Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
Lýðræðið fótum troðið
23.1.2009 | 22:38
Þegar frá líður þá munu menn eflaust rýna í söguna og þá svörtu daga þar sem að helstu stofnanir lýðveldisins hafa sætt árásum, allt í nafni borgararlegrar óhlýðni. Svo langt hafa menn gengið að eldar hafa verið kveiktir og veist hefur verið að lögreglu auk þess sem að skemmdir hafa verið unnar á mörgum mannvirkjum. Meirihluti þjóðarinnar hefur verið í gíslingu því að lögreglan hefur ekki ráðið almennilega við ástandið eða ekki haft mannafla til þess að taka á málum og því hefur hinn löghlýðni meirihluti mátt líða fyrir. Það er náttúrulega ekki hægt að setja alla í sama flokk en það er ljóst að lögreglan verður að gæta hagsmuna borgaranna og ganga þannig fram að þeir sem hafa unnið skemmdarverk verði látnir sæta ábyrgð. Þær athafnir sem að fámennur hópur hefur haft í frammi er frekleg aðför að hagsmunum hins löghlýðna borgara.
Þau vandamál sem að Ísland glímir nú við eru ekki staðbundin heldur hluti af mikilli efnahagslægð sem að gengur nú yfir heimsbyggðina og ljóst að um fátt annað verður rætt á fundi heimsleiðtoganna í Davos í Sviss í lok mánaðarins. Það er einmitt í núverandi árferði sem að þjóðin þarf á samhug og samvinnu að halda en ekki niðurrifsstarfssemi þeirra sem segjast tala í nafni fólksins. Það hefur alveg vantað að fjölmiðlar ræði við venjulegt fólk, fólk sem þarf að vakna til þess að fara i vinnuna á morgnana og jafnframt að horfa framan í börnin sín og trúa því að á morgun sé nýr dagur með nýjum möguleikum. Það er eðlilegt að hinir friðsömu borgar spyrji: Hvað með okkar rétt?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ný staða kallar fram ný viðmið
23.1.2009 | 18:36
Það má segja að þessi vika hafi verið eftirminnileg og það hefur verið erfitt að horfa á alla þá ólgu sem að hefur farið um Ísland, sérstaklega á meðal þeirra mótmælenda sem að hafa farið yfir strikið í aðgerðum sínum og úthellt reiði sinni yfir helstu stofnanir lýðveldisins. Það er ekki annað hægt en að vorkenna slíku fólki. Það er ljóst að við erum í stöðu sem er ekki góð og hún mun ekki verða svo mikið betri eftir næstu kosningar. Það þarf samvinnu og samkennd til þess að sigrast á þeim vandamálum sem að almenningur og fyrirtæki í þessu landi standa frammi fyrir. Það þarf festu og trú á að það sé hægt að bæta ástandið til hins betra. Ísland hefur mikið af auðlindum og þó að margir hafi tapað þá er það nú líka einu sinni þannig að hin raunverulegu verðmæti eru fólgin í góðri heilsu eins og hefur sannast svo áþreifanlega í veikindum stjórnmálaforingjanna, Geirs og Ingibjargar. Þrátt fyrir allt eru stjórnmálamenn mannlegir og þeir gera sín mistök, hafa sína kosti og galla svona rétt eins og við hin.
Hið pólitíska landslag er nú gjörbreytt, svona fyrst um sinn. Við siglum inn í ákveðið óvissuástand sem að mun ekki breytast með neinni utanþingsstjórn eins og svo margir hafa kallað eftir eða með þvi að kalla fram annað bráðabirgða stjórnarfar. Þegar horft er raunhæft á aðstæður þá eru kosningar í maí slæmur kostur því það hefði þurft meiri tíma fyrir flokkana að undirbúa sig betur og janfvel fá nýtt fólk inn í forystusveitina og inn í starf flokkanna. Staðan í dag er sú að það þarf þungavigtarfólk inn i stjórnmálin og það verður erfitt að sjá að það gerist á svo stuttum tíma en það er aldrei að vita.
Því miður eru ekki mörg leiðtogaefni í stöðunni, en margir ungir kandidatar sem hafa litla reynslu og ég verð að segja að ef sömu andlitin eru í framboði fáum við þá eitthvað betra ástand? Það mun tíminn einn leiða í ljós. Það er rétt að senda forsætis- og utanríkisráðherra bestu óskir um góðan bata.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.1.2009 kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gott hjá Stefáni
22.1.2009 | 19:59
Ég er á því að Stefán hafi staðið sig afburðavel sem lögreglustjóri og margir lögreglumenn eiga miklar þakkir skyldar fyrir að starfa í þágu okkar hinna. Það er ekki öfundsvert hlutverk að þurfa að hætta lífi og limum fyrir framan sjálft Alþingi Íslands. Það er búið að reyna að eiga við menn með góðu en það hefur ekki dugað hingað til. Það er komin fram ný þjóðfélagsmynd þar sem meiri harka og skeytingarleysi eru ríkjandi. Það er ljóst að það þarf að styrkja löggæsluna í landinu enn frekar með betri búnaði til þess að tryggja fælingarmáttinn. Það er sennilega það eina rétta í stöðunni enda getur ástand eins og við öfum orðið vitni að þróast út í eitt allsherjar ófremdarástand. Ég held að flestir kjósi sterka löggæslu sérstaklega í því ástandi sem er til staðar núna.
Munu hafa uppi á ofbeldismönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 23.1.2009 kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hversu langt á að ganga?
22.1.2009 | 12:01
Það eru margir sem eru langt í frá að vera ánægðir með núverandi mótmæli og þá háttsemi sem að höfð hefur verið í frammi af vissum mótmælendum sem að gengu svo langt í gær að gefa frændum okkar Norðmönnum langt nef með því að brenna jólatréð á Austurvelli sem er einmitt tákn friðar og vináttu. Hversu lengi á það að ganga að öryggi íslenskra borgara og eigur ríkis og borgar séu tröðkuð niður í svaðið? Eru ekki takmörk fyrir því? Eða munu menn hreinlega bera elda að byggingum og öðru lauslegu næst? Er ekki rétt að þingmenn okkar og forseti gangi fram fyrir skjöldu og hvetji til fólk til þess að mótmæla friðsamlega, ef ekki núna hvenær þá?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Að standa í ströngu
21.1.2009 | 21:26
Steingrímur J. opinberaði í Kastljósinu í kvöld að hann teldi lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa fleiri galla í för með sér en kosti fyrir íslenska hagsmuni, og á málflutningi hans mátti skiljast að við hefðum ekkert við þessi lán að gera undir þeim afarkostum sem í boði væru. Þegar Steingrímur var svo spurður út í hvaða lausnir hann hefði á ástandinu þá varð fátt um svör.
Forsætisráðherra virkaði hálf þungur, enda búinn að standa í ströngu í dag, og það er ljóst að það er ekki tekið út með sældinni að starfa í umboði kjósenda. Ólíkt hafast þeir að félagarnir Geir og Steingrímur, sá fyrrnefndi á erftitt með að koma sér á milli húsa á meðan hinn tekur kvöldgöngu á Austurvelli til þess að horfa á vinnustaðinn sæta áhlaupi.
Það er einkum tvennt sem stendur upp úr eftir viðtalið við þá félaga. Í fyrsta lagi sú staðreynd, að íslensk fyrirtæki og heimili lenda í enn meiri vanda ef Steingrímur sest við stýrið enda sagði hann blákalt að hann myndi skila lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til baka. Eitt og sér myndi það skerða möguleika íslenska ríkisins á að standa við núverandi skuldbindingar sínar, og um leið lokaðist á allt súrefnisflæði í hagkerfinu og í kjölfarið myndu bankar og fyrirtæki falla fljótt í núverandi árferði. Seinna atriðið, þegar forsætisráðherra var spurður út í það hvort menn ætluðu að axla ábyrgð þá var fátt um svör sem gefur sterklega til kynna að menn gangi ekki í takt við kröfur fólksins í samfélaginu.
Það er enginn skyndilausn í stöðunni en hvernig er hægt að taka stjórnmálamann alvarlega sem að hreinlega segir að hann muni sjái til þess að hér verði enginn sjóður til þess að grípa til ef ástandið versnaði. Ég verð að segja að það er hægt að segja allt í fjölmiðlum og komast upp með það og hafa jafnframt engar lausnir í farteskinu. Það er ljóst að með Steingrími munu fylgja ný neyðarlög og jafnvel meiri óvissa en nú er.
Þrátt fyrir ólguna í samfélaginu þá þarf fólk að bera virðingu fyrir helstu stofnunum lýðveldisins Íslands. Það er lítið mál að rífa niður Ísland og framtíð þeirra sem landið skulu erfa. Það hefur gefið á bátinn, og við erum í miðjum ölduganginum og þá er um að gera að hafa skynsemina til staðar svo hægt sé að stýra bátnum á lygnari sjó.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.1.2009 kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Austurvöllur eða Aðgerðarvöllur
20.1.2009 | 22:09
Það hefur verið sérstakt að fylgjast með atburðum dagsins á Austurvelli og án efa eru margar skoðanir á málum, allt frá framgöngu lögeglunnar til aðgerða mótmælenda sem hafa tekið sér stöðu fyrir utan Alþingishúsið. Eftir að hafa fylgst með viðtölunum í sjónvarpi þá er ljóst að það djúp gjá á milli aðila, þeirra sem segjast vera raddir fólksins og þeirra sem þjóna röddum fólksins. Slíkt kann ekki góðru lukku að stýra.
Mótmælendur krefjast kosninga strax eins og það eitt og sér muni leysa þann bráðavanda sem er til staðar. Það er nákvæmlega engin trygging fyrir því að kosningar einar og sér muni skila þeirri niðurstöðu sem að menn eigi eftir að sætta sig við, og það er átakanlegt að horfa á forystumenn í stjórnmálum koma fram í fjölmiðlum og jafnvel tala í hálfkveðnum vísum um stjórnarsamstarfið. Það sér hver heilvita maður að slíkt er ekki uppbyggilegt. Á sama tíma koma forystumenn stjórnarandstöðunnar einnig fram í viðtölum og skjóta föstum skotum og kvarta yfir getuleysi ríkisstjórnarinnar. Er ekki eðlilegt að menn komi með tillögur og hugmyndir að því hvernig megi leysa bráðavandann? Festa, agi og ábyrgð er það sem skiptir máli við núverandi aðstæður en kannski er það óskhyggja að svo verði, sérstaklega á meðan hver höndin er uppi á móti annarri og meiri fréttir berast af aðgerðum mótmælenda en þeirra sem leiða eiga þjóðina fram úr vandanum.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá munu mótmæli ein og sér ekki leysa þau vandamál sem að þjóðin á í núna. Það sama gildir um stjórnmálamenn sem að reyna að slá sig til riddara á ástandinu og telja öðrum trú að þeir hafi lausnir á takteinum. Slíkt er lýðskrum af verstu sort. Við þurfum að treysta innviði samfélagsins og halda virðingu okkar gagnvart helstu stofnunum samfélagsins þrátt fyrir að það sé erfitt nú um stundir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.1.2009 kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jákvæðar æfingar bestar
11.1.2009 | 14:30
Það er ekkert að því að fólk mótmæli og komi fram skoðunum sínum á friðsamlegan hátt. Það ber hinsvegar að taka ummæli Harðar alvarlega þegar að hann segir mótmælin vera rétt að byrja. Það hefur sýnt sig að lítið má útaf bregða til þess að hlutirnir fari ekki úr böndunum og ljóst að lögreglan verður að vera tilbúin að grípa inn í fyrr ef illa fer. Málefnaleg mótmæli eiga að snúast um réttmætar kröfur og vera jafnframt með skilaboð til úrlausnar, það er væntanlega hagur flestra. Vonandi verða æfingarnar í anda sjálfsstyrkingar og málefnalegrar umræðu og Hörður ber gríðarlega ábyrgð á því að allt fari vel fram. Af litlum neista verður oft mikið bál!
Hörður: Mótmælin rétt að byrja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Að tolla í tískunni
8.1.2009 | 22:14
Tími litla mannsins er runninn upp aftur. Það er ekkert merkilegt að vera ofurlaunamaður með ofurréttindi það er svo 2007-legt. Bjarni Ármannsson fyrrverandi bankamaður hefur sannað hið fornkveðna, að það er mikilvægt að tolla í tískunni og taka virkan þátt í þjóðfélagsbreytingunum eins og endurgreiðslan sýnir. Það er erfitt fyrir stórlaxana að fóta sig í íslensku samfélagi þessa dagana enda eru menn úthrópaðir á torgum og strætum, og jafnvel hafa einhverjir gerst svo kræfir að banka í menn á hinum ýmsu stöðum eins og komið hefur fram í fréttum. Það má segja að tími uppgjöranna sé gengin í garð og ný merking falin í því orði svona rétt eins í orðinu skilanefnd. Sú græðgisstefna með óhóflegum launum og launakjörum hefur beðið hnekki en hún eitraði íslenskt samfélag og virðingu manna fyrir grunngildum samfélagsins. Auðvitað var óhófleg einkaneysla og vanhugsaðar fjárfestingar í fararbroddi hjá mörgum á meðan sumir náðu að sýna fyrirhyggju. Þannig er það alltaf og það er ekki alltaf hægt að bjarga öllum enda ekki nægjanlega margir björgunarbátar til staðar.
Tími ráðdeildar og hagsýni er nú genginn í garð! Sparnaður, nægjusemi og ráðdeild eru lykilatriðið í dag. Öllu má þó ofgera og stundum er vanhugsaður niðurskurður ekki sú lausn sem að hentar, sérstaklega ekki þegar að atvinnuleysi er staðreynd. Sjórnmálamenn verða að sýna leiðtogahæfni og framsýni þegar kemur að þvi að skapa störf og hvetja til fjárfestinga. Fyrirtækin í landinu þurfa hvatningu til þess að starfa áfram og launþegar þurfa að hafa öryggi fyrir því að atvinnan þeirra sé trygg og hafa trú á því að hægt sé að skapa og byggja upp að nýju.
Listin að þræða hinn gullna meðalveg hefur alltaf verið vandrötuð. Einn er sá maður sem hefur grætt mikið og þrætt hinn gullna meðalveg af mikilli kænsku og fyrirhyggju en það er ofurfjárfestirinn Warren Buffet. Buffet hefur t.d. búið í sama húsi síðustu fimm áratugina og berst yfirleitt lítið á, öfugt miðað við marga aðra og hefur gefið yfir 31 billjón bandaríkjadala til góðgerðarmála. Líffspeki hans og fjárfestingarstefna hefur byggst upp á hyggjuviti og fyrirlitningu á eyðslu og óhófi eins og frægt er orðið. Þrátt fyrir mikinn skell þá er enn hægt að græða en það þarf fyrirhyggju og þessvegna fylgir hér tenging á heilræði Buffets: http://articles.moneycentral.msn.com/learn-how-to-invest/10-investing-basics-from-Buffett.aspx Þetta er náttúrulega allt án ábyrgðar svona rétt eins og þegar fólki var ráðlegt með sparnaðinn!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)