Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Morgunblaðið tekur slaginn
9.11.2008 | 12:44
Það var nokkuð sérstakt að sjá blaðamann Morgunblaðsins sem að hefur þær skyldur að flytja fréttir af starfsemi Alþingis stíga í pontu á borgarafundi í Iðnó og vera í kastljósinu í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna. Það er nokkuð sérstakt að menn komi fram beggja megin borðsins og ætli sér að flytja hlutlægar fréttir af ástandi landsmála á sama tíma. Kannski förum við að sjá blaðamennina segja eina tegund af fréttum og vera síðan með aðra opinbera skoðun? Hvað veit maður!
Múgæsing á Austurvelli
9.11.2008 | 12:18
Það er erfitt að sitja í erlendu landi og fylgjast með þeim múgæsingi sem að hefur átt sér stað á Austurvelli í dag. Það er ljóst að lögreglan virðist ekki hafa ráðið við ástandið. Það er ljóst að við erum að fara inn nýja tíma þar sem að allt getur gerst. Það er þó lágmark að lögreglan hafi úrræði til þess að verja helstu stofnanir ríkisins og innviði stjórnkerfisins fyrir þeim sem hyggjast stunda skemmdarverk.
Það er skiljanlegt að fólk sé reitt og því sé stórlega misboðið en það er stigsmunur á milli mótmæla, óaldar og uppistands. Ég hef reyndar fylgst með slíkum mótmælum í Sviss og það er ljóst að Lögreglan hér myndi aldrei láta það líðast það sem sást á Austurvelli. Sennilega höfum við framleidd meira af skemmtiefni fyrir erlendu fjölmiðlana sem fylgjast grannt með ástandinu og flytja margir hverjir neikvæðar fréttir af ástandinu.
Það þarf að vopna lögregluna svo að hún hafi fælingarmátt. Kannski það verði best fyrir alla við sjáum að ofbeldisglæpir eru tíðir á Íslandi og margar alvarlegar líkamsárásir eiga sér stað. Í Sviss, þessu landi friðarins þá ganga ungir hermenn um stræti borganna með hríðskotabyssuna utan á sér, jafnvel inn á Mcdonalds og ekkert þykir sjálfssagðara. Sama gildir um lögregluna sem er vopnuð í sínu daglega amstri. Þetta virðist ekki pirra almenning sem að ber virðingu fyrir lögum og reglu, svona oftast nær. Það er hins vegar ljóst að Lögreglan í Reykjavík þarf að búa sig undir breytt landslag og ég skil ekki hvernig þessir lögreglumenn fást til þess að standa beint fyrir framan fjöldann og jafnvel inn á milli hans ekki vitandi hvað menn hafa í hyggju. Maður verður að taka ofan fyrir slíku fólki sem er í þjónustu okkar á viðsjárverðum tímum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Lýðræðið í kjörbúðinni
8.11.2008 | 18:58
Í kjörbúðinni geta neytendur gengið inn á milli hillanna og valið þær vörutegundir sem að þeim geðjast að. Þetta er hinn virki réttur neytandans að láta sig verð, gæði, útlit og þjónustu ráða för þegar að ákvarðanirnar eru teknar. Því miður þekkjum við öll að stundum hlaupum við á okkur og kaupum hluti sem eru okkur ekki til gagns né hafa þeir praktískt notagildi.
Þegar að stjórnmálunum kemur þá gilda þau lögmál að kjósendur geta valið eins og í kjörbúðinni, vörutegund a, b eða c. Í stjórnmálunum velja menn flokka og málefni og eftir að því ferli líkur þá eru engar tryggingar í boði fyrir því að menn hafi valið rétt. Það eru með öðrum orðum engar tryggingar fyrir því að flokkar með ólíkar skoðanir og bakland nái því fram sem að kjósendur ætlast til af þeim.
Nú þegar að stjórnmálin hafa tekið völdin í íslensku samfélagi og bankarnir ríkisvæddir þá er ljóst að menn verða að fara að spyrja grundvallarspurninga, eins og hvert stefnir þjóðin? Hvaða lausnir hafa stjórnmálamenn upp í erminni? Fjölskyldur vilja fá að vita hvort þær haldi fasteignum sínum og hvernig þau geta brúað bilið til þess að mæta skuldbindingum sínum?
Sennilega eru ráð hagfræðinganna, Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega skoðunarverð, þ.e. að ríkið hlaupi undir bagga með þeim fjölskyldum sem að standa illa en hægt er að bjarga. Slík greiningarvinnu þarf að vinna við snarasta og það þarf að leiðbeina fólki út úr vandanum. Það er líka ljóst að sumum verður ekki bjargað og er það miður en það þarf þá að finna aðrar lausnir til þess að tryggja stöðugleika fjölskyldunnar og hagsmuni hennar til framtíðar.
Fyrirtækin í landinu búa við enga greiðslumiðlun og það er eitt það alversta sem að getur gerst í frjálsum viðskiptum. Tjónið er þegar orðið verulegt og ljóst að menn eru við það að segja bingó og búið. Vinsamlega takið við þrotabúinu. Það er mörg stöndug fyrirtæki sem að eru fórnarlömb sérstakra aðstæðna og það þarf að hjálpa slíkum fyrirtækjum til þess að ná að sigla í örugga höfn svo að þau geti haldið uppi atvinnu. Það verður með öðrum orðum að dæla fjármagni inn í kerfið svo það sigli ekki allt í strand.
Það er ekki annað en hægt að reiðast þegar maður heyrir þingmenn á hinu háa Alþingi segja að þeir fái ekkert að gert og séu eins og afgreiðslufólk á kassanum í kjörbúðinni. Stjórnmálamenn eiga ekki að vorkenna sér, þeir eiga að blása kjark og þor í alþýðu Íslands, þor og þrek svo fólkið fái skilið að það hefur kosið sanna leiðtoga til þess að stýra málum. Ef menn bera ekki virðingu fyrir sjálfum sér og því hlutverki sem menn hafa valið sér þá eiga þeir hiklaust að stíga til hliðar.
Lýðræðið í kjörbúðinni er gott og virkt þegar að allar breyturnar eru þekktar og ekki kastast í kekki, en þegar neytendur telja að þeir hafi verið hafðir að ginningarfíflum þá sneiða menn framjá viðkomandi kjörbúð þegar að versla á næst. Það er hið virka lýðræði í hnotskurn.
Tapað fé og töpuð tækifæri
27.10.2008 | 22:14
Það er að færast fjör í leikinn. Björgólfur Thor Björgúlfsson var fastur fyrir í Kompásþættinum í kvöld. Það var greinilegt að hann var langt í frá með að vera ánægður með ,,ríkið'' eins og hann orðaði það og vildi ekki gera upp á milli manna né stofnana. Ummæli Björgólfs hafa þó opnað nýjar dyr á þjóðvæðingu bankanna, en hann sagði að það hefði verið haft lítið samráð við ráðamenn bankanna á síðustu metrunum, og hugmyndum þeirra ekki einu sinni svarað. Stóra atriðið er náttúrulega tilboð breska fjármálaeftirlitsins sem að engin hefur minnst á fyrr. Ef satt er þá er ljóst að um mikið klúður er að ræða, svona eins og menn hafi farið á taugum og tekið ákvarðanir sem virðast í fyrstu ætla að verða okkur hvað dýrastar.
Það er ljóst að menn eiga eftir að munnhöggvast um atburðarrásina og tíminn einn mun leiða í ljós hvað er rétt og hvað er rangt. Það er hinsvegar ljóst af málflutningi Björgólfs að hann hefur talið að leysa hefði mátt þá stöðu sem að kom upp í samskiptum Bretlands og Íslands með Icesave reikningana ef menn hefðu talað saman og reynt að ná áttum.
Það læðist að manni sá grunur að við höfum tapað meiri verðmætum og meiri hagsmunum á því að láta Glitni falla, hrunadansinn varð ekki stöðvaður í framhaldinu eins og menn máttu búast við. Auðurinn kemur og auðurinn fer en sárast er þó að orðspor okkar er farið líka, skaðinn á ímyndinni og viðskiptalegum hagsmunum Íslands er mikill og fyrir því munu einstaklingar og fyrirtæki finna fyrir í framtíðinni.
Af hverju ættu menn ekki að trúa málflutningi Björgólfs sem hefur víðtæka reynslu af alþjóðlegum viðskiptum og fjárfestingum? Hann hefur haldið sjó og átt farsælan feril í sínum viðskiptum og tekið margar gæfuríkar ákvarðanir þar sem forsjálni og góður skilningur hefur verið til staðar. Hvaða hag hefur hann af því að segja ósatt í núverandi stöðu?
Orðum fylgir ábyrgð
23.10.2008 | 20:51
Það var sérstakt að hlusta á málflutning dr. Jóns Daníelssonar hagfræðings við London School of Economics í Kastljósinu í kvöld. Hann beindi spjótunum að Fjármálaeftirlitinu og mistökum þess, og gagnrýndi líka slælega frammistöðu í almannatengslunum. Það er hægt að taka undir þessa gagnrýni þar sem að sendiráð Íslands t.d. í Bretlandi, þar sem að hitinn var hvað mestur virtist ekki með á nótunum. Yfirlýsingin sem að sendiherrann las upp fyrir þarlenda fjölmiðla verður lengi í minnum höfð. Maður hreinlega skammaðist sín fyrir að vera Íslendingur eftir að sú tilkynning fór í loftið. Ég ætla þó ekki að varpa sök á einn eða neinn, kannski eru okkar bestu menn ekki undirbúnir undir verk af þessu tagi.
Það er ljóst að Fjármálaeftirlitið hefði átt að grípa inn í atburðarrásina mun fyrr, áður en í krísu var komið. Almenningur er núna að tapa gríðarlegum fjárhæðum á því að hlutirnir fóru á versta veg. Eins og Jón benti á þá hefði verið betur að byrja aðgerðirnar fyrr og selja hluta af eignunum áður en efnt var til brunaútsölunnar.
Eftir að hafa hlustað á samtal Darlings og Árna M. lesið upp í Kastljósinu þá kemur manni svo sem ekkert á óvart að málflutningurinn í Bretlandi sé eins og hann er, en það var beinlínis varað við því að orðspor Íslands myndi bíða hnekki. Sannast hið fornkveðna, orðum fylgir ábyrgð.
Svo kemur Viðskipta- og Bankamálaráðherrann sjálfur fram í dag og segir að launin hjá ríkisbankastjórunum sé of há og þau þarfnist endurskoðunar. Það er ekki nema von að almenningur sé í sárum á meðan slíkir réttir eru fram bornir, á borð þar sem að lítið er til skiptanna. Er Viðskiptaráðherra á réttum stað, á réttum tíma og í réttu hlutverki? Hefði ráðherrann ekki átt að sjá hlutina fyrir og taka tillit til núverandi ástands?
Það er von mín að menn komist aftur í takt við raunveruleikann, þjóðin hefur ekki efni á öðru núna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.10.2008 kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hí hí keisarinn er í engum fötum!
12.10.2008 | 13:26
Það var sérstakt að hlusta á Upplýsingafulltrúa Utanríkisráðuneytisins segja að sjónarmiðum Íslands hafi verið komið á framfæri í erlendum fjölmiðlunum á þeim blaðmannafundum sem hafi verið haldnir á Íslandi í liðinni viku. Því miður hefur eitthvað skolast til í þeim málum enda virðist sem enginn hafi skilið það sem fram hafi farið því það hefur ekkert komið frá íslenskum stjórnvöldum í erlendum fjölmiðlum nema fall bankanna! Ég get tekið undir með Upplýsingafulltrúanum að allt sé að gerast svo hratt og þess frekar þurfum við að bregast hraðar og markvissar við. Um það eru flestir þeir sem eru í viðskiptum og almannatengslum sammála um. Ef Utanríkisráðuneytið hefur aðrar skoðanir og telur að hægt sé að klæða keisarann í fötin eftir að innsetningarathöfnin er um garð gengin þá er illa komið fyrir okkur. Ég get vel skilið að mikil pressa sé á þeim sem eru í framlínu íslenskra stjórnmála núna en látum ekki telja okkur trú um að það sé ekki lykilatriði að bregðast hratt við á 21. öldinni. Erum við að bíða eftir því að rauður rammi renni yfir skjáinn: Beware of the Icelanders!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðför að íslenskum hagsmunum
10.10.2008 | 20:37
Mikið er ég sammála Sigmundi Gunnlaugssyni skipulagshagfræðingi sem var í Kastljósinu í kvöld, en hann sagði aðförina að Kaupþingi í Bretlandi af pólitískum toga og það er ljóst að Ríkisstjórn Íslands verður að stíga fram fyrir skjöldu og verja íslenska hagsmuni á erlendri grund betur en gert hefur verið. Það er ekki hægt að kyngja því að farið sé að íslenskum fyrirtækjum með þeim hætti eins og bresk stjórnvöld hafa orðið uppvís af. Slíkt er ekki til eftirbreytni og hefur ekkert með eðilieg afskipti að gera heldur eru þau þáttur í stórfelldum skemmdarverkum þar sem að ímynd heillar þjóðar er tröðkuð niður í svaðið. Ríkisstjórn Íslands verður að að láta rannsaka þetta mál og senda skýr skilboð til þeirra kumpána Brown og Darling. Annar mikilvægt atriði kom fram í málflutningi Sigmunds þegar hann gat þess að almannatengslin hafi verið lítil og léleg þar sem að enginn hafi skýrt út málstað Íslands eða reynt að tala máli landsins í Bretlandi. Bretarnir eru snillingar að koma fram eins og ,,Gentlemen" en segja síðan allt aðra sögu í eigin fjölmiðlum og okkar stjórnmálaforingjar eru ekki á heimavelli þar. Almannatengsla er þörf og talsmaður Íslands þarf að vinna í því að tala við bresku pressuna og það þarf að gerast strax og sá aðili á að vera til reiðu í íslenska sendiráðinu í London.
Það er rétt sem að forstjóri Bakkavarar, Ágúst Guðmundsson segir en hann telur að ímynd Íslands hafi orðið fyrir óbætanlegum skaða og sá skaði muni verða verulegur ennþá eftir áratug. Því miður rennir mér í grun um að þetta sé sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. Verðmyndum á eignum íslenskra fyrirtækja og t.d. framkoma gagnvart íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum mun líða fyrir eftir verðfallið á ímyndinni sem er stór hluti af allri velgengi í viðskiptum. Dæmið um námsmanninn og leiguna í London segir allt sem segja þarf. Stjórnmálamenn verða að koma út úr skelinni og taka þátt í því að verja íslenska hagsmuni og þar dugir engin linkind. Við lifum á tímum alþjóðavæðingar en erum samt eins og aukvisar þegar kemur að þvi að tala okkar máli og það er stór misskilningur að halda að enginn sé að hlusta á okkur, við erum kastljósinu og verðum þar um hríð og það verða stjórnmálaforingjarnir að skilja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.10.2008 kl. 06:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stjórnvöld verða að eyða óvissunni
10.10.2008 | 13:07
Brýnasta hagsmunamál íslenskra fyrirtækja og einstaklinga er að eðlileg gjaldeyrisviðskipti komist á hið fyrsta enda hver dagur dýrmætur án þeirra. Það er ekki einu sinni hægt að millifæra af erlendum reikningum inn á reikninga í íslenskum bönkum því mikil óvissa er með það hvaða gengi er í gangi. Látum það þó liggja á milli hluta, aðalmálið er að hægt sé að greiða úr viðskiptahagsmunum Íslands og íslenskra fyrirtækja. Seingangurinn mun ekki aðeins auka á óstöðugleikann heldur geta viðskiptahagsmunir íslenskra fyrirtækja skaðast verulega. Á endanum bitnar slíkt tjón á okkur öllum. Það er mér enn í fersku minni þegar að ég sótti Argentínu heim þegar að fjármálalíf landsins var svo til lamað 2001. Ástandið á götunum var ótryggt og almenningur lét reiði sína bitna á því sem fyrir varð.
Nú þarf markvissar aðgerðir og lausnir sem gagnast þjóðarskútunni strax í dag!
Ímynd Íslands í heimsmiðlunum
9.10.2008 | 20:19
Það er erfitt að vera á erlendri grund og fylgjast með þeim veruleika sem að nú blasir við íslenskum fjölskyldum, íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum yfirleitt. Það fylgir því einhver andleg kreppa að takast á við erlenda samstarfsmenn þessa dagana sem að fylgjast með erlendu fjölmiðlunum sem eru margir hverjir með ítarlegar fréttir af íslenska ástandinu. Auðvitað reynir maður að útskýra ástandið eins og hægt er en í landi eins og Sviss þar sem stöðugleiki er mikill þá skilja menn ekki hamfarinar en ljóst er af viðtölum að menn hafa litla trú á fjármálakerfinu, sérstaklega eftir alla matreiðsluna og umræðuna í erlendum fjölmiðlum.
Ímynd Íslands skiptir miklu máli og það má ekki gerast að blaðamannafundir séu haldnir í því formi eins og ríkið hefur gert frammi fyrir heimsfjölmiðlunum. Eftir að hafa horft á umgjörðina á þessum blaðamannafundum þá virðist manni við fyrstu sýn að þeir séu illa hugsaðir þegar kemur að því að skila ímynd Íslands út á við. Skjaldarmerki Íslands sést hvergi og húsnæðið er hreinlega of lítið og umgjörðin viðvaningsleg, allavega er það mitt mat eftir að hafa fylgst með álengdar.
Damage control eða hámörkun ástandins hefur ekki verið nýtt þar sem að engir sérfræði talsmenn hafa verið fengnir til þess að tjá sig um hag Íslands og stöðu þess í alþjóðasamfélaginu. Það virðist engin stefna hafa verið í gangi þegar kemur að því að miðla jákvæðum fréttum af íslenska fjármálakerfinu, ríkisfjármálum o.s.frv. Slíkt ætti að vera forgangsverkefni við núverandi aðstæður. Það er alveg nóg að hafa mistekist í hagstjórninni það er óþarfi að glutra niður mikilvægum tækifærum í að tala máli íslenskra hagsmuna og hámarka núverandi stöðu.
Það hefur einnig verið áberandi að ummæli forystumanna hafa verið rangtúlkuð í erlendum fjölmiðlunum og jafnvel virðist sem að slíkt hafi þegar valdið miklu og alvarlegu tjóni. Það er mikilvægt við núverandi aðstæður að hæfur fjölmiðlafulltrúi sé hafður með í ráðum þegar menn ræða framtíð Íslands.
I didn't do it. It was David!
6.10.2008 | 20:40
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er vandinn made in USA!
Alan Greenspan fyrrum Seðlabankastjóri BNA
Jæja þá hafa aðgerðirnar litið dagsins ljós. Þung ský eru yfir þjóðfélaginu og maður sér fram á kaldan vetur. Í kvöld dró ég fram gammósíurnar mínar og hef lagst til hvílu. Á morgun kemur nýr dagur með nýjum tækifærum - líka fyrir fólk í gammósíum!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)