Tjaldið er fallið nýjir leikendur stíga á sviðið

Það er ljóst að sl. vika hefur verið með þeim viðburðaríkari í sögu þjóðar okkar. Tjaldið er fallið og sýningin er búin hjá sumum leikendum á meðan nýjir leikendur búa sig undir að stíga inn á sviðið. Milljarða eignir fyrirtækja og einstakling virðast hafa farið fyrir lítið að því er virðist. Á komandi mánuðum munum við upplifa það að ríkissjóður mun safna auknum skuldum, heimilin munu þurfa að aðlaga sig að nýjum veruleika, og það verður erfitt hjá flestum. Við höfum glutrað niður tækifærum til þess að búa enn betur í haginn fyrir land og þjóð, en okkur skorti fyrirhyggju og ráðdeild þegar mest reið á.

Enginn veit hvaðan stormurinn kemur eða hvert hann fer, en svo mikið er víst að hann eyrir engu og leggur stundum stór og sterk eikartré eins og ekkert sé. Það er nú einu sinni svo að við getum ekki alltaf búist við því að rekstur fyrirtækja og líf einstaklinga gangi eftir beinum og breiðum vegi. Fjármálamarkaðurinn virtist á tímabili lúta því lögmáli að hlutabréf gætu einungis hækkað og við slíkar aðstæður fyllast menn eðlilega bjartsýni, stundum úr hófi fram. Margur hefur án efa fengið það á tilfinninguna að hagkerfið væri hægt að túlka í línuriti sem að lægi aðeins upp á við. Þjóð sem að venst á slíkt hugarfar, og gengur að því sem gefnu, að dagurinn á morgunn verði enn betri en dagurinn í dag á ekki von á góðu, sérstaklega á viðkvæmum fjármálamarkaði þar sem að hlutirnir gerast hratt. Ásættanlegur hagnaður varð að víkja fyrir ofurhagnaði og áhættan tók völdin hjá flestum enda góðærið endalaust að því er virtist.

Það er ljóst að íslenska hagkerfið hefur ekki verið í jafnvægi í allnokkurn tíma og hagstjórnartækin virðast ekki hafa virkað sem skyldi. Helstu þátttakendur í kerfinu hafa brugðist. Almenningur hefur tekið of mikið að láni til þess að fjármagna neyslu og kaup á nýju húsnæði. Fyrirtækin hafa þanist út og lagt í miklar fjárfestingar og útrás, og bankarnir hafa gengið á undan með því að dæla inn ódýru lánsfé og ríkisvaldið og eftirlitsstofnanir þess hafa ekki náð að túlka neikvæð skilaboð markaðarins í tíma. Kannski er best að segja að við vorum með góð spil á hendi en útspilið var slæmt og því fór sem fór þ.e. stjórnmálin tóku völdin af markaðnum og þá koma upp aðstæður þar sem ekki er lengur hægt að leysa á einfaldan hátt. Við misstum af Olsen og fengum í staðinn á okkur Olsen Olsen!

Neikvæð viðbrögð frá hinum frjálsa markaði leiða oftast til uppstokkunar þar sem að nýju jafnvægisástandi er komið á í hagkerfinu og slakinn lagfærður. Oftast hafa þessi neikvæðu viðbrögð markaðarins náð að leiðrétta ástandið, t.d. hefur hátt olíuverð leitt til minni aksturs hjá almenningi og háir vextir minnkað eftirspurnina eftir lánum svo dæmi séu tekin. Almenningur lagar sig oftast að því ástandi sem skapast og neikvæðu efnahagsáhrifin þurfa í fyrstu ekki að vera neikvæð þar sem að í kjölfarið fylgir nýtt hugfar, annað neyslumynstur og nýjar lausnir markaðsaðila við ástandinu. Í efnahagslegu tilliti er það kaldur veruleikinn sem að bítur best og virkar.  Sá raunveruleiki sem að við stöndum frammi fyrir nú, þar sem skipið hefur tekið niðri, og björgunarbátarnir bíða þess að verða settir út ef með þarf er af öðrum toga og afurð alþjóðlegarar fjármálakreppu sem hefur sent neikvæð viðbrögð út á markaðinn í allnokkurn tíma án þess að til þess bærir aðilar hafi tekið nægjanlegt mark á því.

Kannski segir yfirlýsing Björgúlfs Guðmundssonar allt sem segja þarf.

,,Hin skyndilegu veðrabrigði, sem urðu við yfirtöku ríkisins á Glitni í síðustu viku komu okkur gjörsamlega í opna skjöldu. Sömuleiðis varð undrun okkar ekki minni, þegar við urðum þess áskynja, að yfirvöld sýndu lítinn vilja í verki til að leita viðskiptalegra lausna líkt og gerist með nágrannaþjóðum okkar, sem einnig glíma við áhrif lausafjárkreppunnar í heiminum. Það bíður framtíðar að átta sig á hvernig staðið var að þessum afdrifríku inngripum ríkisvaldsins í íslenskt athafna- og viðskiptalíf. Á þessari stundu vil ég ekki segja meira um atburði síðustu daga.''

Tjaldið er fallið í bili en það mun taka við ný sýning en það er rétt að spyrja hvað höfum við lært og hvað munum við gera í framhaldinu? Varð andvaraleysi bankakerfinu að falli eða fóru menn hreinlega á taugum? Hefðum við getað lágmarkað tapið með því  að fara öðruvísi að? Hverjir bera ábyrgð? Hverjar voru og eru skyldur eftirlitsstofnana Ríkisins og afhverju gripu þær ekki inn í atburðarrásina fyrr? Af hverju var skýrslum stungið undir stól of hverjir fengu aðgang að skýrslum um slæma stöðu bankanna eins og sagt var frá í fréttum í gær? Hver ber ábyrgð á slíku? Við þurfum að gefa þessu tíma og draga fram í dagsljósið hinn stóra sannleika svo við getum lært af mistökunum.

Það er ljóst að kauphallarviðskipti verða nú svipur á sjón og ríkið verður stóri gerandinn á markaðnum fyrst um sinn. Það er hins vegar eðlileg krafa að nýjir aðilar komi að borðinu og fjármálakerfið verði endurreist hið fyrsta svo að efla megi tiltrú almennings og fyrirtækja á framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband