Færsluflokkur: Bloggar

Eru menn að vinna vinnuna sína

Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með umræðunni undanfarið, og það er eins og það hafi gleymst algjörlega að gæta ímyndar Íslands með almennilegum almannatengslum. Mér sýnist að það sé algjör amatör bragur á því hvernig menn tjá sig og hvernig unnið er í því að koma skilaboðunum áfram til umheimsins og enginn virðist tjá sig við erlenda fjölmiðla nema útfararstjórarnir, ekki illa meint en það er lykilatriði að jákvæðum fréttum sé miðlað frá Íslandi. Verst af öllu er að fylgjast með blaðamannafundum þar sem að skjaldarmerki íslands er ekki einu sinni til staðar. Það er eðlileg krafa í núverandi ástandi að menn íhugi að smáatriðum þau skipta líka máli.


Hvað mun ekki virka áfram - er það ekki rétta spurningin núna?

Greiðslukortin virka áfram

Valitor, sem gefur út VISA-kort hér á landi fyrir hönd banka og sparisjóða, segir að notkun korta verði eftir sem áður með eðlilegum hætti.  Þetta eigi við um öll kortaviðskipti, jafnt hjá söluaðilum og í hraðbönkum bæði hér heima og erlendis. „Eins og fram kom í ávarpi forsætisráðherra í dag eru markmið aðgerða ríkisstjórnarinnar sem kynntar hafa verið m.a. að tryggja það að almenningur fái eðlilega bankaþjónustu," segir í tilkynningu Valitors.

Óskarinn í fréttaskrifum er tekinn af www.visir.is Vil nota tækifærið og óska Valitor til hamingju með tilkynninguna og Vísi fyrir frábært framtak fyrir að birta fréttina. Er þetta til marks um gagnrýna hugsun sem viðgengst núna?


Leyndardómar Leiðtogans

Hlutverk leiðtogans og ímynd nútíma hetjunnar endurspeglast án efa í þeim persónum sem að taka þátt í opinberri umræðu og eru jafnframt gerendur á sama tíma. Stíll og áherslur leiðtoga eru misjafnar og á meðan margir telja að menn séu fæddir leiðtogar þá segja sumir að hægt sé að tileinka sér og læra það sem til þarf til þess að verða leiðtogi. Leiðtogar eru fyrirmyndir sem að móta oft skoðanir og hafa jafnframt oft áhrif á skoðanir og aðgerðir almennings. Slíkir leiðtogar verða að koma fram af ábyrgð og sýna af sér háttsemi sem er öðrum til jákvæðrar eftirbreytni.

Nelson Mandela einn af áhrifamestu leiðtogum vorra tíma stendur nú á 90. tugasta aldursári. Lífsviðhorf hans hafa mótast af því að gera heiminn að betri stað og hann hefur aldrei litið til baka í þeirri leit. Af hógværð og með staðfestu þar sem trúin á að dagurinn á morgun yrði betri en dagurinn í dag voru einkennandi þáttur í hans framgöngu. Hugmyndafræðin og lífsviðhorf Mandela setja hann án efa á stall meðal framsýnna leiðtoga ofar öllu lýðskrumi. Þegar Mandela var spurður út í grunninn í sinni stjórnvisku þá taldi hann upp 8 atriði:

Courage is not the absence of fear - it's inspiring others to move beyond it

Lead from the front - but don´t leave your base behind Lead from the back - and let other believe they are in front

Know your enemy - and learn about his favourite sport Keep your friends close - and your rivals even closer

Appearances matter - and remember to smile

Nothing is black or white

Quitting is leading too

Mandela var þekktur fyrir að tala vel um andstæðinga sína, en hann hefur látið hafa það eftir sér að það hafi skilað honum meiri áhrifum heldur en að berjast við þá á persónulegum nótum. Aðferðafræði Mandela gagnaðist honum einstaklega vel þar sem að honum tókst að gera andstæðinga sína óvirka með málflutningi sínum og hann sagði jafnframt að þeir væru sjálfum sér verstir eins og dæmin sanna. Stundum skilar hæverskan og kænskan betri niðurstöðu þegar upp er staðið. Góðir leiðtogar tapa oft orustum en markmiðið er ávallt að vinna stríðið eins og Mandela sannaði eftir 27 ára fangelsisvist.


Það ku vera kyrrlátt í Kína þar keisarans hallir skína

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með fréttunum á vettvangi íslenskra þjóðmála og þá sér í lagi umræðunni um íslenska handboltalandsliðið. Ég bara hélt að það væri ekki hægt að sjá svona marga vinkla á henni. Ég sá sjónvarpsstöðina SF 2 í Sviss sýna frá heimkomu svissneska júdómannsins sem komst á verðlaunpall. Hans heimkoma var hógvær og það voru þó teknar myndir og allt var nú lágstemmdum nótum svona eins og háttur þeirra er hér í fjallaríkinu. Ég held samt að sú móttökuathöfn sem að fram fór fyrir íslenska handboltalandsliðið hafi gert þjóðarsálinni gott til, og þjóð í greiðsluerfiðleikum  og með fallandi gengi hefur gott af slíkum sýningum.

Það hefur margur spekingur kvatt sér hljóðs og menn hafa kvartað og kveinað yfir því að ráðherra íþróttamála hafi farið yfir hafið og stutt við bakið á sínu fólki þar sem kostaðurinn var ógurlegur eða 16,67 krónur á mann sem að umreiknast í 5 milljónir. Sennilega hefði ráðherrann fengið far með Jóni Ásgeiri eða Björgólfi ef flug einkaþotna hefði verið leyft. Það er rétt að greina að félagi minn frá Portúgal sem að átti erindi til Peking eins og margir aðrir fyrirmenn þurfti að reiða fram 8000 bandaríkjadali til þess að láta uppfæra miða sinn á betra farrýmið og ekki orð um það meir. Alveg merkilegt hvað allt er dýrt í Kína.

Það versta af öllu er að samkeppniseftirlitið hefur misst af glæpnum og ætti hiklaust að grípa inn í málin þar sem ríkisstyrkir eru afurð liðanna tíma enda skekkja þeir samkeppnisstöðuna á milli íþróttagreina. Merkilegast eru þó þessi ummæli: Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að fá íþróttafélög hafi efni á því að bjóða borgarfulltrúum og embættismönnum í boð og veislur. ,,Það eru nokkur félög sem hafa efni á að halda slík boð og með því eru þau að kaupa sér ákveðna velvild."  Er ekki rétt að varaborgarfulltrúinn birti þennan lista yfir þessi íþróttafélög enda alvarlegt mál ef um eina allsherjarspillingu er að ræða? 

Það er eins og ein allsherjar maskína neikvæðni og öfundar hafi farið í gang og kannski verður ekki langt að bíða að Iceland Express kvarti yfir því að Icelandair hafi fengið að fljúga með silfurdrengina heim og að auki hafi þeir fengið milljóna auglýsingar út á lágflugið yfir Reykjavík og allt í beinni útsendingu á kostnað okkar hinna.

Eigum við að ræða þetta eitthvað frekar......

Af lýðræðinu í kjörbúðinni

Lýðræðið í kjörbúðinni er allt annað en í stjórnmálunum. Í stjórnmálunum ganga kjósendur að kjörborðinu og velja sér menn og málefni en það er samt engin trygging fyrir því að niðurstaða kosninga skili því sem upp úr kössunum kom. Sigurvegarar kosninga fara oft með skarðan hlut frá borði eins og þekkt er. Í kjörbúðinni geta menn valið úr hillunum þær vörutegundir sem að mönnum geðjast að og líkar við. Þar spila inn í þættir eins og verð, gæði og smekkur neytenda. Í pólitíkinni geta menn valið flokka, fólk og áherslur. Það er eins og menn gleymi þessu þegar þeir fjalla um vandræðaganginn í henni Reykjavík. Það er nefninlega svo lýðræðið í kjörbúðinni er annað og meira en það sem skilar sér upp úr kjörkössunum og kjósendur og fjölmiðlar geta hamrað járnin ótt og títt, en það gildir einu því í stjórnmálunum berjast menn fyrir líðandi stund og ef menn geta komist í þá stöðu að þeir verði verðmætari í dag en í gær þá grípa þeir gæsina þó stundum sé fiðrið fitugt eftir mikið volk um víðlendur tjarnarinnar. Það er svo gaman að sjá kjörna fulltrúa taka þátt í fjölmiðlafansinum og kasta steinum úr glerhúsinu á andstæðingana og telja þeim flest til foráttu og fjölmiðlafólkið sumt hefði mátt vera aðgangsharðara í að spyrja þessu sömu pólitíkusa afgerandi spurninga um þeirra eigin framgöngu á kjörtímabilinu. Það verður að segja Staksteinum Morgunlaðsins til hróss að þar var allavega gagnrýnin hugsun á ferðinni og er það vel. Ef menn geta ekki starfað saman þá er ljóst að menn verða að stokka upp spilin og gefa annan umgang það er einmitt einkenni stjórnmálanna og það er engin trygging fyrir einu eða neinu þó svo að menn myndi samstarfsstjórn eða einn flokkur fari með völdin það getur nefninlega kastast í kekki og þá verða kjörnir fulltrúar að standa sig í stykkinu eins og lög gera ráð fyrir en hvað veit ég kannski er ekkert lýðræði í kjörbúðinni lengur.

 

 

 


Af almenningssamgöngum

Ég var að lesa grein bæjarstjórans í Garðabæ í Fréttablaðinu í dag. Greinin varpar svo sem ekki nýjum staðreyndum fram um almenningssamgöngur heldur frekar að hún sýni að almenningssamgöngur hafa verið aftarlega á merinni, sérstaklega strætisvagnasamgöngur í Reykjavík og ekki má gleyma Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ. Það verður alltaf dýrt að reka samgöngukerfi í landi með fáa íbúa en rökin snúa samt frekar að því að móta heilstæða framtíðarsýn í þessum málaflokki og þá þarf að skoða Suðurnesin og Keflavíkurflugvöll sérstaklega. Eftir að hafa dvalið í Svissneska fjallaloftinu í nokkurn tíma og kynnst almenningssamgöngum sem vit er í þá er sennilega hægast að segja frá því að forstjórar sem almennir launþegar nota almenningssamgöngurnar enda eru þær áreiðanlegar með afbrigðum og gildir þá einu hvort um er að ræða lestir eða strætó. Það eru einungis Íslendingar sem að hringja í mig og biðja mig um að sækja sig á flugvöllinn en það er aldrei gert hérna enda ber lestinn menn beint á bæjarstæðið þar sem þeir hitta viðkomandi. Það vakti hinsvegar athygli mína að greinin var lagt út af því að kostnaðurinn við að reka kerfið væri mikill og það væri ekki réttlætanlegt að hafa slíkt kerfi frítt. Auðvitað varpar greinin einungis ljósi á kostnaðarstærðirnar við rekstur Strætó bs en annar efnahagslegur ávinningur er ekki tekinn inn í heildarmyndina. Það er svo sem skiljanlegt að menn vilji ekki setja pening í rekstur sameiginlegs kerfis, sérstaklega ef menn sjá ekki þjónustuþáttinn eða hagsmunina af því að vera þar innabúðar. Það verður samt að gera kröfu til bæjarstjórans að hann vandi málfar sitt í opinberri umræðu þar sem hann segir: ,,Rekstur Strætó bs. er þungur. Á komandi árum má búast við að hann þyngist, m.a. vegna hærri rekstrarkostnaðar og aukinna krafna um þjónustu.'' Hvað sem öllu líður þá er ljóst að almenningssamgöngur þurfa aukna vikt og nýjar lausnir þarf að skoða með opnum huga, svo sem raflestir o.s.frv.


Af tölvupósti manna í millum

Við lifum á tímum þar sem að tölvurnar hafa völdin og tölvupóstarnir eru mál málanna. Fólk skrifar tölvupósta oft í hugsunarleysi og lætur þá oft gamminn geysa án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Stundum gerist það að tölvupóstur sem að maður sendir á ákveðinn einstakling er svarað og síðan jafnvel áframsendur á aðila sem ekkert hafa að gera með tölvupóstinn og innihald hans að gera.  Því miður er Jónínu Ben. málið svokallaða einn angi af slíku máli og það er sorglegt þegar að trúnaðarupplýsingar ná að leka út til fjölmiðla sem að síðan birta tölvupóstinn í heild sinni án þess að til þess væri ætlast. Það er raunar vel skiljanlegt að Jónína Ben. sé núna kominn með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu enda um prinsipp mál að ræða fyrir þorra íslendinga. Fólk verður að geta treyst því að gögn sem send eru með tölvupósti séu meðhöndluð með þeim hætti að sómi sé að. Þetta mál snýst ekki eingöngu um Jóníu heldur allra þeirra sem þurfa að geta treyst á friðhelgi einkalífsins í stað opinberrar birtingar.


Að lifa í loftkældum heimi

Kom frá Dubai í morgun eftir 10 daga eftir veru í arabíska furstadæminu. Það má segja að þeir lifi í loftkældum heimi þarna. Allar bifreiðar og íbúðarhús eru loftkæld og mikil orka fer í að viðhalda þessum loftkælda heimi. Þegar maður gengur út úr þessum loftkældu byggingum þá er eins og maður gangi á vegg þar sem að hitinn og rakinn taka völdin. Það eru einungis tvær árstiðir, sumar og vetur. Rakastigið er líka hátt og uppgufun frá sjónum er mikil og sest nánast þoka yfir öll háhýsin þarna. Annars var einstakt að sjá alla þá framþróun sem að heimamenn hafa unnið ötullega að og að sjá “pálmann” eða landþróunarverkefni þeirra heimamanna var einstakt. Það má sjá fjöldann að stórhýsum í byggingu eins og sést hérna að neðan. Ég held að íslenska fasteignabólan myndi blikna í samanburðinum.

DSC00497 

Það er greinilegt að menn hafa það gott í þessu ríki þar sem að þegnarnir greiða enga skatta og skólagangan er frí.og ef ég fer rétt með þá afsalta þeir sjóinn og breyta honum í vatn enda annað varla hægt sé tekið mið af verðurfarinu og náttúrulegum gæðum. Það var ótrúlegt að sjá allar byggingarnar sem eru í byggingu þarna og mikið var um erlent vinnuafl frá Indlandi og víðar. Það er líf í Dubai en áfengi var ekki veitt í opinberum veislum en hins vegar var ekkert mál að nálgast áfenga drykki á hótelunum.  Það eru þúsundir íbúða og húsa í byggingu í pálmanum svokallaða og ótrúlegt að sjá alla byggingarkranana og alla verkamennina að störfum.  Umhverfið virkar vestrænt og allar helstu verslanir eru með munaðarvörur eins og hver vill.  Því fer þó fjarri að maður gæti sætt sig við að lifa í loftkældum heimi til eilífðar þá er nú betra að biðja um fjórar hressilegar íslenskar árstíðir.


Af svissneska samkeppniseftirlitinu

Liðin vika hefur verið annasöm í meira lagi og margir fundir og þá sér í lagi hafa heimsóknirnar verið margar og tíðar, kannski ekki nema von þar sem að nýju höfuðstöðvarnar voru opnaðar með pomp og prakt. Þegar rykið er fallið og kyrrðin tekin við þá halda menn áfram störfum eins og vanalega. Mér brá heldur betur í brún á síðasta miðvikudag þegar ég fékk bréf frá svissnesku samkeppnisstofnuninni í Bern eftir að hafa talið að samkomulag hefði verið í höfn og sérstaklega eftir að hafa staðið í bréfaskiptum við stofnunina síðustu 3 árin. Það er nú svo, að í íþróttaheiminum eiga alþjóðlegu sérsamböndin í miklum viðskiptum við framleiðendur íþróttavara og hlaupa upphæðirnar á háum tölum. Margir minni framleiðendur hafa reglulega klagað alþjóðlegu sérsamböndin fyrir ólögalega viðskiptahætti og talið að þau meini mönnum aðgang að íþróttunum með vörur sínar. Því er til að svara að dyrnar standa öllum opnar, en auðvitað líta málin allt öðruvísi út þegar að opinberir aðilar opna skýrslu um málið og það fer í farveg. Þessi farvegur verður síðan að möppu sem á endanum verður skrifleg skýrsla enda verða embættismennirnir að réttlæta sín störf. Ég hef mætt í höfuðstöðvarnar eftirlitisins í Bern og gert ítrekaða grein fyrir málefnum mín sambands og hélt að við værum að ná samkomulagi þegar menn vöknuðu af værum blundi í Bern og hófu að skrifa mér aftur, enda miklu nær að halda lífi í skýrslunni eftir ár án samskipta manna í millum. 

Vandamál margra alþjóðasérsambanda er fólgið í þeirri staðreynd að þau eru ekki rekin áfram af hagnaðarsjónarmiðinu þrátt fyri að miklir fjármunir streymi þar um, en alþjóðasérsamböndin hafa mikil áhrif á viðskipti með vörur sem notaður eru i íþróttum. Helsta hagsmunamál alþjóðasérsambandanna er að tryggja að framleiðendur íþróttavara framleiði vörur sem að uppfylla alþjóðlega staðla og til að mynda að verksmiðjurnar noti ekki börn við t.d. boltaframleiðsluna jafnhliða því að starfsskilyrði starfsmanna séu boðleg. Það eru þó margir aðrir þættir sem að spila inn í málin en því miður hefur skrifstofuklanið í Bern enga hugmynd um þann veruleika heldur horfir blákalt á málin út frá þröngu sjónarhorni sem er að greiðslur til okkar séu of háar. Því er til að svara að mörg alþjóðasérsambönd eru bundin í klafa eigin reglna sem heimilar þeim að útbúa staðla og útbúa leyfiskerfi sem að allir geta sótt um aðild að og boðið sínar vörur fram. Náttúrulega er það svo að það hugnast ekki öllum og hér eru engir leynifundir eða samráð í gangi og hér halda menn ekki til fjalla og ræða saman málin, því fer fjarri þar sem að hvert og eitt alþjóðasérsamband hefur sína aðferð. Það gleymist oft að það er í verkefnahring alþjóðasérsambandanna að setja reglur og staðla fyrir framleiðendur íþróttavara sem miðast að því að tryggja jafnræði þeirra á gagnsæjan hátt auk þess að tryggja að framleiðendur noti engin hráefni eða efni sem geta verið skaðleg iðkendunum. Það er líka kostnaðarsamt að halda úti slíku eftirliti og það er spurning hvort að sá kostnaður sé nægjanlega gegnsær. Það er líka ljóst að fjárhagslegir hagsmunir alþjóðasérsambandanna eru miklir og vonandi að ásættanlegt samkomulag náist enda ótækt að standa í stappi við samkeppnisyfirvöld.

Læti í Lausanne í dag

Það var átakanlegt að sjá grímuklædda mótmælendur hleypa öllu í bál og brand í Lausanne í dag. Þeir brutu rúður og úðuðu slagorð á ýmar byggingar en harðast varð þó Mcdonalds keðjan úti þar sem að rúður voru brotnar og ýmsar skemmdir aðrar voru unnar á staðnum í miðborginni. Það er óvanalegt að sjá svona mótmæli hérna og það segir mér svo hugur að þetta lið eigi ekkert skylt með verkalýðnum hérna enda voru þeir fljótir að láta sig hverfa þegar sérsveitin mætti á svæðið og hlupu þá eins og þeir ættu lífið að leysa enda vissu þeir að ekki var von á góðu ef til þeirra næðist. Ekkert gas eða þras kylfurnar hefðu verið látnar tala. Hérna taka menn því illa ef farið er út af norminu enda flestir sem lifa á 60 slögum  hérna í Sviss. Sviss er land stöðugleikans en hér er samt mikil hervæðing og töluverð útgjöld til hermála í þessu hlutlausa ríki ef svo má kalla. Hér mótmæla menn ekki mikið né hafa sig í frammi og það eru ekki fréttir að sjá hermann á leið í  þegnskylduvinnuna með vélbyssuna utan á sér hvort sem það er á Mcdonalds eða í strætó eða þá í lestinni. Hérna vita menn að varnarvæðingin hefur ákveðin fælingarmátt og almenningur er einnig meðvitaður um að lög og regla er meira en orðin tóm þegar því er að skipta.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband