkun tryggingargjalds mun leggjast af fullum þunga á fyrirtækin og sveitarfélögin, en hækkunin mun skila milljörðum í ríkiskassann en spurningin er hver verða áhrifin? Fyrirtæki og stofnanir munu segja upp fólki og draga úr þjónustu til þess að mæta hækkuninni. Er þetta aðgerð sem er til þess fallin að hleypa lífi í ráðningar fyrirtækja eða hjálpa skuldsettum sveitarfélögum með að halda úti grunnþjónustunni.
Til skamms tíma mun neysluvísitalan ekki fara varhluta af þessum aðgerðum þar sem skuldir íslenskra heimila, afborgunarbyrði lána og aðföng fyrirtækja munu hækka. Ruðningsáhrifin eru þekkt enda neyðast flestir til þess að laga sig að nýjum kostnaðarforsendum sem mun þrýsta verðlagi upp og verðbólguskot mun fylgja í kjölfarið.
Hækkun á staðgreiðslusköttum og hátekjuskattur mun skila einhverju til skamms tíma en spurning er hvort að áhrifin leiði til þess að svört atvinnustarfssemi aukist til muna? Með háu skatthlutfalli þá er líklegt að áhrifin verði letjandi á vinnuframlag einstaklinga og því mun þjóðarframleiðslan dragast saman. Dr. Art Laffer skýrði grundvallarhegðun einstaklinga á markaði og vilja þeirra til þess að taka þátt í framleiðsluaukningu og starfssemi á markaðnum ef skattar eru sanngjarnir. Það eru engin ný vísindi að hóflegir skattar skapa ríki meiri tekjur en ella og það er ljóst að ríkið mun ekki endilega fá fleiri krónur í kassann með hærri tekjuskattsprósentu, sérstaklega í núverandi árferði. Stóra spurningin er hvort skatttekjur minnki og hvort áhrifin verði önnur en lagt var upp með og það er því eðlilegt að setja spurningarmerki við framkvæmdina?
Laffer áhrifin skýrð
Hækkun á áfengisgjöldum mun án efa skila miklu í kassann og það verður fróðlegt að sjá hvort að almenningur þessa lands muni sætta sig við slík ofurgjöld á áfengi og tóbaki. Hér krystallast eitt grundvallaratriðið í rekstri fyrirtækja á markaði en það er sú staðreynd að neytendur hafa ákveðið þol þegar kemur að verðhækkunum enda fælir það viðskiptavina oftast nær í burtu. Stjórnendur fyrirtækja á markaði þekkja líka nálægðina við neytendur á meðan stjórnmálamennirnir byggja sína aðferðarfræði á væntingum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að ríkið mun uppskera minni tekjur og hvort neytendur muni breyta neyslumynstri sínu. Munu menn fara að brugga, smygla eða neyta minna áfengis? Þetta virðast embættis- og stjórnmálamenn oft ekki skilja. Vinstri fótar hagfræðin er oft góð í orði en sársaukafull í framkvæmd og það munu fjölskyldur þessa lands fá að kynnast á komandi mánuðum.
Sú vinstri fótar hagfræði sem að byggir á aukinni skattheimtu ríkisins í árferði þar sem að flestar fjölskyldur og fyrirtæki landsins eru í öndunarvélunum er ekki sú aðferðarfræði sem er ekki líkleg til þess að blása lífi í efnahag landsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.7.2009 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bera Flosi og Ómar ábyrgð?
27.6.2009 | 11:48
Það er ótrúlegt að fylgjast með stjórnmálaforingjunum í Kópavogi þessa dagana og það virðist sem að þeir hafi misst sjónar á grundvallargildunum, þ.e. að starfa með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Það stendur enn óhaggað að bæjarfulltrúarnir Flosi og Ómar bera pólitíska ábyrgð á ákvörðunum Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar og það er kjarni málsins. Hvernig geta pólitískt kjörnir fulltrúar sem að fá greitt fyrir stjórnarsetu sína í sjóðnum og bera ábyrgð á athöfnum og gerðum hans reynt að segja sig frá ákvörðunum sjóðsins. Það er með ólíkindum hvernig fjölmiðlar þessa lands láta þessa menn komast upp með slíkan málflutning. Eitt grundvallaratriðið í stjórnun hagsmunasamtaka eins og LSK er einimitt fólgin í því að skipa stjórn sem fer með boðvald og ákvarðanir í þágu félagsmanna og þar af leiðandi bera menn ábyrgðir á gerðum stjórnar, enda hafa umræddir stjórnarmenn allar forsendur og upplýsingar til þess að fylgja störfum sínum eftir á ábyrgan hátt. Ef menn eru ekki vissir þá eiga menn að gera við það athugasemdir á fundum og kalla eftir frekari upplýsingum. Það er ekki trúverðugt núna að menn stígi á stokk og sverji af sér ákvarðanir, slíkt ber vitni um að menn hafi ekki verið að sinna sínum störfum. Ábyrgðin hlýtur að liggja hjá öllum stjórnarmönnum nema ef kynni að vera um saknæmar blekkingar að ræða. Áleitin spurning er samt þessi: Voru menn að sinna stjórnarstörfum sínum nægjanlega vel? Gátu Flosi og Ómar ekki haft samband við Fjármálaeftirlitið beint en þeir voru í vafa? Gátu þeir ekki gert fyrirvara við ákvarðanir sínar með bókunum á fundum? Önnur spurning kemur líka upp: Af hverju gengur Fjármálaeftirlitið ekki fram með fullri hörku sérstaklega eftir alla gagnrýnina sem að sett hefur verið fram í fjölmiðlunum? Ber ekki viðskiptaráðherra ábyrgð á því að regluverkið virki?
Stendur við fyrri orð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það ku vera gott að búa í Kópavogi þótt það kraumi undir!
21.6.2009 | 18:46
Það kraumar undir í Kópavoginum og ljóst að það verða samstarfsslit ef fram fer sem horfir. Menn eru hættir að tala saman og fyrir það líða íbúar í Kópavogi. Pólitíkin er óvægin húsbóndi og hollusta er oft minni en menn gera ráð fyrir á ögurstund. Það ótrúlegt að fylgjast með misvísandi ummælum og yfirlýsingum og þeir sem að flytja sannleikstíðindi og hafa allt á hreinu eiga að leggja fram sín gögn svo að fólk sé upplýst en þurfi ekki að geta í eyðurnar í þeim sandkassaleik sem að nú fer fram. Menn gerast sjálfskipaðir réttargæslumenn í eigin sök og reyna að beina kastljósinu að veikasta hlekknum, þannig er pólitíkin í sinni hörðustu mynd. Yfirleitt þarf einhver að taka skellinn í pólitíkinni og það virðist sem að Gunnar hafi strandað á skeri og nú er háflóð, en hver er pólitísk ábyrgð Ómars og Flosa?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.6.2009 kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Að missa sjónar á kjarnastarfsseminni
31.5.2009 | 12:19
Það verður að segjast að dæmið um Soffanías Cecilsson hf. er sorglegt, og endurspeglar kannski þá hugsun sem að fylgdi því að taka erlend lán og endurfjárfesta í von um hagnað af annarri starfssemi en kjarnastarfssemi og náttúrulega var lánsfjármagnið á lágum vöxtum. Sú framtíðarsýn sem að býr að baki í svona tilfellum treystir á tvennt, í fyrst lagi að hlutabréfin sem að keypt voru hækkuðu í verði og svo hitt að gengi íslensku krónunnar yrði stöðugt eða myndi styrkjast gagnvart erlendum myntum. Þegar að dæmið var sett upp þá var ekki tekið með í reikninginn að hlutirnir gætu fari á versta veg, þ.e. að krónan myndi taka skell og að hlutabréfin myndu falla í verði, með öðrum orðum velgengnin var línuleg og ábatinn var handan við hornið. Ávinningur af slíkri hagfræði er nú flestum ljós og það er ótrúlegt að fjöldi fyrirtækja hafi ekki verið með neinar varnir í sínum stöðutökum og eins og dæmi sýna, sérstaklega þar sem að stærstur hluti lánsins fer í fjárfestingu á einum stað er í versta falli dæmi um óraunhæft stöðumat. Menn setja hreinlega traust sitt á að framtíðin gefi betur en nútíðin. Kannski gleymdu menn því fornkveðna, ávöxtun í nútíð segir ekkert til um framtíðina!
Þegar að menn eru búnir að skuldsetja fjöreggið þannig að það mun taka áratugi að greiða niður lánin, ef það er þá hægt, ef ekki þá eru menn búnir að taka sína eigin gröf. Það er raunar ótrúlegt að sjá að fjöldi íslenskra fyrirtækja hefur á síðustu árum sótt langt út fyrir kjarnastarfssemi sína og þar með aukið rekstraráhættu sína umfram það sem eðlilegt getur talist. Það er klárt mál, ef lög þessara hlutafélaga verða skoðuð þá mun koma í ljós að þau hafi mörg hver vikið verulega frá skipulagslegum markmiðum sínum og farið langt út fyrir eðlileg starfssvið sín, og inn á svið þar sem þekking stjórnenda var fyrst og fremst takmörkuð.
Samfélagsleg ábyrgð lykilfyrirtækja í smærri byggðarlögum er mikil og það verður að gera kröfur til stjórnenda þeirra að þeir hámarki hag samfélagsins þar sem að fyrirtækið er staðsett í stað þess að spila rússneska rúllettu.
Milljarða skuldir umfram eignir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.6.2009 kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skák og mát
30.5.2009 | 22:53
Það er nokkuð sérstakt að lesa ummæli formanns viðskiptanefndar Alþingis á Vísi.is þar sem að hann segir að við séum með ónýtan gjaldmiðil og það sé verið að leiðrétta ákveðið misræmi sem að hafi verið komið upp á milli bensíns og díselolíu, og því hafi orðið að hækka bensín- og olíugjald. Síðar í sama viðtali klikkir hann út með því, að segja að það hafi verið nauðsynlegt að hækka þessi gjöld til þess að auka ekki frekar á þann vanda sem að Íslendingar standa frammi fyrir.
Hvað á maðurinn við með því að segja að það hafi verið nauðsynlegt að hækka gjöld til þess að auka ekki á vandann? Veit þingmaðurinn ekki að þúsundir fjölskyldna standa núna frammi fyrir afarkostum og allar hækkanir á bensín og olíuvörum hafa stórkostleg áhrif á útgjöld heimilanna auk þess sem að vísitala neysluverðs fer ekki varhluta af aðgerðinni enda áhrifin þekkt þar sem að höfuðstóll fasteignalána hækkar umtalsvert. Þessi aðgerð hefur einnig umtalsverð áhrif á keypt aðföng fyrirtækja sem að mörg hver neyðast til að hækka verð á vöru sinni og þjónustu. Dagar víns og rósa eru liðnir hjá núverandi ríkisstjórn og það er ljóst að gengið mun fram af hörku við að hækka skatta og aðrar álögur enda virðast menn ekki hafa önnur úrræði. Í aðstæðum sem nú ríkja þá vekur athygli að ekki hafi verið lækkaðir tollar og innflutningsgjöld á bifreiðum til þess að hjálpa bílgreininni sem er núna nánast sjálfdauð enda lítið um innflutning á bifreiðum, landbúnaðarvélum og skyldum tækjum.
Ef efnahagsaðgerðir ríkisstjórnar Íslands miðast við það að hækka álögur og gjöld, í stað þess að koma með aðgerðir sem eru til þess fallnar að hjálpa fyrirtækjum til þess að halda úti atvinnustarfssemi þá er illa komið. Ríkisstjórn þessa lands verður að skilja að fjölskyldum og fyrirtækjum blæðir út og það þarf aðgerðir sem örva neyslu, auka atvinnuþátttöku og styrkja innviði samfélagsins. Þegar hefur dregið stórlega úr neyslu og fjárfestingum, jafnt almennings sem fyrirtækja og því verða ummæli formanns Viðskiptanefndar að teljast úr tengslum við raunveruleikann. Alþingisgarðurinn kann að vera að grænka núna og þar er sumarið komið í allri sinni dýrð en það þarf ekki að fara langt til þess að sjá sárin í grassverðinum á Austurvelli. Hvar er Hörður Torfa og fólkið sem að mótmælti í vetur? Á að bíða þar til við erum skák og mát? Að auki er rétt að benda á, að það er þingmanninum til vansa að tala niður til íslensku krónunnar og þess sem íslenskt er.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.6.2009 kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)