Besta bankamódel í heimi - eins banka maður!
3.5.2009 | 10:46
Flavian Kippel er dæmi um mann sem að margir geta tekið til fyrirmyndar, þar á meðal ég. Hann fer með forræði á næst minnsta banka Sviss. Flavian er í senn bankastjóri, gjaldkeri og almennur skrifstofumaður. Heildareignir bankans hans eru 20 milljónir svissneskra franka og bankinn fagnar jafnframt 80. ára starfsævi. Húsakynni bankans láta lítið yfir sér og það er enginn íburður og engan marmara að sjá, né eru þar stórfengleg listaverk látinna meistara til þess að prýða veggina. Bankinn gerir út frá venjulegri svissneskri blokkaríbúð og hóværðin er algjör, enda markmið Spar und Leihkasse Leuk að þjóna íbúum bæjarins þar sem að hann er staðsettur. Flavian hefur engan Range Rover jeppa til þess að koma sér á milli heldur gengur um á tveimur jafnfljótum þegar á þarf að halda og hann þekkir ekki neina bónusa heldur hefur eingöngu heyrt af þeim í fréttum.
Hér má sjá Flavian að störfum og ég bið ykkur að gefa ykkur tíma til þess að horfa á þetta stutta en áhrifamikla vídeó: http://www.swissinfo.org/eng/multimedia/video/detail.html?siteSect=15045&sid=10604329
Reiðin er ekki góður ráðgjafi en þegar ég hugsa um adrif SPRON og þá staðreynd að einni vinsælustu fjármálastofnun landsins var sett í þrot og samningaleiðin ekki reynd þá er ljóst að almenningur sem og viðskiptavinir SPRON urðu fyrir miklu tjóni. Ég ætla ekki að ræða þá staðreynd að stjórnendur SPRON misstu sjónar á þeim gildum sem að gerðu SPRON að einni vinsælustu fjármálastofnun landsins og fóru fram úr sér, sérstaklega þegar þeir Háeffuðu sjóðinn og hófu að stunda einnig fjárfestingastarfssemi í stað þess að beina sjónum að grunngildunum þar sem þekkingin og reynslan lá. Það vekur athygli að þegar að bankinn varð að hlutafélagi þá voru fáir stjórnarmenn með mjög langa reynslu af bankastarfssemi heldur aðallega af rekstri fyrirtækja. Ummræðan um SPRON var öll í þá áttina að hann þyrfti að stækka til þess að vera samkeppnisfær. Eftir að hafa fylgst með mörgum smærri sparisjóðum hérna í bankalandinu Sviss þá efast ég um að það hafi verið rétta stefnan, smæðin getur líka verið mikill kostur sérstaklega þegar að arðsemiskröfurnar er hógværar og markmiðin að þjónusta samfélagið.
Flavian hlær núna að kreppunni enda vex kúnnahópurinn jafnt og þétt núna, sérstaklega eftir að traustið hefur horfið hjá mörgum stærri bönkunum. Ráðlegging Flavian á einmitt erindi núna, sérstaklega til þeirra sem að starfa í banka- og fjármálastarfssemi, sem og þeirra sem að setja reglur og hafa eftirlit með fjármálageiranum: ,,HALDIÐ YKKUR VIÐ ÞAÐ SEM ÞIÐ KUNNIÐ OG LÁTIÐ ANNAÐ VERA!" Eftir að hafa horft á vídeóið með Flavian og séð hversu einfalt lífið getur verið þá getur maður ekki annað fyllst réttlátri reiði vegna þess að við fórum fram úr okkur, og við misstum sjónar á grunngildunum eins og í tilfelli SPRON sem var með einstaklega tryggan viðskiptavinahóp, og svo það að Fjármálaeftirlitið hafi ekki enn náð að klára dæmið og úrskurða um hvort selja megi SPRON eða ekki er dæmi um veikleika kerfisins. Það má heldur ekki gleyma framkomu Nýja Kaupþings banka og stjórnar hans sem að hefur með aðgerðum sínum skaðað stóran hóp saklausra neytenda með aðgerðum sínum. Hver ber svo ábyrgð á kerfinu, er það ekki bankamálaráðherra? Því miður hefur umfjöllunin verið lítil og menn hafa komist frá uppbyggilegri gagnrýni, og með vísan í þetta þá hefði umboðsmaður neytenda mátt láta málið til sín taka af meir þunga, en það er kannski of seint núna.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er Flavian og banki hans hinir raunverulegu sigurvegar bankakreppunnar, enda allt miðað við að gera það sem menn kunna og gera það vel og hógværðin höfð að leiðarljósi. Því miður tóku margir hæfir bankamenn mikla áhættu og stjórnuðust ekki af skynsemi heldur var í farteskinu krafan um að vaxa þar sem vöxturinn og gróðinn var línuleg stærð með óþekktum endastað.
Dæmið um Flavian ætti að vera skólabókardæmi fyrir alla bankamenn og þá sem að sinna opinberum rekstri. Það er vel hægt að gera meira fyrir minna!
Fjármál | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Getum við eitthvað lært af öðrum?
2.5.2009 | 12:00
1. maí er ekki haldinn hátíðlegur í mörgum kantónum í Sviss, og það var ekki nýtt fyrir mig að vinna á þessum sólríka degi. Það brá hinsvegar út af vananum þegar að stærsta 1. maí ganga í áratugi átti sér stað í Zurich þar sem að menn mótmæltu kreppunni og áhrifum hennar, og í grunninn er það sama við að glíma og hjá íslensku þjóðinni þar sem að launaskandalar bankamanna og uppsagnir eru aðalatriðin auk þess sem að hart hefur verið sótt að bankaleyndinni. Það er ekki bara á Íslandi þar sem að fólk er óánægt með lífið og tilveruna en flest er svona í lágstemmdara kantinum hérna. Stærsti munurinn á íslenska veruleikanum og þeim svissneska er að hér leigir 80% af þjóðinni enda dýrt að byggja og jarðnæði takmarkað og verð eftir því. Að stærstum hluta glímir svissnesk alþýða ekki við greiðsluklafa vegna endurgreiðslu á húsnæðislánum eða öðrum óraunhæfum neyslulánum. Vandinn hérna er kannski fólginn í því að hér hafa menn verið duglegir að spara og í því að lána öðrum þjóðum sem að núna geta ekki borgað!
Þrátt fyrir að margir svissneskir þegnar séu andvígir því að menn geti sest að í Sviss í þeim einum tilgangi að komast hjá skattlagningu og reka skúffufyrirtæki héðan þá er rétt að geta þess að mikill meirihluti fólks er ekki á því að gefa bankaleyndina eftir. Bankaleyndin er sennilega einn af þeim þáttum sem að hefur tryggt Sviss vænjar tekjur, enda er svo komið að það er ekki hægt að þverfóta fyrir arabískum furstum ásamt öðru auðmannaliði sem fær næstum því að fóta sig að vild. Að sama skapi hefur þeim svissnesku tekist að laða að fjöldann allan af alþjóðastofnunum og samtökum sem að eru mikilvægar fyrir efnahag landsins og þá sér í lagi ferðaiðnaðinn. Skattar er almennt lágir í Sviss og t.d. er virðisaukaskattur 7.6% og algengir tollar 4% af innfluttum vörum. Verslanir eru almennt lokaðar á sunnudögum og hér er hvíldardagurinn raunverulegur hvíldardagur og fólk vakið upp með hringingum kirkjuklukkna og svissneska þjóðfánanum að morgni sunnudags.
Það vekur líka mikla athygli að þetta land leyndardómanna er í senn frjálslynt þar sem að þegnarnir geta haft áhrif á mörg mál í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur. Þær þekkja menn vel í Sviss enda eru þjóðaratkvæðagreiðslur allt að fjórum sinnum á ári ef þurfa þykir, auðvitað með misjafnri þátttöku.
Hér hafa menn lifað með eigin gjaldmiðill, innilokaðir og oft á tíðum illa þokkaðir af umheiminum vegna sérvisku og afstöðuleysis til margra mála, en þó með þúsundir manna undir vopnum og öflugan her tilbúin til þess að verja svissneska ættjörð. Hér hafa menn verið sérlundaðir á reguverkið og fært stjórnsýsluna nær fólkinu enda stjórnar hver kantóna í takt við vilja fóksins á hverjum stað öfugt miðað við mörg evrópsk ríki þar sem miðstýring er mikil. Klukkuverkið og frábært samöngukerfi heldur þessu svo öllu saman og sér til þess að menn gangi í takt!
Þessi þjóð hefur sýnt í erlendum úttektum að hún hefur það einna best þegar kemur að erlendum samanburðarmælingum?
Getur íslenska þjóðin gæti eitthvað lært af þessari ,,eyju''?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Borgarahreyfingin komin á kortið
26.4.2009 | 12:13
Það er ljóst eftir að talið hefur verið upp úr kjörkössunum að Borgarahreyfingin hefur komi sér á kortið og það er ekki rangt að segja að þeir séu hinir raunverulegu sigurvegarar kosninganna. Birtist þar kannski óánægjan með það aðgerðarleysi sem að átti sér stað í kjölfar hrunsins í sl. haust. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði miklu og það er líklegt að þeir rúmlega sex þúsund kjósendur sem að skiluðu auðu hafi verið margir sem að hafi kosið flokkkinn áður. Auðvitað geta hinir svokölluðu ,,vinstri flokkar" eins og þeir kalla sig sameiginlega núna glaðst yfir góðri útkomu. Það er þó rétt að benda á að það liggur enginn málefnasamningur fyrir og það verður fróðlegt að sjá framhaldið. Með vísan í þá óánægju sem að hefur átt sér stað í þjóðfélaginu og af virðingu fyrir búsáhaldafólkinu þá væri eðlilegt að þeir sem segjast hvað mest hafa hlustað á raddir fólksins tækju Borgarahreyfinguna með sér inn í nýtt ríkisstjórnarsamstarf. Sú krafa þarf ekki að vera óeðlileg miðað við það sem á undan er gengið of yfirlýsingar þeirra sem nú halda um stjórnartaumana um að hlusta beri á fólkið!
Kjósendur bíða núna eftir raunhæfum aðgerðum og þeir vilja sjá að skjaldborgin um heimilin virki ekki einungis í orðræðunni heldur í buddunni og velferðarkerfinu. Stóra spurningin núna er hvernig tilfærsla verður í hagkerfinu, verður fjármagn flutt úr menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, opinberri stjórnsýslu vitandi það að ríkið hefur nánast stærstan hluta vinnuaflsins starfandi undir sínum formerkjum. Hvernig ætla menn að reka kerfið og hvar verður tilfærslan innan hagkerfisins þegar að mörg fyrirtæki eru rekin með miklu tapi og skila engum sköttum, þúsundir án atvinnu sem þiggja bætur og hvatinn til athafna og fyrirtækjareksturs er lítill sem enginn? Það er ekki öfundsvert að vera stjórnmálamaður í dag enda vandamálin ærin og ég velti því fyrir mér hvort margir af þessum ágætu þingmönnum, nýkjörnir átti sig fljótt á því að lýðræðið í þinginu er ekki svo einfalt mál, það er löng vegferð sérstaklega fyrir marga reynsulitla einstaklinga sem að nú setjast á þing.
Nú bíðjum við og sjáum hvað gerist!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lýðræðið í kjörklefanum
25.4.2009 | 19:45
Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum í kvöld. Það virðist hafa hlakkað í mörgum enda hyllir í vinstri vegferð ef svo má segja. Það er kannski of snemmt að fagna eins og heyrst hefur á sumum stjórnmálamönnum. Það er ennþá langt í land og það veit engin fyrr en í stjórnarmyndurviðræður er komið hvað mun gerast og hver málefnasamningurinn verður. Það er lágmarkskurteisi í lýðræðisríki að stjórnmálaforingjar gefi ekki út yfirlýsingar fyrr en búið er að telja upp úr kössunum. Það ræðst síðan vætnanlega á málefnum hvaða stjórn verður mynduð, eða er það kannski bara óskhyggja? Eru menn kannski búnir að klára málin áður en kosningunum er lokið og heitir það að ganga óbundinn til kosninga?
Það er ljóst að margur er með væntingar, jafnt einstaklingar, fjölskyldur sem fyrirtæki. Það er ljóst að það er oft stutt á milli hláturs og gráturs og engin er tryggingin fyrir því að kjörklefalýðræðið skili því sem menn ætla. Við verðum að bíða og sjá en það er alltaf lýðræði í kjörbúðinni þar sem menn geta valið það sem þeir vilja og greitt fyrir. Lýðræðið í kjörklefanum er eitthvað annað!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Barnaborgin með Icelandair
25.4.2009 | 11:43
Fékk skemmtilegan póst frá Vildarklúbbi Icelandair þar sem mér stóð til boða að kaupa ferð á sérstöku afsláttarverði fyrir börn en sá galli er á gjöf Njarðar að upphafið á ferðinni er bundið við Ísland. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skiptið sem að þetta ágæta félag mismunar viðskiptavinum sínum sem að eru búsettir erlendis. Það hljóta að vera þúsundir Íslendinga sem eru búsettir erlendis með börn á sínu framfæri. Það er ljóst að þeim er mismunað með þessu tilboði og margir þeirra eru að auki félagar í Vildarklúbbi Icelandair. Það er líka rétt að geta þess að börnin fá svo frítt teppi og kodda í ofanálag, auk nælu og smá nestisbox sem að fylgir með fluginu. Það er alveg með ólíkindum hvernig komið er fyrir þessu fornfræga félagi og útsending á pósti sem þessum virkar hjákátlegur og móðgun við fjölda Íslendinga erlendis. Umboðsmaður neytenda ætti nú að kíkja á þetta mál enda miklir hagsmunir í húfi fyrir þá sem síst geta hönd fyrir höfuð sér borið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bubbi eða Jónas?
19.4.2009 | 22:02
Jónas Kristjánsson www.jonas.is skýtur föstum skotum að einum af ástsælustu tónlistarmönnum landsins, Bubba Morthens www.bubbi.is fyrir að hafa verið handgenginn útrásarvíkingunum og fyrir að hafa verið lélegan kapitalista. Auðvitað er Bubbi mannlegur og á rétt á að hafa sýnar stjórnmálaskoðanir rétt eins og Jónas á fullan rétt á skoðunum sínum. Í stjórnmálunum ráðast vinsældirnar hvar mönnum er skipað á lista, stundum með litlum fjölda atkvæða og þrátt fyrir að hafa verið slappir Alþingismenn þá komast menn á þing 4 árum seinna vegna kosningakerfisins.
Í tónlistarheiminum þurfa menn að selja sjálfan sig og tónlistana til þess að komast af. Bubbi hefur sýnt að hann er yfirburðartónlistarmaður enda hafa fáir íslenskir tónlistarmenn náð að selja eins vel og hann. Í heimi dagblaðanna þá gilda sömu lögmál og í tónlistinni og menn þurfa að selja vöruna og mér dettur í hug hvort að títtnefndum Jónasi færi betur að líta í eigin barm, enda tókst honum lítið að selja DV nema þá helst í réttarsölunum. Jónas er engu að síður góður penni, hvass og skýr og það sama á við Bubba hann kann tökin á tækninni. Ég er samt ekki viss hvor þeirra félaga hlyti meiri almannahylli ef kosið væri um vöru þeirra félaga í dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hefur legið ljóst fyrir
19.4.2009 | 16:29
Jæja það er merkilegt að þetta rati í fréttir að innistæður séu fyrir hendi að stórum hluta. Auðvitað hefur það legið fyrir að innistæður í íslenskum bönkum séu til staðar, en málið er hins vegar hversu mikið fæst þegar búið er að gera upp og selja eignir. Það er eins og fréttamenn gleymi því að fall íslensku bankanna snérist um lausafjárþurrð og þá staðreynd að verðmat eigna ásamt vanskilum og pólitískri íhlutun áttu þátt sinn í því að fella íslensku bankana en ekki eins og með marga aðra erlenda banka sem að fóru fram úr sér og fjárfestu og seldu verðlausa skuldabréfavafninga til fjárfesta víða um heim. Afleiðingarnar þekkja flestir í dag og það þarf ekki að koma á óvart að stór hluti innlána séu enn til staðar í íslensku bönkunum og það er ekki einstök uppfinning forsætisráðherra og Seðlabankans eins og mætti ætla af fréttaflutningi.
![]() |
Óvænt fé í íslenskum banka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hvers er utanríkisþjónustan?
19.4.2009 | 14:19
Sótti landið góða heim um páskana og náði að kjósa utan kjörfundar í Laugardalnum. Fyrir síðustu alþingiskosningar þá þurfti ég að heimsækja ræðismann Íslands í Genf og fá hann til þess að stimpla atkvæðaseðilinn og síðan þurfti ég að gjöra svo vel að senda atkvæðið til Íslands. Þessi athöfn var ekki í takt við breytta tíma og kostaði mig heilan dag frá vinnu og mikil fjárútlát. Ég velti því fyrir mér í aðdraganda kosninga að þúsundir Íslendinga eru núna erlendis og þurfa að kjósa, kostnaðurinn er mikill þar sem að koma þarf atkvæðinu til skila. Það er hreint með ólíkindum að ekki sé hægt að nota utanríkisþjónustuna til þess arna. Það er kominn tími til þess að hægt sé að bjóða fólki að kjósa yfir netið ef það uppfyllir ákveðin skilyrði til þess, t.d. býr erlendis o.fl. Ég ræddi þetta á sínum tíma við samgönguráðherra Kristján Möller, kannski meira í gríni en alvöru og sagði að stærsta samgöngubótin væri fólgin í því að hjálpa íslenskum þegnum að kjósa erlendis frá. Ekki verður greint frá samtali okkar hér enda aukaatriði í málinu. Eftir að hafa fengið kjörseðilinn í hendur í Genf og atkvæði mitt innsiglað og mér fengið aftur þá hafði ég samband við DHL sem að tók við atkvæðinu og sendi það áfram heim til Íslands, því miður háttaði málum svo að það endaði í Frakklandi og náði ekki til Íslands í tæka tíð. Ég get því með nokkru sagt að ég beri ekki ábyrgð á því stjórnarfari sem verið hefur við lýði, en fyrir þessa kosningar bætti ég um betur og kaus í eigin persónu á Íslandi. Utanríkisþjónustan er mikilvæg fyrir Íslendinga erlendis og það þarf að virkja hana með breyttum og betri hætti en verið hefur, sérstaklega eftir að framboð og verð á flugi hefur hækkað svo um munar og það verður að gera íslenskum þegnum kleyft að kjósa án þessa að þurfa blæða fyrir það!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýtt líf með nýja Kaupþingi og Iceland Express
25.3.2009 | 21:11
Jæja þá er maður komin í viðskipti við nýja Kaupþing eftir að SPRON féll. Ég hef í dag reynt að hringja nokkrum sinnum í nýja Kaupþing, en það hefur verið fátt um svör, símadaman reyndi að plögga mig við þjónustufulltrúana, en eftir að hafa beðið í símanum í drykklanga stund þ.e. heilar 6. mínútur þá ákvað ég að hringja aftur, og aftur var sama staðan uppi en að lokum fékk ég samband við sjálfvirkan símsvara og ég valdi að skilja eftir talskilaboð eftir að rödd sem að var svo hugljúf og hrein tjáði mér að það yrði hringt í mig eftir klukkustund. Hringingin kom aldrei. Kannski er þetta hið nýja Ísland, breyttir tímar frá því sem var þegar að bankar og sparisjóðir kepptust við að lána fólki. Nýju viðmiðin bera væntanlega keim af því að ríkið er lykilhlutverki og það má búast við því að þarfir viðskiptavinanna verði neðarlega í forgangsröðuninni. Það er ljóst að hugmyndafræðin með að láta Kaupþing banka gleypa öll viðskipti Sparisjóðsins kunni að valda verulegum vandræðum hjá mörgum, enda þekkir sá banki ekki viðskiptavini SPRON og það er ekki auðvelt að taka slík viðskipti yfir á einni nóttu.
Það virðist líka vera erfitt að eiga viðskipti við íslensku flugfélögin nú um stundir. Ég var búinn að kaupa mér miða með Iceland Express í fyrsta skipti á lífsleiðinni og það tveimur mánuðum fyrir brottför. Það var allt gott og blessað, eina vandamálið var að Iceland Express ákvað að breyta flugáætlun sinni hálfum mánuði fyrir brottför og flytja flugið fram um 9,5 klst. Þetta þýddi að tengiflug mitt er ónýtt og verður maður að éta það sem úti frýs eins og mér hefur verið tjáð.
Jæja þá er bara að vona að morgundagurinn verði betri en dagurinn í dag.
Bloggar | Breytt 26.3.2009 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Morgunblaðið komið til að vera!
26.2.2009 | 20:46
Það var ágætt viðtalið við Óskar Magnússon, lögmann í Kastljósi kvöldsins, en hann fer fyrir hópi fjárfesta sem hafa keypt Árvakur hf., útgáfufélag Morgunblaðsins. Ég var sammála mörgu sem að Óskar sagði og ég tel að flaggskip íslenskrar blaðaútgáfu, Morgunblaðið, hafi einatt haft vandaða umfjöllun að leiðarljósi þegar málefni líðandi stundar hafa verið krufin til mergjar. Gæði blaðsins hafa verið mikil og það er á engan hallað þó sagt sé að alþýðufróðleikurinn hafi lifað með þjóðinni í gegnum blaðið. Auðvitað munu margir deila á mig fyrir að segja þetta en þannig er þetta nú bara. Auðvitað hefur maður ekki alltaf verið sammála því sem sett hefur verið fram á síðum blaðsins, en kjarni málsins og vönduð efnistök hafa ávalt skilað sér til lesandans. Kannski er lykillinn að langlífi blaðsins einmitt fólginn í þeim sannleik að blaðið hefur þróast hægt en ákveðið, á meðan íhaldssemin hefur ráðið ríkjum í útliti og efnistökum. Morgunblaðið er svo sannarlega í heimsklassa og það fer vel á því að framtíðin sé tryggð þegar mikið ríður á að fagleg umfjöllun eigi sér stað.