Færsluflokkur: Bloggar

Lífið á ströndinn getur verið varasamt

Hef farið víða á síðustu mánuðum og haft lítinn tíma til að blogga vegna anna en læt hérna fljóta eina mynd frá ferð minni til Sri Lanka sem að sýnir glögglega hversu mikil kraftur var í tsunami flóðbylgjunum sem að skullu á ströndum Thailands, Sri Lanka, Maldives eyja, Indónesíu og fleiri ríkja. Ég hef verið að fylgja eftir uppbyggingarstarfi sem að við hófum 2005. Hér að neðan er mynd af hóteli sem að varð illa úti en  flóðbylgjan fór alveg yfir hótelið og flestir sem þar voru létu lífið. Það er erfitt að skilja þessa krafta en myndin segir meira en mörg orð.

Hótelið á ströndinni


Lífið undir pálmatrjám

Þeir hafa verið strembnir síðustu 10 dagarnir, sérstaklega eftir að Eyjafjallajökull tók að gjósa. Aldrei grunaði mig að ég gæti orðið ,,tepptur" vegna eldgoss. Ég hélt að hefði verið búinn að reyna allt, líka fastur í göngunum á Oddskarði. Man þá tíð þegar ég sat veðurtepptur í skólastofunni í Verkmenntaskólanum í Neskaupstað, í þá daga hafði maður alltaf upp á gamla segulbandið að hlaupa. Þá var hlustað á Bubba kóng og sungið með. Þeir dagar voru ógleymanlegir enda réðu menn ekkert við veðrið eins og þekkt er á Íslandi. Nú er það aftur á móti eldgos sem að aftrar för úr landi Kristófers Kólumbusar, eins af dýrlingum þeirra heimamanna þar sem að fyrsta kirkjan í Vesturheimi reis í Santo Domingo í Dóminikanska Lýðveldinu.

Það var ljúft lífið undir pálmatrjánum og stundum fékk ég pirring og velti því fyrir mér hvort að ég ætti að lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eður ei. Á endanum fannst mér nóg að fletta íslenskum vefsíðum og skynja hrynjandann í fólkinu sem að byggir landið, fjölmiðlamönnum sem að vita allt betur í dag en í gær og svo sjá síðan skrif hinna bloggaranna um ástandið. Lífið er val, stundum er góð lesning betur geymd til seinni tíma, sérstaklega þegar að hlý hafgolan leikur um mann á fjarlægri strönd þar sem að hvinurinn í pálmunum gefur taktinn á tímalaus stað.

Eftir 32 tíma ferðalag þá náði ég loks náttstað mínum á miðvikudagskvöld og þótti heppinn þar sem að margir bíða enn eftir því að flugfélögin nái að vinda ofan af kúfnum. Það var gott að sjá Birnu betri á flugvellinum og skynja að lífið heldur áfram þrátt fyrir eldgos.

 


Fastur í paradís

Punta Cana

Það er skrýtið að vera landfastur í Dóminikanska Lýðveldinu vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Því miður er ekkert við því að gera en hér eru fallegar strendur í Punta Cana og sannkallaður aldingarður þar sem nóg er af öllu. Auðvitað eru þeir sem eru hérna og þekkja mig að kenna mér um þetta allt saman, en þeir segja að núna sé Ísland að beita CASH and ASH áhrifum sínum á alþjóðasamfélagið. Það eru samt ekki uppörvandi fréttir hérna því að menn þurfa að bíða í viku til tíu daga til þess að komast í heimahöfn ef allt gengur samkvæmt áætlun. Það eru reyndar flestir búnir að fá nóg enda búnir að vera hérna í 9 daga vegna stjórnar og framkvæmdarstjórnarfunda. Núna er bara einlæg von að maður komist yfir hafið og heim.


Ríkisstjórn Íslands verður að ganga í takt við vilja þjóðarinnar

 Það er rétt skilið að málið er innanríkismál Íslands en menn verða auðvitað að setja hlutina í samhengi. Engin ríkisstjórn á lýðveldistímanum hefur fengið eins afgerandi skilaboð frá þjóðinni. Auðvitað getur fjármálaráðherra haldið áfram að miðla málum en hann verður að hlusta á vilja þjóðarinnar og stíga gætilega til  jarðar í þeim samskiptum sem framundan eru við Breta og Hollendinga. Þjóðin hefur sagt skýrt NEI - stjórnvöld verða að hugsa næsta leik og ná afgerandi niðurstöðu. Það er ekki óeðlilegt að almenningur velti því fyrir sér hvort að ríkisstjórn Íslands sé í raun umboðslaus í málinu og það þurfi að ná mun breiðari samstöðu um næstu skref og framhjá því geta stjórnvöld ekki litið. Þessi fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla á lýðveldistímum hefur einnig sent stjórnmálaöflum samtímans skilaboð um að það þurfi að auka beina þátttöku landsmanna í lýðræðinu. Við lifum á nýjum tímum þar sem ný gildi og aukin lýðræðisvitund hafa markað djúp spor í samfélaginu. Niðurstaða kosninganna leysa ekki málin, en þau sýna svo ekki verður um villst að þjóðin hefur sent skýr skilaboð og þau eru vantraust á það hvernig haldið hefur verið á málum.

Ég velti því fyrir mér hvort að forystumenn ríkisstjórnar Íslands sem að kusu ekki í þessum kosningum hafi gert stór misstök sem forystumenn á pólitíska sviðinu, orðið uppvísir að pólitískum afglöpum. Tíminn mun leiða í ljós hversu mikil hyggindi það voru að mæta ekki á kjörstað! Hvernig getur fólk kosið leiðtoga sem að snýta lýðræðinu!


mbl.is Aðeins málefni Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutverk fjölmiðla í uppbyggilegri umræðu um íþróttir

Það hefur staðið mikil styr um málefni starfsmanns KSÍ í fjölmiðlum undanfarið og sitt sýnist hverjum. Málflutningur fjölmiðla hefur gengið helst til langt að mínu viti og ég velti því fyrir hver er eiginlega útgangspunkturinn í þessu öllu saman? Ég velti því fyrir mér af hverju fjölmiðlar sýna ekki meiri áhuga á barna og unglingastarfi í íþróttum eða segi meira frá öðrum íþróttagreinum en þeim hefðbundnu sem fá alla athyglina. Ég er viss um að vissir fjölmiðlar hafa eytt meira púðri í umfjöllum um umrætt mál heldur en um íþróttirnar sjálfar. Afhverju gagnrýna ekki femínistar Pressuna fyrir að sýna bert hold á hverjum degi en þar er bónusmynd dagsins í boði Ísdrottingarinnar http://www.pressan.is/AsdisRan/Lesa_Asdisi_Ran/bonusmynd-vikunnar á sama tíma og verið er að gagnrýna aðra. Hver eru skilaboðin? Það er líka erfitt að kenna heilli hreyfingu um aðstæður eins manns og þær ógöngur sem að hann kann að hafa ratað í. Hver eru rökin fyrir því?

 

 


Ferðir sem ekki verða metnar til fjár

Grand Palace
Grand Palace Bangkok

Ég hef ekki bloggað lengi enda hefur maður haft í mörgu að snúast. Ég náði þó að komast heim í sumar eftir mikil ferðalög. Landið var einstaklega bjart og fagurt yfir að líta.  Einstakt tíðarfar, fögur fjallasýn og margar sundlaugarferðir léttu lundina. Staðreyndin er alltaf sú að flestir vilja aftur til Íslands, sérstaklega eftir langa útiveru. Ég hitti mann og annan og bar saman bækurnar við vini og vandamenn auðvitað með misjöfnum árangri eins og vænta mátti. Maður getur aldrei verið allra. Margur er að laga sig að nýjum aðstæðum eftir stóra,,skellinn". Erindi þessa pistils er ekki að að halda á lofti umræðunni um vandamálin heima, enda halda margir bloggarar og blaðamenn þeirri hringekju gangandi, frekar ætla ég að greina frá því sem á daga mína hefur drifið.

Árið hefur verið í senn viðburðaríkt og annasamt fyrir mig. Ég hef náð að  ferðast til Dómínikanska Lúðveldisins og séð fyrir heimaslóðir Kólumbusar og nýja heimsins, sótti heim Egyptaland og sá eitt af sjö undrum veraldrar þegar ég sá pýramídana á Giza svæðinu innan- og utan frá. Í apríl sótti ég heim Japan þar sem við settum nýtt þróunarsetur af stað og var það vel. Fékk gistingu upp á gamla japanska mátan á sjálfu gólfinu.

DSC00805 

Frá Yoyogokarta Indonesíu

Í mars sótti ég síðan Indónesíu heim og flaug 17 flug á aðeins 19 dögum, sótti heim Jakarta, Yoyogokara, Aache hérað, Bali svo dæmi séu nefnd. Það var hreint ótrúlegt að sjá verksummerkin eftir flóðbylgjurnar, en hamfarirnar í Yoyogokarta eru vegna tíðra jarðskjálfta sem að hafa eyðilagt margar byggingar. Vandamálin á Íslandi virka smávægileg miðað við það sem maður sá.

Ég fór til Taílands í október til þess að fylgja eftir verkefnum okkar með ríkisstjórn Thailands í Satoon, Krabi, Pukhet og Rangoon. Ferðin um vesturströnd landsins sýndi að mikið hefur áunnist í uppbyggingarstarfinu eftir flóðbylgjurnar. Stór skörð hafa þó verið höggvin víða í landslagið. Ég mun fara aftur til Thailands nú í nóvember til þess að sjá hverju við höfum komið til leiðar þrátt fyrir að vera ekki sérfræðingar í uppbyggingarstarfi á hamfarasvæðum. Við höfum lært mikið á því að taka þátt  í þessum uppbyggingarverkefnum og skynjað að þolinmæðin er lykilatriði ef árangur á að nást í uppbyggingunni.

Já, árið 2009 hefur svo sannarlega gefið mér mikið en ég hef farið víða og séð margt. Ég hef náð að vera sendiherra fyrir íþrótt mína, hitt ráðherra og önnur fyrimenni, blandað geði við óbreyttan almúgan, glaðst yfir árangri okkar jafnhliða því að fyllast sorg yfir óyfirstíganlegum áföllum sumra. Síðustu mánuðir hafa verið fullir af lifandi reynslu og ferðirnar verða ekki metnar til fjár heldur lifandi reynsla sem mun lifa innra með mér. Er það ekki einmitt kjarni málsins nú á tímum að sjá verðmætin eru fólgin í fólkinu sjálfinu og viðburðum líðandi stundar.

 

 

 


Mikið öskufall í Marseille

Það var skrýtið að koma til Marseille sl. nótt og það mætti manni brunafýla þegar að stigið var út úr lestinni. Þegar ég spurðist fyrir um málið þá var ég mér tjáð að það logaði bæði í skógi og í húsum allan gærdag og í nótt var slökkviliðið að berjast við eldana með flugvélum, þyrlum auk annars mannafla. Sterkur vindur hefur gert mönnum erfitt fyrir en í nótt þá barst aska víða yfir Marseille og fötin af manni lyktuðu af brunafýlu eftir smá útiveru þannig að það er ljóst að mikið hefur gengið á í borginni. Ekki veit ég þó hvort að herinn hafi komið þessu af stað en tjónið er gífurlegt og ljóst að mikið hefur brunnið enda búið að vera þurrt og hlýtt lengi.


mbl.is Miklir skógareldar við Marseille
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðfestir óvissu um eignir gamla Landsbankans

Þessi niðurstaða sýnir að það er mikil óvissa í gangi um margar af eignum Landsbankans og fyrirsjáanlegar lagaflækjur og málaferli til margra ára eru í pípunum ef fram fer sem horfir. Slíka óvissu er ekki hægt að láta þjóðina bera ábyrgð á enda veit engin ennþá hverjar ICESAVE byrðarnar verða á endanum. Fyrst og fremst hefur þessi frétt sýnt að óvissan er mikil og margt hefur ekki ekki litið dagsljósið vegna starfssemi gamla Landsbankans.


mbl.is Bankinn fær ekki eignirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útsýnið yfir Tokyo flóa

Það hefur verið mikið um að vera síðustu vikurnar og lífið hefur snúist um ferðalög heimsálfa á milli, fundarhöld og flug. Læt hérna eina mynd fylgja en hún er tekin af 28. hæð þar sem að útsýnið var stórkostlegt yfir Tokyo borg. Eins og alkunna er, þá er heimurinn hættulegur staður, sérstaklega séð frá skrifborðinu og þaðan er ekki hollt að stjórna eingöngu frá. Það eru því mikil forréttindi að geta ferðast og séð hlutina með eigin augum, tekið púlsinn þegar það á við og kynnast annarri menningu og siðum. Það er alltaf gaman að koma til Japans og sjá hversu agað samfélagið er og hversu vestrænir menn eru í hugsun og gerðum.

Tokyo Bay

 


Með Obama á hælunum

Þessi vika hefur verið þrungin spennu hér í Kairó enda Obama sjálfur á ferðinni með fríðu föruneyti. Ég átti nú ekki von á því að sjálfur Obama yrði samferða maður minn þessa vikuna í Egyptalandi, en mér virðist sem að við höfum gert margt það sama, heimsótt eitt af sjö undrum veraldar og skoðuðum helstu þjóðargersemar Egyptalands.  Almennt virðast Egyptar hafa tekið vel í komu Obama en með honum fylgja nýir straumar í samskiptum austurs og vesturs. Umferðaröngþveitið var mikið síðustu dagana fyrir heimsóknina og það var ekki til að bæta á ástandið að fá Obama sjálfan enda skapaðist skipulagt kaos með komu hans og nógu er umferðin erfið í Kairó eins og maður hefur reynt. Af mér sjálfum er það að frétta að ég átti fundi með fulltrúum 40 Afríkuríkja um þróunarstarf alþjóðasambandsins og þar bar hæst að menn ætla að auka beina aðstoð til þeirra meðlima sem að starfa með okkur af fullum þunga. Það er skammt stórra högga á milli enda legg ég af stað til Japans á morgun þar sem nýtt þróunarsetur verður opnað. Myndin að neðan er tekin þegar ég sótti Giza svæðið heim og fór með annars alla leið inn í Pýramída það var svo sannarlega ótrúleg upplifun.

 

Pyramidar

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband