Vér mótmælum allir

Það var með ólíkindum að horfa á mótmæli bílstjóra flutningabíla og sjá átök þeirra við lögregluna í sjónvarpinu. Það er ljóst að þau átök sem að urðu í dag eru  kannski upphafið að nýjum tímum og ljóst að þjóðfélagið er ekki það sama eftir svona atburð. Grundvallaratriðið er samt að menn verða að virða landslög og það er hlutverk lögreglu að tryggja almannaheill. Það er ljóst að þær aðgerðir bílstjóranna að loka aðal samgönguæðunum í Reykjavík eru til þess fallnar að raska almennu öryggi borgaranna. Mér er til efs að slík mótmæli væru látin óátalin annarsstaðar í Evrópu. Það sem brennur á mér er hinsvegar sú staðreynd að við búum í breyttu þjóðfélagi þar sem aukin harka og almennt skeytingarleysi virðist vera ríkjandi. Virðing fyrir lögum og reglum hefur því miður verið á undanhaldi og það líður ekki sá dagur orðið að ekki séu kveðnir upp dómar vegna hinna ýmsu glæpa. Þessr atburðir í dag færðu okkur rétta mynd af þeim ólíku aðstæðum sem skapast getur vegna tiltölulega fámenns hóps sem að getur hreinlega haldið stórum hluta lögreglunnar í herkví með því að skapa sérstakar aðstæður sem að hleypa öllu í bál og brand. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að það þarf að efla löggæsluúrræði og styrkja almennu lögregluna sem og sérsveitina til þess að takast á við nýja tegund af löggæslu sem mótast af því að tryggja almanna hagsmuni með afgerandi hætti. Það er eins og sumir stjórnmálamenn trúi því ennþá að Ísland sé land þar sem að engin hætta á átökum séu til staðar. Slík hugsun er hreinlega skaðleg og léttvæg þegar staðreyndirnar sýna annað. Það er líka sorglegt að sjá að menn kjósa að hverfa frá orðræðunni til aðgerða sem eru beinlínis andsnúnar hagsmunum þorra borgaranna. Sú gagnrýni sem hefur verið sett fram um framgöngu lögreglunnar mótast kannski af því að menn eru ekki vanir því að sjá lögregluna beita sérsveitinni í návígi en nú vita menn að hún er til og það gefur líka ákveðin skilaboð. Annars er bara að vona að menn sjái að sér og reyni að leysa málin með heilbrigðri umræðu í stað aðgerða sem verða ekki aftur teknar og gildir þá einu hvort um er að ræða lögreglu eða bílstjórana. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband