Gott hjá Stefáni

Ég er á því að Stefán hafi staðið sig afburðavel sem lögreglustjóri og margir lögreglumenn eiga miklar þakkir skyldar fyrir að starfa í þágu okkar hinna. Það er ekki öfundsvert hlutverk að þurfa að hætta lífi og limum fyrir framan sjálft Alþingi Íslands. Það er búið að reyna að eiga við menn með góðu en það hefur ekki dugað hingað til. Það er komin fram ný þjóðfélagsmynd þar sem meiri harka og skeytingarleysi eru ríkjandi. Það er ljóst að það þarf að styrkja löggæsluna í landinu enn frekar með betri búnaði til þess að tryggja fælingarmáttinn. Það er sennilega það eina rétta í stöðunni enda getur ástand eins og við öfum orðið vitni að þróast út í eitt allsherjar ófremdarástand. Ég held að flestir kjósi sterka löggæslu sérstaklega í því ástandi sem er til staðar núna.

 


mbl.is Munu hafa uppi á ofbeldismönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu langt á að ganga?

Það eru margir sem eru langt í frá að vera ánægðir með núverandi mótmæli og þá háttsemi sem að höfð hefur verið í frammi af vissum mótmælendum sem að gengu svo langt í gær að gefa frændum okkar Norðmönnum langt nef með því að brenna jólatréð á Austurvelli sem er einmitt tákn friðar og vináttu. Hversu lengi á það að ganga að öryggi íslenskra borgara og eigur ríkis og borgar séu tröðkuð niður í svaðið? Eru ekki takmörk fyrir því? Eða munu menn hreinlega bera elda að byggingum og öðru lauslegu næst? Er ekki rétt að þingmenn okkar og forseti gangi fram fyrir skjöldu og hvetji til fólk til þess að mótmæla friðsamlega, ef ekki núna hvenær þá?


Að standa í ströngu

Steingrímur J. opinberaði í Kastljósinu í kvöld að hann teldi lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa fleiri galla í för með sér en kosti fyrir íslenska hagsmuni, og á málflutningi hans mátti skiljast að við hefðum ekkert við þessi lán að gera undir þeim afarkostum sem í boði væru. Þegar Steingrímur var svo spurður út í hvaða lausnir hann hefði á ástandinu þá varð fátt um svör.

Forsætisráðherra virkaði hálf þungur, enda búinn að standa í ströngu í dag, og það er ljóst að það er ekki tekið út með sældinni að starfa í umboði kjósenda. Ólíkt hafast þeir að félagarnir Geir og Steingrímur, sá fyrrnefndi á erftitt með að koma sér á milli húsa á meðan hinn tekur kvöldgöngu á Austurvelli til þess að horfa á vinnustaðinn sæta áhlaupi.

Það er einkum tvennt sem stendur upp úr eftir viðtalið við þá félaga. Í fyrsta lagi sú staðreynd, að íslensk fyrirtæki og heimili lenda í enn meiri vanda ef Steingrímur sest við stýrið enda sagði hann blákalt að hann myndi skila lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til baka. Eitt og sér myndi það skerða möguleika íslenska ríkisins á að standa við núverandi skuldbindingar sínar, og um leið lokaðist á allt súrefnisflæði í hagkerfinu og í kjölfarið myndu bankar og fyrirtæki falla fljótt í núverandi árferði. Seinna atriðið, þegar forsætisráðherra var spurður út í það hvort menn ætluðu að axla ábyrgð þá var fátt um svör sem gefur sterklega til kynna að menn gangi ekki í takt við kröfur fólksins í samfélaginu.

Það er enginn skyndilausn í stöðunni en hvernig er hægt að taka stjórnmálamann alvarlega sem að hreinlega segir að hann muni sjái til þess að hér verði enginn sjóður til þess að grípa til ef ástandið versnaði. Ég verð að segja að það er hægt að segja allt í fjölmiðlum og komast upp með það og hafa jafnframt engar lausnir í farteskinu. Það er ljóst að með Steingrími munu fylgja ný neyðarlög og jafnvel meiri óvissa en nú er.

Þrátt fyrir ólguna í samfélaginu þá þarf fólk að bera virðingu fyrir helstu stofnunum lýðveldisins Íslands. Það er lítið mál að rífa niður Ísland og framtíð þeirra sem landið skulu erfa. Það hefur gefið á bátinn, og við erum í miðjum ölduganginum og þá er um að gera að hafa skynsemina til staðar svo hægt sé að stýra bátnum á lygnari sjó.

 


Austurvöllur eða Aðgerðarvöllur

Það hefur verið sérstakt að fylgjast með atburðum dagsins á Austurvelli og án efa eru margar skoðanir á málum, allt frá framgöngu lögeglunnar til aðgerða mótmælenda sem hafa tekið sér stöðu fyrir utan Alþingishúsið. Eftir að hafa fylgst með viðtölunum í sjónvarpi þá er ljóst að það djúp gjá á milli aðila, þeirra sem segjast vera raddir fólksins og þeirra sem þjóna röddum fólksins. Slíkt kann ekki góðru lukku að stýra.

Mótmælendur krefjast kosninga strax eins og það eitt og sér muni leysa þann bráðavanda sem er til staðar. Það er nákvæmlega engin trygging fyrir því að kosningar einar og sér muni skila þeirri niðurstöðu sem að menn eigi eftir að sætta sig við, og það er átakanlegt að horfa á forystumenn í stjórnmálum koma fram í fjölmiðlum og jafnvel tala í hálfkveðnum vísum um stjórnarsamstarfið. Það sér hver heilvita maður að slíkt er ekki uppbyggilegt. Á sama tíma koma forystumenn stjórnarandstöðunnar einnig fram í viðtölum og skjóta föstum skotum og kvarta yfir getuleysi ríkisstjórnarinnar. Er ekki eðlilegt að menn komi með tillögur og hugmyndir að því hvernig megi leysa bráðavandann? Festa, agi og ábyrgð er það sem skiptir máli við núverandi aðstæður en kannski er það óskhyggja að svo verði, sérstaklega á meðan hver höndin er uppi á móti annarri og meiri fréttir berast af aðgerðum mótmælenda en þeirra sem leiða eiga þjóðina fram úr vandanum.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá munu mótmæli ein og sér ekki leysa þau vandamál sem að þjóðin á í núna. Það sama gildir um stjórnmálamenn sem að reyna að slá sig til riddara á ástandinu og telja öðrum trú að þeir hafi lausnir á takteinum. Slíkt er lýðskrum af verstu sort. Við þurfum að treysta innviði samfélagsins og halda virðingu okkar gagnvart helstu stofnunum samfélagsins þrátt fyrir að það sé erfitt nú um stundir.


Jákvæðar æfingar bestar

Það er ekkert að því að fólk mótmæli og komi fram skoðunum sínum á friðsamlegan hátt. Það ber hinsvegar að taka ummæli Harðar alvarlega þegar að hann segir mótmælin vera rétt að byrja. Það hefur sýnt sig að lítið má útaf bregða til þess að hlutirnir fari ekki úr böndunum og ljóst að lögreglan verður að vera tilbúin að grípa inn í fyrr ef illa fer. Málefnaleg mótmæli eiga að snúast um réttmætar kröfur og vera jafnframt með skilaboð til úrlausnar, það er væntanlega hagur flestra. Vonandi verða æfingarnar í anda sjálfsstyrkingar og málefnalegrar umræðu og Hörður ber gríðarlega ábyrgð á því að allt fari vel fram. Af litlum neista verður oft mikið bál!


mbl.is Hörður: Mótmælin rétt að byrja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að tolla í tískunni

Tími litla mannsins er runninn upp aftur. Það er ekkert merkilegt að vera ofurlaunamaður með ofurréttindi það er svo 2007-legt. Bjarni Ármannsson fyrrverandi bankamaður hefur sannað hið fornkveðna, að það er mikilvægt að tolla í tískunni og taka virkan þátt í þjóðfélagsbreytingunum eins og endurgreiðslan sýnir. Það er erfitt fyrir stórlaxana að fóta sig í íslensku samfélagi þessa dagana enda eru menn úthrópaðir á torgum og strætum, og jafnvel hafa einhverjir gerst svo kræfir að banka í menn á hinum ýmsu stöðum eins og komið hefur fram í fréttum. Það má segja að tími uppgjöranna sé gengin í garð og ný merking falin í því orði svona rétt eins í orðinu skilanefnd. Sú græðgisstefna með óhóflegum launum og launakjörum hefur beðið hnekki en hún eitraði íslenskt samfélag og virðingu manna fyrir grunngildum samfélagsins. Auðvitað var óhófleg einkaneysla og  vanhugsaðar fjárfestingar í fararbroddi hjá mörgum á meðan sumir náðu að sýna fyrirhyggju. Þannig er það alltaf og það er ekki alltaf hægt að bjarga öllum enda ekki nægjanlega margir björgunarbátar til staðar.

Tími ráðdeildar og hagsýni er nú genginn í garð! Sparnaður, nægjusemi og ráðdeild eru lykilatriðið í dag. Öllu má þó ofgera og stundum er vanhugsaður niðurskurður ekki sú lausn sem að hentar, sérstaklega ekki þegar að atvinnuleysi er staðreynd. Sjórnmálamenn verða að sýna leiðtogahæfni og framsýni þegar kemur að þvi að skapa störf og hvetja til fjárfestinga. Fyrirtækin í landinu þurfa hvatningu til þess að starfa áfram og launþegar þurfa að hafa öryggi fyrir því að atvinnan þeirra sé trygg og hafa trú á því að hægt sé að skapa og byggja upp að nýju.

Listin að þræða hinn gullna meðalveg hefur alltaf verið vandrötuð. Einn er sá maður sem hefur grætt mikið og þrætt hinn gullna meðalveg af mikilli kænsku og fyrirhyggju en það er ofurfjárfestirinn Warren Buffet. Buffet hefur t.d. búið í sama húsi síðustu fimm áratugina og berst yfirleitt lítið á, öfugt miðað við marga aðra og hefur gefið yfir 31 billjón bandaríkjadala til góðgerðarmála. Líffspeki hans og fjárfestingarstefna hefur byggst upp á hyggjuviti og fyrirlitningu á eyðslu og óhófi eins og frægt er orðið. Þrátt fyrir mikinn skell þá er enn hægt að græða en það þarf fyrirhyggju og þessvegna fylgir hér tenging á heilræði Buffets: http://articles.moneycentral.msn.com/learn-how-to-invest/10-investing-basics-from-Buffett.aspx Þetta er náttúrulega allt án ábyrgðar svona rétt eins og þegar fólki var ráðlegt með sparnaðinn!


Munu neytendur borga sektina á endanum?

Nú hefur Samkeppnisstofnun skilað lokaniðurstöðu og ákveðið að sekta Haga vegna ólögmætra viðskiptahátta á markaði og maður getur vel skilið Jóhannes í Bónus að hann er lítt glaður með þá sendingu svona rétt fyrir jól. Ég velti því fyrir mér hvort að það sé besta aðgerðin að nota sektir til þess að fyrirbyggja ólögmætar aðgerðir á markaði, sérstaklega þegar að smásalinn hefur yfirburðastöðu. Á endanum mun smásalinn hækka verð sitt eða breyta álagningarforsendum sínum til þess að ná inn fyrir sektinni og það þýðir náttúrulega að neytendur borga brúsann á endanum.


Að skerpa ímyndina

Það var gaman að koma til Vínar á sl. sunnudag. Jólaandinn svífur yfir myndarlega skreytta borgina og nóg að gera hjá kaupmönnunum að  því er virtist. Auðvitað var maður spurður spjörunum úr um ástandið á Íslandi og greinilegt að menn eru misvel með á nótunum, en rétt er að geta þess að það hefur ítrekað komið upp á þeim fundum sem að ég hef sótt  að fólk hefur rangar hugmyndir um ástandið. Það tekur þó steininn úr þegar að fólk heldur að það sé ekkert að bíta og brenna á Íslandi. Þetta er því miður staðreyndin sem að maður finnur fyrir í alþjóðasamstarfinu og fólk telur jafnvel að íslenska ríkið sé gjaldþrota. Mér segir svo hugur að heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands muni fækka enda hefur neikvæð fréttaumfjöllun skaðað íslenska hagsmuni og þá sér í lagi ferðaþjónustuna og þá sem að starfa í þeirri grein, en líklegt er að aðilar í tengdri þjónustu verði líka fyrir skakkaföllum. Það er í raun engin vitglóra í því að telja að Ísland sé ódýrt fyrir útlendinga þegar að gengisáhrifin eru komin inn í alla verðmyndum á vöru og þjónustu, t.d. hefur ferðin með flugrútunni hækkað um 80% á einu ári ef ég fer rétt með. Verð á flugi, veitingum og fleiru hefur einnig hækkað umtalsvert og menn mega ekki gleyma því að verð á sömu liðum í flestum öðrum löndum er mun lægra en gengur og gerist á Íslandi.

Það má líka gera að því skóna að nokkuð klúður hafi átt sér stað þegar kemur að ímyndar- og kynningarmálunum, sérstakalega eftir hrun bankanna og ljóst að það þarf miklu meiri vinnu og fagmennsku til þess að vinna upp þann skaða sem að landið hefur orðið fyrir vegna ákvarðanna sem voru teknar á einni helgi í október.  Umræðan um bankahrun og fjármálaóreglu mun verða tengt nafni Íslands í framtíðinni, það er bláköld staðreynd en það má ekki leggja árar og bát og bíða þess sem verða vill, heldur þarf að sækja markvisst fram í gegnum starfssemi á sviðum lista, vísinda, menningar og ekki má gleyma íþróttunum og æsku landsins í þessu samhengi. Sjálfstæð þjóð verður umfram allt að stuðla að samvinnu og samskiptum á þeim sviðum sem eru líkleg til þess að hjálpa til við að efla ímyndina og græða sárin sem rista djúpt í íslenskt samfélag þessa dagana. Það er hægt en það mun taka tíma og til þess þarf vilja og samstillt átak landsmanna allra.


Að vita eða vita ekki og stjórnmál líðandi stundar

Það hefur verið sérstakt að fylgjast með framgöngu Viðskiptaráðherra undanfarið, þ.e. ef marka má fréttir af atburðum síðustu vikna. Auðvitað skolast alltaf eitthvað til og jafnvel rangt farið með staðreyndir, en það verður að segjast eins og er að Viðskiptaráðherra hefur of oft verið í fréttum þegar minnst hefur verið á að hann hafi ekki vitað eitthvað eða ekki verið kunnugt um eitthvað. Það er ekki gott fyrir stjórnmálamann að vera tengdur of mikið við slíka umræðu án þess að skaðast af henni. Það er í verkahring stjórnmálamanna að vita, sérstaklega þegar menn hafa yfir heilu ráðuneyti að segja og með aðstoðarmenn og ritara sér til hjálpar. Því hefur oft verið haldið fram að góður ritari væri sá eða sú sem að væri alltaf skrefi á undan og með svörin á reiðum höndum þegar á þyrfti að halda. Það virðist sem að aðstoðarmaður ráðherra sé núna farinn að skilja leikinn og er hann mættur í fjölmiðla skömmu seinna til þess að útskýra vanþekkingu ráðherrans á einstökum aðgerðum og verkefnum síðustu vikna. Jú það er nú betra að einhver viti og hafi svörin á reiðum höndum! Kannski eru stjórnmál líðandi stundar farin að líkjast of mikið laginu um manninn sem var á vitlausum stað í vitlausu húsi og á vitlausum tíma.

 

Að sjá ný tækifæri

Það er fróðlegt að lesa um kreppuna miklu og hvernig fólk aðlagaði sig að breyttum aðstæðum. Það var jú samkeppni um að komast af. Þeir sem sjá tækifærin í niðursveiflunni eru að lokum þeir sem að munu hagnast. John D. Rockefeller sagði að á sínum 93 árum hefði hann farið í gegnum margar kreppur en hann sagði jafnframt að velmegunin kæmi alltaf aftur enda breytti fólk hugsunarhætti sínum og aðlagaði væntingar sínar að nýjum veruleika. Þetta er einmitt kjarninn í dag. Það verður erfitt fyrir marga, en fólk mun sjá nýja möguleika, fá nýjar hugmyndir og ný fyrirtæki munu komast á legg.

Það hefur án efa verið jákvæð innspýting fyrir marga að sjá að krónan styrktist vel í dag og ljóst að margir höfðu fjárhagslegan ávinning af þeirri stöðu. Jákvæðu fréttirnar af krónunni segja okkur að ekkert ástand vari að eilífu, allt er breytingum háð. Fólk má ekki gleyma sér í daglegu amstri og láta allar dómdagsspárnar í útvarpi og sjónvarpi hafa áhrif á sig. Stundum er best að slökkva og reyna að gera eitthvað uppbyggilegt. Lífið heldur áfram og velmegunin kemur aftur það kenndi reynslan Rockefeller.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband