Það skiptir ekki máli hversu miklu menn afla, heldur hve miklu maður eyðir!

Það fór ekki mikið fyrir því í fjölmiðlum en Íslendingar búsettir erlendis voru ekki boðnir í móttöku í sendiráðum okkar til þess að fagna 1. desember. Skiljanlegt í núverandi árferði og lítið hægt að segja um það. Ég er nú samt á því að margir hefðu mætt og haft með sér drykki og meðlæti ef það hefði verið beðið um það. Andlega kreppan birtist líka í því að fólk hættir að hittast og tala saman, en kannski dagskipunin úr Utanríkisráðuneytinu hafi verið þess eðlis að bann hafi verið lagt við samkomum þann 1. desember. Hver veit?

Fékk þó tölvupóst frá Fastanefnd Íslands í Genf 1. desember. Það var ekki einu sinni haft fyrir því að óska fólki til hamingju með daginn. Kannski ekki illa meint hjá þeim sem sendi póstinn, einungis verið að skerpa á samskiptalistunum. Kannski dæmigert fyrir tíðarandann, virðing þverrandi fer fyrir grunngildum forfeðranna og þeirri baráttu sem að þeir háðu fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Kannski er ekki nema von, jafnvel alþingismenn hafa verið myndaðir þar sem að atlaga hefur verið gerð að lögreglu og öðrum stofnunum lýðveldisins.

Ég fór að velta ICESAVE málinu enn og aftur og ég er þess fullviss að ráðamenn fyrr á tímum hefðu ekki sýnt sama undirlægjuháttin gagnvart besku og hollensku nýlenduherrunum. Ég reyndi að setja mig í spor gömlu meistaranna og spáði í það hver leikjafræði þeirra hefði verið. Það er flestum ljóst að þjóðin er beygð en ekki brotin eftir allt sem á undan er gengið. Núna er tíminn til þess að spyrna við fótunum og sækja þann rétt sem við teljum okkur eiga í ICESAVE málinu og blása til sóknar.

Særingamenn samtímans telja þjóðinni trú um að allt muni blessast í framtíðinni ef við samþykkjum gjörninginn. Þjóð sem að er ekki í tengslum við fortíðina mun ganga beygð og brotin inn í framtíðina. Er eitthvað að því að menn spyrni við fótum og reyni að sækja rétt sinn í samræmi við ákvæði EES samningsins, sérstaklega ef menn geta fært rök fyrir því að vandinn liggi í gölluð regluverki Evrópusambandsins.

Ég hlustaði á fjármálaráðherra að kvöldi 1. desember lýsa því yfir að íslensk fyrirtæki hefðu betri samkeppnisstöðu gagnvart erlendum innflutningi þrátt fyrir auknar álögur og skatta. Hljómaði svona eins og  þegar Davíð í SÓL var að berjast við ofurskattana  í smjörlíkis- og safagerðinni þegar að flest iðnfyrirtæki voru skattlögð út í horn. Það er ekki von að fjármálaráðherra skilji ekki að fyrirtækin í framleiðslugeiranum þurfa að segja upp fólki vegna þess að eftirspurnin hefur fallið í samræmi við minni kaupmátt, auk þess sem almenningur hefur dregið stórlega úr neyslu sinni.  Verð á aðföngum fyrirtækja hefur hækkað og þessum kostnaðarhækkunum fyrirtækjanna er náttúrulega velt út í verðlagið. Málið snýr ekki að samkeppnisstöðu gagnvart erlendum innflutningi heldur hinu að ríkið hefur ekki blásið lífi í atvinnulífið með góðum ákvörðunum. Kannski að fjármálaráðherra skilji þetta allt saman þegar að hann fer að telja skattféð á næstu mánuðum.

Í núverandi árferði skiptir það litlu hversu mikið menn afla heldur hitt hversu miklu menn þurfa að eyða, fyrirtæki og fjölskyldur eru fastar í útgjöldunum sem ekki sér fyrir endann á. Það er kjarni málsins. Alli ríki eða Aðalsteinn Jónsson heitinn hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: ,,Það skiptir ekki máli hve mikið maður aflar, heldur hve miklu maður eyðir."  Er þetta ekki einmitt kjarni málsins í dag? Fólk og fyrirtæki eru föst í ástandi þar sem engin er útgönguleiðin, ekki er hægt að auka tekjurnar en á sama tíma æða úgjöldin áfram og engin fær rönd við reist. Útgjaldagrunnurinn hækkar og hækkar en tekjurnar eru þær sömu. Þekkir fólkk söguna og áhrifin. Já, staðreyndin er nefninlega sú að það skiptir ekki máli hversu miklu menn afla heldur hve miklu þarf að eyða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband