Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Tapað fé og töpuð tækifæri

Það er að færast fjör í leikinn. Björgólfur Thor Björgúlfsson var fastur fyrir í Kompásþættinum í kvöld. Það var greinilegt að hann var langt í frá með að vera ánægður með ,,ríkið'' eins og hann orðaði það og vildi ekki gera upp á milli manna né stofnana. Ummæli Björgólfs hafa þó opnað nýjar dyr á þjóðvæðingu bankanna, en hann sagði að það hefði verið haft lítið samráð við ráðamenn bankanna á síðustu metrunum, og hugmyndum þeirra ekki einu sinni svarað. Stóra atriðið er náttúrulega tilboð breska fjármálaeftirlitsins sem að engin hefur minnst á fyrr. Ef satt er þá er ljóst að um mikið klúður er að ræða, svona eins og menn hafi farið á taugum og tekið ákvarðanir sem virðast í fyrstu ætla að verða okkur hvað dýrastar.

Það er ljóst að menn eiga eftir að munnhöggvast um atburðarrásina og tíminn einn mun leiða í ljós hvað er rétt og hvað er rangt. Það er hinsvegar ljóst af málflutningi Björgólfs að hann hefur talið að leysa hefði mátt þá stöðu sem að kom upp í samskiptum Bretlands og Íslands með Icesave reikningana ef menn hefðu talað saman og reynt að ná áttum.

Það læðist að manni sá grunur að við höfum tapað meiri verðmætum og meiri hagsmunum á því að láta Glitni falla, hrunadansinn varð ekki stöðvaður í framhaldinu eins og menn máttu búast við. Auðurinn kemur og auðurinn fer en sárast er þó að orðspor okkar er farið líka, skaðinn á ímyndinni og viðskiptalegum hagsmunum Íslands er mikill og fyrir því munu einstaklingar og fyrirtæki finna fyrir í framtíðinni.

Af hverju ættu menn ekki að trúa málflutningi Björgólfs sem hefur víðtæka reynslu af alþjóðlegum viðskiptum og fjárfestingum? Hann hefur haldið sjó og átt farsælan feril í sínum viðskiptum og tekið margar gæfuríkar ákvarðanir þar sem forsjálni og góður skilningur hefur verið til staðar. Hvaða hag hefur hann af því að segja ósatt í núverandi stöðu?

 

 


Þjóðin er reið og krefst svara

Þjóðin er reið! Hún er reið vegna þess að stjórnmálamenn hafa ekki stýrt skútunni á farsælan hátt. Þjóðin er reið vegna þess að þeir sem fara með ábyrgð virðast ekki bera neina ábyrgð og geta komist upp með það í krafti þess að vera lýðræðislega kjörnir til forystu fyrir fólkið í landinu. Fólkið í landinu þetta sama fólk sem að kaus þessa stjórnmálamenn til valda lagði ævisparnaðinn i trausta íslenska banka og fyrirtæki sem að fóru fyrir lítið m.a. vegna þess að eftirlitskerfið brást. Þjóðin er reið vegna þess að ráðherra Viðskipta og bankamála ber þar stóra ábyrgð en hefur fengið silkimjúka meðferð hjá fjölmiðlum þessa lands! Er ekki komin tími til þess að einhver stjórnmálamaður t.d. ráðherra Viðskipta- og bankamála segi af sér vegna þess að kerfið sem hann er samnefnari fyrir brást og stærsta skipbrot Íslandssögunnar er staðreynd. Mörgum kann að þykja þetta stór orð en staðreyndin er einfaldlega sú að í lýðræðisríkjum i Evrópu þá væru menn búnir að slíku.


mbl.is Viðskiptaráðherra í Monitor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðum fylgir ábyrgð

Það var sérstakt að hlusta á málflutning dr. Jóns Daníelssonar hagfræðings við London School of Economics í Kastljósinu í kvöld. Hann beindi spjótunum að Fjármálaeftirlitinu og mistökum þess, og gagnrýndi líka slælega frammistöðu í almannatengslunum. Það er hægt að taka undir þessa gagnrýni þar sem að sendiráð Íslands t.d. í Bretlandi, þar sem að hitinn var hvað mestur virtist ekki með á nótunum. Yfirlýsingin sem að sendiherrann las upp fyrir þarlenda fjölmiðla verður lengi í minnum höfð. Maður hreinlega skammaðist sín fyrir að vera Íslendingur eftir að sú tilkynning fór í loftið. Ég ætla þó ekki að varpa sök á einn eða neinn, kannski eru okkar bestu menn ekki undirbúnir undir verk af þessu tagi.

Það er ljóst að Fjármálaeftirlitið hefði átt að grípa inn í atburðarrásina mun fyrr, áður en í krísu var komið. Almenningur er núna að tapa gríðarlegum fjárhæðum á því að hlutirnir fóru á versta veg. Eins og Jón benti á þá hefði verið betur að byrja aðgerðirnar fyrr og selja hluta af eignunum áður en efnt var til brunaútsölunnar.

Eftir að hafa hlustað á samtal Darlings og Árna M. lesið upp í Kastljósinu þá kemur manni svo sem ekkert á óvart að málflutningurinn í Bretlandi sé eins og hann er, en það var beinlínis varað við því að orðspor Íslands myndi bíða hnekki. Sannast hið fornkveðna, orðum fylgir ábyrgð.

Svo kemur Viðskipta- og Bankamálaráðherrann sjálfur fram í dag og segir að launin hjá ríkisbankastjórunum sé of há og þau þarfnist endurskoðunar. Það er ekki nema von að almenningur sé í sárum á meðan slíkir réttir eru fram bornir, á borð þar sem að lítið er til skiptanna. Er Viðskiptaráðherra á réttum stað, á réttum tíma og í réttu hlutverki? Hefði ráðherrann ekki átt að sjá hlutina fyrir og taka tillit til núverandi ástands?

Það er von mín að menn komist aftur í takt við raunveruleikann, þjóðin hefur ekki efni á öðru núna.

 


Við erum ekki hryðjuverkamenn

Það er gott að fólk hefur tekið sig saman og ákveðið að tala máli Íslands í útlöndum. Það þarf ekki að gera einfalda hluti flókna. Styðjum málstaðinn: www.indefence.is

 


Af Trampe greifa og Gordon Brown

Sú aðgerð breska ríkisins að fara gegn íslenskum hagsmunum með hryðuverkalögfjöf til þess að leggja hald á eignir íslenskra banka er einstök.  Fyrr á tímum hefði slík aðgerð verið ígildi stríðsyfirlýsingar. Hvað sem öllu líður þá hefur aðgerð breskra stjórnvalda skaðað hagsmuni Íslands og íslenskra þegna. Það er ljóst að fullvalda ríki eins og hið íslenska getur ekki látið hjá líða að sækja rétt sinn og virðingu með því að fara lagaleiðina. Ísland hefur oft mátt þola ofríki grannríkja sinna og það þarf ekki fara langt aftur til þess að sjá að fáar þjóðir hafa stundað meira ofríki á hendur öðrum fullvalda ríkjum en hið breska.

Bandamenn okkar í vestri og vinaþjóðir í norðri hafa að mörgu leyti brugðist okkur á ögurstund eins og fjölmiðlar hafa tjáð okkur. Það er ljóst að sá skellur sem Ísland hefur orðið fyrir er sennilega einn af þeim stærstu sem að fullvalda ríki hefur orðið fyrir í Evrópu á seinni tímum. Frásagnir stærstu fjölmiðla heimsins taka af allan vafa.

Það er eins og við séum stödd inn í stóru landslagsmálverki þar sem að nýtt penslastrik breytir fyrri veruleika eins og ekkert sé.

Atburðir síðustu daga og vikna hafa fært okkur sönnur á að Ísland þarf að læra að standa á eigin fótum sem efnahagslega sjálfbært land. Spurningin er hvort að við höfum farið af taugum og sett okkur í aðstæður sem verða okkur margfalt dýrari en það að halda Glitni gangandi? Tíminn einn mun leiða í ljós hvað var rétt og hvað var rangt en nú skiptir máli að íslensk þjóð bogni ekki fyrir Brown og hans kumpánum. Við höfum kjark, þrek og þor til þess að standast yfirgang misviturra manna.

Kappar eins og Guðmundur Kærnested og Helga Hallvarðssyni voru í fylkingarbrjósti þegar íslenska landhelgin var varin, en þá sýndu menn  æðruleysi og kjark á ögurstund þótt stundum hafi verið við ofurafl að etja. Ég man ennþá peysuna sem að ég fékk með áprentaðri mynd af Guðmundi heitnum og ég klæddist henni oft enda stoltur af mínum manni sem að lét ekki vaða yfir íslenska hagsmuni. Þegar ég fór loksins í starfskynningu í grunnskóla þá valdi ég að dvelja hjá Landhelgisgæsluni og var stoltur af því af fá að fylgjast með þessum hetjum sem voru oft á síðum dagblaðanna.

Menn hafa áður steytt á skeri í samskiptum sínum við Ísland og vonandi fer eins fyrir Gordon Brown  eins og Trampe greifa hér forðum, þjóðin mun að endingu bera slíka menn ofurliði. Íslenska þjóðin er reið og sár vegna framkomu breska ríkisins og hún ekki sætta sig við neitt annað en að stjórnvöld fylgi þessu máli eftir af fullum þunga. Þjóðarstoltið leyfir ekki annað!


Að koma á utanríkisverslun að nýju

Það má segja að Ísland sé orðið einangrað og það sést best á því að hér hefur verið komið á skömmtunarkerfi með gjaldeyri sem að tekur mið af núverandi gjaldeyrisþurrð, svo hitt að trúverðugleikinn á íslenskt hagkerfi er lítill um þessar mundir. Það skiptir höfuðmáli á að koma gjaldeyriskerfinu í gang því hver dagur án virks gjaldeyrismarkaðar er dýrmætur í þeirri stöðu sem við erum í núna. Hundruð milljarða hafa brunnið upp með þjóðnýtingu bankanna eins og hefur komið fram í fréttum. Ef að frjálst flæði fjármagns, vöru og þjónustu kemst ekki á, þá þurfum við ekki að bíða lengi eftir því að það litla traust sem að menn hafa á íslenskum fyrirtækjum hverfi ekki alveg.

Neikvæð áhrif á þjóðnýtingu bankanna mun meðal annars birtast í því að íslensk fyrirtæki munu þurfa að fjármagna sig á nýjan hátt og það mun hafa áhrif á viðskiptaumhverfið og hag hins almenna borgara. Það er einnig áhyggjuefni að skuldsetning íslenskra fyrirtækja og heimila er mikil og það eykur enn á óvissuna.

Því lengur sem að óvissa ríkir þeim mun líklegra er að minna fáist fyrir eignir bankanna og það er mikilvægt að stjórnvöld komi með skýrar og afgerandi aðgerðir til þess að skapa ró og jafnframt trú á íslensku hagkerfi. Íslensk fyrirtæki og íslenskur almenningur þarf að geta staðið við skuldbindingar sínar í útlöndum til þess að geta viðhaldið orðspori sínu í viðskiptum og það getur ekki beðið lengur að óheftum gjaldeyrisviðskiptum verði komið á aftur.


Svona er lífið sagði Viðskiptaráðherra!

Vidskiptaraduneyti-skipurit_stort
 

Það er ljóst að Viðskiptaráðherra sem fagráðherra viðskipta á Íslandi ber hvað mesta ábyrgð á fjármálamarkaðnum og því umhverfi sem að hann starfar eftir. Undir ráðuneytið heyrir Fjármálaeftirlitið og aðrar undirstofnanir sem að fara samkvæmt skipulagslegum markmiðum sínum með eftirlit á fjármálamarkaði. Það er réttmætt að spyrja hver sé ábyrgð Viðskiptaráðherra sem fagráðherra á ástandinu.

Hvað sem öllu tali líður þá voru orð Viðskiptaráðherra þessi þegar að hann tók við starfinu:

,,Það kom mér ánægjulega á óvart að fá í minn hlut viðskiptaráðuneytið. Auðvitað eru það tímamót á ferli hvers stjórnmálamanns að taka við ráðherraembætti og ekki óraði mig fyrir því að ég yrði í þeirri stöðu 36 ára gamall en svona er lífið. Nú taka við nýjir tímar og ný og spennandi verkefni.

Viðskiptaráðuneytið er eitt af atvinnuvegaráðuneytunum og undir það falla samkeppnismál, neytendamál og öll fjármálastarfsemin í landinu. Útrás fjármálafyrirtækjanna sem nú skaffar í kassann stóran hluta af tekjum ríkissjóðs og starfsemi bankanna almennt. Nú er þessu ráðuneyti gert hærra undir höfði enda hefur fjármálastarfsemi og mikilvægi samkeppnismála vaxið hratt og örugglega á fáum árum. Nú er tækifæri til þess að efla rammann utan um þessa starfsemi verulega og auka ábata samfélagsins af útrás fjármálafyrirtækja. Sem er einstök.Um leið þarf að skerpa á ábyrgð og skyldum slíkra fyrirtækja við samfélagið. Sanngjarnt hlutfall réttinda og skyldna.Nú er að setja sig vel inn í málin og ná utan um málaflokkinn á næstu vikum og mánuðum. Og fá gott fólk með í föruneytið.

Meira um stóru verkefnin síðar.”

Ekki ætla ég mér að segja að Viðskiptaráðherra hafi mistekist eða gera þá kröfu um að hann segi af sér, það verður hann sjálfur að gera upp við sem og aðrir embættismenn sem að liggja undir ámæli. Þegar að verkefni Viðskiptaráðuneytsins eru skoðuð þá er það ljóst að þar er ábyrgðin mikil og ljóst að úr því ráðuneyti geta fáir slegið sig til riddara á núverandi ástandi - Ummælin SVONA ER LÍFIÐ fá núna nýja merkingu!

 


Ímyndarskaðinn varanlegur í útlöndum

Það er nokkuð sérstakt að tala heimsálfa á milli þessa dagana og greinilegt að menn vita af ástandinu á Íslandi. Síðasta samtal mitt í dag var við starfsmann okkar í Grikklandi sem að tjáði mér að það hefði verið viðtal við 3 Grikki í grísku sjónvarpi um það hvernig þeim reiddi af á Íslandi. Þessi félagi minn hélt að Ísland væri orðið gjaldþrota og umræðan er öll í þá áttina. Hún Antonella á skiptiborðinu sagði í dag við mig ,,I know of the problems in Iceland but you are receiving so many calls because of this!".  Það biðu vinir og kunningjar eftir því að fá að tala við mig til þess að fá að vita af ástandinu á Íslandi enda hafa erlendir miðlar verið uppfyllir að fréttum um fall bankanna.

Það er alveg klárt í mínum huga að ímyndarskaðinn í útlöndum er mikill og varanlegur. Það skiptir miklu máli að byrjað sé að matreiða jákvæðar fréttir af íslenskum efnahag, menntunarstigi þjóðarinnar, endurnýjanlegri orku og markvissri nýtingu á auðlindum okkar til þess að vinna bug á neikvæðu fyrirsögnunum sem að tröllríða öllu um Ísland þessa dagana.

Íslensk stjórnvöld verða að vinna markvisst að þessum málum. Við þurfum ekki nefnd til þess að vinna að málunum við þurfum fagfólk í okkar þjónustu strax þar sem að miklir viðskiptahagsmunir eru í húfi á mörgum vígstöðvum. Það er of seint að bregðast við í framtíðinni það þarf aðgerðir strax frá fyrsta degi og því miður hef ég það á tilfinningunni að við séum að fara halloka og við skynjum ekki aðstæðurnar frekar en aðdragandann að falli fjármálakerfisins.


Tjaldið er fallið nýjir leikendur stíga á sviðið

Það er ljóst að sl. vika hefur verið með þeim viðburðaríkari í sögu þjóðar okkar. Tjaldið er fallið og sýningin er búin hjá sumum leikendum á meðan nýjir leikendur búa sig undir að stíga inn á sviðið. Milljarða eignir fyrirtækja og einstakling virðast hafa farið fyrir lítið að því er virðist. Á komandi mánuðum munum við upplifa það að ríkissjóður mun safna auknum skuldum, heimilin munu þurfa að aðlaga sig að nýjum veruleika, og það verður erfitt hjá flestum. Við höfum glutrað niður tækifærum til þess að búa enn betur í haginn fyrir land og þjóð, en okkur skorti fyrirhyggju og ráðdeild þegar mest reið á.

Enginn veit hvaðan stormurinn kemur eða hvert hann fer, en svo mikið er víst að hann eyrir engu og leggur stundum stór og sterk eikartré eins og ekkert sé. Það er nú einu sinni svo að við getum ekki alltaf búist við því að rekstur fyrirtækja og líf einstaklinga gangi eftir beinum og breiðum vegi. Fjármálamarkaðurinn virtist á tímabili lúta því lögmáli að hlutabréf gætu einungis hækkað og við slíkar aðstæður fyllast menn eðlilega bjartsýni, stundum úr hófi fram. Margur hefur án efa fengið það á tilfinninguna að hagkerfið væri hægt að túlka í línuriti sem að lægi aðeins upp á við. Þjóð sem að venst á slíkt hugarfar, og gengur að því sem gefnu, að dagurinn á morgunn verði enn betri en dagurinn í dag á ekki von á góðu, sérstaklega á viðkvæmum fjármálamarkaði þar sem að hlutirnir gerast hratt. Ásættanlegur hagnaður varð að víkja fyrir ofurhagnaði og áhættan tók völdin hjá flestum enda góðærið endalaust að því er virtist.

Það er ljóst að íslenska hagkerfið hefur ekki verið í jafnvægi í allnokkurn tíma og hagstjórnartækin virðast ekki hafa virkað sem skyldi. Helstu þátttakendur í kerfinu hafa brugðist. Almenningur hefur tekið of mikið að láni til þess að fjármagna neyslu og kaup á nýju húsnæði. Fyrirtækin hafa þanist út og lagt í miklar fjárfestingar og útrás, og bankarnir hafa gengið á undan með því að dæla inn ódýru lánsfé og ríkisvaldið og eftirlitsstofnanir þess hafa ekki náð að túlka neikvæð skilaboð markaðarins í tíma. Kannski er best að segja að við vorum með góð spil á hendi en útspilið var slæmt og því fór sem fór þ.e. stjórnmálin tóku völdin af markaðnum og þá koma upp aðstæður þar sem ekki er lengur hægt að leysa á einfaldan hátt. Við misstum af Olsen og fengum í staðinn á okkur Olsen Olsen!

Neikvæð viðbrögð frá hinum frjálsa markaði leiða oftast til uppstokkunar þar sem að nýju jafnvægisástandi er komið á í hagkerfinu og slakinn lagfærður. Oftast hafa þessi neikvæðu viðbrögð markaðarins náð að leiðrétta ástandið, t.d. hefur hátt olíuverð leitt til minni aksturs hjá almenningi og háir vextir minnkað eftirspurnina eftir lánum svo dæmi séu tekin. Almenningur lagar sig oftast að því ástandi sem skapast og neikvæðu efnahagsáhrifin þurfa í fyrstu ekki að vera neikvæð þar sem að í kjölfarið fylgir nýtt hugfar, annað neyslumynstur og nýjar lausnir markaðsaðila við ástandinu. Í efnahagslegu tilliti er það kaldur veruleikinn sem að bítur best og virkar.  Sá raunveruleiki sem að við stöndum frammi fyrir nú, þar sem skipið hefur tekið niðri, og björgunarbátarnir bíða þess að verða settir út ef með þarf er af öðrum toga og afurð alþjóðlegarar fjármálakreppu sem hefur sent neikvæð viðbrögð út á markaðinn í allnokkurn tíma án þess að til þess bærir aðilar hafi tekið nægjanlegt mark á því.

Kannski segir yfirlýsing Björgúlfs Guðmundssonar allt sem segja þarf.

,,Hin skyndilegu veðrabrigði, sem urðu við yfirtöku ríkisins á Glitni í síðustu viku komu okkur gjörsamlega í opna skjöldu. Sömuleiðis varð undrun okkar ekki minni, þegar við urðum þess áskynja, að yfirvöld sýndu lítinn vilja í verki til að leita viðskiptalegra lausna líkt og gerist með nágrannaþjóðum okkar, sem einnig glíma við áhrif lausafjárkreppunnar í heiminum. Það bíður framtíðar að átta sig á hvernig staðið var að þessum afdrifríku inngripum ríkisvaldsins í íslenskt athafna- og viðskiptalíf. Á þessari stundu vil ég ekki segja meira um atburði síðustu daga.''

Tjaldið er fallið í bili en það mun taka við ný sýning en það er rétt að spyrja hvað höfum við lært og hvað munum við gera í framhaldinu? Varð andvaraleysi bankakerfinu að falli eða fóru menn hreinlega á taugum? Hefðum við getað lágmarkað tapið með því  að fara öðruvísi að? Hverjir bera ábyrgð? Hverjar voru og eru skyldur eftirlitsstofnana Ríkisins og afhverju gripu þær ekki inn í atburðarrásina fyrr? Af hverju var skýrslum stungið undir stól of hverjir fengu aðgang að skýrslum um slæma stöðu bankanna eins og sagt var frá í fréttum í gær? Hver ber ábyrgð á slíku? Við þurfum að gefa þessu tíma og draga fram í dagsljósið hinn stóra sannleika svo við getum lært af mistökunum.

Það er ljóst að kauphallarviðskipti verða nú svipur á sjón og ríkið verður stóri gerandinn á markaðnum fyrst um sinn. Það er hins vegar eðlileg krafa að nýjir aðilar komi að borðinu og fjármálakerfið verði endurreist hið fyrsta svo að efla megi tiltrú almennings og fyrirtækja á framtíðinni.


Bones for Us

Verum þess minnug að hér er um tímabundna erfiðleika að ræða sem við Íslendingar munum vinna okkur í gegnum. Miklu máli skiptir að við tökumst á við þessa erfiðleika þannig að við byggjum á styrkleikum okkar og leggum áherslu á baráttugleði, bjartsýni, og samkennd.Svo mörg er þau orð sem birtust landsmönnum í auglýsingu í dag frá Menntamálaráðuneytinu, Félags- og Tryggingamálaráðuneytinu og Heilbrigðisráðuneytinu.Það er hægt að taka undir þennan boðskap. Maður veltir því hins vegar fyrir sér hvað verði eftir þegar búið er að gera upp bankana og kaldur veruleikinn leiðir í ljós að lítið er til skiptana. Kannski verður bara bones for us!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband