Orð dagsins

Það gerist oft nú orðið að fólk missir sig í viðtölum í fjölmiðlum, þó sér í lagi í beinni útsendingu  í sjónvarpi. Oft falla ummæli sem betur hefðu verði látin ósögð. Kannski er því um að kenna að landið er fámennt og viðmælendur fjölmiðla eru oft á tíðum sama fólkið aftur og aftur. Ekki veit ég hvort að það skýri slíkar uppákomur eða hvort að staðreyndin sé sú að viðmælendur eru orðnir of heimavanir. Það er líka eins og spyrjendurnir séu illa á varðbergi og of seinir að grípa inn í atburðarrásina. Virðing þverrandi fer fyrir pólitískum andstæðingum á Alþingi þar sem þingmenn láta ýmislegt flakka úr ræðustólnum og eru lítt til eftirbreytni.

Orð dagsins eru fengin úr grein Sigurðar Kára Kristjánssonar alþingismanns í Morgunblaðinu í dag eru þörf ábending: ,,Málflutningur sem einungis er byggður á persónulegri óvild og heift í garð annarra hefur aldrei og mun aldrei hafa neitt uppbyggilegt í för með sér.´´


Hagfræði Argentínu og íslenskur tangó

Ég sótti Argentínu heim árið 2002 þegar að umsáturástand hafði skapast um bankana í þessu víðfeðma ríki. Þetta hefur rifjast upp fyrir mér í allri þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um íslensku krónuna auk áhyggja sem að sparifjáreigandur hafa látið í ljós um stöðu bankanna. Það er mér enn ofarlega í huga þegar ég gekk um göturnar í höfuðborginni Buenos Aires að almenningur gekk á mann ef það sást á manni að þar var útlendingur á ferð. Erindið var einatt að reyna að nálgast dollara þar sem að fáir höfðu trú á mynt þeirra heimamanna, pesóanum sem var svo til ónothæfur í hugum almennings og fyrirtækja vegna mistaka í hagstjórninni.

Ástæðurnar voru einkum þær að ríkisstjórn Argentínu frysti alla bankareikninga fyrirtækja og einkaaðila og afleiðingarnar eftir því. Undanfari vandans var fyrst of fremst sá að fjárfestar misstu trúna á efnahagsstefnuna og trúna á gjaldmiðlinum. Sú sannfæring endurspeglaðist í öllum aðgerðum fyrirækja og almennings sem að hamstraði dollara með því að skipta á heimamyntinni pesóanum. Gjaldeyrisvarasjóður Argentínu var nánast enginn og reksturinn var fjármagnaður með erlendum lántökum en hafa ber í huga að landið er að miklu leyti háð erlendum innflutningi.

Gengisfall pesóans gagnvart dollar nam allt að 70% þegar að fastgengisstefna heimamanna var loksins aflögð þ.e. 1 dollar = 1 pesó, í kjölfarið fylgdi allt að 30% atvinnuleysi. Ástandið bar þess náttúrulega merki að þjóðin bjó við raunverulega kreppu og við tók aðlögunarferli með nýjum væntingum og öðrum veruleika þar sem að  landsmenn þurftu að taka á sig stóra skellinn. Nýr veruleiki og upplausnarástand leiddi m.a. til þess að mörg fyrirtæki voru með járnrimla og varnargirðinar til þess að halda aftur af óaldarlýð sem hafði í frammi mótmæli og fór um götur og vann skemmdarverk með því að kveikja í og eyðileggja það sem fyrir varð hverju sinni.  Vantrúin á gjaldmiðilinn var mikil á meðal landsmanna sjálfra og fjárfestar flýðu unnvörpum landið, mörg fyrirtæki urðu gjaldþrota auk þess sem að sparnaður einstaklinga fór forgörðum. Um helmingur 36 milljón íbúa var að auki sagður lifa undir fátæktarmörkum sem afleiðing af öllu saman.

Efnahagslegu áhrifin lýstu sér í því að erlend fjárfesting þornaði upp og útflutningurinn minnkaði fljótt enda sáu fjárfestar sér hag í því að fá meira fyrir dollarana sína t.d. í Brasilíu þar sem nautakjötið kostaði minna en í Argentínu svo dæmi séu tekin. Til þess að halda efnahagnum gangandi þá sótti ríkisstjórn Argentínu stíft í lánsfjármagn og það gerði einkaaðilum erfitt fyrir með að nálgast lánsfjármagn á boðlegum kjörum. Á endanum þraut súrefnið sem þurfti í reksturinn og gjaldþrotin tóku við þar sem ráðaleysið var algert með áhrifum eins og lýst var ofar.

Orð Seðlabankastjóra í viðtali á Stöð 2 í vikunni minntu á að neikvæð umræða er til alls fyrst og hefur til langframa áhrif á vilja fjárfesta og fyrirtækja á markaði. Öll óvissa hefur áhrif á sparifjáreigendur sem margir hverjir eru eðlilega tvístígandi í slíku umhverfi. Það er varhugavert að ætla að efnhagsvandamál í okkar sérstæða hagkerfi leysist með því einu að taka upp evru. Virðing okkar fyrir eigin fjármálakerfi þarf að vera til staðar áður en við tökum ákvarðanir um eitthvað annað. Því fer fjarri að ástandið hér sé svo slæmt þar sem að ríkisfjármálin eru í traustum farvegi, gjaldeyrisvarasjóður til staðar og bankar uppfylla skyldur sínar um eiginfjárhlutfall. Það eru þó blikur á lofti um minnkandi eftirspurn í hagkerfinu og nýrrar aðlögunar er þörf og óvíst að evran ein og sér muni hámarka hag þjóðarbúsins. 

Það er ljóst að við erum að hefja nýjan kafla í hagsögu Íslands. Í þeim kafla verður almenningur að vera í fararbroddi og draga úr umframeyðslu og neyslu sem að ber keim að því að eyða framtíðartekjunum áður en þær eru komnar í hús. Í tangó þarf tvo til. Hinn íslenski tangó hefur einatt einkennst af því að fyrirtæki og almenningur eyðir um efni fram og fleiri en einum boðið upp í dans hverju sinni. Slík skipan leiðir einatt til árekstra og ljóst að einhverjir standa ekki aftur upp frá slíkum árekstrum og þá koma nýjir dansarar inn í myndina. Seðlabankstjóri talaði skýru máli þegar að hann gagnrýndi málflutning lýðskrumara og árásir þeirra á krónuna.

Fyrir nokkrum mánuðum höfðu forsvarsmenn útflutningsgreinanna upp stór orð um rekstrarumhverfið þar sem að þeir töldu gengi íslensku krónunnar of hátt skráð. Í dag heyrum við lítið frá þeim en aftur mun meira frá þeim sem þurfa að kaupa inn vöru og þjónustu erlendis frá.  Þar sannast hið fornkveðna að eins kvöl er annars pína.

Kannski er tími umvöndunarhagfræðinnar kominn til að vera í einhvern tíma, jafnt á Bifröst sem í borginni.

 


Sjaldan er ein báran stök

Ég verð að segja að mér brá nokkuð eftir að hafa séð fréttir í kvöld þar sem að stjórn Eimskips tilkynnir um að það muni fara fram innanhúss rannsókn á tilteknum atriðum er tengjast rekstri félagsins frá fyrri tíð. Það verður sérstakt að fylgjast með áframhaldi þessa máls og vonandi leiðir þessi skoðun ekki til neitt misjafnt í ljós. Rekstur Air Atlanta skilaði Eimskipafélaginu stórfelldu tapi eins og þekkt er og fjárfestingarnar í Versacold og Atlas í Kananda eiga enn eftir að sanna sig og skuldsetning félagsins mikil. Velta Eimskipafélagsins 3 faldaðist á milli áranna 2006 og 2007 en rekstrartekjurnar í lok síðasta árs námu 1.459 milljónum evra. Það er ljóst að krafa upp á liðlega 26 milljarða er erfið í núverandi rekstrarumhverfi en eins og segir í fréttatilkynningu Eimskipafélagsins 2007 þá var hagnaður af undirliggjandi starfssemi félagsins 9 milljónir evra það ár en tap eftir skatta 9 milljónir evra að teknu tilliti til aflagðrar starfssemi. Nú er bara að vona að óskabarn þjóðarinnar hressist á komandi mánuðum og að verð hlutabréfanna taki við sér. Ég er ekki viss um að málsókn gegn Eimskipafélaginu muni skila neinu öðru en aukinni neikvæðri umræðu sem að verði hluthöfum ekki til góðs. Fyrsta skrefið er væntanlega að bíða eftir skýrslu stjórnarinnar á ,,þessum tilteknu atriðum''.


,,Stolt siglir fleyið mitt’’

Stolt siglir fleyið mitt segir í alþekktum texta! Það er með ólíkindum að horfa á þá stöðu sem Eimskipafélag Íslands er komið í, sjálft óskabarn þjóðarinnar. Sem stráklingur þá fylgdist maður grannt með Eimskipafélaginu enda einn aðal atvinnuveitandinn í miðborg Reykjavíkur. Menn gengu fram hjá byggingu félagsins með lotningu og það var gaman taka túra í gömlu lyftunni í Pósthússtrætinu þegar maður var að snattast í miðbænum að selja blöð og merki. Í þá daga réð íhaldssemi og skynsemi ríkjum og orðið útrás var ekki til í bókunum.

Nú virðist sem að menn hafi búið til kokkteil sem er í meira lagi göróttur fyrir hluthafa og fyrir atvinnulífið í heild. Áhrifin á Íslandi ef Eimskipafélagið lendir í meiraháttar kröggum vegna þessa gætu orðið gríðarlegar. Sá möguleiki er samt langsóttur en annað eins hefur gerst á síðustu mánuðum að stórfyrirtæki hafi hrunið eins og spilaborg eins og dæmin sýna, en það versta er kannski að bókhald XL hefur kannski verið fegrað eins og greint hefur verið frá. Það er ljóst að áhrifin á eignir hluthafa eru þegar komnar fram að hluta þ.e. eignir þeirra hafa þynnst út og kannski eru undirliggjandi veð og ábyrgðir hjá bönkum o.s.frv. sem gætu framkallað önnur verri áhrif á meðal hluthafa svo sem veðköll.

Það er ljóst að ábyrgðin til handa XL er ekki hluti af kjarnastarfssemi Eimskipafélagsins og það er í raun ótrúlegt að félagið sé komið í slíkar ógöngur eins og raun ber vitni, og maður spyr hvort að skortur á virkri framtíðarsýn eða vanmat á stöðunni hafi nú skilað því ástandi sem uppi er. Núverandi lánsfjárkreppa á án efa einhvern þátt í því hvernig staðan er og áhrif ákvarðana Barclays banka á að lána ekki frekar til rekstrarins varð til þess að skipið hefur skrapað botninn í skerjagarðinum. Nú er bara að bíða þess að hafsögubáturinn fylgi fleyinu milli skers og báru alla leið til hafnar. Ábyrgð stjórnenda hlutafélaga og kröfur um upplýsingagjöf þeirra til hluthafa er mikil og Fjármálaeftirlitið mun vætnanlega skoða þessi mál rækilega enda hefur núverandi staða ekki eingöngu áhrif á stóra aðila á markaðnum heldur lífeyrissjóði auk margra smærri hluthafa sem og fjárfesta sem eiga í eignarhaldsfélögum tengdum Eimskipafélaginu.

Hér að neðan eru stærstu hluthafar í Eimskipafélaginu skv. upplýsingum Kauphallarinnar:

 
NafnHlutfallseignFjöldi hlutaMarkaðsvirði

1.

Frontline Holding S.A.

33,18%

622.725.000

4.982

milljónir

2.

Fjárfestingarfélagið Grettir hf

33,15%

622.060.000

4.976

milljónir

3.

Landsbanki Luxembourg S.A.

8,78%

164.818.000

1.319

milljónir

4.

Hlutafélagið Eimskipafélag  Ísl

8,52%

159.878.000

1.279

milljónir

5.

Landsbanki Íslands hf,aðalstöðv

3,26%

61.121.400

489

milljónir

6.

GLB Hedge

2,48%

46.466.600

372

milljónir

7.

Peter Gordon Osborne

1,48%

27.703.200

222

milljónir

8.

Craqueville

1,18%

22.215.600

178

milljónir

9.

LI-Hedge

1,16%

21.757.000

174

milljónir

10.

Samson eignarhaldsfélag ehf

0,84%

15.830.500

127

milljónir

11.

Geertruida Maria A. van der Ham

0,81%

15.267.400

122

milljónir

12.

Lerkur Sp/f

0,65%

12.288.000

98

milljónir

13.

Arion safnreikningur

0,49%

9.247.230

74

milljónir

14.

Den Danske Bank A/S

0,46%

8.583.760

69

milljónir

15.

MP Fjárfestingarbanki hf

0,46%

8.550.400

68

milljónir

16.

Eignarhaldsfélagið SK ehf

0,21%

4.001.730

32

milljónir

17.

Háskólasjóður Eimskipafél Ís hf

0,18%

3.466.080

28

milljónir

18.

Glitnir Sjóðir hf,sjóður 6

0,17%

3.147.680

25

milljónir

19.

Eggert Magnússon

0,16%

3.057.190

24

milljónir

20.

Stafir lífeyrissjóður

0,15%

2.868.380

23

milljónir

Samtals

97,78%

1.835.053.150

14.680

milljónir

Heimild: Kauphöll Íslands 28. ágúst 2008

Leyndardómar Leiðtogans

Hlutverk leiðtogans og ímynd nútíma hetjunnar endurspeglast án efa í þeim persónum sem að taka þátt í opinberri umræðu og eru jafnframt gerendur á sama tíma. Stíll og áherslur leiðtoga eru misjafnar og á meðan margir telja að menn séu fæddir leiðtogar þá segja sumir að hægt sé að tileinka sér og læra það sem til þarf til þess að verða leiðtogi. Leiðtogar eru fyrirmyndir sem að móta oft skoðanir og hafa jafnframt oft áhrif á skoðanir og aðgerðir almennings. Slíkir leiðtogar verða að koma fram af ábyrgð og sýna af sér háttsemi sem er öðrum til jákvæðrar eftirbreytni.

Nelson Mandela einn af áhrifamestu leiðtogum vorra tíma stendur nú á 90. tugasta aldursári. Lífsviðhorf hans hafa mótast af því að gera heiminn að betri stað og hann hefur aldrei litið til baka í þeirri leit. Af hógværð og með staðfestu þar sem trúin á að dagurinn á morgun yrði betri en dagurinn í dag voru einkennandi þáttur í hans framgöngu. Hugmyndafræðin og lífsviðhorf Mandela setja hann án efa á stall meðal framsýnna leiðtoga ofar öllu lýðskrumi. Þegar Mandela var spurður út í grunninn í sinni stjórnvisku þá taldi hann upp 8 atriði:

Courage is not the absence of fear - it's inspiring others to move beyond it

Lead from the front - but don´t leave your base behind Lead from the back - and let other believe they are in front

Know your enemy - and learn about his favourite sport Keep your friends close - and your rivals even closer

Appearances matter - and remember to smile

Nothing is black or white

Quitting is leading too

Mandela var þekktur fyrir að tala vel um andstæðinga sína, en hann hefur látið hafa það eftir sér að það hafi skilað honum meiri áhrifum heldur en að berjast við þá á persónulegum nótum. Aðferðafræði Mandela gagnaðist honum einstaklega vel þar sem að honum tókst að gera andstæðinga sína óvirka með málflutningi sínum og hann sagði jafnframt að þeir væru sjálfum sér verstir eins og dæmin sanna. Stundum skilar hæverskan og kænskan betri niðurstöðu þegar upp er staðið. Góðir leiðtogar tapa oft orustum en markmiðið er ávallt að vinna stríðið eins og Mandela sannaði eftir 27 ára fangelsisvist.


Af kjöri til framkvæmdastjórnar Alþjóða Ólympíunefndarinnar

Það hefur verið í mörgu að snúast hjá Alþjóða Ólympíunefndinni (IOC) á meðan á Ólympíuleikarnir í Peking fóru fram. Kjör til framkvæmdastjórnar hefur ekki hlotið mikla umfjöllun en það er rétt að geta þess að Bretar fengur ekki sinn mann kjörinn í framkvæmdastjórnina, Sir Craig Reddie, þrátt fyrir að hann hafi verið að reyna í annað skiptið að komast inn. Bretar hafa ekki átt fulltrúa í framkvæmdastjórninni í meira en hálfa öld, og það verður líka að teljast mjög sérstakt þar sem að næstu leikar fara fram í London 2012. Það er ljóst að þetta mun verða atriði sem að Bretar mun taka á í framhaldinu, enda einstök staða komin upp þar sem að enginn fulltrúi er frá framkvæmdaaðilum í æðstu stjórn Alþjóða Ólympíunefndarinnar, en það hafa verið óskrifuð lög að svo hafi verið. Ein kona var kjörin í framkvæmdastjórnina Nawal El Moutawakel frá Marokkó fyrrum gullverðlaunahafi frá Los Angeles leikunum 1984 en hún var jafnframt fyrst arabískra kvenna til þeirra afreka. Í dag er hún eina konan í selskap með 15 körlum. Þessi staða og mismunur á milli kynjanna eru náttúrulega neikvæð skilaboð og það er ljóst að Alþjóða Ólympíunefndin verður að taka á þessu, en erfiðleikarnir liggja náttúrulega í menningu og arfleið marga aðildarríkjanna þar sem að konur eiga erfitt með að starfa á opinberum vettvangi. Það má með sanni segja að Alþjóða Ólympíunefndin hafi fullnægt algjörum lágmörkum með þessari aðgerð og skilboðin út á við eru ekki jákvæð.

Þessir voru kjörnir í framkvæmdastjórnina í Peking og sitja næstu 4 árin:

Forseti IOC:  Jacques Rogge, Belgíu (2001)

Varaforsetar: Lambis Nikolao, Grikklandi (2005)

Chiharu Igaya, Japan (2005)

Thomas Bach, Þýskalandi (2006)

Zaiquing Yu, Kína (2008)

Meðlimir: Gerhard Heiberg, Noregi (2007)

Denis Oswald, Sviss (2008)

Mario Vazquez Rana, Mexíkó (2008)

Rene Fasel, Sviss (2008)

Richard L. Carrion, Puerto Rico (2008)

Ser Mian NG, Singapúr (2005)

Mario Pescante, Ítalíu (2006)

Sam Ramsamy, S-Afríku (2006)

Nawal EL Moutawakel, Marokkó (2008)

Frank Fredericks, Namibíu, (2008)


Það ku vera kyrrlátt í Kína þar keisarans hallir skína

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með fréttunum á vettvangi íslenskra þjóðmála og þá sér í lagi umræðunni um íslenska handboltalandsliðið. Ég bara hélt að það væri ekki hægt að sjá svona marga vinkla á henni. Ég sá sjónvarpsstöðina SF 2 í Sviss sýna frá heimkomu svissneska júdómannsins sem komst á verðlaunpall. Hans heimkoma var hógvær og það voru þó teknar myndir og allt var nú lágstemmdum nótum svona eins og háttur þeirra er hér í fjallaríkinu. Ég held samt að sú móttökuathöfn sem að fram fór fyrir íslenska handboltalandsliðið hafi gert þjóðarsálinni gott til, og þjóð í greiðsluerfiðleikum  og með fallandi gengi hefur gott af slíkum sýningum.

Það hefur margur spekingur kvatt sér hljóðs og menn hafa kvartað og kveinað yfir því að ráðherra íþróttamála hafi farið yfir hafið og stutt við bakið á sínu fólki þar sem kostaðurinn var ógurlegur eða 16,67 krónur á mann sem að umreiknast í 5 milljónir. Sennilega hefði ráðherrann fengið far með Jóni Ásgeiri eða Björgólfi ef flug einkaþotna hefði verið leyft. Það er rétt að greina að félagi minn frá Portúgal sem að átti erindi til Peking eins og margir aðrir fyrirmenn þurfti að reiða fram 8000 bandaríkjadali til þess að láta uppfæra miða sinn á betra farrýmið og ekki orð um það meir. Alveg merkilegt hvað allt er dýrt í Kína.

Það versta af öllu er að samkeppniseftirlitið hefur misst af glæpnum og ætti hiklaust að grípa inn í málin þar sem ríkisstyrkir eru afurð liðanna tíma enda skekkja þeir samkeppnisstöðuna á milli íþróttagreina. Merkilegast eru þó þessi ummæli: Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að fá íþróttafélög hafi efni á því að bjóða borgarfulltrúum og embættismönnum í boð og veislur. ,,Það eru nokkur félög sem hafa efni á að halda slík boð og með því eru þau að kaupa sér ákveðna velvild."  Er ekki rétt að varaborgarfulltrúinn birti þennan lista yfir þessi íþróttafélög enda alvarlegt mál ef um eina allsherjarspillingu er að ræða? 

Það er eins og ein allsherjar maskína neikvæðni og öfundar hafi farið í gang og kannski verður ekki langt að bíða að Iceland Express kvarti yfir því að Icelandair hafi fengið að fljúga með silfurdrengina heim og að auki hafi þeir fengið milljóna auglýsingar út á lágflugið yfir Reykjavík og allt í beinni útsendingu á kostnað okkar hinna.

Eigum við að ræða þetta eitthvað frekar......

Af silfrinum skulum við þekkja þá

Það var ánægjulegt að sjá íslenska handboltalandsliðið standa á verðlaunpallinum í Peking, og þrátt fyrir gullið hafi ekki skilað sér þá verða menn að vera ánægðir og raunsæir. Það var einhver tilfinning sem að sagði mér að það yrði að á brattann að sækja hjá landum í sjálfum úrslitaleiknum enda liðið búið að leika hreint frábærlega framan af. Frábær liðsheild og markvisst starf hafa greinilega skilað sínu. Á vellinum snýst þetta ekki um stærð þjóðanna sem í hlut eiga heldur fjölda leikmanna inn á vellinum.

Það var greinilegt að stíft leikjaprógramm og sennilega spennufallið eftir leikinn við Spán tók sinn toll. Árangurinn er samt einstakur og það má segja að framganga íslensku landsliðsmannanna hafi komið handboltanum í umræðuna, sérstaklega þar sem greinin er tiltölulega óþekkt í mörgum löndum, en það að New York Times fjalli um hið íslenska öskubuskuævintýri eru stórmerkilegar og jákvæð fyrir íþróttina í heild. Því miður hefðu fleiri ævintýri mátt líta dagsins ljós en það varð ekki raunin þar sem að stórþjóðirnar einokuðu verðlaunpallana. Sem starfsmaður hjá stærsta heimsíþróttasambandinu FIVB (Alþjóðablaksambandinu) með 220 aðildarsambönd innan sinna vébanda þá er rétt að greina frá því að fjölmargir vinir og félagar víða að heiminum hafa hringt til þess að óska mér til hamingju með íslenska handboltalandsliðið þó svo að ég hafi ekkert með það að gera og starfi að allt annarri íþrótt.

Það sýnir svo ekki verður um villst að menn hafa tekið eftir íslenska kraftaverkinu og er það vel. Handbolta landsliðið á það svo sannarlega skilið. Því fer samt fjarri að íslenskar afreksíþróttir standi undir nafni þegar að samanburðinum kemur við þær þjóðir sem að við viljum etja kappi við. Eftir að hafa starfað að íþróttamálum í langan tíma, jafnt á vegum sérsambands sem alþjóðasérsambands þá segir reynslan mér að starfsumhverfi sérsambandanna á Íslandi gæti verið mun betra en það er þeim þrautin þyngri að halda úti landsliðs og afrekstarfi þá sér í lagi í hópíþróttunum. Fjármagn eitt og sér gerir ekki allt þar sem að fagteymi, fastráðnir þjálfarar og virk framtíðarsýn þar sem að afrekshópar eru myndaðir með það fyrir augum að taka þátt í stórmótum 2010, 2012, 2014 og 2016 þurfa að vera í myndinni.

Það má heldur ekki gleyma stuðningi við íþróttamennina og þá sem að eiga að stýra skútunni. Það kerfi sem byggir á því að menn séu allt í einu, þ.e. stjórnarmenn, formenn, fjáröflunarmenn, sjálboðaliðar og framkvæmdaaðilar eru varahugavert. Auðvitað eru slík dæmi enn við lýði og ganga stundum upp en til langframa mun það ekki virka heldur leiða til þess að menn brenna út og hætta sjálfboðastarfinu og við það skerðist getan til afreka til mikilla muna. Sjálfboðaliðar eru og verða samt áfram mikilvægir í starfi frjálsra íþróttasamtaka eins og sérsamböndin eru en það þarf skilyrðislaust að búa til betri starfsskilyrði svo starfskraftar sjálboðaliðanna nýtist betur.

Í dag snúast hlutirnir um að starfið sé faglegt og það sé rekið af ábyrgð og festu. Krafan á hendur sérsamböndunum um að þau ali ekki bara upp afreksmennina, kosti útgerð þeirra, greiði jafnt þjálfunarkostnað, vinnutap, auk laun fagstarfsmanna og lykilstjórnenda sýnir svo ekki verður um villst að skyldurnar eru miklar og í raun mun meiri en raunveruleg geta oft á tíðum. Í raun er ekki hægt að reka afreksstarfið nema að stofna til mikilla fjárútláta á meðan á undirbúningstímanum stendur og oftast nær er boltanum velt áfram. Margur kann að segja menn verði að sníða stakk eftir vexti en það er nú sennilega raunveruleikinn hjá flestum sérsamböndunum sem starfa ekki á fullum afköstum í slíku umhverfi og geta þar af leiðandi ekki stutt nægjanlega við bakið á afreksfólki sínu eða getan til þess að halda úti afreksstarfi af einhverju viti er ekki til staðar.

Á meðan milljarða fjárfestingar hafa verið í íþróttamannvirkjum og mikill vöxtur í starfi sértækra samtaka sem að starfa eingöngu í héraði þá hefur afreksstefnan sjálf setið á hakanum. Til að mynda er staðan orðin þannig í sumum greinum að íþróttamennirnir eru að koma fram í eigin nafni til þess að afla fjár og þannig verður afreksstefnan fjarræn. Mörg sérsambönd eru í tilvistarkreppu og eiga ekki eingöngu í erfiðleikum með að reka starf sitt á landsvísu heldur eru þau líka í samkeppni við önnur innlend íþróttasamtök um fjármuni og bætta aðstöðu auk annarar fyrirgreiðslu. Það versta af öllu er þó þegar einkaaðilar, bæjar- og sveitarfélög eru farinn að reka eigin íþrótta- og utanríkispólitík án samráðs og samvinnu við sérsamböndin. Án efa kann ástandið að vera misjafnt á milli greina.

Við gleðjumst samt öll þegar vel gengur en gleymum oft því að mörg handtök liggja að baki árangri í þágu þjóðar. Árangur handboltalandsliðsins sýnir að að það er kominn tími til þess að sérsamböndin verði gerð að sterkari einingum, og hver getur ekki tekið undir það eftir að hafa séð þá landkynningu sem að streymt hefur frá erlendu fjölmiðlunum síðustu daga. Íþróttir eru ekki bara menning, heldur stórfelld landkynning, þar sem ný tengsl og ný tækifæri eru mynduð á milli einstaklinga og þjóða.  Þar  eru íþróttamennirnir í lykilhlutverki og það gleymist oft.


Af lýðræðinu í kjörbúðinni

Lýðræðið í kjörbúðinni er allt annað en í stjórnmálunum. Í stjórnmálunum ganga kjósendur að kjörborðinu og velja sér menn og málefni en það er samt engin trygging fyrir því að niðurstaða kosninga skili því sem upp úr kössunum kom. Sigurvegarar kosninga fara oft með skarðan hlut frá borði eins og þekkt er. Í kjörbúðinni geta menn valið úr hillunum þær vörutegundir sem að mönnum geðjast að og líkar við. Þar spila inn í þættir eins og verð, gæði og smekkur neytenda. Í pólitíkinni geta menn valið flokka, fólk og áherslur. Það er eins og menn gleymi þessu þegar þeir fjalla um vandræðaganginn í henni Reykjavík. Það er nefninlega svo lýðræðið í kjörbúðinni er annað og meira en það sem skilar sér upp úr kjörkössunum og kjósendur og fjölmiðlar geta hamrað járnin ótt og títt, en það gildir einu því í stjórnmálunum berjast menn fyrir líðandi stund og ef menn geta komist í þá stöðu að þeir verði verðmætari í dag en í gær þá grípa þeir gæsina þó stundum sé fiðrið fitugt eftir mikið volk um víðlendur tjarnarinnar. Það er svo gaman að sjá kjörna fulltrúa taka þátt í fjölmiðlafansinum og kasta steinum úr glerhúsinu á andstæðingana og telja þeim flest til foráttu og fjölmiðlafólkið sumt hefði mátt vera aðgangsharðara í að spyrja þessu sömu pólitíkusa afgerandi spurninga um þeirra eigin framgöngu á kjörtímabilinu. Það verður að segja Staksteinum Morgunlaðsins til hróss að þar var allavega gagnrýnin hugsun á ferðinni og er það vel. Ef menn geta ekki starfað saman þá er ljóst að menn verða að stokka upp spilin og gefa annan umgang það er einmitt einkenni stjórnmálanna og það er engin trygging fyrir einu eða neinu þó svo að menn myndi samstarfsstjórn eða einn flokkur fari með völdin það getur nefninlega kastast í kekki og þá verða kjörnir fulltrúar að standa sig í stykkinu eins og lög gera ráð fyrir en hvað veit ég kannski er ekkert lýðræði í kjörbúðinni lengur.

 

 

 


Af almenningssamgöngum

Ég var að lesa grein bæjarstjórans í Garðabæ í Fréttablaðinu í dag. Greinin varpar svo sem ekki nýjum staðreyndum fram um almenningssamgöngur heldur frekar að hún sýni að almenningssamgöngur hafa verið aftarlega á merinni, sérstaklega strætisvagnasamgöngur í Reykjavík og ekki má gleyma Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ. Það verður alltaf dýrt að reka samgöngukerfi í landi með fáa íbúa en rökin snúa samt frekar að því að móta heilstæða framtíðarsýn í þessum málaflokki og þá þarf að skoða Suðurnesin og Keflavíkurflugvöll sérstaklega. Eftir að hafa dvalið í Svissneska fjallaloftinu í nokkurn tíma og kynnst almenningssamgöngum sem vit er í þá er sennilega hægast að segja frá því að forstjórar sem almennir launþegar nota almenningssamgöngurnar enda eru þær áreiðanlegar með afbrigðum og gildir þá einu hvort um er að ræða lestir eða strætó. Það eru einungis Íslendingar sem að hringja í mig og biðja mig um að sækja sig á flugvöllinn en það er aldrei gert hérna enda ber lestinn menn beint á bæjarstæðið þar sem þeir hitta viðkomandi. Það vakti hinsvegar athygli mína að greinin var lagt út af því að kostnaðurinn við að reka kerfið væri mikill og það væri ekki réttlætanlegt að hafa slíkt kerfi frítt. Auðvitað varpar greinin einungis ljósi á kostnaðarstærðirnar við rekstur Strætó bs en annar efnahagslegur ávinningur er ekki tekinn inn í heildarmyndina. Það er svo sem skiljanlegt að menn vilji ekki setja pening í rekstur sameiginlegs kerfis, sérstaklega ef menn sjá ekki þjónustuþáttinn eða hagsmunina af því að vera þar innabúðar. Það verður samt að gera kröfu til bæjarstjórans að hann vandi málfar sitt í opinberri umræðu þar sem hann segir: ,,Rekstur Strætó bs. er þungur. Á komandi árum má búast við að hann þyngist, m.a. vegna hærri rekstrarkostnaðar og aukinna krafna um þjónustu.'' Hvað sem öllu líður þá er ljóst að almenningssamgöngur þurfa aukna vikt og nýjar lausnir þarf að skoða með opnum huga, svo sem raflestir o.s.frv.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband