Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Hí hí keisarinn er í engum fötum!

Það var sérstakt að hlusta á Upplýsingafulltrúa Utanríkisráðuneytisins segja að sjónarmiðum Íslands hafi verið komið á framfæri í erlendum fjölmiðlunum á þeim blaðmannafundum sem hafi verið haldnir á Íslandi í liðinni viku. Því miður hefur eitthvað skolast til í þeim málum enda virðist sem enginn hafi skilið það sem fram hafi farið því það hefur ekkert komið frá íslenskum stjórnvöldum í erlendum fjölmiðlum nema fall bankanna! Ég get tekið undir með Upplýsingafulltrúanum að allt sé að gerast svo hratt og þess frekar þurfum við að bregast hraðar og markvissar við. Um það eru flestir þeir sem eru í viðskiptum og almannatengslum sammála um. Ef Utanríkisráðuneytið hefur aðrar skoðanir og telur að hægt sé að klæða keisarann í fötin eftir að innsetningarathöfnin er um garð gengin þá er illa komið fyrir okkur. Ég get vel skilið að mikil pressa sé á þeim sem eru í framlínu íslenskra stjórnmála núna en látum ekki telja okkur trú um að það sé ekki lykilatriði að bregðast hratt við á 21. öldinni. Erum við að bíða eftir því að rauður rammi renni yfir skjáinn: Beware of the Icelanders!


Hver getur læknað kramið hjarta

Félagi minn í útlöndum sendi mér línu um daginn. ,,Nú sitjum við báðir saman í útlöndum með sært stolt og kalið hjarta." Það er erfitt að vera í burtu og geta bara fylgst með því sem gerist í fjölmiðlum. 9 ára sonur minn kom askvaðandi inn eftir leik með félögum sínum í gær og var mikið niðri fyrir: ,,Pabbi!  Hann Francesco segir að Rússarnir ætla að lána Íslandi fullt af milljónum! Er það satt?" Francesco svissneskur bekkjarfélagi hafði fengið upplýsingarnar úr svissnesku fjölmiðlunum og auðvitað fræddi hann vin sinn um þessa nýju stöðu. Mikill er máttur fjölmiðlanna! Það er ljóst að orðspor landsins fer víða og líka á meðal þeirra yngstu. Auðvitað þurfum við að uppfræða börnin um hið breytta landslag, sérstaklega þegar þau eru fjarri heimalandinu ein á báti í öðru umhverfi en vanalega. Það er skrýtið að vera Íslendingur í útlöndum núna og það er eins og maður reyni að gera ósjálfrátt lítið úr uppruna sínum á meðan stormurinn gengur yfir.

Það verður fróðlegt að heyra nýja hlið á efnahagsmálunum í þætti Björns Inga Hrafnssonar sem er upprisinn eftir jakkafatamálið: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item187276/ Það sýnir svo ekki verður um villst að lífið heldur áfram með nýjum tækifærum og nýjum aðstæðum! Gangi þér allt í haginn Björn!


Aðför að íslenskum hagsmunum

Mikið er ég sammála Sigmundi Gunnlaugssyni skipulagshagfræðingi sem var í Kastljósinu í kvöld, en hann sagði aðförina að Kaupþingi í Bretlandi af pólitískum toga og það er ljóst að Ríkisstjórn Íslands verður að stíga fram fyrir skjöldu og verja íslenska hagsmuni á erlendri grund betur en gert hefur verið. Það er ekki hægt að kyngja því að farið sé að íslenskum fyrirtækjum með þeim hætti eins og bresk stjórnvöld hafa orðið uppvís af. Slíkt er ekki til eftirbreytni og hefur ekkert með eðilieg afskipti að gera heldur eru þau þáttur í stórfelldum skemmdarverkum þar sem að ímynd heillar þjóðar er tröðkuð niður í svaðið. Ríkisstjórn Íslands verður að að láta rannsaka þetta mál og senda skýr skilboð til þeirra kumpána Brown og Darling. Annar mikilvægt atriði kom fram í málflutningi Sigmunds þegar hann gat þess að almannatengslin hafi verið lítil og léleg þar sem að enginn hafi skýrt út málstað Íslands eða reynt að tala máli landsins í Bretlandi. Bretarnir eru snillingar að koma fram eins og ,,Gentlemen" en segja síðan allt aðra sögu í eigin fjölmiðlum og okkar stjórnmálaforingjar eru ekki á heimavelli þar. Almannatengsla er þörf og talsmaður Íslands þarf að vinna í því að tala við bresku pressuna og það þarf að gerast strax og sá aðili á að vera til reiðu í íslenska sendiráðinu í London.

Það er rétt sem að forstjóri Bakkavarar, Ágúst Guðmundsson segir en hann telur að ímynd Íslands hafi orðið fyrir óbætanlegum skaða og sá skaði muni verða verulegur ennþá eftir áratug. Því miður rennir mér í grun um að þetta sé sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. Verðmyndum á eignum íslenskra fyrirtækja og t.d. framkoma gagnvart íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum mun líða fyrir eftir verðfallið á ímyndinni sem er stór hluti af allri velgengi í viðskiptum. Dæmið um námsmanninn og leiguna í London segir allt sem segja þarf. Stjórnmálamenn verða að koma út úr skelinni og taka þátt í því að verja íslenska hagsmuni og þar dugir engin linkind. Við lifum á tímum alþjóðavæðingar en erum samt eins og aukvisar þegar kemur að þvi að tala okkar máli og það er stór misskilningur að halda að enginn sé að hlusta á okkur, við erum kastljósinu og verðum þar um hríð og það verða stjórnmálaforingjarnir að skilja.

 


Eru menn að vinna vinnuna sína

Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með umræðunni undanfarið, og það er eins og það hafi gleymst algjörlega að gæta ímyndar Íslands með almennilegum almannatengslum. Mér sýnist að það sé algjör amatör bragur á því hvernig menn tjá sig og hvernig unnið er í því að koma skilaboðunum áfram til umheimsins og enginn virðist tjá sig við erlenda fjölmiðla nema útfararstjórarnir, ekki illa meint en það er lykilatriði að jákvæðum fréttum sé miðlað frá Íslandi. Verst af öllu er að fylgjast með blaðamannafundum þar sem að skjaldarmerki íslands er ekki einu sinni til staðar. Það er eðlileg krafa í núverandi ástandi að menn íhugi að smáatriðum þau skipta líka máli.


Stjórnvöld verða að eyða óvissunni

Brýnasta hagsmunamál íslenskra fyrirtækja og einstaklinga er að eðlileg gjaldeyrisviðskipti komist á hið fyrsta enda hver dagur dýrmætur án þeirra. Það er ekki einu sinni hægt að millifæra af erlendum reikningum inn á reikninga í íslenskum bönkum því mikil óvissa er með það hvaða gengi er í gangi.  Látum það þó liggja á milli hluta, aðalmálið er að hægt sé að greiða úr viðskiptahagsmunum Íslands og íslenskra fyrirtækja. Seingangurinn mun ekki aðeins auka á óstöðugleikann heldur geta viðskiptahagsmunir íslenskra fyrirtækja skaðast verulega. Á endanum bitnar slíkt tjón á okkur öllum. Það er mér enn í fersku minni þegar að ég sótti Argentínu heim þegar að fjármálalíf landsins var svo til lamað 2001. Ástandið á götunum var ótryggt og almenningur lét reiði sína bitna á því sem fyrir varð.

Nú þarf markvissar aðgerðir og lausnir sem gagnast þjóðarskútunni strax í dag!

 


Ímynd Íslands í heimsmiðlunum

Það er erfitt að vera á erlendri grund og fylgjast með þeim veruleika sem að nú blasir við íslenskum fjölskyldum, íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum yfirleitt. Það fylgir því einhver andleg kreppa að takast á við erlenda samstarfsmenn þessa dagana sem að fylgjast með erlendu fjölmiðlunum sem eru margir hverjir með ítarlegar fréttir af íslenska ástandinu. Auðvitað reynir maður að útskýra ástandið eins og hægt er en í landi eins og Sviss þar sem stöðugleiki er mikill þá skilja menn ekki hamfarinar en ljóst er af viðtölum að menn hafa litla trú á fjármálakerfinu, sérstaklega eftir alla matreiðsluna og umræðuna í erlendum fjölmiðlum.

Ímynd Íslands skiptir miklu máli og það má ekki gerast að blaðamannafundir séu haldnir í því formi eins og ríkið hefur gert frammi fyrir heimsfjölmiðlunum. Eftir að hafa horft á umgjörðina á þessum blaðamannafundum þá virðist manni við fyrstu sýn að þeir séu illa hugsaðir þegar kemur að því að skila ímynd Íslands út á við. Skjaldarmerki Íslands sést hvergi og húsnæðið er hreinlega of lítið og umgjörðin viðvaningsleg, allavega er það mitt mat eftir að hafa fylgst með álengdar.

Damage control eða hámörkun ástandins hefur ekki verið nýtt þar sem að engir sérfræði talsmenn hafa verið fengnir til þess að tjá sig um hag Íslands og stöðu þess í alþjóðasamfélaginu. Það virðist engin stefna hafa verið í gangi þegar kemur að því að miðla jákvæðum fréttum af íslenska fjármálakerfinu, ríkisfjármálum o.s.frv. Slíkt ætti að vera forgangsverkefni við núverandi aðstæður. Það er alveg nóg að hafa mistekist í hagstjórninni það er óþarfi að glutra niður mikilvægum tækifærum í að tala máli íslenskra hagsmuna og hámarka núverandi stöðu.

Það hefur einnig verið áberandi að ummæli forystumanna hafa verið rangtúlkuð í erlendum fjölmiðlunum og jafnvel virðist sem að slíkt hafi þegar valdið miklu og alvarlegu tjóni. Það er mikilvægt við núverandi aðstæður að hæfur fjölmiðlafulltrúi sé hafður með í ráðum þegar menn ræða framtíð Íslands.

 


Hvað mun ekki virka áfram - er það ekki rétta spurningin núna?

Greiðslukortin virka áfram

Valitor, sem gefur út VISA-kort hér á landi fyrir hönd banka og sparisjóða, segir að notkun korta verði eftir sem áður með eðlilegum hætti.  Þetta eigi við um öll kortaviðskipti, jafnt hjá söluaðilum og í hraðbönkum bæði hér heima og erlendis. „Eins og fram kom í ávarpi forsætisráðherra í dag eru markmið aðgerða ríkisstjórnarinnar sem kynntar hafa verið m.a. að tryggja það að almenningur fái eðlilega bankaþjónustu," segir í tilkynningu Valitors.

Óskarinn í fréttaskrifum er tekinn af www.visir.is Vil nota tækifærið og óska Valitor til hamingju með tilkynninguna og Vísi fyrir frábært framtak fyrir að birta fréttina. Er þetta til marks um gagnrýna hugsun sem viðgengst núna?


I didn't do it. It was David!

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er vandinn made in USA!

I didn't do it. It was David

 Alan Greenspan fyrrum Seðlabankastjóri BNA

Jæja þá hafa aðgerðirnar litið dagsins ljós. Þung ský eru yfir þjóðfélaginu og maður sér fram á kaldan vetur. Í kvöld dró ég fram gammósíurnar mínar og hef lagst til hvílu. Á morgun kemur nýr dagur með nýjum tækifærum - líka fyrir fólk í gammósíum!


Vandi víðar en á Íslandi

UBS bankinn í Sviss glímir nú við vandamál sem er angi af lánsfjárkreppunni en bankinn hefur þegar afskrifað 42 billjónir dollara og sagt upp 2000 starfsmönnum, en fleiri uppsagnir eru í pípunum. Vandamál UBS tengjast fyrst of fremst undirmálslánunum svokölluðu en þar hafði bankinn lagt til vænan skerf. Í Sviss er hagkerfið stöðugt í meira lagi og svissneski frankinn ímynd stöðugleikans sjálfs eins og alþekkt er og hér í þessu eyríki Evrópu.

Afleiðing af varahugaverðri lánastefnu UBS hefur leitt til þess að gengi hlutabréfa UBS hefur fallið um 60% það sem af er árinu og sagan segir að margir viðskiptavinir hafi flutt fé af reikningum sínum til annarra banka.

Svissneskir fjármálaskýrendur segja líka að núverandi staða hafi kennt mönnum að það bankar eins og UBS og Credit Suisse þurfi að hafa lágmark 50% lausafjárhlutfall. Að auki hefur núverandi staða sýnt að áhættustjórnun þurfi að bæta til muna og það er einmitt stóra málið með þessum pistli. Í apríl 2002 fékk yfirstjórn UBS skýrslu í hendur sem taldi að áhættan væri töluverð af undirmálslánunum. Sú skýrsla var aldrei rætt að neinu marki og margir segja að hún hafi verið lögð til hliðar og bankinn hafi haldið áfram að lána eins og ekkert væri. Í þessu samhengi er rétt að benda á að íslenska Fjármálaeftirlitið hefur sagt undirstöður bankanna á Íslandi traustar en annað hefur nú komið á daginn og rétt að spyrja hvort að áhættugreiningin og stöðumat hafi í raun verið ábótavant. Það er létt að vera vitur eftir á en það er ljóst að menn hafa ekki trúað því að hlutirnir gætu farið eins og þeir hafa gert. Sú lexía er dýrmæt til framtíðar.

Stóra málið í svissnesku fjármálalífi núna er að menn telja töluverða hættu á að lífeyrissparnaður muni skerðast verulega með fallandi verði á eignamörkuðum. Umræðan er á þá lund að það þurfi mjög lítið í viðbót til þess að stjórnvöld grípi inn í til þess að vernda lífeyrissparnað landsmanna og það segir allt sem segja þarf. Ef svissneska lífeyrissjóðskerfið, eitt traustasta kerfi í heimi hrynur þá er ekkert til sem heitir stöðugleiki lengur.

Vandamál markaðarins akkúrat núna eru fólgin í því að það ríkir almenn vantrú og tortryggni á milli banka- og fjármálastofnana. Í fjallríkinu Sviss fer því fjarri að fjölmiðlar séu uppfullir af fréttum um bankakreppuna og menn tjá sig almennt ekki opinberlega um bankamálin og hagstjórnina í þeim ríka mæli eins og gerist á Íslandi.

Svissneskir fjármálagreinendur segja að núverandi staða komi til einu sinni á öld og þeir segja að fjárfestar muni ekki taka við sér fyrr en þeir telja hið versta yfirstaðið, svo sem ekki mikil speki fólgin í þeim ummælum. Líklegt verður að telja að botninum sé við það að verða náð en það mun taka tíma að greiða úr fjármálaflækjum, skuldavafningum og eignasöfnum sem hafa fallið gríðarlega í verði eftir alla taugaveiklunina. Afleiðingin af trúverðugleikaskorti á fjármálamörkuðunum mun leiða til þess að fjöldi manna mun vissa atvinnuna, fyrirtæki munu leggja upp laupana og skattborgarar munu borga brúsann.

Þegar rýnt er í íslenska fjölmiðla og umræðuna almennt þá er ljóst að taugar landsmanna eru þandar til hins ítrasta. Vonandi bera menn skynbragð á að skilja kjarnann frá hisminu og þá sér í lagi með umræðuna um ESB sem einhverja töfralausn á núverandi ástandi. Það má ekki ógna stöðugleikanum með upphlaupum og mishugsuðum aðgerðum sem kunna að gera vont ástand enn verra, sérstaklega eftir að ímyndin hefur beðið hnekki og margur með sálartetrið í sárum. Þar sannast hið fornkveðna, aðgát skal höfð í nærværu sálar.


My left foot

Það er alltaf gaman að fylgjast með ungviðinu þegar að það stígur sín fyrstu skref í íþróttunum. Einar Lár hefur verið iðinn við að skora og það er skemmtilegt að sjá að hann hefur náð að þróa vinstri fótinn til aðgerða. Kantónu mótin í fótbolta eru í fullum gangi núna og sá stutti sem sest hér að neðan, annar frá vinstri setti eitt í morgun og er það þriðja helgin í röð sem að hann skorar. Drengurinn á ekki langt að sækja hæfileikana enda var afinn Einar Halldórsson fyrrum Valsmaður og landsliðsmaður var vel þekktur fyrir fótfimi sína. Einar Lár á líka frænda í bikarúrslitaleiknum í dag en það mun vera Gunnlaugur Jónsson KR-ingur sonur Jóns Gunnlaugssonar Skagamanns.

 

Malley_08_09_E5


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband