Lífið undir pálmatrjám

Þeir hafa verið strembnir síðustu 10 dagarnir, sérstaklega eftir að Eyjafjallajökull tók að gjósa. Aldrei grunaði mig að ég gæti orðið ,,tepptur" vegna eldgoss. Ég hélt að hefði verið búinn að reyna allt, líka fastur í göngunum á Oddskarði. Man þá tíð þegar ég sat veðurtepptur í skólastofunni í Verkmenntaskólanum í Neskaupstað, í þá daga hafði maður alltaf upp á gamla segulbandið að hlaupa. Þá var hlustað á Bubba kóng og sungið með. Þeir dagar voru ógleymanlegir enda réðu menn ekkert við veðrið eins og þekkt er á Íslandi. Nú er það aftur á móti eldgos sem að aftrar för úr landi Kristófers Kólumbusar, eins af dýrlingum þeirra heimamanna þar sem að fyrsta kirkjan í Vesturheimi reis í Santo Domingo í Dóminikanska Lýðveldinu.

Það var ljúft lífið undir pálmatrjánum og stundum fékk ég pirring og velti því fyrir mér hvort að ég ætti að lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eður ei. Á endanum fannst mér nóg að fletta íslenskum vefsíðum og skynja hrynjandann í fólkinu sem að byggir landið, fjölmiðlamönnum sem að vita allt betur í dag en í gær og svo sjá síðan skrif hinna bloggaranna um ástandið. Lífið er val, stundum er góð lesning betur geymd til seinni tíma, sérstaklega þegar að hlý hafgolan leikur um mann á fjarlægri strönd þar sem að hvinurinn í pálmunum gefur taktinn á tímalaus stað.

Eftir 32 tíma ferðalag þá náði ég loks náttstað mínum á miðvikudagskvöld og þótti heppinn þar sem að margir bíða enn eftir því að flugfélögin nái að vinda ofan af kúfnum. Það var gott að sjá Birnu betri á flugvellinum og skynja að lífið heldur áfram þrátt fyrir eldgos.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband