Af litlum neista

Það hefur mikil umræða spunnist um íþróttahreyfinguna, þá sérstaklega vegna málefna KSÍ. Mörg misgáfuleg ummæli hafa fallið í þeirri umræðu. Einn penni hér á blogginu, Birgir Viðar Halldórsson setur fram þá skoðun sína að stjórn KSÍ ætti að segja af sér vegna atviks tengda einum starfsmanni sambandsins. Ekki eru færð önnur rök fyrir því en þau að KSÍ fái fjármuni frá hinu opinbera og framkoma starfsmanns þeirra hafi verið með þeim hætti að hún réttlæti afsögn stjórnar. Er í framhaldinu hægt að álykta að lögreglustjóri og dómsmálaráðherra eigi að segja af sér ef einhverjum lögreglumanni verða mislagðar hendur? Ætti stjórn knattspyrnufélags að segja af sér ef einn leikmanna liðsins gerðist sekur um líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur eftir næturrölt? Er ekki eðlilegt að menn færi meiri og betri rök fyrir máli sínu en að hrópa úlfur úlfur. Kannski sannast hið fornkveðna í þessari umræðu ,,af litlum neista verður of mikið bál". Þeir sem hafa starfað innan vébanda íþróttahreyfingarinnar eru ekki undanskyldir því að koma þannig fram að sómi sé af í útlöndum og fylgja sérsamböndin reglum ÍSÍ og eigin agareglum í slíkum ferðum. Það væri rangt af mér að segja að agavandamál hefðu ekki komið upp í slíkum ferðum. Þau mál sem hafa komið upp hafa undantekningalaust verið leyst innan vébanda viðkomandi aðila. Umræðan um að menntamálaráðherra blandi sér inn í þá umræðu er í hæsta máta einkennileg enda er ekki gert ráð fyrir því að ráðherra sem slíkur hafi eitthvað boðvald yfir sérsamböndunum, en auðvitað getur ráðherra haft sína skoðun og óskað eftir skýringum á málum ef efni standa til.

Birgir Viðar setur einnig fram gagnrýni á FIFA í morgun og ég velti því fyrir mér hvort að hann hafi kynnt sér starfssemi þeirrar hreyfingar eða annarra alþjóðasérsambanda. Sem starfssmaður eins af alþjóðasérsamböndunum þá er mér skylt að skýra aðeins málin. FIFA eins og önnur alþjóðasérsambönd fer samkvæmt skipulagi alþjóða hreyfingarinnar með æðsta boðvald í málefnum knattspyrnunnar í heiminum, svona rétt eins og Félag Kúabænda fer með æðstu völd í málefnum sinna félagsmanna. Það er einkenni á slíkum hreyfingum að þær starfa samkvæmt lögum og reglum sem að aðildarlöndin og félagsmenn hafa samþykkt. Það sér það hver heilvita maður að það er ekki hægt að vísa málefnum tengdum alþjóðahreyfingu til landsdómstóla í hverju landi fyrir sig. Til hvers þá að hafa FIFA starfandi? Sama hér á Íslandi, ef KR og Valur deila þá er það mál leyst innan vébanda hreyfingarinnar en ekki frammi fyrir Hérðasdómstól Reykjavíkur. Hjá flestum sérsamböndum er dómstóll og áfrýjunardómstóll til þess að leysa úr þeim ágreiningsefnum sem upp koma. Það er einmitt eitt einkenni alþjóða hreyfinga að innanbúðarmál eru leyst innan starfsramma viðkomandi samtaka sem starfa með dómstóla til þess að leysa úr ágreiningsefnunum og þar starfa alþjóðlegir sérfræðingar með mikla reynslu. Það er allt í lagi að setja fram skoðun, svona rétt eins og ég geri núna, en það er nú líka hægt að afla sér upplýsinga og setja málin í samhengi. Það er hins vegar annað og meira mál hvort að skipulag þessara alþjóðahreyfinga sé gott eða slæmt en það er önnur umræða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband