Þjóðin sýnir vilja sinn í verki

Þjóðin hefur tjáð hug sinn með afgerandi hætti - stórt NEI. Það er spurning hvernig ber að túlka niðurstöðurnar, ein líkleg túlkun er sú að ríkisstjórn Íslands hafi tapað trausti almennings. Þjóðaratkvæðagreiðslan er söguleg fyrir lýðveldið Ísland þar sem gert er út um deilumál í beinum kosningum þ.e. meirihlutalýðræði ræður úrslitum. Í stjórnmálum þá er það svo að kjósendur velja þingmennina en þeir hafa takmörkuð áhrif þegar kemur að beinum ákvarðanatökum. Í Sviss er þess öfugt farið þar sem beinar atkvæðagreiðslur fara fram um mörg stærri mál sem hluti af beinu lýðræði. Það vekur furðu mína eftir að hafa fylgst með þessu máli utan frá í langan tíma að stjórnvöld hafa þverskallast við að hlusta á vilja þjóðarinnar og menn hafa hreinlega ekki gengið í takt við tíðarandann. Það er með hreinum ólíkindum að vel menntað og vel gefið fólk hafi ekki skynjað veruleikann.


mbl.is Nær allir segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kjósa eða kjósa ekki.....

Er það ekki skylda kosningabærra að mæta á kjörstað og uppfylla samfélagslegar skyldur sínar? Er það ekki eitt höfuðeinkenni lýðræðisþjóðfélaga að fólk sinnir samfélagslegum skyldum og kýs í þeim kosningum sem boðað er til í samræmi við gildandi lög og reglur viðkomandi ríkis? Það að forsætisráðherra lýðveldisins Íslands mætir ekki á kjörstað og jafnvel heldur ekki fjármálaráðherrann hljóta að teljast mjög sérstök tíðindi. Margur kann að segja að slík framkoma sé hrein móðgun við þá sem leggja mikið á sig til þess að sinna kalli samfélagsins. Margir Íslendingar í útlöndum þurfa að fara langan veg til þess eins að sækja kjörseðilinn og síðan þurfa menn að senda hann heim, jafnvel með hraðflutningafyrirtæki og greiða fyrir það þúsundir króna. Það má heldur ekki gleyma þeim sem þurfa að fara um lang veg innanlands til þess að kjósa. Er það sanngjarnt að leiðtogarnir sýni slæmt fordæmi og mæti ekki á kjörstað, er ekki eðlilegra að þeir þegi og mæti á kjörstað og ráðstafi sínu atkvæði á eigin forsendum eins og aðrir þegnar lýðveldisins Íslands?


Standa fyrirtækin undir þessu?

Dagurinn var án efa erfiður mörgum íslenskum fyrirtækjum og þar skiptir stærðin ekki máli. Nýtt tryggingagjald var á eindaga í dag 15. febrúar og það má með sanni segja að atvinnurekendur hafi verið bollaðir í dag. Tryggingagjaldið hefur hækkað á innan við ári um rúmlega 60% og það þýðir að fyrirtæki í rekstri sem að greiddi eina milljón í trygginagjöld af launum starfsmanna sinna þarf um þessi mánaðarmót að greiða rúmlega eina milljón og sexhundruð þúsund þ.e. ef laun og starfsmannafjöldi er sá sami og áður. Ég velti því fyrir mér hvort að íslensk fyrirtæki geti búið til þá verðmætaaukningu sem þarf til þess að standa undir þessum álögum. Að endingu fer þetta allt út í verðlagið og þann spírall þekkja flestir. Ég velti því lika fyrir mér hvort við eigum eftir að sjá aukningu í verktöku hjá einstaklingum.

Helstu upplýsingar um breytta skattlagningu má finna hér undir þessum tengli: http://www.rsk.is/fagadilar/breytskattl

 


Var það óvild?

Nú berast þær fréttir að fjármálaráðherra hyggist fyrir hönd hins opinbera leggja til nýtt hlutafé inn í Byr sparisjóð. Á sínum tíma felldi hið opinbera SPRON (stofnaður 1932) þrátt fyrir að erlendir kröfuhafar hafi sýnt vilja til þess að afskrifa rúm 20% af kröfum sínum. Með því að virða ekki vilja erlendu kröfuhafanna þá varð til gríðarlegt verðmætap og skattgreiðendur fá að endingu reikninginn. Hefði ekki verið hægt að vinna með erlendu kröfuhöfunum að því að endurskipuleggja SPRON:  

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item257406/ 

Var besta leiðin valin fyrir skattgreiðendur?

Ég velti því fyrir mér hvort að óvild í garð fyrrverandi Sparisjóðssjóra, Guðmundar Haukssonar, meðreiðarsveins íslensku bankadrengjanna hafi ráðið því hvernig fór? Auðvitað var sjóðurinn sem slíkur kominn langt frá þeim samfélagslegu markmiðum sem að einkenndu stofnun hans og tilgang. HF væðingin varð SPRON aldrei það gæfuspor eins og menn væntu en það er efni í aðra sögu.

Ef það fer svo að ríkið tekur yfir Byr sparisjóð þá verður fjármálaráðherra að skýra málin í sögulegu samhengi. Hvað réttlætir nú að fjármunum hins opinbera sé betur varið í Byr en Spron?

Núverandi fjármálaráðherra flutti þingsályktunartillögu ásamt félögum sínum í VG um SPRON á sínum tíma. Sjá hér að neðan:

http://www.althingi.is/altext/128/s/0008.html

Það er oft hollt að skoða söguna aftur í tímann. Tekið úr Mbl. 1. maí 1932 um stofnun Sparisjóðs Reykjavíkur: 

Sparisjóðsstofnun þessi mun hafa vakið marga til umhugsunar um það, hve hjákátlega lítið því hefir verið sint á undanförnum árum, að örfa almenning til að safna fje í sparisjóði. Við allan atvinnurekstur landsmanna vantar reksturfje. En þeir menn, sem veita þjóðinni ódýrasta rekstursfjeð, með því að leggja í sparisjóð, eru ofsóttir á allar lundir. Löggjafarvaldið leggur sig í framkróka, til þess að ná sem mestu í skatta af sparifjáreigendum, í stað þess, ef forsjá rjeði í þessu land. þá ættu sparifjáreigendur, sem leggja fje sitt á borð með sjer í búskap þjóðarinnar, að eiga vísa vernd og aðhlynning stjórnarvaldanna.


Andsetið ríkisútvarp

Það er að verða flestum ljóst að ríkisútvarp allra landsmanna er í annarlegu ástandi um þessar mundir. Sífellt afskipti stjórnmálamanna af þessari stofnun er með öllu ólíðandi. Það orkar tvímælis að búið sé að skera niður starfssemi fréttastofunnar á sama tíma og þjóðin þarf að fá traustar upplýsingar af málefnum líðandi stundar. Er ekki einmitt hægt að færa rök fyrir því að styrkja hefði átt fréttaþjónustuna á þessum örlaga tímum, tímum þar sem að fjölmiðlar í einkaeigu hafa og geta haft áhrif á það hvernig fréttirnar eru matreiddar? Því miður hefur ríkisútvarpið verið undir stöðugum afskiptum stjórnmálamanna og þetta sífellda gjamm stjórnmálamanna og annarra þrýstihópa hafa þegar valdið ríkisútvarpinu stórkostlegu tjóni. Nú er svo komið að ríkisútvarpið glímir við ímyndarvanda og trúverðugleikinn hefur beðið hnekki út í samfélaginu. Á árum áður þá sameinaði ríkisútvarpið þjóðina, úti á hafi, í sveitum og bæjum þessa lands. Hvað er til ráða nú? Það skiptir nefninlega fleira máli en einn jeppi!


Tímanna tákn

"Ef maður vill stela í þjófafélagi, þá verður að stela samkvæmt lögum; og helst að hafa... tekið þátt í að setja lögin sjálfur."


Halldór Kiljan Laxness , 26. kafli - Atómstöðin - Organistinn við Uglu.


Að halda friðinn í samfélaginu

Árið 2009 var ár sem að einkenndist almennt af óeiningu og ófriði í samfélaginu. Því miður hafa stjórnmálaöflin ekki náð að sameina land og þjóð. Sundurleitni og vanvirðing fyrir grunngildunum hafa verið ráðandi. Stundum er best að þegja og skipta sér ekki af, og stundum er líka nauðsynlegt að tjá sig og segja sína skoðun. Margir einstaklingar hafa látið í ljós þá skoðun sína að það sé ekki eðliegt af ríkissaksóknara að gefa út ákæru á hendur þeim taldir eru hafi rofið friðhelgi Alþingis Íslendinga. Eftir að hafa lesið pistil á netinu þar sem að lögreglumaður skrifar Sölva á Skjánum þá er ég þeirrar skoðunar að við þurfum að staldra við og draga línuna sem skilur á milli friðar og ófriðar. 

Í lýðræðisríki jafngilda árásir á helstu stofnanir hins opinbera árásum á fólkið í landinu og því verður ekki þegjandi tekið. Auðvitað geta menn haft sýnar skoðanir á málum en lesningin hér að neðan segir margt um það ástand sem skapaðist og vekur upp spurningar um hvernig og hvenær ber að bregðast við ástandi eins og því sem að skapaðist við Alþingi í aðdraganda hrunsins. Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort að opinberar persónur geti yfir höfuð gengið óhult um stræti og torg, og hvort að löggæslan í landinu sé undir það búin að takast á við óeirðir og uppþot almennt? Erum við að sigla inn í nýja tíma án þess að vita af því?

Pistillinn hér að neðan segir mikið en hann er eignaður óþekktum lögreglumanni:

,,Það er mat margra lögreglumanna að eignaspjöll og látlausar árásir á lögreglumenn þessa daga hafi verið leyft að ganga allt of lengi og allt of langt. Ég stóð vaktina þessa daga og kom fyrst niður eftir þegar að fólk hafði umkringt Alþingi og lamdi á rúður með ýmsum áhöldum. Við smátt og smátt náðum að ýta fólki frá húsinu og inn í miðjan garðinn. Það var ótrúlega súrrealískt að standa þarna og horfa á ungt fólk allt niður í 16-17 ára, klætt í fín merkjaföt, brosandi útað eyrum þegar það skvetti úr súrmjólkurfernum yfir höfuð lögreglumanna. Allskyns mjólkurvörum sem það keypti af Jóni Ásgeiri í Austurstræti.

Mikill minnihluti fólksins var "venjulegt" fólk, fólk sem manni fannst "eðlilegt" að væri statt á Austurvelli til þess að nýta sér tjáningarfrelsið sitt og lýsa vanþóknun sinni á algeru gjaldþroti stjórnmálamanna. Fólk sem maður fann til samkenndar við. Ég er alls ekki að segja að ungt fólk eigi ekki að mótmæla né hafi til þess þroska. Ég er eingöngu að segja að upplifun mín (staðfest af mörgum félaga minna) var sú að mikið af unga fólkinu þarna var eingöngu komið til þess að djöflast í lögreglunni.


Hvernig er hægt að biðja lögreglumenn um að bíða og bíða og horfa upp á endalaus lögbrot fólks sem mætir til þess að svala annarlegum hvötum sínum? Fyrir laun sem eru í engu samræmi við líkamlegt og andlegt álag starfsins. Það er skoðun margra að lögreglan hefði átt að grípa mun fyrr inn í þessa atburðarás og að stjórnendur lögreglunnar hafi í raun og veru ekki þorað að taka ákvarðanir fyrr en raun bar vitni. Sú aðgerð að fólk stillti sér upp fyrir framan lögregluna til að verja hana staðfestir þetta mat mitt og annarra lögreglumanna. Meirihluti fólksins gekk alltof langt gagnvart lögreglunni, og lögreglan brást ekki við því.

Það er aldrei fallegt að sjá lögreglu beita valdi. En það er algerlega kristaltært að lögreglan stofnar ekki til átaka í óeirðum. Hún er mætt á svæðið til að ljúka átökunum. Oftast er það gert með beitingu valds. Annað er ekki hægt. Það var prófað að leyfa mótmælendum (aðallega fólki sem var að gera eitthvað annað en að mótmæla) að ganga berserksgang gegn bæði lifandi fólki (lögreglumönnum) og dauðum hlutum (t.d. Oslóartréinu) og það gekk sífellt lengra og lengra og endaði með saur- og grjótkasti eins og frægt er orðið. M.a. var tvívegis skotið úr stórum línubyssum eins og finnast í bátum að hópi lögreglumanna fyrir framan Alþingi síðustu nóttina. Aðgerðaleysi lögreglunnar gerði því ekkert annað en að stigmagna framgöngu óeirðaseggja. Með því að grípa fyrr inn í hefði klárlega mátt koma í veg fyrir einhver meiðsli."

 

 


Með lögum skal land byggja en ólögum eyða

Það er ljóst að gagnrýni Snorra Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna, hleypir nýju lífi inn í umræðuna um framgöngu núverandi ráðherra og alþingismanna í aðdraganda hrunsins. Auðvitað var það svo að það var enginm vegur að ræða þessi mál af neinu viti í öllum æsingnum og umsátursástandinu sem skapaðist við Alþingi Íslendinga og Lögreglustöðina við Hverfisgötu. Eðli máls samkvæmt hlýtur Snorri að hafa sínar upplýsingar af viðtölum við lögreglumennina sem að stóðu vaktina við helstu stofnanir lýðveldisins á átakatímum. Er það ekki réttmæt krafa að þeir sem þjóna þegnum þessa lands, hafi til þess æru og vit til þess að sýna gott fordæmi, sérstaklega þegar aðsteðjandi hætta vofir yfir ríkisstjórn og almannaheill. Úr því að þessi gagnrýni hefur komið fram er þá ekki rétt að fjölmiðlar taki upp málið og fylgi því eftir á gagnrýnin hátt? Það er ekkert að borgaralegum mótmælum en það er fín lína á milli þess hægt er að flokka sem mótmæli og þess að rjúfa friðinn í réttarríki.

 


Það skiptir ekki máli hversu miklu menn afla, heldur hve miklu maður eyðir!

Það fór ekki mikið fyrir því í fjölmiðlum en Íslendingar búsettir erlendis voru ekki boðnir í móttöku í sendiráðum okkar til þess að fagna 1. desember. Skiljanlegt í núverandi árferði og lítið hægt að segja um það. Ég er nú samt á því að margir hefðu mætt og haft með sér drykki og meðlæti ef það hefði verið beðið um það. Andlega kreppan birtist líka í því að fólk hættir að hittast og tala saman, en kannski dagskipunin úr Utanríkisráðuneytinu hafi verið þess eðlis að bann hafi verið lagt við samkomum þann 1. desember. Hver veit?

Fékk þó tölvupóst frá Fastanefnd Íslands í Genf 1. desember. Það var ekki einu sinni haft fyrir því að óska fólki til hamingju með daginn. Kannski ekki illa meint hjá þeim sem sendi póstinn, einungis verið að skerpa á samskiptalistunum. Kannski dæmigert fyrir tíðarandann, virðing þverrandi fer fyrir grunngildum forfeðranna og þeirri baráttu sem að þeir háðu fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Kannski er ekki nema von, jafnvel alþingismenn hafa verið myndaðir þar sem að atlaga hefur verið gerð að lögreglu og öðrum stofnunum lýðveldisins.

Ég fór að velta ICESAVE málinu enn og aftur og ég er þess fullviss að ráðamenn fyrr á tímum hefðu ekki sýnt sama undirlægjuháttin gagnvart besku og hollensku nýlenduherrunum. Ég reyndi að setja mig í spor gömlu meistaranna og spáði í það hver leikjafræði þeirra hefði verið. Það er flestum ljóst að þjóðin er beygð en ekki brotin eftir allt sem á undan er gengið. Núna er tíminn til þess að spyrna við fótunum og sækja þann rétt sem við teljum okkur eiga í ICESAVE málinu og blása til sóknar.

Særingamenn samtímans telja þjóðinni trú um að allt muni blessast í framtíðinni ef við samþykkjum gjörninginn. Þjóð sem að er ekki í tengslum við fortíðina mun ganga beygð og brotin inn í framtíðina. Er eitthvað að því að menn spyrni við fótum og reyni að sækja rétt sinn í samræmi við ákvæði EES samningsins, sérstaklega ef menn geta fært rök fyrir því að vandinn liggi í gölluð regluverki Evrópusambandsins.

Ég hlustaði á fjármálaráðherra að kvöldi 1. desember lýsa því yfir að íslensk fyrirtæki hefðu betri samkeppnisstöðu gagnvart erlendum innflutningi þrátt fyrir auknar álögur og skatta. Hljómaði svona eins og  þegar Davíð í SÓL var að berjast við ofurskattana  í smjörlíkis- og safagerðinni þegar að flest iðnfyrirtæki voru skattlögð út í horn. Það er ekki von að fjármálaráðherra skilji ekki að fyrirtækin í framleiðslugeiranum þurfa að segja upp fólki vegna þess að eftirspurnin hefur fallið í samræmi við minni kaupmátt, auk þess sem almenningur hefur dregið stórlega úr neyslu sinni.  Verð á aðföngum fyrirtækja hefur hækkað og þessum kostnaðarhækkunum fyrirtækjanna er náttúrulega velt út í verðlagið. Málið snýr ekki að samkeppnisstöðu gagnvart erlendum innflutningi heldur hinu að ríkið hefur ekki blásið lífi í atvinnulífið með góðum ákvörðunum. Kannski að fjármálaráðherra skilji þetta allt saman þegar að hann fer að telja skattféð á næstu mánuðum.

Í núverandi árferði skiptir það litlu hversu mikið menn afla heldur hitt hversu miklu menn þurfa að eyða, fyrirtæki og fjölskyldur eru fastar í útgjöldunum sem ekki sér fyrir endann á. Það er kjarni málsins. Alli ríki eða Aðalsteinn Jónsson heitinn hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: ,,Það skiptir ekki máli hve mikið maður aflar, heldur hve miklu maður eyðir."  Er þetta ekki einmitt kjarni málsins í dag? Fólk og fyrirtæki eru föst í ástandi þar sem engin er útgönguleiðin, ekki er hægt að auka tekjurnar en á sama tíma æða úgjöldin áfram og engin fær rönd við reist. Útgjaldagrunnurinn hækkar og hækkar en tekjurnar eru þær sömu. Þekkir fólkk söguna og áhrifin. Já, staðreyndin er nefninlega sú að það skiptir ekki máli hversu miklu menn afla heldur hve miklu þarf að eyða.

 


Val á milli bænaturna og hernaðar

Svissneska þjóðin gengur enn og aftur að kjörborðinu í dag þegar að þjóðaratkvæðagreiðslur verða um tvö mál. Fyrsta málið er hvort leyfa eigi að byggja turna á moskur múslima sem að telja ca 160 hérna í Sviss. Flestar þessar moskur eru á iðnaðarsvæðum, afdönkuðum verksmiðjuhúsum o.s.frv. en múslimar eru ca. 4.5% þjóðarinnar. Stór hluti múslima kom upp úr 1990 með falli fyrrum Júgóslavíu og Tyrklandi en þeir þóttu hófsamir í öllu sínu. Svissneska þjóðin telur að spyrna verði við fótum núna enda séu kristin gildi á undanhaldi. Helstu andstæðingar bænaturnanna segja að ný tegund róttækra múslima sé að innleiða strangari siði í klæðaburði auk notkun höfuðslæðu hjá konum. Nokkrir þingmenn á hægri kantinum hafa sagt að þeir séu ekki á móti múslimum, en þeir hafni þeim pólitíska öfgastimpli sem til staðar er. Þeir sem eru ekki fylgjandi banninu segja að slíkt bann kunni að skaða ímynd Sviss erlendis og þá sérstaklega á meðan múslimskra ríkja.

Þó að það hafi ekki farið hátt í umræðunni þá selja svissnesk fyrritæki allnokkuð af vopnum og öðrum búnaði til hernaðar. Í dag er kjósendum einnig gefinn kostur á að tjá sig um þau mál og kjósa hvort leyfi eigi slíkan útflutning frá ríki sem að kennir sig við frið. Það er vonast til þess að konur styðji þá hugmynd af fullum krafti. Margur hefur hins vegar bent á að slíkt bann muni kosta þjóðarbúið þúsundir starfa og veikja jafnframt varnir Sviss gagnvart umheiminum. Það er talin vera lítil von á að þetta verði samþykkt hérna í þessu friðsama ríki þar sem að ungir hermenn ganga alvopnaðir með M16 riffilinn inn á Mcdonalds til þess að fá sér í svanginn á milli æfinga og þykir ekki mikið mál.

Það má segja að pólítíska kerfið í Sviss leyfir þjóðinni að fara með mál í þjóðaratkvæðagreiðslu ef nægilega margir samþykkja beiðni þar um. Kannski að við Íselndingar getum eitthvað lært af þessari skrýtnu þjóð í alparíkinu Sviss sem er ímynd hreinleikans og Heiðu litlu. Þeir eru jú rétt eins og við Íslendingar með kross í fána sínum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband