Að standa í ströngu

Steingrímur J. opinberaði í Kastljósinu í kvöld að hann teldi lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa fleiri galla í för með sér en kosti fyrir íslenska hagsmuni, og á málflutningi hans mátti skiljast að við hefðum ekkert við þessi lán að gera undir þeim afarkostum sem í boði væru. Þegar Steingrímur var svo spurður út í hvaða lausnir hann hefði á ástandinu þá varð fátt um svör.

Forsætisráðherra virkaði hálf þungur, enda búinn að standa í ströngu í dag, og það er ljóst að það er ekki tekið út með sældinni að starfa í umboði kjósenda. Ólíkt hafast þeir að félagarnir Geir og Steingrímur, sá fyrrnefndi á erftitt með að koma sér á milli húsa á meðan hinn tekur kvöldgöngu á Austurvelli til þess að horfa á vinnustaðinn sæta áhlaupi.

Það er einkum tvennt sem stendur upp úr eftir viðtalið við þá félaga. Í fyrsta lagi sú staðreynd, að íslensk fyrirtæki og heimili lenda í enn meiri vanda ef Steingrímur sest við stýrið enda sagði hann blákalt að hann myndi skila lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til baka. Eitt og sér myndi það skerða möguleika íslenska ríkisins á að standa við núverandi skuldbindingar sínar, og um leið lokaðist á allt súrefnisflæði í hagkerfinu og í kjölfarið myndu bankar og fyrirtæki falla fljótt í núverandi árferði. Seinna atriðið, þegar forsætisráðherra var spurður út í það hvort menn ætluðu að axla ábyrgð þá var fátt um svör sem gefur sterklega til kynna að menn gangi ekki í takt við kröfur fólksins í samfélaginu.

Það er enginn skyndilausn í stöðunni en hvernig er hægt að taka stjórnmálamann alvarlega sem að hreinlega segir að hann muni sjái til þess að hér verði enginn sjóður til þess að grípa til ef ástandið versnaði. Ég verð að segja að það er hægt að segja allt í fjölmiðlum og komast upp með það og hafa jafnframt engar lausnir í farteskinu. Það er ljóst að með Steingrími munu fylgja ný neyðarlög og jafnvel meiri óvissa en nú er.

Þrátt fyrir ólguna í samfélaginu þá þarf fólk að bera virðingu fyrir helstu stofnunum lýðveldisins Íslands. Það er lítið mál að rífa niður Ísland og framtíð þeirra sem landið skulu erfa. Það hefur gefið á bátinn, og við erum í miðjum ölduganginum og þá er um að gera að hafa skynsemina til staðar svo hægt sé að stýra bátnum á lygnari sjó.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband