Að ganga í takt við tímann

Veturinn 1850 markaði mikil tímamót í sögu lands. Lærði skólinn var í uppnámi vegna þess að skólapiltarnir þóttu baldnir og voru lítt fáanlegir til þess að hlýða stjórnarnefnd skólans. Undir niðri kraumaði sú hugmynd að reka einhverja af skólapiltunum úr skólanum, en það þótti ekki líklegt til árangurs þar sem að talið var að þá  myndi skólahald hreinlega leggjast af. Yfirstétt þess tíma taldi að það myndi leiða til þess að ..dónarnir'' lágstéttin myndi uppskera of mikla samúð.

Sunnudaginn 10. febrúar það sama ár, kvaddi Sveinbjörn Hallgrímsson, ritstjóri Þjóðólfs sér hljóðs eftir sunnudagsmessuna í Dómkirkjunni og krafðist þess að dómkirkjupresturinn sr. Ásmundur Jónsson segði af sér því að hann sé svo lágmæltur að söfnuðurinn heyri ekki í honum. Þetta var tími mikilla væringa og umróts á Íslandi. Málin gengu svo langt að sr. Ásmundur studdur af yfirstéttinni fékk því framgengt að Sveinbjörn var sektaður fyrir kirkjuspjöll. Stuttu seinna voru uppi hugmyndir að skipa Jón Sigurðsson sem yfirkennara Lærða skólans enda töldu menn hann eina raunhæfa kostinn til þess að koma reglu á hlutina og þá sterku ólgu sem var til staðar víðsvegar í þjóðfélaginu.

Biskupinn yfir Íslandi ritar bréf til innanríkisráðherrans Mathiasar Hans Rösenorns og segir ,,Almúginn heldur fundi og myndar þannig sem heild óhugnanlegt vald. Embættismenn eru einskis virtir - nokkrir þeirra eru líka miður gætnir - almúginn lítur á þá sem þjóna sína, sem hann getur blátt áfram sagt upp þegar hann heldur að hann hafi ekki lengur not fyrir þá. Svona standa málin í dag - og þannig hefur það lengi verið að maður þorir tæpast að láta nokkuð út úr sér án þess að eiga það á hættu að það berist allt bjagað út á meðal fólksins....Hvarvetna í landinu stefnir í stjórnleysi."

Kannski að tímarnir í dag séu ekki ólíkir að einhverju leiti því ástandi sem var 1850. Viljinn til breytinga er til staðar og ráðamenn verða að ganga í takt við kröfurnar í þjóðfélaginu til þess að einangra sig ekki með ummælum sem bera keima af taktleysi og andstöðu við ríkjandi ástand. Þjóðin þarf leiðtoga sem kunna að hlusta og skilja aðstæður hverju sinni, svona rétt eins og Jón Sigurðsson sem að skynjaði mikilvægi tíðarandans forðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband