Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Vandi víðar en á Íslandi
5.10.2008 | 18:50
UBS bankinn í Sviss glímir nú við vandamál sem er angi af lánsfjárkreppunni en bankinn hefur þegar afskrifað 42 billjónir dollara og sagt upp 2000 starfsmönnum, en fleiri uppsagnir eru í pípunum. Vandamál UBS tengjast fyrst of fremst undirmálslánunum svokölluðu en þar hafði bankinn lagt til vænan skerf. Í Sviss er hagkerfið stöðugt í meira lagi og svissneski frankinn ímynd stöðugleikans sjálfs eins og alþekkt er og hér í þessu eyríki Evrópu.
Afleiðing af varahugaverðri lánastefnu UBS hefur leitt til þess að gengi hlutabréfa UBS hefur fallið um 60% það sem af er árinu og sagan segir að margir viðskiptavinir hafi flutt fé af reikningum sínum til annarra banka.
Svissneskir fjármálaskýrendur segja líka að núverandi staða hafi kennt mönnum að það bankar eins og UBS og Credit Suisse þurfi að hafa lágmark 50% lausafjárhlutfall. Að auki hefur núverandi staða sýnt að áhættustjórnun þurfi að bæta til muna og það er einmitt stóra málið með þessum pistli. Í apríl 2002 fékk yfirstjórn UBS skýrslu í hendur sem taldi að áhættan væri töluverð af undirmálslánunum. Sú skýrsla var aldrei rætt að neinu marki og margir segja að hún hafi verið lögð til hliðar og bankinn hafi haldið áfram að lána eins og ekkert væri. Í þessu samhengi er rétt að benda á að íslenska Fjármálaeftirlitið hefur sagt undirstöður bankanna á Íslandi traustar en annað hefur nú komið á daginn og rétt að spyrja hvort að áhættugreiningin og stöðumat hafi í raun verið ábótavant. Það er létt að vera vitur eftir á en það er ljóst að menn hafa ekki trúað því að hlutirnir gætu farið eins og þeir hafa gert. Sú lexía er dýrmæt til framtíðar.
Stóra málið í svissnesku fjármálalífi núna er að menn telja töluverða hættu á að lífeyrissparnaður muni skerðast verulega með fallandi verði á eignamörkuðum. Umræðan er á þá lund að það þurfi mjög lítið í viðbót til þess að stjórnvöld grípi inn í til þess að vernda lífeyrissparnað landsmanna og það segir allt sem segja þarf. Ef svissneska lífeyrissjóðskerfið, eitt traustasta kerfi í heimi hrynur þá er ekkert til sem heitir stöðugleiki lengur.
Vandamál markaðarins akkúrat núna eru fólgin í því að það ríkir almenn vantrú og tortryggni á milli banka- og fjármálastofnana. Í fjallríkinu Sviss fer því fjarri að fjölmiðlar séu uppfullir af fréttum um bankakreppuna og menn tjá sig almennt ekki opinberlega um bankamálin og hagstjórnina í þeim ríka mæli eins og gerist á Íslandi.
Svissneskir fjármálagreinendur segja að núverandi staða komi til einu sinni á öld og þeir segja að fjárfestar muni ekki taka við sér fyrr en þeir telja hið versta yfirstaðið, svo sem ekki mikil speki fólgin í þeim ummælum. Líklegt verður að telja að botninum sé við það að verða náð en það mun taka tíma að greiða úr fjármálaflækjum, skuldavafningum og eignasöfnum sem hafa fallið gríðarlega í verði eftir alla taugaveiklunina. Afleiðingin af trúverðugleikaskorti á fjármálamörkuðunum mun leiða til þess að fjöldi manna mun vissa atvinnuna, fyrirtæki munu leggja upp laupana og skattborgarar munu borga brúsann.
Þegar rýnt er í íslenska fjölmiðla og umræðuna almennt þá er ljóst að taugar landsmanna eru þandar til hins ítrasta. Vonandi bera menn skynbragð á að skilja kjarnann frá hisminu og þá sér í lagi með umræðuna um ESB sem einhverja töfralausn á núverandi ástandi. Það má ekki ógna stöðugleikanum með upphlaupum og mishugsuðum aðgerðum sem kunna að gera vont ástand enn verra, sérstaklega eftir að ímyndin hefur beðið hnekki og margur með sálartetrið í sárum. Þar sannast hið fornkveðna, aðgát skal höfð í nærværu sálar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Og eigið þið góðar stundir
2.10.2008 | 21:16
Eldhúsdagsskrárumræður frá Alþingi gefa til kynna að þinghald verður líflegt í vetur, og það er jafnframt ljóst að í hönd fer kaldur vetur. Sú þunga umræða sem að hefur verið í fjölmiðlum hefur án efa aukið á áhyggjur fólks og það var því gott að heyra í málflutningi forsætisráðherra að allt yrði gert til þess að tryggja hag sparifjáreigenda og innistæður þeirra enda ótækt að almenningur búi við óvissu í samskiptum við bankana. Í því ljósi var um skýra stefnumörkun að ræða um atriði er snertir landsmenn alla. Við megum heldur ekki gleyma að lítið hagkerfi eins og það íslenska er og verður alltaf berskjaldað gagnvart ytri áhrifum.
Sú kreppuvísitala sem hefur verið búin til núna sýnir svo ekki verður um villst að lánfjárkreppan hefur stimplað sig rækilega inn sem einn af stóru markaðsskellunum. Sviptingar á fjármála- og atvinnumarkaði gefa til kynna að efnahagsstjórnin og efnahagsmálin verða aðalmálin í vetur og er það vel skiljanlegt. Sú umræða sem fram mun fara þarf að taka mið af því að bæta ástandið í stað þess að einskorðast við upphlaup sem engu skila. Stjórnmálamenn og fjölmiðlar bera mikla ábyrgð og þeir mega ekki hræða fólk svo mikið að það þverri þor og kjark til þess að takast á við daginn á morgun. Það á ekki að koma okkur íslendingum á óvart að efnahagurinn sveiflast og sá dans sem við stígum nú er stiginn um heim allann og er ekkert séríslenskt fyrirbæri. Við getum vonandi öll sammælst um að það er enginn töfralausn til við núverandi aðstæður, það þarf þolinmæði og skynsemi en ekki upphrópanir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orð dagsins
26.9.2008 | 21:37
Það gerist oft nú orðið að fólk missir sig í viðtölum í fjölmiðlum, þó sér í lagi í beinni útsendingu í sjónvarpi. Oft falla ummæli sem betur hefðu verði látin ósögð. Kannski er því um að kenna að landið er fámennt og viðmælendur fjölmiðla eru oft á tíðum sama fólkið aftur og aftur. Ekki veit ég hvort að það skýri slíkar uppákomur eða hvort að staðreyndin sé sú að viðmælendur eru orðnir of heimavanir. Það er líka eins og spyrjendurnir séu illa á varðbergi og of seinir að grípa inn í atburðarrásina. Virðing þverrandi fer fyrir pólitískum andstæðingum á Alþingi þar sem þingmenn láta ýmislegt flakka úr ræðustólnum og eru lítt til eftirbreytni.
Orð dagsins eru fengin úr grein Sigurðar Kára Kristjánssonar alþingismanns í Morgunblaðinu í dag eru þörf ábending: ,,Málflutningur sem einungis er byggður á persónulegri óvild og heift í garð annarra hefur aldrei og mun aldrei hafa neitt uppbyggilegt í för með sér.´´
Vér mótmælum allir
23.4.2008 | 21:00
Það var með ólíkindum að horfa á mótmæli bílstjóra flutningabíla og sjá átök þeirra við lögregluna í sjónvarpinu. Það er ljóst að þau átök sem að urðu í dag eru kannski upphafið að nýjum tímum og ljóst að þjóðfélagið er ekki það sama eftir svona atburð. Grundvallaratriðið er samt að menn verða að virða landslög og það er hlutverk lögreglu að tryggja almannaheill. Það er ljóst að þær aðgerðir bílstjóranna að loka aðal samgönguæðunum í Reykjavík eru til þess fallnar að raska almennu öryggi borgaranna. Mér er til efs að slík mótmæli væru látin óátalin annarsstaðar í Evrópu. Það sem brennur á mér er hinsvegar sú staðreynd að við búum í breyttu þjóðfélagi þar sem aukin harka og almennt skeytingarleysi virðist vera ríkjandi. Virðing fyrir lögum og reglum hefur því miður verið á undanhaldi og það líður ekki sá dagur orðið að ekki séu kveðnir upp dómar vegna hinna ýmsu glæpa. Þessr atburðir í dag færðu okkur rétta mynd af þeim ólíku aðstæðum sem skapast getur vegna tiltölulega fámenns hóps sem að getur hreinlega haldið stórum hluta lögreglunnar í herkví með því að skapa sérstakar aðstæður sem að hleypa öllu í bál og brand. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að það þarf að efla löggæsluúrræði og styrkja almennu lögregluna sem og sérsveitina til þess að takast á við nýja tegund af löggæslu sem mótast af því að tryggja almanna hagsmuni með afgerandi hætti. Það er eins og sumir stjórnmálamenn trúi því ennþá að Ísland sé land þar sem að engin hætta á átökum séu til staðar. Slík hugsun er hreinlega skaðleg og léttvæg þegar staðreyndirnar sýna annað. Það er líka sorglegt að sjá að menn kjósa að hverfa frá orðræðunni til aðgerða sem eru beinlínis andsnúnar hagsmunum þorra borgaranna. Sú gagnrýni sem hefur verið sett fram um framgöngu lögreglunnar mótast kannski af því að menn eru ekki vanir því að sjá lögregluna beita sérsveitinni í návígi en nú vita menn að hún er til og það gefur líka ákveðin skilaboð. Annars er bara að vona að menn sjái að sér og reyni að leysa málin með heilbrigðri umræðu í stað aðgerða sem verða ekki aftur teknar og gildir þá einu hvort um er að ræða lögreglu eða bílstjórana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)