Efnahagur og velferð þjóðar
14.5.2010 | 19:02
Það er að koma í ljós það sem flestir vissu fyrir þ.e. að gífurlegur samdráttur yrði í einkaneyslu landsmanna eftir þær auknu álögur sem að lagðar hafa verið á fyrirtæki og fjölskyldur þessa lands. Það þarf ekki að koma á óvart, en þær tölur sem birtar hafa verið segja manni að um ,,efnahagslegt svartnætti" sé að ræða. Til dæmis hefur samdráttur í sölu á húsgögnum mælst allt að 60% og nærri því helmings samdráttur í sölu á raftækjum og það þarf ekki að tala um endurnýjum bíla o.s.frv. Það getur hver maður skilið að það þarf að reka hið opinbera og afla fjár til þess að standa undir samneyslunni. Ég verð að segja að ég skil ekki fjármálaráðherra að hreykja sér af því að hafa náð í fleiri krónur með skattahækkunum, þegar eftir stendur að sennilega er um mesta samdrátt að ræða á lýðveldistímum. Kannski fer ég rangt með en þá leiðréttir einhver góður maður það.
Við erum einungis að ræða um skammtímaáhrifin og þau segja ekki nema takmarkaða sögu. Hvað gerist þegar að samdrátturinn verður langvarandi og umsvifin í hagkerfinu halda áfram að minnka og tekjustofnar hins opinbera hrynja, á þá að róa á sömu mið? Er ekki verið að skapa efnahagsástand sem að dregur máttinn og viljann úr fyrirtækjum og fjárfestum til þess að standa í atvinnustarfssemi, og vissir aðilar telja jafnvel betra að hætta rekstri þar sem að tekjurnar fara að stærstum hluta í fastan kostnað.
Efnahagsstjórnin í núverandi árferði þyrfti að snúast um að lækka skatta og skapa ríkinu langtíma tekjustofna. Sá bóndi sem að hlúir ekki að bústofni sínum missir fljótt þann ávinning sem að skepnurnar gefa. Er það ekki einmitt sem er að gerast núna í íslensku samfélagi? Er þetta sú velferð og fyrirhyggja sem við viljum á Íslandi framtíðarinnar?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.5.2010 kl. 14:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.