Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Krónan lifir

Ég herti upp hugann og ákvað að kanna hvort hægt væri að kaupa krónur á lestarstöðinni í Lausanne þar sem flestar myntir eru seldar, enda stutt í heimferð og jólaleyfi. Ég var reyndar búinn að sjá að nokkuð yfirgengi var til staðar. Þegar ég loksins athugaði málin í gær kom í ljós að þeir áttu eitt seðlabúnt með 55.500 íslenskum krónum. Það var svo sem ekki mikið en það jafngildir 426 svissneskum frönkum sem gerir gengið 1.30 sem er ca. 14% hærra en núverfandi miðviðunargengi Seðlabanka Íslands. Það er ljóst að enn má finna krónur í reiðileysi, krónur sem hafa engan tilgang ef enginn er til kaupa þær. Ef ég nota hið nýklassíska komment: Það er bara þannig! Ekki orð um það meir.


Morgunblaðið er blað allra landsmanna

Það er leitt að heyra um stöðuna hjá Morgunblaðinu, þangað sem fjöldi Íslendinga hefur sótt alþýðufróðleik sinn. Það má ekki gerast að Morgunblaðið leggist af eða útgáfa þess breytist. Það er enginn vafi í mínum huga, að Morgunblaðið er sennilega besti fjölmiðill Íslands frá því í árdaga. Efnistök og fréttaflutningur hefur alla tíð verið mjög ábyrgur, fumlaus og laus við alla tilgerð eða staðreyndavillur. Sennilega hefur þar ráðið mestu hæft starfsfólk. Ég vona að þjóðin fá að njóta Morgunblaðsins um ókomin ár, annað væri slys fyrir íslenska fjölmiðlun og fréttamennsku. Morgunblaðið á erindi til allra!


Framferði opinberra starfsmanna

Eftir að hafa fylgst með frægu máli er tengist fyrrverandi fréttamanni RÚV, G. Pétri Matthíasarsyni og núverandi upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar við Geir H. Haarde forsætisráðherra í Forsætisráðuneytinu þá vakna upp ýmsar spurningar. Rétt er að geta þess að ég þekki hvorugan og held ekki með neinum í þessu máli en báðir hafa verið ágætir á skjánum.

Ég get ekki betur séð en að G. Pétur hafi gerst brotlegur gangvart sínum fyrrverandi vinnuveitanda með því að birta áður óbirt efni sem var í eigu RÚV og sennilega eru skýrar reglur um meðferð slíks efnis sem að tekið er upp fyrir stofnunina.

Það hlýtur að kalla á frekari aðgerðir af hálfu hins opinbera sem að hefur núna á sínum snærum starfsmann sem kann að hafa gengið fram með þeim hætti að óeðlilegt kann að þykja. Hér er átt við þá staðreynd að G. Pétur er opinber starfsmaður, sem að vissi og mátti vita að notkun umrædds efnis var í trássi við vinnureglur RÚV, og andstæð reglum um notkun á efni sem að menn vinna með og hafa frjálsan aðgang að í krafti starfs síns.

Ég velti því líka fyrir mér hvernig forsvarsmenn Vegagerðarinnar geta hugsað sér að hafa upplýsingafulltrúa á sínum snærum sem að kynni að gera það sama þar. Hver veit en það er ljóst að ríkar kröfur eru gerðar til opinberra starfsmanna. Mál eins og þetta þarfnast nánari skoðunar og skýringa við og það er ekki óeðlilegt að spyrja hvort að stefnumörkun ríkisins í málefnum opinberra starfsmanna sé pappírsins virði og hvort að komin sé hér fyrirmynd að því hverju opinberir starfsmenn gætu t.d. lekið út um Pétur og Pál án þess að á því sé tekið. Hér er mál sem varðar almannaheill og má alls ekki persónugera á einn eða neinn hátt en mikilvægt að skýr skilaboð hvað sé eðlilegt og hvað ekki.

 


Tók Coopers hlaupaprófið

Það var stinningskaldi hérna í Lausanne í dag þegar að ég skeiðaði niður að vatninu til þess að hlaupa á hlaupabrautinni við EPFL háskólann. Gömlu fólki er allt fært ef það hefur sig til verka. Ég las einhvern tímann fyrr í sumar um þolpróf slökkviliðsmanna og inntökuskilyrðin. Og auðvitað vildi ég kanna ástandið á sjálfum mér. Ég var svo sem ekkert sérstaklega vel stemmdur en ég ætlaði mér að ná árangri á hlaupabrautinni þrátt fyrir að aðstæður væru ekki sem bestar. Ég hljóp 2.5 km á 11.50 sem segir skv. Coopers fræðunum að ég sé í nokkuð góðu formi. Maður getur ýmislegt ef að maður ætlar sér það. Ég er sérstaklega ánægður að geta þess að ég hringaði meðhlaupara minn sem var ekki yfir sig  hrifinn af framferði mínu.

Þetta var gott innlegg í sunnudaginn og lausn frá krepputalinu sem að nú tröllríður öllu!


Mótmæli, múgæsing og hvað svo

Það er með ólíkindum að horfa yfir hafið og sjá þau skrílslæti sem að áttu sér stað fyrir utan Lögreglustöðina v. Hlemm, og hreint með ólíkindum að fólk komist upp með skemmdarverk á almannafæri. Ég hef reyndar áður lýst þeirri skoðun minni að lögreglan eigi að sjá til þess að fólk fari ekki út fyrir almennt velsæmi. Auðvitað er það viðkvæmt eins og ástandið er núna. Mér er til efs að í nokkru siðuðu ríki hefði það verið látið átölulaust að fólk hefði í frammi skemmdarverk, afbakað styttu af lýðveldishetju okkar á Austurvellli, unglingar henda eggjum í Alþingishúsið o.s.frv.

Löghlýðnir borgar þessa lands eiga það skilið að lög og reglur séu virtar ef ekki þá er stutt í það að fólk fari að valda skemmdum á eignum almennra borgara með tilheyrandi eignatjóni og spjöllum. Hvað mun gerast í miðborg Reykjavíkur næsta laugardag. Munu verslunar- og fyrirtækjaeigendur eiga von á því að rúður verði brotnar og skemmdarverk unnin, allt í nafni friðsamra mótmæla. Það að alþingismaður standi svo í fylkingarbrjósti fyrir framan Lögreglustöðina á Hlemmi vekur upp spurningar? Mótmæli, múgæsing og hvað svo?


Ég heiti Jón

og er Sigurðsson. Ég var klæddur í bleikan skrúða í dag. Þetta var ekki með mínu samþykki. Ég mótmæli!

Sáðmaðurinn

Þegar er mér enn minnisstætt þegar ég lagði inn mínar fyrstu krónur í banka sáðmannsins ofarlega á Vesturgötunni. gyllta lógóið á grænu bankabókinni sýndi mynd af ,,sáðmanni Íslands” að störfum, þeim sama og ræktaði jörðina svona eins til þess að minna mann á að til þess að uppskera þá þurfti maður fyrirhyggju og natni. Það var ekki nóg að eiga græna jörð og frjósama akra það þurfti líka að huga að ústæðinu, og til þess að uppskera þá þurfti að sá og fylgja starfinu eftir og rækta jarðveginn.

Frá unga aldri var ,,sáðmaðurinn” mér ofarlegan í huga og flestar mínar krónur fór inn á grænu bankabókina með ,,gyllta sáðmanninum” utan á. Í þeirri bók voru leikreglurnar hreinar og beinar. Svörtu færslurnar sýndu innlegg og þau rauðu sýndu úttektirnar. Hagfræði ,,sáðmannsins” var einföld og vel skiljanleg þeim sem átti í viðskiptum við  hann. Á 10 fersm. sást allur sannleikurinn, og það þurfti ekki fleiri vitna við, ekki var hægt að eyða meiru en aflað var. Þá naut maður þess að fara í bankann og leggja inn og taka út eftir þörfum, enda leikreglurnar skýrar og engin ofurtilboð að trufla mann. Þjóðfélagsmyndin breyttist hins vegar hratt á þessum árum en gildi ,,sáðmannsins” létu smátt og smátt undan í samfélagi sem að óx fiskur um hrygg. Nýtt fjármálaumhverfi og ný viðmið leystu ,,sáðmanninn” undan skyldum sínum, hann varð púkó og tákn gamla tímans. Tákn gamla tímans þegar menn biðu í röðum eftir viðtölum við bankastjórana til þess eins að kaupa víxil, enda var framboðið af peningum takmarkað. Auðvitað var ,,sáðmaðurinn” ekki óskeikull en hann var alltaf þarna eins og tákn um þann sem stóð af sér öll veðrabrigði og fólk lærði að takast á við hann og þjóðfélagið hafði innbyggða stoppara sem sáu til þess að menn fengju ekki og mikið í einu. Sá tími leið undir lok eins og margt annað, græðgi og skeytingarleysi blindaða marga góða menn með góðar hugmyndir

Kannski kemur tími ,,sáðmannsins” aftur. Tími þar sem að verðmætamat fylgir raunverulegum stærðum í efnahag landsins, tími þar sem að virðing fyrir ráðdeild og nægjusemi er í hávegum höfð. Kannski að það sé kominn tími á grænu bankabókina aftur!

 


Að standa með pálmann í höndunum

Það er greinilegt að ástandið á Íslandi hefur farið eins og eldur í sinu um heimsbyggðina og ljóst að fjármálakreppan hefur borið hróður okkar víða. Það er sérstakt fyrir mig að starfa í alþjóðlegu umhverfi þessa dagana þar sem að margir hafa sent mér samúðarkveðjur og ástandið hefur verið mjög sérstakt. Í dag fékk ég kveðjur frá Katar, Tælandi og BNA, og greinilegt er að menn eru með á nótunum. Internetið er einn allsherjar upplýsingamiðill þar sem að fréttir flæða óhindrað og skiptir þá engu máli hversu gáfulegar eða réttar þær eru. Sumir halda líka að menn hafi ekkert að bíta og brenna á Íslandi lengur.

Spekingarnir stíga margir á stokk og flytja lærðar greinar um ástandið á meðan  auðmenn Íslands bera sig aumlega, en yfir mörgum fyrirtækjum þeirra vakir vofa gjaldþrotsins. Andi góðærisins er farinn, en vofa hversdagsins tekin við að brýna ljáinn. Uppi eru duldar meiningar um ástand bankanna, og það virðist sem að fyrrum eigendur telji að bjarga hefði mátt bönkunum ef rétt hefði verið staðið að málum. Tíminn einn mun leiða í ljós hversu mikil gæði eru fólgin í  eignasöfnum bankanna og hversu miklir fjármunir munu skila sér. Aðalatriðin eru farin að snúast upp í anhverfu sína og menn benda hver á annan og hrópa á torgum. Greyið hann Davíð má ekki opna orðið munninn án þess að allur málflutningur hans sé kominn í fjölmiðlana sem að síðan sækja á stjórnmálaforingjana til þess að fá þeirra álit. Mikil er máttur Davíðs í kastalnum á Arnarhóli!

Það vakti athylgi mína að Björgólfur eldri ítrekaði í frægu Kastljósviðtali að gott samstarf hefði verið haft við fjármálaeftirlitin í Bretlandi, Hollandi og á Íslandi. Það var undirliggjandi í málflutningi Björgólfs að hann var ekki sáttur við meðferðina né skilningsleysið af hálfu stjórnvalda sem með aðgerðum sínum settu allt á annan endann með setningu neyðarlaganna.

Sennilega hafa flestir eitthvað til síns máls, en það breytir engu núna þar sem framundan er mikil vinna hjá fjölskyldum og fyrirtækjum þess lands við að halda sér á floti. Staðreyndirnar eru einfaldar, ef fyrirtækin geta ekki haldið sér á floti og skapað verðmæti, þá munu fjölskyldurnar í landinu ekki gera það heldur. Innviðir samfélagsins hvíla ekki á niðurstöðu spjallþáttanna eða á hnútukasti stjórnmálaforingjanna og embættismannanna heldur því sem kemur í pyngjuna.

Það er greinilegt að menn eru farnir að lýjast á stjórnarheimilinu enda hefur atgangurinn verið töluverður og mikil pressa á mönnum á síðustu vikurnar. Það þurfa allir að kasta mæðinni og fá tíma til að hvílast, hugsa sitt ráð og leggja drög að sinni framtíð. Sumir ákváðu að taka ekki slaginn og létu sig hverfa úr hringiðu stjórnmálanna eins og Guðni Ágústsson hefur nú gert, kannski ekkert óeðlilegt sé tekið mið af því umróti sem að hefur átt sér stað á stjórnmála- og efnahagssviðinu. Bóksalinn, Bjarni Harðarson, var ekki lengi að taka upp fyrri iðju og er byrjaður að selja bækur aftur. Jú, alþingismenn eru líka venjulegir þegnar sem að eiga sér venjulegt líf eftir að þingmennskunni lýkur.

Sennilega eru það lögfræðingar og endurskoðendur sem að standa með pálmann í höndunum í dag. Mörg álitaefni hafa komið upp í kjölfar neyðarlaganna og þau þarf að útkljá fyrir dómstólum. Lögfræðingarnir þurfa að skrifa álitsgerðir og setja fyrirtæki í þrot á meðan endurskoðendur reikna allt á versta veg. Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

Hið eina sanna góðæri er það sem kemur innan frá og því megum við ekki gleyma!

 


Að ganga í takt við tímann

Veturinn 1850 markaði mikil tímamót í sögu lands. Lærði skólinn var í uppnámi vegna þess að skólapiltarnir þóttu baldnir og voru lítt fáanlegir til þess að hlýða stjórnarnefnd skólans. Undir niðri kraumaði sú hugmynd að reka einhverja af skólapiltunum úr skólanum, en það þótti ekki líklegt til árangurs þar sem að talið var að þá  myndi skólahald hreinlega leggjast af. Yfirstétt þess tíma taldi að það myndi leiða til þess að ..dónarnir'' lágstéttin myndi uppskera of mikla samúð.

Sunnudaginn 10. febrúar það sama ár, kvaddi Sveinbjörn Hallgrímsson, ritstjóri Þjóðólfs sér hljóðs eftir sunnudagsmessuna í Dómkirkjunni og krafðist þess að dómkirkjupresturinn sr. Ásmundur Jónsson segði af sér því að hann sé svo lágmæltur að söfnuðurinn heyri ekki í honum. Þetta var tími mikilla væringa og umróts á Íslandi. Málin gengu svo langt að sr. Ásmundur studdur af yfirstéttinni fékk því framgengt að Sveinbjörn var sektaður fyrir kirkjuspjöll. Stuttu seinna voru uppi hugmyndir að skipa Jón Sigurðsson sem yfirkennara Lærða skólans enda töldu menn hann eina raunhæfa kostinn til þess að koma reglu á hlutina og þá sterku ólgu sem var til staðar víðsvegar í þjóðfélaginu.

Biskupinn yfir Íslandi ritar bréf til innanríkisráðherrans Mathiasar Hans Rösenorns og segir ,,Almúginn heldur fundi og myndar þannig sem heild óhugnanlegt vald. Embættismenn eru einskis virtir - nokkrir þeirra eru líka miður gætnir - almúginn lítur á þá sem þjóna sína, sem hann getur blátt áfram sagt upp þegar hann heldur að hann hafi ekki lengur not fyrir þá. Svona standa málin í dag - og þannig hefur það lengi verið að maður þorir tæpast að láta nokkuð út úr sér án þess að eiga það á hættu að það berist allt bjagað út á meðal fólksins....Hvarvetna í landinu stefnir í stjórnleysi."

Kannski að tímarnir í dag séu ekki ólíkir að einhverju leiti því ástandi sem var 1850. Viljinn til breytinga er til staðar og ráðamenn verða að ganga í takt við kröfurnar í þjóðfélaginu til þess að einangra sig ekki með ummælum sem bera keima af taktleysi og andstöðu við ríkjandi ástand. Þjóðin þarf leiðtoga sem kunna að hlusta og skilja aðstæður hverju sinni, svona rétt eins og Jón Sigurðsson sem að skynjaði mikilvægi tíðarandans forðum.


Ég er ráðherra en enginn sagði mér neitt

Það hefur reyndar verið skoðun mín að ábyrgð Viðskiptaráðherra, yfirmanns bankamála sé töluverð og ekki má gleyma Fjármálaeftirlitinu. Ég verð að segja að yfirlýsing ráðherra er sérstök þar sem að hann segist ekki hafa vitað af stöðunni. Það er einmitt eitt af grundavallaratriðið að ráðherra viti, það er í hans verkahring og sérfræðinganna í ráðuneytinu að vita af tilvist vandamálanna, greina þau og koma með tillögur til úrbóta. Það er ódýrt að segja ég vissi ekki af hlutunum. Það er ljóst að yfirlýsing ráðherra hefur nú bakað honum meira tjón en ella enda hefur forstjóri Fjármálaeftirlitsins sem að ber líka ábyrgð kastað boltanum aftur yfir til ráðherrans. Þetta fer að verða eins og hanaslagur enda reynir hver að bjarga eigin skinni.


mbl.is FME: Upplýsti ekki ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband