Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ballið er búið

Jæja þá er ballið búið og sætasta stelpan á dansleiknum farin til síns heima en eftir standa vonbiðlarnir og ráða sínum ráðum. Kossinn sem kveikti neistann forðum er grafinn og gleymdur, en það gerir ekkert til því það er alltaf hægt að koma nýjum dansherrum út á gólfið. Þeir sem hafa staðið utan sviðsljóssins hafa nú tækifæra á að stíga inn á sviðið. Þjóðin hefur því miður engan áhuga á dansleikjum núna heldur snúast hlutirnir um að hafa starfhæfa ríkisstjórn næstu mánuðina enda bíða brýn úrslausnarefni, sértækar aðgerðir í atvinnumálum, aðgerðir til handa fjölskyldum í landinu og síðst en ekki síst að fyrirtækin í landinu geta starfað óhindrað.  Öll óvissa um stjórnarfarið mun ekki bæta núverandi ástand heldur er líklegra að biðstaða skapist í þjóðfélaginu á meðan beðið er. Fyrst að núverandi ríkisstjórn með ríflegan þingmeirihluta gat ekki haldið samstarfinu gangandi næstu mánuðina þá er ljóst að óvissa ríkir um framhaldið. Nú er bara að vona að næsta ríkisstjórn verði ekki vanhæf líka!

 


Björgvin spilaði út ásnum á ögurstund

Ólíkt hafast þeir að, stjórnmálamennirnir sem að segja af sér ráðherradómi, og  embættismaðurinn sem er þvingaður til þess að segja af sér. Ég held að þjóðin hafi kallað eftir þessum aðgerðum en menn kusu ekki að ganga í takt við vilja þjóðarinnar. Hvað sem því líður þá er ljóst að forstjóri Fjármálaeftirlitsins getur ekki bankað aftur upp á hjá gamla vinnuveitandanum. Þessu eru öfugt farið í pólitíkinni því kjósendur muna aldrei lengra en einn dag í einu og vitandi þetta hefur Björgvin væntanlega spilað út sínum ás núna á ögurstund.

Á endanum eru það náttúrulega kjósendur sem að veita mönnum umboð til þess að halda áfram en það er ólíklegur veruleiki embættismannsins og stjórnmálamannsins þar sem sá fyrrnefndi á ekki afturkvæmt en hinn getur átt 9 líf.


Stjórnarkreppa að skella á?

Hlutirnir gerast hratt þessar stundirnar og með afsögn viðskiptaráðherra og uppsögn forstjóra Fjármálaeftirlitsins tekur við ákveðin óvissa. Það hefði verið eðlilegra að þessi uppsögn hefði komið fyrr í ferlinu þar sem núna er stutt til kosninga og nauðsynlegt að halda landsstjórninni saman fram að þeim. Það er hreint skelfilegt til þess að hugsa að í hönd fari mánuðir þar sem að ein allsherjar pattstaða sé í spilunum, slíkt er hvorki gott fyrir þegna þessa lands né þau fyrirtæki sem að nú róa mörg hver lífróður víð það að reyna að halda sér á floti. Kannski verður búið að slíta stjórnarsamstarfinu þegar kemur fram á kvöld? Hver veit?

Af hverju tekur viðskiptaráðherra þennan pól í hæðina núna þegar menn hafa ekki stigið í takt við vilja fólksins í langan tíma. Lannski hefði verið eðliegt að menn biðu allavega eftir niðurstöðu af fundi forystumanna stjórnarflokkanna áður en þessum ás er spilað út á ögurstund. Það er eins og menn séu að reyna að bjarga sér af sökkvandi skipi til þess eins að segja að þeir hafi axlað ábyrgð og til þess er leikurinn gerður að geta horft framan í kjósendur í framhaldinu. Það er greinilegt að Samfylkingin hefur ekki getað höndlað núverandi ástand og flestir forystuþingmenn hennar eru þegar búnir að kikna undan pressunni eins og komið hefur fram í fjölmiðlum.

Spurning dagsins er hafa menn kjark og þor til þess að halda stefnunni fram að kosningum? Mun það breyta einhverju að fá inni nýja ríkisstjórn í 3 mánuði?

 

 


Fast skotið hjá Birni

Dómsmálaráðherra skýtur föstum skotum í pistli sínum á www.bjorn.is þar sem að hann ræðir um framkomu þingmanna vinstri grænna og ræðir meinta óvirðingu þeirra við störf lögreglumannanna sem voru að voru að verja þinghús landsmanna fyrir ágangi mótmælenda. Maður veltir því fyrir hvert þjóðfélagið stefnir þegar að þingmenn þjóðarinnar sjást á meðal mótmælenda þar sem verið er að grýta lögreglumenn og vinna skemmdarverk. Fjölmiðlar hafa verið duglegir að sýna frá mótmælunum og er það vel en þeir ættu líka hiklaust að spyrja þingmenn út í hugmyndir þeirra um löggæslu í landinu og hvað teljist eðlilegt og hvað ekki, sérstaklega í því árferði sem nú ríkir. Það er mikilvægt að kalla eftir afgerandi skoðunum þeirra þingmanna sem hafa sést á stöðum þar sem að hörð mótmæli hafa verið höfð í frammi og árásir hafa verið gerðar á opinberar stofnanir. Þingmenn hafa einmitt þann starfa að setja þegnunum lög sem allir verða að beygja sig undir. Sannast kannski hið fornkveðna: Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða!


Þingmenn hafa farið af taugum

Síðustu dagar hafa sýnt svo ekki verður um villst að vissir þingmenn hafa farið af taugum og ekki ráðið við þá pressu sem að sett hefur verið á þá. Þeir hafa verið duglegir að komið fram í fjölmiðlum og ummæli þeirra hafa oft á tíðum verið misvísandi. Það er ljóst að við erum að fara inn í tíma þar sem að þjóðin þarf sterka og réttsýna leiðtoga. Höfum við 63 leiðtoga á þingi? Þetta er grundvallarspurningin í dag? Höfum við leiðtoga sem að geta tekið óvinsælar ákvarðanir á versta tíma? Í næstu alþingiskosningum þá mun þjóðin kalla eftir fólki sem að hefur afgerandi forystuhæfileika enda hefur hún ekki efni á öðru. Þjóðin þarf að gera upp við sig hvort að hún vill skila lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og skrúfa fyrir lífæðina  eins og vinstri grænir hafa lagt til. 

Þjóðin þarf að fá leiðtoga sem að skynja langtímahagsmuni okkar og hvað sé okkur fyrir bestu í núverandi ölduróti fjármálamarkaðanna. Þjóðin þarf leiðtoga sem að geta blásið henni bjartsýni í brjóst og fengið fólk til þess að trúa því að hægt sé að sækja fram á við.

Það er ljóst að það verður erfitt að fá fólk í framboð sérstaklega ef að stjórnmálamenn framtíðarinnar mega eiga von á því að Hallgrímur Helgason rithöfundur banki upp á hjá þeim ef þeir standa sig ekki!

 

 


Aðför að Alþingi Íslendinga

Það hlýtur að vera krafa hins almenna borgara þ.e. þeirra sem að krefjast þess að farið sé eftir landslögum að lögreglan gangi fram fyrir skjöldu og rannsaki strax aðförina að Alþingi Íslendinga. Það gengur ekki í lýðræðisríki að helstu stofnanir þjóðfélagsins séu svívirtar í viðurvist hins almenna borgara og að ekki sé tekið á málum. Hveru eru skilaboðin til æsku landsins með því?

Hegningarlögin er skýr: 

» 100. gr almennra hegningarlaga: „Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.“


Lýðræðið fótum troðið

Þegar frá líður þá munu menn eflaust rýna í söguna og þá svörtu daga þar sem að helstu stofnanir lýðveldisins hafa sætt árásum, allt í nafni borgararlegrar óhlýðni. Svo langt hafa menn gengið að eldar hafa verið kveiktir og veist hefur verið að lögreglu auk þess sem að skemmdir hafa verið unnar á mörgum mannvirkjum. Meirihluti þjóðarinnar hefur verið í gíslingu því að lögreglan hefur ekki ráðið almennilega við ástandið eða ekki haft mannafla til þess að taka á málum og því hefur hinn löghlýðni meirihluti mátt líða fyrir. Það er náttúrulega ekki hægt að setja alla í sama flokk en það er ljóst að lögreglan verður að gæta hagsmuna borgaranna og ganga þannig fram að þeir sem hafa unnið skemmdarverk verði látnir sæta ábyrgð. Þær athafnir sem að fámennur hópur hefur haft í frammi er frekleg aðför að hagsmunum hins löghlýðna borgara.

Þau vandamál sem að Ísland glímir nú við eru ekki staðbundin heldur hluti af mikilli efnahagslægð sem að gengur nú yfir heimsbyggðina og ljóst að um fátt annað verður rætt á fundi heimsleiðtoganna í Davos í Sviss í lok mánaðarins. Það er einmitt í núverandi árferði sem að þjóðin þarf á samhug og samvinnu að halda en ekki niðurrifsstarfssemi þeirra sem segjast tala í nafni fólksins. Það hefur alveg vantað að fjölmiðlar ræði við venjulegt fólk, fólk sem þarf að vakna til þess að fara i vinnuna á morgnana og jafnframt að horfa framan í börnin sín og trúa því að á morgun sé nýr dagur með nýjum möguleikum. Það er eðlilegt að hinir friðsömu borgar spyrji: Hvað með okkar rétt?


Ný staða kallar fram ný viðmið

Það má segja að þessi vika hafi verið eftirminnileg og það hefur verið erfitt að horfa á alla þá ólgu sem að hefur farið um Ísland, sérstaklega á meðal þeirra mótmælenda sem að hafa farið yfir strikið í aðgerðum sínum og úthellt reiði sinni yfir helstu stofnanir lýðveldisins. Það er ekki annað hægt en að vorkenna slíku fólki. Það er ljóst að við erum í stöðu sem er ekki góð og hún mun ekki verða svo mikið betri eftir næstu kosningar. Það þarf samvinnu og samkennd til þess að sigrast á þeim vandamálum sem að almenningur og fyrirtæki í þessu landi standa frammi fyrir. Það þarf festu og trú á að það sé hægt að bæta ástandið til hins betra. Ísland hefur mikið af auðlindum og þó að margir hafi tapað þá er það nú líka einu sinni þannig að hin raunverulegu verðmæti eru fólgin í góðri heilsu eins og hefur sannast svo áþreifanlega í veikindum stjórnmálaforingjanna, Geirs og Ingibjargar. Þrátt fyrir allt eru stjórnmálamenn mannlegir og þeir gera sín mistök, hafa sína kosti og galla svona rétt eins og við hin.

Hið pólitíska landslag er nú gjörbreytt, svona fyrst um sinn. Við siglum inn í ákveðið óvissuástand sem að mun ekki breytast með neinni utanþingsstjórn eins og svo margir hafa kallað eftir eða með þvi að kalla fram annað bráðabirgða stjórnarfar. Þegar horft er raunhæft á aðstæður þá eru kosningar í maí slæmur kostur því það hefði þurft meiri tíma fyrir flokkana að undirbúa sig betur og janfvel fá nýtt fólk inn í forystusveitina og inn í starf flokkanna. Staðan í dag er sú að það þarf þungavigtarfólk inn i stjórnmálin og það verður erfitt að sjá að það gerist á svo stuttum tíma en það er aldrei að vita.

Því miður eru ekki mörg leiðtogaefni í stöðunni, en  margir ungir kandidatar sem hafa litla reynslu og ég verð að segja að ef sömu andlitin eru í framboði fáum við þá eitthvað betra ástand? Það mun tíminn einn leiða í ljós. Það er rétt að senda forsætis- og utanríkisráðherra bestu óskir um góðan bata.


Hversu langt á að ganga?

Það eru margir sem eru langt í frá að vera ánægðir með núverandi mótmæli og þá háttsemi sem að höfð hefur verið í frammi af vissum mótmælendum sem að gengu svo langt í gær að gefa frændum okkar Norðmönnum langt nef með því að brenna jólatréð á Austurvelli sem er einmitt tákn friðar og vináttu. Hversu lengi á það að ganga að öryggi íslenskra borgara og eigur ríkis og borgar séu tröðkuð niður í svaðið? Eru ekki takmörk fyrir því? Eða munu menn hreinlega bera elda að byggingum og öðru lauslegu næst? Er ekki rétt að þingmenn okkar og forseti gangi fram fyrir skjöldu og hvetji til fólk til þess að mótmæla friðsamlega, ef ekki núna hvenær þá?


Að standa í ströngu

Steingrímur J. opinberaði í Kastljósinu í kvöld að hann teldi lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa fleiri galla í för með sér en kosti fyrir íslenska hagsmuni, og á málflutningi hans mátti skiljast að við hefðum ekkert við þessi lán að gera undir þeim afarkostum sem í boði væru. Þegar Steingrímur var svo spurður út í hvaða lausnir hann hefði á ástandinu þá varð fátt um svör.

Forsætisráðherra virkaði hálf þungur, enda búinn að standa í ströngu í dag, og það er ljóst að það er ekki tekið út með sældinni að starfa í umboði kjósenda. Ólíkt hafast þeir að félagarnir Geir og Steingrímur, sá fyrrnefndi á erftitt með að koma sér á milli húsa á meðan hinn tekur kvöldgöngu á Austurvelli til þess að horfa á vinnustaðinn sæta áhlaupi.

Það er einkum tvennt sem stendur upp úr eftir viðtalið við þá félaga. Í fyrsta lagi sú staðreynd, að íslensk fyrirtæki og heimili lenda í enn meiri vanda ef Steingrímur sest við stýrið enda sagði hann blákalt að hann myndi skila lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til baka. Eitt og sér myndi það skerða möguleika íslenska ríkisins á að standa við núverandi skuldbindingar sínar, og um leið lokaðist á allt súrefnisflæði í hagkerfinu og í kjölfarið myndu bankar og fyrirtæki falla fljótt í núverandi árferði. Seinna atriðið, þegar forsætisráðherra var spurður út í það hvort menn ætluðu að axla ábyrgð þá var fátt um svör sem gefur sterklega til kynna að menn gangi ekki í takt við kröfur fólksins í samfélaginu.

Það er enginn skyndilausn í stöðunni en hvernig er hægt að taka stjórnmálamann alvarlega sem að hreinlega segir að hann muni sjái til þess að hér verði enginn sjóður til þess að grípa til ef ástandið versnaði. Ég verð að segja að það er hægt að segja allt í fjölmiðlum og komast upp með það og hafa jafnframt engar lausnir í farteskinu. Það er ljóst að með Steingrími munu fylgja ný neyðarlög og jafnvel meiri óvissa en nú er.

Þrátt fyrir ólguna í samfélaginu þá þarf fólk að bera virðingu fyrir helstu stofnunum lýðveldisins Íslands. Það er lítið mál að rífa niður Ísland og framtíð þeirra sem landið skulu erfa. Það hefur gefið á bátinn, og við erum í miðjum ölduganginum og þá er um að gera að hafa skynsemina til staðar svo hægt sé að stýra bátnum á lygnari sjó.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband