Að standa með pálmann í höndunum

Það er greinilegt að ástandið á Íslandi hefur farið eins og eldur í sinu um heimsbyggðina og ljóst að fjármálakreppan hefur borið hróður okkar víða. Það er sérstakt fyrir mig að starfa í alþjóðlegu umhverfi þessa dagana þar sem að margir hafa sent mér samúðarkveðjur og ástandið hefur verið mjög sérstakt. Í dag fékk ég kveðjur frá Katar, Tælandi og BNA, og greinilegt er að menn eru með á nótunum. Internetið er einn allsherjar upplýsingamiðill þar sem að fréttir flæða óhindrað og skiptir þá engu máli hversu gáfulegar eða réttar þær eru. Sumir halda líka að menn hafi ekkert að bíta og brenna á Íslandi lengur.

Spekingarnir stíga margir á stokk og flytja lærðar greinar um ástandið á meðan  auðmenn Íslands bera sig aumlega, en yfir mörgum fyrirtækjum þeirra vakir vofa gjaldþrotsins. Andi góðærisins er farinn, en vofa hversdagsins tekin við að brýna ljáinn. Uppi eru duldar meiningar um ástand bankanna, og það virðist sem að fyrrum eigendur telji að bjarga hefði mátt bönkunum ef rétt hefði verið staðið að málum. Tíminn einn mun leiða í ljós hversu mikil gæði eru fólgin í  eignasöfnum bankanna og hversu miklir fjármunir munu skila sér. Aðalatriðin eru farin að snúast upp í anhverfu sína og menn benda hver á annan og hrópa á torgum. Greyið hann Davíð má ekki opna orðið munninn án þess að allur málflutningur hans sé kominn í fjölmiðlana sem að síðan sækja á stjórnmálaforingjana til þess að fá þeirra álit. Mikil er máttur Davíðs í kastalnum á Arnarhóli!

Það vakti athylgi mína að Björgólfur eldri ítrekaði í frægu Kastljósviðtali að gott samstarf hefði verið haft við fjármálaeftirlitin í Bretlandi, Hollandi og á Íslandi. Það var undirliggjandi í málflutningi Björgólfs að hann var ekki sáttur við meðferðina né skilningsleysið af hálfu stjórnvalda sem með aðgerðum sínum settu allt á annan endann með setningu neyðarlaganna.

Sennilega hafa flestir eitthvað til síns máls, en það breytir engu núna þar sem framundan er mikil vinna hjá fjölskyldum og fyrirtækjum þess lands við að halda sér á floti. Staðreyndirnar eru einfaldar, ef fyrirtækin geta ekki haldið sér á floti og skapað verðmæti, þá munu fjölskyldurnar í landinu ekki gera það heldur. Innviðir samfélagsins hvíla ekki á niðurstöðu spjallþáttanna eða á hnútukasti stjórnmálaforingjanna og embættismannanna heldur því sem kemur í pyngjuna.

Það er greinilegt að menn eru farnir að lýjast á stjórnarheimilinu enda hefur atgangurinn verið töluverður og mikil pressa á mönnum á síðustu vikurnar. Það þurfa allir að kasta mæðinni og fá tíma til að hvílast, hugsa sitt ráð og leggja drög að sinni framtíð. Sumir ákváðu að taka ekki slaginn og létu sig hverfa úr hringiðu stjórnmálanna eins og Guðni Ágústsson hefur nú gert, kannski ekkert óeðlilegt sé tekið mið af því umróti sem að hefur átt sér stað á stjórnmála- og efnahagssviðinu. Bóksalinn, Bjarni Harðarson, var ekki lengi að taka upp fyrri iðju og er byrjaður að selja bækur aftur. Jú, alþingismenn eru líka venjulegir þegnar sem að eiga sér venjulegt líf eftir að þingmennskunni lýkur.

Sennilega eru það lögfræðingar og endurskoðendur sem að standa með pálmann í höndunum í dag. Mörg álitaefni hafa komið upp í kjölfar neyðarlaganna og þau þarf að útkljá fyrir dómstólum. Lögfræðingarnir þurfa að skrifa álitsgerðir og setja fyrirtæki í þrot á meðan endurskoðendur reikna allt á versta veg. Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

Hið eina sanna góðæri er það sem kemur innan frá og því megum við ekki gleyma!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fritz Már Jörgensson

Hárrétt hjá Þér, góðærið kemur innan frá, það er víst það eins sem við tökum með okkur í gröfina þegar upp er staðið. Hitt allt er hjóm og tilbúningur sem skiptir í raun engu máli þó svo að oft sé gaman að vera í miðri hringiðunni. Kveðja frá Íslandi

Fritz Már Jörgensson, 20.11.2008 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband