Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Austurvöllur eða Aðgerðarvöllur

Það hefur verið sérstakt að fylgjast með atburðum dagsins á Austurvelli og án efa eru margar skoðanir á málum, allt frá framgöngu lögeglunnar til aðgerða mótmælenda sem hafa tekið sér stöðu fyrir utan Alþingishúsið. Eftir að hafa fylgst með viðtölunum í sjónvarpi þá er ljóst að það djúp gjá á milli aðila, þeirra sem segjast vera raddir fólksins og þeirra sem þjóna röddum fólksins. Slíkt kann ekki góðru lukku að stýra.

Mótmælendur krefjast kosninga strax eins og það eitt og sér muni leysa þann bráðavanda sem er til staðar. Það er nákvæmlega engin trygging fyrir því að kosningar einar og sér muni skila þeirri niðurstöðu sem að menn eigi eftir að sætta sig við, og það er átakanlegt að horfa á forystumenn í stjórnmálum koma fram í fjölmiðlum og jafnvel tala í hálfkveðnum vísum um stjórnarsamstarfið. Það sér hver heilvita maður að slíkt er ekki uppbyggilegt. Á sama tíma koma forystumenn stjórnarandstöðunnar einnig fram í viðtölum og skjóta föstum skotum og kvarta yfir getuleysi ríkisstjórnarinnar. Er ekki eðlilegt að menn komi með tillögur og hugmyndir að því hvernig megi leysa bráðavandann? Festa, agi og ábyrgð er það sem skiptir máli við núverandi aðstæður en kannski er það óskhyggja að svo verði, sérstaklega á meðan hver höndin er uppi á móti annarri og meiri fréttir berast af aðgerðum mótmælenda en þeirra sem leiða eiga þjóðina fram úr vandanum.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá munu mótmæli ein og sér ekki leysa þau vandamál sem að þjóðin á í núna. Það sama gildir um stjórnmálamenn sem að reyna að slá sig til riddara á ástandinu og telja öðrum trú að þeir hafi lausnir á takteinum. Slíkt er lýðskrum af verstu sort. Við þurfum að treysta innviði samfélagsins og halda virðingu okkar gagnvart helstu stofnunum samfélagsins þrátt fyrir að það sé erfitt nú um stundir.


Að tolla í tískunni

Tími litla mannsins er runninn upp aftur. Það er ekkert merkilegt að vera ofurlaunamaður með ofurréttindi það er svo 2007-legt. Bjarni Ármannsson fyrrverandi bankamaður hefur sannað hið fornkveðna, að það er mikilvægt að tolla í tískunni og taka virkan þátt í þjóðfélagsbreytingunum eins og endurgreiðslan sýnir. Það er erfitt fyrir stórlaxana að fóta sig í íslensku samfélagi þessa dagana enda eru menn úthrópaðir á torgum og strætum, og jafnvel hafa einhverjir gerst svo kræfir að banka í menn á hinum ýmsu stöðum eins og komið hefur fram í fréttum. Það má segja að tími uppgjöranna sé gengin í garð og ný merking falin í því orði svona rétt eins í orðinu skilanefnd. Sú græðgisstefna með óhóflegum launum og launakjörum hefur beðið hnekki en hún eitraði íslenskt samfélag og virðingu manna fyrir grunngildum samfélagsins. Auðvitað var óhófleg einkaneysla og  vanhugsaðar fjárfestingar í fararbroddi hjá mörgum á meðan sumir náðu að sýna fyrirhyggju. Þannig er það alltaf og það er ekki alltaf hægt að bjarga öllum enda ekki nægjanlega margir björgunarbátar til staðar.

Tími ráðdeildar og hagsýni er nú genginn í garð! Sparnaður, nægjusemi og ráðdeild eru lykilatriðið í dag. Öllu má þó ofgera og stundum er vanhugsaður niðurskurður ekki sú lausn sem að hentar, sérstaklega ekki þegar að atvinnuleysi er staðreynd. Sjórnmálamenn verða að sýna leiðtogahæfni og framsýni þegar kemur að þvi að skapa störf og hvetja til fjárfestinga. Fyrirtækin í landinu þurfa hvatningu til þess að starfa áfram og launþegar þurfa að hafa öryggi fyrir því að atvinnan þeirra sé trygg og hafa trú á því að hægt sé að skapa og byggja upp að nýju.

Listin að þræða hinn gullna meðalveg hefur alltaf verið vandrötuð. Einn er sá maður sem hefur grætt mikið og þrætt hinn gullna meðalveg af mikilli kænsku og fyrirhyggju en það er ofurfjárfestirinn Warren Buffet. Buffet hefur t.d. búið í sama húsi síðustu fimm áratugina og berst yfirleitt lítið á, öfugt miðað við marga aðra og hefur gefið yfir 31 billjón bandaríkjadala til góðgerðarmála. Líffspeki hans og fjárfestingarstefna hefur byggst upp á hyggjuviti og fyrirlitningu á eyðslu og óhófi eins og frægt er orðið. Þrátt fyrir mikinn skell þá er enn hægt að græða en það þarf fyrirhyggju og þessvegna fylgir hér tenging á heilræði Buffets: http://articles.moneycentral.msn.com/learn-how-to-invest/10-investing-basics-from-Buffett.aspx Þetta er náttúrulega allt án ábyrgðar svona rétt eins og þegar fólki var ráðlegt með sparnaðinn!


Munu neytendur borga sektina á endanum?

Nú hefur Samkeppnisstofnun skilað lokaniðurstöðu og ákveðið að sekta Haga vegna ólögmætra viðskiptahátta á markaði og maður getur vel skilið Jóhannes í Bónus að hann er lítt glaður með þá sendingu svona rétt fyrir jól. Ég velti því fyrir mér hvort að það sé besta aðgerðin að nota sektir til þess að fyrirbyggja ólögmætar aðgerðir á markaði, sérstaklega þegar að smásalinn hefur yfirburðastöðu. Á endanum mun smásalinn hækka verð sitt eða breyta álagningarforsendum sínum til þess að ná inn fyrir sektinni og það þýðir náttúrulega að neytendur borga brúsann á endanum.


Að skerpa ímyndina

Það var gaman að koma til Vínar á sl. sunnudag. Jólaandinn svífur yfir myndarlega skreytta borgina og nóg að gera hjá kaupmönnunum að  því er virtist. Auðvitað var maður spurður spjörunum úr um ástandið á Íslandi og greinilegt að menn eru misvel með á nótunum, en rétt er að geta þess að það hefur ítrekað komið upp á þeim fundum sem að ég hef sótt  að fólk hefur rangar hugmyndir um ástandið. Það tekur þó steininn úr þegar að fólk heldur að það sé ekkert að bíta og brenna á Íslandi. Þetta er því miður staðreyndin sem að maður finnur fyrir í alþjóðasamstarfinu og fólk telur jafnvel að íslenska ríkið sé gjaldþrota. Mér segir svo hugur að heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands muni fækka enda hefur neikvæð fréttaumfjöllun skaðað íslenska hagsmuni og þá sér í lagi ferðaþjónustuna og þá sem að starfa í þeirri grein, en líklegt er að aðilar í tengdri þjónustu verði líka fyrir skakkaföllum. Það er í raun engin vitglóra í því að telja að Ísland sé ódýrt fyrir útlendinga þegar að gengisáhrifin eru komin inn í alla verðmyndum á vöru og þjónustu, t.d. hefur ferðin með flugrútunni hækkað um 80% á einu ári ef ég fer rétt með. Verð á flugi, veitingum og fleiru hefur einnig hækkað umtalsvert og menn mega ekki gleyma því að verð á sömu liðum í flestum öðrum löndum er mun lægra en gengur og gerist á Íslandi.

Það má líka gera að því skóna að nokkuð klúður hafi átt sér stað þegar kemur að ímyndar- og kynningarmálunum, sérstakalega eftir hrun bankanna og ljóst að það þarf miklu meiri vinnu og fagmennsku til þess að vinna upp þann skaða sem að landið hefur orðið fyrir vegna ákvarðanna sem voru teknar á einni helgi í október.  Umræðan um bankahrun og fjármálaóreglu mun verða tengt nafni Íslands í framtíðinni, það er bláköld staðreynd en það má ekki leggja árar og bát og bíða þess sem verða vill, heldur þarf að sækja markvisst fram í gegnum starfssemi á sviðum lista, vísinda, menningar og ekki má gleyma íþróttunum og æsku landsins í þessu samhengi. Sjálfstæð þjóð verður umfram allt að stuðla að samvinnu og samskiptum á þeim sviðum sem eru líkleg til þess að hjálpa til við að efla ímyndina og græða sárin sem rista djúpt í íslenskt samfélag þessa dagana. Það er hægt en það mun taka tíma og til þess þarf vilja og samstillt átak landsmanna allra.


Að vita eða vita ekki og stjórnmál líðandi stundar

Það hefur verið sérstakt að fylgjast með framgöngu Viðskiptaráðherra undanfarið, þ.e. ef marka má fréttir af atburðum síðustu vikna. Auðvitað skolast alltaf eitthvað til og jafnvel rangt farið með staðreyndir, en það verður að segjast eins og er að Viðskiptaráðherra hefur of oft verið í fréttum þegar minnst hefur verið á að hann hafi ekki vitað eitthvað eða ekki verið kunnugt um eitthvað. Það er ekki gott fyrir stjórnmálamann að vera tengdur of mikið við slíka umræðu án þess að skaðast af henni. Það er í verkahring stjórnmálamanna að vita, sérstaklega þegar menn hafa yfir heilu ráðuneyti að segja og með aðstoðarmenn og ritara sér til hjálpar. Því hefur oft verið haldið fram að góður ritari væri sá eða sú sem að væri alltaf skrefi á undan og með svörin á reiðum höndum þegar á þyrfti að halda. Það virðist sem að aðstoðarmaður ráðherra sé núna farinn að skilja leikinn og er hann mættur í fjölmiðla skömmu seinna til þess að útskýra vanþekkingu ráðherrans á einstökum aðgerðum og verkefnum síðustu vikna. Jú það er nú betra að einhver viti og hafi svörin á reiðum höndum! Kannski eru stjórnmál líðandi stundar farin að líkjast of mikið laginu um manninn sem var á vitlausum stað í vitlausu húsi og á vitlausum tíma.

 

Framferði opinberra starfsmanna

Eftir að hafa fylgst með frægu máli er tengist fyrrverandi fréttamanni RÚV, G. Pétri Matthíasarsyni og núverandi upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar við Geir H. Haarde forsætisráðherra í Forsætisráðuneytinu þá vakna upp ýmsar spurningar. Rétt er að geta þess að ég þekki hvorugan og held ekki með neinum í þessu máli en báðir hafa verið ágætir á skjánum.

Ég get ekki betur séð en að G. Pétur hafi gerst brotlegur gangvart sínum fyrrverandi vinnuveitanda með því að birta áður óbirt efni sem var í eigu RÚV og sennilega eru skýrar reglur um meðferð slíks efnis sem að tekið er upp fyrir stofnunina.

Það hlýtur að kalla á frekari aðgerðir af hálfu hins opinbera sem að hefur núna á sínum snærum starfsmann sem kann að hafa gengið fram með þeim hætti að óeðlilegt kann að þykja. Hér er átt við þá staðreynd að G. Pétur er opinber starfsmaður, sem að vissi og mátti vita að notkun umrædds efnis var í trássi við vinnureglur RÚV, og andstæð reglum um notkun á efni sem að menn vinna með og hafa frjálsan aðgang að í krafti starfs síns.

Ég velti því líka fyrir mér hvernig forsvarsmenn Vegagerðarinnar geta hugsað sér að hafa upplýsingafulltrúa á sínum snærum sem að kynni að gera það sama þar. Hver veit en það er ljóst að ríkar kröfur eru gerðar til opinberra starfsmanna. Mál eins og þetta þarfnast nánari skoðunar og skýringa við og það er ekki óeðlilegt að spyrja hvort að stefnumörkun ríkisins í málefnum opinberra starfsmanna sé pappírsins virði og hvort að komin sé hér fyrirmynd að því hverju opinberir starfsmenn gætu t.d. lekið út um Pétur og Pál án þess að á því sé tekið. Hér er mál sem varðar almannaheill og má alls ekki persónugera á einn eða neinn hátt en mikilvægt að skýr skilaboð hvað sé eðlilegt og hvað ekki.

 


Mótmæli, múgæsing og hvað svo

Það er með ólíkindum að horfa yfir hafið og sjá þau skrílslæti sem að áttu sér stað fyrir utan Lögreglustöðina v. Hlemm, og hreint með ólíkindum að fólk komist upp með skemmdarverk á almannafæri. Ég hef reyndar áður lýst þeirri skoðun minni að lögreglan eigi að sjá til þess að fólk fari ekki út fyrir almennt velsæmi. Auðvitað er það viðkvæmt eins og ástandið er núna. Mér er til efs að í nokkru siðuðu ríki hefði það verið látið átölulaust að fólk hefði í frammi skemmdarverk, afbakað styttu af lýðveldishetju okkar á Austurvellli, unglingar henda eggjum í Alþingishúsið o.s.frv.

Löghlýðnir borgar þessa lands eiga það skilið að lög og reglur séu virtar ef ekki þá er stutt í það að fólk fari að valda skemmdum á eignum almennra borgara með tilheyrandi eignatjóni og spjöllum. Hvað mun gerast í miðborg Reykjavíkur næsta laugardag. Munu verslunar- og fyrirtækjaeigendur eiga von á því að rúður verði brotnar og skemmdarverk unnin, allt í nafni friðsamra mótmæla. Það að alþingismaður standi svo í fylkingarbrjósti fyrir framan Lögreglustöðina á Hlemmi vekur upp spurningar? Mótmæli, múgæsing og hvað svo?


Sáðmaðurinn

Þegar er mér enn minnisstætt þegar ég lagði inn mínar fyrstu krónur í banka sáðmannsins ofarlega á Vesturgötunni. gyllta lógóið á grænu bankabókinni sýndi mynd af ,,sáðmanni Íslands” að störfum, þeim sama og ræktaði jörðina svona eins til þess að minna mann á að til þess að uppskera þá þurfti maður fyrirhyggju og natni. Það var ekki nóg að eiga græna jörð og frjósama akra það þurfti líka að huga að ústæðinu, og til þess að uppskera þá þurfti að sá og fylgja starfinu eftir og rækta jarðveginn.

Frá unga aldri var ,,sáðmaðurinn” mér ofarlegan í huga og flestar mínar krónur fór inn á grænu bankabókina með ,,gyllta sáðmanninum” utan á. Í þeirri bók voru leikreglurnar hreinar og beinar. Svörtu færslurnar sýndu innlegg og þau rauðu sýndu úttektirnar. Hagfræði ,,sáðmannsins” var einföld og vel skiljanleg þeim sem átti í viðskiptum við  hann. Á 10 fersm. sást allur sannleikurinn, og það þurfti ekki fleiri vitna við, ekki var hægt að eyða meiru en aflað var. Þá naut maður þess að fara í bankann og leggja inn og taka út eftir þörfum, enda leikreglurnar skýrar og engin ofurtilboð að trufla mann. Þjóðfélagsmyndin breyttist hins vegar hratt á þessum árum en gildi ,,sáðmannsins” létu smátt og smátt undan í samfélagi sem að óx fiskur um hrygg. Nýtt fjármálaumhverfi og ný viðmið leystu ,,sáðmanninn” undan skyldum sínum, hann varð púkó og tákn gamla tímans. Tákn gamla tímans þegar menn biðu í röðum eftir viðtölum við bankastjórana til þess eins að kaupa víxil, enda var framboðið af peningum takmarkað. Auðvitað var ,,sáðmaðurinn” ekki óskeikull en hann var alltaf þarna eins og tákn um þann sem stóð af sér öll veðrabrigði og fólk lærði að takast á við hann og þjóðfélagið hafði innbyggða stoppara sem sáu til þess að menn fengju ekki og mikið í einu. Sá tími leið undir lok eins og margt annað, græðgi og skeytingarleysi blindaða marga góða menn með góðar hugmyndir

Kannski kemur tími ,,sáðmannsins” aftur. Tími þar sem að verðmætamat fylgir raunverulegum stærðum í efnahag landsins, tími þar sem að virðing fyrir ráðdeild og nægjusemi er í hávegum höfð. Kannski að það sé kominn tími á grænu bankabókina aftur!

 


Að standa með pálmann í höndunum

Það er greinilegt að ástandið á Íslandi hefur farið eins og eldur í sinu um heimsbyggðina og ljóst að fjármálakreppan hefur borið hróður okkar víða. Það er sérstakt fyrir mig að starfa í alþjóðlegu umhverfi þessa dagana þar sem að margir hafa sent mér samúðarkveðjur og ástandið hefur verið mjög sérstakt. Í dag fékk ég kveðjur frá Katar, Tælandi og BNA, og greinilegt er að menn eru með á nótunum. Internetið er einn allsherjar upplýsingamiðill þar sem að fréttir flæða óhindrað og skiptir þá engu máli hversu gáfulegar eða réttar þær eru. Sumir halda líka að menn hafi ekkert að bíta og brenna á Íslandi lengur.

Spekingarnir stíga margir á stokk og flytja lærðar greinar um ástandið á meðan  auðmenn Íslands bera sig aumlega, en yfir mörgum fyrirtækjum þeirra vakir vofa gjaldþrotsins. Andi góðærisins er farinn, en vofa hversdagsins tekin við að brýna ljáinn. Uppi eru duldar meiningar um ástand bankanna, og það virðist sem að fyrrum eigendur telji að bjarga hefði mátt bönkunum ef rétt hefði verið staðið að málum. Tíminn einn mun leiða í ljós hversu mikil gæði eru fólgin í  eignasöfnum bankanna og hversu miklir fjármunir munu skila sér. Aðalatriðin eru farin að snúast upp í anhverfu sína og menn benda hver á annan og hrópa á torgum. Greyið hann Davíð má ekki opna orðið munninn án þess að allur málflutningur hans sé kominn í fjölmiðlana sem að síðan sækja á stjórnmálaforingjana til þess að fá þeirra álit. Mikil er máttur Davíðs í kastalnum á Arnarhóli!

Það vakti athylgi mína að Björgólfur eldri ítrekaði í frægu Kastljósviðtali að gott samstarf hefði verið haft við fjármálaeftirlitin í Bretlandi, Hollandi og á Íslandi. Það var undirliggjandi í málflutningi Björgólfs að hann var ekki sáttur við meðferðina né skilningsleysið af hálfu stjórnvalda sem með aðgerðum sínum settu allt á annan endann með setningu neyðarlaganna.

Sennilega hafa flestir eitthvað til síns máls, en það breytir engu núna þar sem framundan er mikil vinna hjá fjölskyldum og fyrirtækjum þess lands við að halda sér á floti. Staðreyndirnar eru einfaldar, ef fyrirtækin geta ekki haldið sér á floti og skapað verðmæti, þá munu fjölskyldurnar í landinu ekki gera það heldur. Innviðir samfélagsins hvíla ekki á niðurstöðu spjallþáttanna eða á hnútukasti stjórnmálaforingjanna og embættismannanna heldur því sem kemur í pyngjuna.

Það er greinilegt að menn eru farnir að lýjast á stjórnarheimilinu enda hefur atgangurinn verið töluverður og mikil pressa á mönnum á síðustu vikurnar. Það þurfa allir að kasta mæðinni og fá tíma til að hvílast, hugsa sitt ráð og leggja drög að sinni framtíð. Sumir ákváðu að taka ekki slaginn og létu sig hverfa úr hringiðu stjórnmálanna eins og Guðni Ágústsson hefur nú gert, kannski ekkert óeðlilegt sé tekið mið af því umróti sem að hefur átt sér stað á stjórnmála- og efnahagssviðinu. Bóksalinn, Bjarni Harðarson, var ekki lengi að taka upp fyrri iðju og er byrjaður að selja bækur aftur. Jú, alþingismenn eru líka venjulegir þegnar sem að eiga sér venjulegt líf eftir að þingmennskunni lýkur.

Sennilega eru það lögfræðingar og endurskoðendur sem að standa með pálmann í höndunum í dag. Mörg álitaefni hafa komið upp í kjölfar neyðarlaganna og þau þarf að útkljá fyrir dómstólum. Lögfræðingarnir þurfa að skrifa álitsgerðir og setja fyrirtæki í þrot á meðan endurskoðendur reikna allt á versta veg. Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

Hið eina sanna góðæri er það sem kemur innan frá og því megum við ekki gleyma!

 


Að ganga í takt við tímann

Veturinn 1850 markaði mikil tímamót í sögu lands. Lærði skólinn var í uppnámi vegna þess að skólapiltarnir þóttu baldnir og voru lítt fáanlegir til þess að hlýða stjórnarnefnd skólans. Undir niðri kraumaði sú hugmynd að reka einhverja af skólapiltunum úr skólanum, en það þótti ekki líklegt til árangurs þar sem að talið var að þá  myndi skólahald hreinlega leggjast af. Yfirstétt þess tíma taldi að það myndi leiða til þess að ..dónarnir'' lágstéttin myndi uppskera of mikla samúð.

Sunnudaginn 10. febrúar það sama ár, kvaddi Sveinbjörn Hallgrímsson, ritstjóri Þjóðólfs sér hljóðs eftir sunnudagsmessuna í Dómkirkjunni og krafðist þess að dómkirkjupresturinn sr. Ásmundur Jónsson segði af sér því að hann sé svo lágmæltur að söfnuðurinn heyri ekki í honum. Þetta var tími mikilla væringa og umróts á Íslandi. Málin gengu svo langt að sr. Ásmundur studdur af yfirstéttinni fékk því framgengt að Sveinbjörn var sektaður fyrir kirkjuspjöll. Stuttu seinna voru uppi hugmyndir að skipa Jón Sigurðsson sem yfirkennara Lærða skólans enda töldu menn hann eina raunhæfa kostinn til þess að koma reglu á hlutina og þá sterku ólgu sem var til staðar víðsvegar í þjóðfélaginu.

Biskupinn yfir Íslandi ritar bréf til innanríkisráðherrans Mathiasar Hans Rösenorns og segir ,,Almúginn heldur fundi og myndar þannig sem heild óhugnanlegt vald. Embættismenn eru einskis virtir - nokkrir þeirra eru líka miður gætnir - almúginn lítur á þá sem þjóna sína, sem hann getur blátt áfram sagt upp þegar hann heldur að hann hafi ekki lengur not fyrir þá. Svona standa málin í dag - og þannig hefur það lengi verið að maður þorir tæpast að láta nokkuð út úr sér án þess að eiga það á hættu að það berist allt bjagað út á meðal fólksins....Hvarvetna í landinu stefnir í stjórnleysi."

Kannski að tímarnir í dag séu ekki ólíkir að einhverju leiti því ástandi sem var 1850. Viljinn til breytinga er til staðar og ráðamenn verða að ganga í takt við kröfurnar í þjóðfélaginu til þess að einangra sig ekki með ummælum sem bera keima af taktleysi og andstöðu við ríkjandi ástand. Þjóðin þarf leiðtoga sem kunna að hlusta og skilja aðstæður hverju sinni, svona rétt eins og Jón Sigurðsson sem að skynjaði mikilvægi tíðarandans forðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband