Svona er lífið sagði Viðskiptaráðherra!
18.10.2008 | 20:05
Það er ljóst að Viðskiptaráðherra sem fagráðherra viðskipta á Íslandi ber hvað mesta ábyrgð á fjármálamarkaðnum og því umhverfi sem að hann starfar eftir. Undir ráðuneytið heyrir Fjármálaeftirlitið og aðrar undirstofnanir sem að fara samkvæmt skipulagslegum markmiðum sínum með eftirlit á fjármálamarkaði. Það er réttmætt að spyrja hver sé ábyrgð Viðskiptaráðherra sem fagráðherra á ástandinu.
Hvað sem öllu tali líður þá voru orð Viðskiptaráðherra þessi þegar að hann tók við starfinu:
,,Það kom mér ánægjulega á óvart að fá í minn hlut viðskiptaráðuneytið. Auðvitað eru það tímamót á ferli hvers stjórnmálamanns að taka við ráðherraembætti og ekki óraði mig fyrir því að ég yrði í þeirri stöðu 36 ára gamall en svona er lífið. Nú taka við nýjir tímar og ný og spennandi verkefni.
Viðskiptaráðuneytið er eitt af atvinnuvegaráðuneytunum og undir það falla samkeppnismál, neytendamál og öll fjármálastarfsemin í landinu. Útrás fjármálafyrirtækjanna sem nú skaffar í kassann stóran hluta af tekjum ríkissjóðs og starfsemi bankanna almennt. Nú er þessu ráðuneyti gert hærra undir höfði enda hefur fjármálastarfsemi og mikilvægi samkeppnismála vaxið hratt og örugglega á fáum árum. Nú er tækifæri til þess að efla rammann utan um þessa starfsemi verulega og auka ábata samfélagsins af útrás fjármálafyrirtækja. Sem er einstök.Um leið þarf að skerpa á ábyrgð og skyldum slíkra fyrirtækja við samfélagið. Sanngjarnt hlutfall réttinda og skyldna.Nú er að setja sig vel inn í málin og ná utan um málaflokkinn á næstu vikum og mánuðum. Og fá gott fólk með í föruneytið.
Meira um stóru verkefnin síðar.
Ekki ætla ég mér að segja að Viðskiptaráðherra hafi mistekist eða gera þá kröfu um að hann segi af sér, það verður hann sjálfur að gera upp við sem og aðrir embættismenn sem að liggja undir ámæli. Þegar að verkefni Viðskiptaráðuneytsins eru skoðuð þá er það ljóst að þar er ábyrgðin mikil og ljóst að úr því ráðuneyti geta fáir slegið sig til riddara á núverandi ástandi - Ummælin SVONA ER LÍFIÐ fá núna nýja merkingu!
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 19.10.2008 kl. 01:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.