Hægfara eignaupptaka

Það er eðlilegt að hinn sérstaki auðlegðarskattur sé skoðaður nánar og þá með tilliti til þeirra áhrifa sem að hann hefur á hinn almenna borgara. Margir hafa tjáð sig um málið enda hefur það komið í ljós að margir eldri borgarar fara illa út úr þessu þar sem að þeir búa margir í skuldlausum fasteignum. Það eru líka mýmörg dæmi um það að fólk hafi lágar tekjur en eigi dýrar fasteignir, eignir sem að það byggði sjálft af eigin dugnaði og af eljusemi.

Er það eðlilegt að launamaður sem að hefur hefur lagt sitt til samneyslunar í formi skatta og annara greiðslna til hins opinbera, auk þess að greiða skatta og skyldur til síns sveitarfélags þurfi að greiða enn frekari skatta vegna þess að fasteignamat eignarinnar hefur hækkað mikið í gegnum árin og hækkar þannig eignastöðuna hjá viðkomandi í skattalegu tilliti. Á sama tíma er viðkomandi kannski sestur í helgan stein og hefur einungis úr ellilífeyrinum að spila?

Sennilega kemur þessi skattur harðar niður á þeim sem búa á Reykjavíkursvæðinu enda fasteignamatið þar hærra en víðar gengur og gerist. Tveir einstaklingar búa í svipuðum húsum eiga svipað undir sér nema hvað annar einstaklingurinn býr á röngum stað í röngu húsi á röngum tíma.

Flestir byggja sína veröld á því að afla launatekna og þær eru skattlagðar í samræmi við tekjurnar sem aflað er. Í 1sta lið 72 greinar Stjórnarskrár Íslands segir að eignarétturinn sé friðhelgur. Er það svo þegar búið að skattleggja launatekjurnar einu sinni, viðkomandi launþegi búinn að kaupa vöru og þjónustu á almennum markaði eftir að hafa verið þátttakandi í efnahagshringrásinni þurfi síðan að greiða skatta af slíkri eignamyndun aftur? Er það réttlátt kerfi?

Að auki ber að geta þess að það er þegar búið að hækka tekjuskatta sem meira vit er í. Kannski væri líka raunhæfara að hækka þá fjármagstekjuskattinn meira í stað þess að vera með dulbúna skattheimtu sem kann að vera mjög ósanngjörn fyrir vissan hóp skattgreiðenda. Er ekki eðlilegra og raunhæfara að menn greiði meiri skatta af arði vegna umsýslu fjármagns í stað þess að skattleggja fasteignir þeirra sem eru hættir að vinna og skila eigendum kannski litum sem engum arði?

Það er vonandi að við endum ekki í svipuðum sporum og þegnar Vilhjálms III Englandskonungs sem að lagði skatt á hús með tilliti til þess hve margir gluggar voru á því. Auðvitað fór það svo á endanum að fólk múraði upp í gluggana og þá minnkaði skattfé ríkisins en er það ekki hundalógík?

 


mbl.is Tekjulágir skattlagðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að stjórnast af skuldum sínum eða vera stjórnað af skuldum sínum

Það var ágæt grein um ábyrga fjármálastjórn í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum síðan. Því miður verður að segjast eins og er að mörg sveitarfélög hafa offjárfest síðustu 10 -15 árin og hafa þau flest hver verið rekin með halla utan 2006 og 2007 þegar að tekjur landsmanna voru í hæstu hæðum. Því miður hafa fjármál sveitarfélaga ekki verið sjálfbær um langan tíma ef frá eru talin nokkur sveitarfélög. Það má kannski segja að hið opinbera hafi ekki stuðlað að nægjanlegu aðhaldi þegar kemur að fjármálum sveitarfélaga, sérstaklega þegar tekið er tillit til áhrifa þeirra á almenna hagstjórn. Í stað þess að sveitarfélög hafi lagst á sveif með hinu opinbera við hagstjórnina og ástundað aðhald þá hafa þau sótt sér allmikið framkvæmdafjármagn í gegnum erlend lán og stuðluðu þar með að þrýstingi á krónuna auk annarar skuldsetningar. Auðvitað geta menn svo sem sagt að sumar af þessum fjárfestingum hafi verið réttmætar en það verður líka að geta þess að fjármunir til þess að kaupa gæðin voru ekki til staðar hjá flestum sveitarfélögum.

Almenna reglan ætti að vera að menn spari og leggi til hliðar á tímum góðæris og búi sig undir framtíðina og þá sér í lagi þá sveiflur sem alþekktar eru hérlendis. Því miður var það ekki reynslan og það má segja að þetta hafi líka gilt um hinn almenna borgara að menn hafi eytt meira en þeir hafi aflað.

Í dag er svo komið að sveitarfélögin eru að hækka álögur og gjöld til þess að mæta auknum útgjöldum sínum og eru að sögn að skera niður í velflestum málaflokkum. Ég held reyndar að það sé oft seint í rassinn gripið því laun hafa lækkað og flestir tekjurstofnar hafa þar að auki minnkað að raungildi og því fyrirjsáanlegt að sársaukinn við tekjuöflun verði langvinnur.

Í Morgunblaðinu er dæmið tekið af Orkuveitu Reykjavíkur og byggingunni á glæsihýsinu sem dæmi um óraunhæfa fjármálastjórn, og það má svo sannarlega bera víðar niður eins og dæmin um Árborg, Álftanes og fleiri sveitarfélög sýnir.

Grundavallaratriðið er að þeir kjörnu fulltrúar sem að fara með stjórn á skattfé og almanna gæðum hafi vit fyrir okkur hinum. Því miður hefur það ekki verið raunin og reynslan sýnir að reikningurinn er sendur áfram í formi hækkunar á töxtum fyrir flesta þjónustu. Það er hins vegar áleitin spurning hvort að slíkt gangi til lengdar þá sér í lagi í því árferði sem nú ríkir þar sem almennur tekjusamdráttur og niðurskurður er staðreynd.

Auðvitað vilja allir sjá góða skóla og leikskóla rekna af hæfu starfsfólki, vel launuðu og vel menntuðu, sterkt velferðarnet þar sem ölduruðum og þeim sem minna megasín er tryggð sú þjónusta sem sómi er af. Spurning er hinsvegar hvort að menn séu búnir að spila rassinn úr buxunum eins og dæmin sanna.

Það er tálmynd ein að halda að ætla að rekstur og þjónustgæði muni aukast á næstu árum. Eitt gott dæmi er öryggi á vegum úti og almanna leiðum þegar veður eru válynd eins og dæmin sýna úr Reykjavík nýverið. Það eru ekki til fjármunir til þess að sinna þessari þjónustu svo sómi sé af og það er ljóst að sveitarfélög þurfa að hagræða enn frekar í sínum rekstri með niðurskurði og breyta útfærslum og skera enn frekar niður í yfirstjórn og launakostnaði. Þetta er hinn kaldi veruleiki því ekki gengur lengur að sópa syndunum undir teppið!


Þurfa atvinnustjórnmálamenn áfallahjálp?

Það er með ólíkindum hvernig sumir alþingismenn taka lýðræðrislegri niðurstöðu. Oft gleymist að stjórnmál túlka tíðarandann svona rétt eins og þegar að neyðarlögin voru sett. Auðvitað sýnist sitt hverjum en það er með ólíkindum hvernig menn geta blásið. Við þekkjum það flest að gera mistök og taka illa ígrundaðar ákvarðanir sem við síðan sjáum eftir og leiðréttum. Nú er það svo að Alþingi hefur tekið Landsdómsmálið upp að nýju og til efnislegrar meðferðar og menn verða að hafa þolinmæði til þess að kljást við það á faglegum forsendum. Það er hins vegar ljóst að þeir sem að stóðu framarlega í flokki og  rufu vinnufrið Alþingis Íslendinga og sóttu á aðrar stofnanir lýðveldisins Íslands þurfi áfallahjálp - enda málið þeim skylt. Ég skyl það vel og það séu vonbrigiði með hina nýja stöðu, að neita nýrri sýn á málin og að menn kjósi að dvelja í fortíðinni og gera hana upp með öllum ráðum.

Ég las í morgunsárið viðtal við stjórnarformann Arionbanka og er að mörgu leiti sammála því sem að frú Monica segir og dvel ekki lengur við málið. Mun fólki líða betur ef einhver fer í fangelsi, mun lífsviðurværi og afkoman batna eða mun þjóðarsálin fá friðþægingu. Stór er spurt 2012? Ættu Alþingismenn ekki að hysja upp um sig buxurnar og reyna að finna lausnir hvernig má bæta heilbrigðis- og menntakerfið og hvernig má laga stöðu þeirra sem að minna mega sín? Er ekki komið nóg af þessu kjaftæði sem dynur á okkur dag sem dimma nátt! 

Hluti úr viðtalinu við frú Monicu:

,,Íslendingar eiga að horfa fram á við - Monica telur að Íslendingum ætti að finnast mikið til þess koma hversu fljótt landið virðist vera að ná sér eftir efnahagshrunið. Hagvöxtur hér er 2-3% sem er mun hærra en hjá flestum ríkjum Evrópu. Þegar ég les greinar um Ísland í erlendum fjölmiðlum eru þær mjög jákvæðar. Þær fjalla um að landið sé að ná sér hratt eftir efnahagsáföll og á listum yfir þau lönd sem ferðamenn vilja helst heimsækja er Ísland oftar en ekki í fyrsta sæti. Efnahagur landsins, í samanburði við mörg önnur lönd í Evrópu, er mjög sterkur. Ísland hefur jafnað sig nokkuð vel og hratt. Að mínu mati væri það Íslendingum mjög hollt að dvelja ekki um of við fortíðina og einbeita sér, reynslunni ríkari, að framtíðinni og möguleikum.’’


mbl.is Ekki aukið virðingu almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keppnin um bestu ársskýrsluna!

Það er oft hollt að líta yfir farinn veg og skoða það sem á undan er gengið. Það er ekki langt síðan að stórfyrirtæki settu milljónir í ársskýrslur sínar. Ársskýrslur sem að litu vel út og höfðu að geyma hafsjó af fróðleik og gagnlegum upplýsingum. Sá tími virðist liðinn. Ég reyndi að fletta upp skýrslum eftir 2007 en hef ekki fundið. Hér að neðan eru vinningshafarnir frá 2005:

2005 Glitnir: http://www.vb.is/frett/25228/ 

2006 Bakkavör: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1163582

2007 Landsbankinn: http://www.fft.is/default2.asp?strAction=getPublication&intPublId=105

Í þá daga voru stjórnendur og leiðtogar fyrirtækjanna hetjur samtímans en í dag virðast þeir oftast vera í hlutverki skúrkanna. Svona getur lífið oft verið öfugsnúið!

 


Að velja og hafna!

Gísli er skemmtilegur karakter, hann er einn af þeim sem að gerir lífð skemmtilegra. Hann sagði sig úr Framsóknarfélagi Kópavogs ef ég man rétt, hann sagði sig úr Framsóknarflokknum og að síðustu sagði hann sig úr Löfræðingafélaginu. Gísli er líka umboðsmaður neytenda og hjá neytendum gildir sú gullna regla að þeir hafa val, a.m.k. í kjörbúðinni. Hið daglega líf er öllu snúnara eins og dæmin sanna.


mbl.is Sagði sig úr Lögfræðingafélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært hjá íslensku stelpunum

Gott hjá íslensku stelpunum að sigra í fyrsta leik sínum á HM. Það er ekki sjálfgefið að lítil þjóð eins og Ísland keppi á meðal þeirra bestu og það kostar mikla fjármuni fyrir íslensku sérsamböndin að halda úti afreksstarfinu. Það er mikilvægt að það verði vakning á Íslandi sem miðar að því að bæta starfsumhverfi sérsambandanna. Vonandi virkar þessi sigur eins og vítamínsprauta fyrir framhaldið hjá stelpunum!


mbl.is Ísland vann fyrsta leik á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Promote Iceland

Orð forsætisráðherra í hádegisfréttum RÚV segir allt sem segja þarf um stjórnarsamstarfið nú um stundir. Hvernig er það hægt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ríkisstjórnarinnar haldi öðrum ráðherrum fyrir utan alla umræðu í hinu veigamikla máli um fiskveiðistjórnunarkerfið. Forsætisráðherra sagði beinlínis að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi farið offari í málinu og það virðist sem svo að ráðherrar ríkisstjórnarinnar tali að mestu saman í gegnum fjölmiðla um þessar stundir. Fjölmiðlar spyrja hinsvegar ekki að því hvernig menn geti haldið þessari ríkisstjórn gangandi svo gagn sé af fyrir land og þjóð?

Mikil umræða hefur verið um erlenda fjárfestingu á Íslandi og sýnist þar sitt hverjum. Það virðist eins og menn horfi mjög þröngt á málin og telji að íslenskum hagsmunum sé best borgið ef land og landnýting og umgengi um auðlindirnar séu einungis í höndum innlendra aðila. Eitt af einkennum nýsköpunar er að farnar séu nýjar leiðir með innleiðingu nýrrar hugsunar, umbreyti vöru- og þjónustu eða skapi ný tækifæri með breyttri nýtingu á þeim auðlindum og þekkingu sem til staðar er.

 Eitt af megin verkefnum Íslandsstofu er að markaðssetja land og þjóð með því að skapa ný tækifæri og hvetja til nýrra fjárfestina eins og segir í fyrstu grein um: ,,The Promote Iceland Act’’ en þar segir orðrétt: ,, The objective of this Act is to strengthen Iceland’s image and reputation, enhance the competitive position of Icelandic undertakings on foreign markets and to attract foreign investment and tourists to the country.‘‘

Sjá hér að neðan:

http://www.promoteiceland.is/EN/Promote-Iceland/The-Promote-Iceland-Act/

Nú er spurning hvort að verkefnum Íslandsstofu sé ekki sjálfhætt?  Munum við heyra eitthvað frá forystumönnum Íslandsstofu í málinu og mun þeir svara því hvort að ímynd, orðspor og samkeppnisstaða landsins hafi hlotið af skaða?

Ef mig minnir rétt þá var mikil umræða á Englandi um kaup erlendra aðila á þjóðargersemunum þ.e.a.s. á knattspyrnuklúbbunum og oft spurt hvort að sú þróun hafi verið til góðs :  http://www.channel4.com/news/how-to-buy-a-fooball-club en sá stormur virðist hafa gengið niður og menn bara nokkuð sáttir með erlendu aðilana sem að starfa eftir breskum lögum og reglum í dag en stór hluti þjóðargermsemana er í eigu erlendra aðila en fótboltinn virðist samt þrífast vel og margir enskir og erlendir knattspyrnumenn eru á ofurlaunum og greiða háa skatta til samfélagsins. Hefur knattspyrnan beðið af þessu skaða? Miðað við áhorf og áhuga þá virðist svo ekki vera en neikvæð áhrif eru himinhátt miðaverð en á móti er mikil verslun og viðskipti með varning sem að tengist þessum ágæta leik. Það má horfa á málin frá mörgum hliðum og ljóst að margir vinklar eru á fjárfestingum!  


Meira gras

Það er alltaf gaman af þessari friðelskandi þjóð Svisslendingum og öfgarnar miklar að manni finnst stundum. Eftir að hafa búið í kantónunni Vaud í nokkuð langan tíma þá hefur það ekki framhjá manni farið að það er oft einkennileg lykt í loftinu á mannmörgum stöðum, t.d. í almenningsgörðum, torgum o.s.frv. Menn virðast hafa fengið að reykja kannabis án mikilla afskipta. Klagar ekki upp á mig en auðvitað eru öfgarnar sérkennilegar í þessu friðsama ríki og finnst manni að þeir mættu huga að því að hafa verslanir og vietingastaði opna á sunnudögum. Hér er sunnudagurinn hvíldardagur í eiginlegri merkingu!


mbl.is Svisslendingar mega rækta kannabis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin staða í þessu máli

Mál Gunnars verður að telja sérstakt. Stjórn Fjármálaeftirlitsins réð hann að vel athuguðu máli og kannaði meðal annars hæfi hans vegna fyrrum starfa og réð lögfræðing til þess að gefa gefa sitt álit. Niðurstaðan varð sú að Gunnar var metinn hæfur. Eftir fréttaflutning Kastljóss í vikunni hljóp snuðra á þráðinn og deila menn um hvort að nýjar upplýsingar hafi komið fram sem að gera hann vanhæfan til þess að gegna þessu starfi.

 Ef Gunnar verður metinn vanhæfur með nýjum upplýsingum geta menn þá ekki spurt hvort að stjórn Fjármálaeftirlitsins sé ekki komin í bobba? Geta menn ekki spurt þá um hæfi stjórnarinnar? Ef við höldum svo lengra áfram þá segir í lögum um Fjármálaeftirlitið 3 gr. að stofnunin heyri undir ráðherra sem að skipar 3 manna stjórn.

Maður spyr því á endanum hver er ábyrgð ráðherra í málinu? Það eru nokkrar hliðar á málum.


mbl.is „Óheft mannorðsmorð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er til betri leið?

Það er klárt mál að auðlegðarskatturinnn kemur sér illa fyrir marga og þá sér í lagi þá einstaklinga sem eru hættir að vinna og sestir í helgan stein en eiga eignir. Sennilega sitja margir eldri borgar í eignum sem þeir eiga skuldlausar og eiga utan þess einhverjar aðrar efnislegar eða óefnislegar eignir sem að taldar eru fram til skatts. Þessir einstaklingar geta lítið ávaxtað sitt pund eins og staðan er í dag og eru í raun að ganga á eignir sínar til þess að standa undir þessum sköttum. Er ekki betri leið að auka verslun og viðskipti og taka hófsama skatta í gegnum verslun og viðskipti og halda þannig efnahagshringrásinni gangandi og stuðla þannig að frekari hagvexti?

Auðvitað eru margar hliðar á þessu máli en hvaða tilgangi þjónar að hegna fólki fyrir að eignast meira en 90 milljónir, sem er svona eins og eitt gott einbýlihús í dag? Virka ekki slíkir skattar letjandi á kraft og frumkvæðni einstaklinga til lengri tíma litið? Ég velti því fyrir mér hvort að það sé verið að innleiða lögmál sem snýst um það að öllum eigi að líða jafnilla!


mbl.is Flytja til að forðast eignaupptöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband