Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Val á milli bænaturna og hernaðar

Svissneska þjóðin gengur enn og aftur að kjörborðinu í dag þegar að þjóðaratkvæðagreiðslur verða um tvö mál. Fyrsta málið er hvort leyfa eigi að byggja turna á moskur múslima sem að telja ca 160 hérna í Sviss. Flestar þessar moskur eru á iðnaðarsvæðum, afdönkuðum verksmiðjuhúsum o.s.frv. en múslimar eru ca. 4.5% þjóðarinnar. Stór hluti múslima kom upp úr 1990 með falli fyrrum Júgóslavíu og Tyrklandi en þeir þóttu hófsamir í öllu sínu. Svissneska þjóðin telur að spyrna verði við fótum núna enda séu kristin gildi á undanhaldi. Helstu andstæðingar bænaturnanna segja að ný tegund róttækra múslima sé að innleiða strangari siði í klæðaburði auk notkun höfuðslæðu hjá konum. Nokkrir þingmenn á hægri kantinum hafa sagt að þeir séu ekki á móti múslimum, en þeir hafni þeim pólitíska öfgastimpli sem til staðar er. Þeir sem eru ekki fylgjandi banninu segja að slíkt bann kunni að skaða ímynd Sviss erlendis og þá sérstaklega á meðan múslimskra ríkja.

Þó að það hafi ekki farið hátt í umræðunni þá selja svissnesk fyrritæki allnokkuð af vopnum og öðrum búnaði til hernaðar. Í dag er kjósendum einnig gefinn kostur á að tjá sig um þau mál og kjósa hvort leyfi eigi slíkan útflutning frá ríki sem að kennir sig við frið. Það er vonast til þess að konur styðji þá hugmynd af fullum krafti. Margur hefur hins vegar bent á að slíkt bann muni kosta þjóðarbúið þúsundir starfa og veikja jafnframt varnir Sviss gagnvart umheiminum. Það er talin vera lítil von á að þetta verði samþykkt hérna í þessu friðsama ríki þar sem að ungir hermenn ganga alvopnaðir með M16 riffilinn inn á Mcdonalds til þess að fá sér í svanginn á milli æfinga og þykir ekki mikið mál.

Það má segja að pólítíska kerfið í Sviss leyfir þjóðinni að fara með mál í þjóðaratkvæðagreiðslu ef nægilega margir samþykkja beiðni þar um. Kannski að við Íselndingar getum eitthvað lært af þessari skrýtnu þjóð í alparíkinu Sviss sem er ímynd hreinleikans og Heiðu litlu. Þeir eru jú rétt eins og við Íslendingar með kross í fána sínum.


Af litlum neista

Það hefur mikil umræða spunnist um íþróttahreyfinguna, þá sérstaklega vegna málefna KSÍ. Mörg misgáfuleg ummæli hafa fallið í þeirri umræðu. Einn penni hér á blogginu, Birgir Viðar Halldórsson setur fram þá skoðun sína að stjórn KSÍ ætti að segja af sér vegna atviks tengda einum starfsmanni sambandsins. Ekki eru færð önnur rök fyrir því en þau að KSÍ fái fjármuni frá hinu opinbera og framkoma starfsmanns þeirra hafi verið með þeim hætti að hún réttlæti afsögn stjórnar. Er í framhaldinu hægt að álykta að lögreglustjóri og dómsmálaráðherra eigi að segja af sér ef einhverjum lögreglumanni verða mislagðar hendur? Ætti stjórn knattspyrnufélags að segja af sér ef einn leikmanna liðsins gerðist sekur um líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur eftir næturrölt? Er ekki eðlilegt að menn færi meiri og betri rök fyrir máli sínu en að hrópa úlfur úlfur. Kannski sannast hið fornkveðna í þessari umræðu ,,af litlum neista verður of mikið bál". Þeir sem hafa starfað innan vébanda íþróttahreyfingarinnar eru ekki undanskyldir því að koma þannig fram að sómi sé af í útlöndum og fylgja sérsamböndin reglum ÍSÍ og eigin agareglum í slíkum ferðum. Það væri rangt af mér að segja að agavandamál hefðu ekki komið upp í slíkum ferðum. Þau mál sem hafa komið upp hafa undantekningalaust verið leyst innan vébanda viðkomandi aðila. Umræðan um að menntamálaráðherra blandi sér inn í þá umræðu er í hæsta máta einkennileg enda er ekki gert ráð fyrir því að ráðherra sem slíkur hafi eitthvað boðvald yfir sérsamböndunum, en auðvitað getur ráðherra haft sína skoðun og óskað eftir skýringum á málum ef efni standa til.

Birgir Viðar setur einnig fram gagnrýni á FIFA í morgun og ég velti því fyrir mér hvort að hann hafi kynnt sér starfssemi þeirrar hreyfingar eða annarra alþjóðasérsambanda. Sem starfssmaður eins af alþjóðasérsamböndunum þá er mér skylt að skýra aðeins málin. FIFA eins og önnur alþjóðasérsambönd fer samkvæmt skipulagi alþjóða hreyfingarinnar með æðsta boðvald í málefnum knattspyrnunnar í heiminum, svona rétt eins og Félag Kúabænda fer með æðstu völd í málefnum sinna félagsmanna. Það er einkenni á slíkum hreyfingum að þær starfa samkvæmt lögum og reglum sem að aðildarlöndin og félagsmenn hafa samþykkt. Það sér það hver heilvita maður að það er ekki hægt að vísa málefnum tengdum alþjóðahreyfingu til landsdómstóla í hverju landi fyrir sig. Til hvers þá að hafa FIFA starfandi? Sama hér á Íslandi, ef KR og Valur deila þá er það mál leyst innan vébanda hreyfingarinnar en ekki frammi fyrir Hérðasdómstól Reykjavíkur. Hjá flestum sérsamböndum er dómstóll og áfrýjunardómstóll til þess að leysa úr þeim ágreiningsefnum sem upp koma. Það er einmitt eitt einkenni alþjóða hreyfinga að innanbúðarmál eru leyst innan starfsramma viðkomandi samtaka sem starfa með dómstóla til þess að leysa úr ágreiningsefnunum og þar starfa alþjóðlegir sérfræðingar með mikla reynslu. Það er allt í lagi að setja fram skoðun, svona rétt eins og ég geri núna, en það er nú líka hægt að afla sér upplýsinga og setja málin í samhengi. Það er hins vegar annað og meira mál hvort að skipulag þessara alþjóðahreyfinga sé gott eða slæmt en það er önnur umræða.


Að slíta í sundur lögin

Ég get svo sannarlega verið sammála, lögmanninum Karli Axelssyni, og grein hans í Morgunblaðinu í gærdag. Rétt er að benda á það að ég er ekkert sérstaklega að hugsa um málið sjálft eða þann aðila sem um er rætt í greininni, heldur er ég að horfa almennt á hlutina. Því miður hafa of margar aftökur átt sér stað í fjölmiðlum sem á bloggsíðum, burt séð frá því hvort að menn hafi eitthvað til síns máls eður ei, þá er grundvallatriðið í því ríki sem við viljum byggja fólgin í virðingu fyrir grunngildum og lögum réttarríkisins. 

,,Þýðing raunverulegs réttarríkis er aldrei meiri en á tímum eins og þeim sem við nú lifum á Íslandi. Þegar almenningur kallar á hefnd og pólitískar vinsældakeilur eru slegnar sem aldrei fyrr er stutt í geðþóttann. Þá gleymast líka fljótt þær helgu mannréttindareglur sem kveða m.a. á um sakleysi uns sekt er sönnuð og leggja þann grundvöll að málsmeðferð að fyrst séu sakargiftir á hendur mönnum rannsakaðar, þeir séu síðan ákærðir og loks dæmdir standi efni til þess. Er þá ógetið þeirri reglu sem ekki skiptir minnstu máli að við ákærum ekki menn nema meintar sakargiftir séu líklegri til sakfellis en ekki. Meðferð ákæruvalds má aldrei fela í sér einhverskonar tilraunastarfsemi.'' 

Þorgeir Ljósvetningagoði og lögsögumaður Alþingis var uppi á tímum þegar miklur deilur stóðu yfir um kristnitökuna. Hann sagði: ,,Það mun vera satt, er vér slítum í sundur lögin að vér munum slíta og friðinn.'' 

Það virðist sem að umburðarlyndið sé ekki lengur til staðar í þjóðfélaginu, og oft virðast fjölmiðlar stjórnast af því einu að koma höggi á fólk. Er ekki einmitt mikilvægt núna að láta dómstólana vinna sína vinnu, og varast sleggjudóma og yfirlýsingar þegar að mál eru enn í vinnslu? Ákveðnir fjölmiðlar hafa farið offari að mínu mati í framsetningu á fréttum sínum, og mörg dæmi eru um að fréttir séu hroðvirknislega unnar en það á þó ekki við um alla miðla. Það gleymist oft að aðgát skal höf'ð í nærveru sálar og þar gegna fjölmiðlar veigamiklu hlutverki.

 


Fem...in....eistar

Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með umræðunni um starfsmann KSÍ, og hvernig honum hefur verið hreinlega sturtað niður í fjölmiðlum landsins. Það er einkennilegt að sjá, að fjölmiðlar sem að hafa staðið sig illa í því að fjalla um íþróttir hafa farið hamförum í málinu. Ég man þá tíð þegar ég starfaði hjá mínu sérsambandi á Íslandi að það var erfitt að fá fjölmiðla til þess að greina frá helstu atburðum líðandi stundar, jafnvel þó svo að um úrslitaleiki væri að ræða. Yfirleitt voru fréttatilkynningar og fjölmiðlaefni afgreitt í einni til tveim línum, en það var þá og mér sýnist ástandið ekki hafa lagast mikið síðan. Ég sé það núna að stóru mistökin voru kannski það að hafa ekki femínista mér við hlið en þeir virðast kunna tökin á fjölmiðlunum.

Auðvitað hafa femínistar eins og allir aðrir rétt á því að segja sína skoðun á málum, en það er nokkuð sérstakt að hreyfingin fordæmi stærsta sérsambandið á Íslandi fyrir ógöngur eins starfsmanns, án þess að skýra rök sín með afgerandi hætti.  Það er ekki ósanngjarnt að ætla að þeir sem fara mikinn í gagnrýni sinni og ráðast svo heiftarlega að einum varnarlausum einstaklingi komi með lausnir og innlegg inn í umræðuna sitjandi við borð í stað þess að vera senda út stríðsyfirlýsingar.

Á sama tíma og þessu fer fram hefur t.d. Pressan einn æsilegast kvennmann landsins birtandi ,,bónusmyndir" af sjálfri sér, http://www.pressan.is/AsdisRan/Lesa_Asdisi_Ran/bonusmynd-vikunnar og markmiðið eitt að auka athyglina og selja miðilinn. Ég segi nú bara eins og Stormskerinn, ,,Þetta er nú meiri ófriðarsúlan" sem að Svissararnir hafa sent okkur. Jæja, við skulum vona að eitthvað gott komi út úr allri þessari umræðu og vonandi man fólk að baki umræðunni er fólk svona rétt eins og við sjálf.


Hvað með ábyrgð á framtíð barnanna sem landið munu erfa?

Það verður fróðlegt að fylgjast með uppbyggingarstarfinu sem framundan er, enda telja margir að það sé verið að byggja upp kerfi sem að miðar að því að sem flestir flytji úr landi, og þannig mun skattberandi einstaklingum fækka. Þjóðin þarf ekki á fyrirlestrum að halda um það sem var heldur hvernig við ætlum að takast á við framtíðina. Brjálæðið eitt og sér er að vísa alltaf til fortíðar eins og framtíðarsýnin sé föst í baksýnisspeglinum. Það segir mér hugur að þjóðarframleiðslan eigi eftir að dragast verulega saman, hvatinn til þess að auka umsvifin í hagkerfinu verða að engu vegna þess að allt miðar að því að draga úr súrefnisflæðinu sem þarf til þess að fólk og fyrirtæki sjái sér hag í því að skapa verðmæti undir formerkjum gríðarlegrar skattheimtu.

Það dylst fáum að hjól hagkerfisins snúast hægt um þessar mundir og t.d. er fasteignamarkaðurinn frosinn, samdráttur er þegar til staðar í heilbrigðis- og menntakerfinu, viðvarandi atvinnuleysi staðreynd og ljóst að lítið verður um nýjar fjárfestingar á komandi mánuðum m.a. vegna gjaldeyrishafta. Er það ekki einmitt brjálæði að skrúfa fyrir súrefnið þegar fyrirtækin og fjölskyldurnar þurfa á innspýtingu að halda? Munu skatttekjur hins opinbera hrynja vegna vanhugsaðra lausna? Þurfa heimilin í landinu og fyrirtækin sem að halda úti atvinnustarfssemi ekki heillavænlegri boðskap en skattkerfi sem miðar af því að fækka skattberandi fyrirtækjum og einstaklingum?

Þurfum við ekki einmitt á hvatningu og lausnum að halda sem miða að því að fá hjólin til þess að snúast aftur?


mbl.is Gagnrýnir stjórnarandstöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þáttakandi á SportAccord

Ég hef staðið í ströngu daga hérna í Lausanne þessa vikuna, en mér var boðið að stýra einum af vinnuhópum á SportAccord undir liðnum Youth and Sports (Æskan og Íþróttir) en umfjöllunarefni mitt var ,,Working with Governments and Schools to involve sports in their long-term planning".

Hér má sjá linkinn á ráðstefnuna: http://www.sportaccordconvention.com/vsite/vfile/page/fileurl/0,11040,5197-199378-216601-155856-0-file,00.pdf

SportAccord er samstarfsvettvangur alþjóðasérsambandanna auk þess sem að Alþjóða Ólympíuhreyfingin ásamt öðrum hagsmunasamtökum taka þátt í ráðstefnunni ár hvert. Umræðurnar voru fjörugar og mörg sjónarmið uppi um hvernig ætti að takast á við málin. Helstu niðurstöður voru þær að það eru mikil tengsl á milli íþrótta og náms, og margir möguleikar að sækja fram á þeim sviðum. Það kom einnig fram að mörg alþjóðasérsambönd vinna vel í þessum málum og starfa beint í grasrótinni með því að halda úti öflugum námskeiðum fyrir íþróttakennara víða um heim. Mönnum bar saman um að það er engin ein lausn til staðar heldur fara þær eftir aðstæðum, menningu og kúltúr þess lands sem í hlut á.

Ég varpaði fram þeirri spurningu hvort að allar íþróttir væru jafnar innan skólakerfisins? Það varð náttúrulega mikil umræða um þetta og heyra mátti á þátttakendum að helsta leiðin til þess að forðast árekstra væri að láta kennsluna taka mið af því að stunda margar greinar til 12 ára aldurs. Auðvitað verða menn aldrei á eitt sáttir en það var forvitinilegt að sjá hversu ólíkar áherslurnar eru eftir löndum og menningu þeirra sem í hlut eiga.


Hlutverk fjölmiðla í uppbyggilegri umræðu um íþróttir

Það hefur staðið mikil styr um málefni starfsmanns KSÍ í fjölmiðlum undanfarið og sitt sýnist hverjum. Málflutningur fjölmiðla hefur gengið helst til langt að mínu viti og ég velti því fyrir hver er eiginlega útgangspunkturinn í þessu öllu saman? Ég velti því fyrir mér af hverju fjölmiðlar sýna ekki meiri áhuga á barna og unglingastarfi í íþróttum eða segi meira frá öðrum íþróttagreinum en þeim hefðbundnu sem fá alla athyglina. Ég er viss um að vissir fjölmiðlar hafa eytt meira púðri í umfjöllum um umrætt mál heldur en um íþróttirnar sjálfar. Afhverju gagnrýna ekki femínistar Pressuna fyrir að sýna bert hold á hverjum degi en þar er bónusmynd dagsins í boði Ísdrottingarinnar http://www.pressan.is/AsdisRan/Lesa_Asdisi_Ran/bonusmynd-vikunnar á sama tíma og verið er að gagnrýna aðra. Hver eru skilaboðin? Það er líka erfitt að kenna heilli hreyfingu um aðstæður eins manns og þær ógöngur sem að hann kann að hafa ratað í. Hver eru rökin fyrir því?

 

 


Lokað hagkerfi

Það er ljóst að árið 2010 verður erfiðara en það ár sem er að líða undir lok. Framundan verður niðurskurður, minni neysla heimila og færri fjárfestingar fyrirtækja. Hærri skattheimta undir þeim kringumstæðum sem við erum í núna segir allt sem segja þarf. Það eru engar aðrar lausnir á borði núverandi ríkisstjórnar, markvisst er unnið á móti fjárfestingum erlendra aðila með gjaldeyrishöftum auk þess sem að skattar á einstaklinga og fyrirtæki hækka. það virkar á mann eins og það sé verið að loka helstu lífæðum hagkerfisins t.d.  hefur sjávarútvegsráðherrann viðrað hugmyndir um að láta vigta allan ferskan fisk sem fluttur er úr landi og búa þannig til auka fyrirhöfn fyrir sjávarútveginn.

Það var einkar fróðlegt viðtalið við fjármálaráðherra í Kastljósinu í gærkvöldi, en það er ljóst að hann er að reyna að gera það sem hann telur sig geta gert til þess að fjármagna kerfið og halda uppi þjónustustiginu í samfélaginu. Það er í sjálfu sér gott markmið en það fór um mig hrollur þegar ég hugsaði til Frjádags eftir að hann skolaði á land á eyðieyjunni.  Þegar hann raknaði úr rotinu þá þurfti hann líka að finna sér eitthvað að bíta og brenna. Þrátt fyrir þá staðreynd að nú eigi sér stað tilfærsla frá hinum ríku til þeirra sem verr eru settir þá megum við ekki gleyma því að núverandi aðgerðir munu skrúfa upp verðlag, hækka verð á aðföngum til fyrirtækja sem eru nauðbeygð að framsenda reikninginn til þeirra sem þurfa nauðsynlega á vörunum og þjónustunni að halda. Hærri verð, minnka neyslu og draga á sama tíma úr getu fyrirtækja til þess fjárfesta, endurnýja birgðir og halda úti ábyrgri starfssemi með starfsmenn á launaskrá. Auðvitað kemur góðmennska fjármálaráðherra ekki bara fram í lægri sköttum hjá þeim sem að verst hafa það því að afborganir af lánum þeirra munu hækka auk þess sem að verð á vöru og þjónustu mun einnig hækka vegna verðlags- og vísitöluáhrifa. Þegar upp er staðið  er ljóst að þeir sem að verst eru staddir eru ekki endilega í góðum málum þrátt fyrir góðmennsku og góðan hug. Þeir verstu settu þurfa líka eitthvað að bíta og brenna!

Besta dæmið um virkni markaðarins var þegar að Mcdonalds lokaði og Metro borgarar tóku yfir. Neytendur munu alltaf laga sig að nýjum veruleika og ávaxta sitt pund með tilliti til eigin þarfa, notagildis og þess sem handbært er hverju sinni. Það sama munu fyrirtækin gera eins og dæmið að ofan sýnir. Fyrir þá sem eiga meira þá skiptir þessi aðgerð sennilega ekki miklu máli því þeir efnameiri geta flestir staðið undir breyttum veruleika.

Ég velti því líka fyrir mér hvort að þetta kunni einnig að hreyfa við fólki og það flytji hreinlega að landi brott og að færra fólk skili sér aftur til Íslands að loknu námi. Erum við ekki einmitt að reisa okkar eigin Berlínamúr fyrir þá sem eru erlendis? Hagkerfi sem að lokar dyrunum og býr ekki til tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki er ekki líklegt til þess að sigrast á vandamálunum.

Verður söluhæsta bókin um næstu jól þessi: Lifað á loftinu?

 

 


mbl.is Ýtir undir landflótta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svissneska leiðin

Ég verð að segja að ég er innilega sammála Styrmi fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, sem að segir að þjóðin þurfa að ráða í öllum meiriháttar málum. Menn verða að spyrja sig hvort, að það sé eðlilegt að 63 manna hópur kjörinna fulltrúa, sem að stjórnar til 4 ára í senn taki allar meiriháttar ákvarðanir. Hér í Sviss hefur þessu einmitt veirð öfugt farið þrátt fyrir þá staðreynd að hér eru milljónir á meðan íslenska þjóðin telur ca. 330 þúsund einstaklinga.

Hvort er betra, að þjóðin axli ábyrgð á eigin gjörðum eða þröngur hópur þeirra sem að telja sig vita betur? Við sjáum hvernig ICESAVE málið stendur núna. Ég ætla ekki að tala niður til kjörinna fulltrúa okkar en þeir hafa margir hverjir sýnt af sér þá hegðun sem er lítt til eftirbreytni, eins og t.d. umræðan um ICESAVE málið hefur sýnt. Áhrifin þekkja flestir og þjóðin er klofin í fylkingar. Er það vænlegt til árangurs?


Ferðir sem ekki verða metnar til fjár

Grand Palace
Grand Palace Bangkok

Ég hef ekki bloggað lengi enda hefur maður haft í mörgu að snúast. Ég náði þó að komast heim í sumar eftir mikil ferðalög. Landið var einstaklega bjart og fagurt yfir að líta.  Einstakt tíðarfar, fögur fjallasýn og margar sundlaugarferðir léttu lundina. Staðreyndin er alltaf sú að flestir vilja aftur til Íslands, sérstaklega eftir langa útiveru. Ég hitti mann og annan og bar saman bækurnar við vini og vandamenn auðvitað með misjöfnum árangri eins og vænta mátti. Maður getur aldrei verið allra. Margur er að laga sig að nýjum aðstæðum eftir stóra,,skellinn". Erindi þessa pistils er ekki að að halda á lofti umræðunni um vandamálin heima, enda halda margir bloggarar og blaðamenn þeirri hringekju gangandi, frekar ætla ég að greina frá því sem á daga mína hefur drifið.

Árið hefur verið í senn viðburðaríkt og annasamt fyrir mig. Ég hef náð að  ferðast til Dómínikanska Lúðveldisins og séð fyrir heimaslóðir Kólumbusar og nýja heimsins, sótti heim Egyptaland og sá eitt af sjö undrum veraldrar þegar ég sá pýramídana á Giza svæðinu innan- og utan frá. Í apríl sótti ég heim Japan þar sem við settum nýtt þróunarsetur af stað og var það vel. Fékk gistingu upp á gamla japanska mátan á sjálfu gólfinu.

DSC00805 

Frá Yoyogokarta Indonesíu

Í mars sótti ég síðan Indónesíu heim og flaug 17 flug á aðeins 19 dögum, sótti heim Jakarta, Yoyogokara, Aache hérað, Bali svo dæmi séu nefnd. Það var hreint ótrúlegt að sjá verksummerkin eftir flóðbylgjurnar, en hamfarirnar í Yoyogokarta eru vegna tíðra jarðskjálfta sem að hafa eyðilagt margar byggingar. Vandamálin á Íslandi virka smávægileg miðað við það sem maður sá.

Ég fór til Taílands í október til þess að fylgja eftir verkefnum okkar með ríkisstjórn Thailands í Satoon, Krabi, Pukhet og Rangoon. Ferðin um vesturströnd landsins sýndi að mikið hefur áunnist í uppbyggingarstarfinu eftir flóðbylgjurnar. Stór skörð hafa þó verið höggvin víða í landslagið. Ég mun fara aftur til Thailands nú í nóvember til þess að sjá hverju við höfum komið til leiðar þrátt fyrir að vera ekki sérfræðingar í uppbyggingarstarfi á hamfarasvæðum. Við höfum lært mikið á því að taka þátt  í þessum uppbyggingarverkefnum og skynjað að þolinmæðin er lykilatriði ef árangur á að nást í uppbyggingunni.

Já, árið 2009 hefur svo sannarlega gefið mér mikið en ég hef farið víða og séð margt. Ég hef náð að vera sendiherra fyrir íþrótt mína, hitt ráðherra og önnur fyrimenni, blandað geði við óbreyttan almúgan, glaðst yfir árangri okkar jafnhliða því að fyllast sorg yfir óyfirstíganlegum áföllum sumra. Síðustu mánuðir hafa verið fullir af lifandi reynslu og ferðirnar verða ekki metnar til fjár heldur lifandi reynsla sem mun lifa innra með mér. Er það ekki einmitt kjarni málsins nú á tímum að sjá verðmætin eru fólgin í fólkinu sjálfinu og viðburðum líðandi stundar.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband