Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Farsæld til framtíðar á Seltjarnarnesi

Farsæld 

Íbúar á Seltjarnarnesi hafa notið þess að hafa haft framsýna og sterka leiðtoga við stýrið og nægir þar að nefna einn farsælasta sveitarstjórnamann á Íslandi, Sigurgeir Sigurðsson, fyrrum bæjarstjóra og samherja hans. Auðvitað var það ekki alltaf dans á rósum að stýra litlu og metnaðarfullu bæjarfélagi. Stundum er hollt að líta til baka og skoða það sem áunnist hefur á síðustu árum og áratugum. Þetta gerðist ekki allt í gær! Það hefur tekið áratugi að byggja upp innviði samfélagsins á Seltjarnarnesi og það vita flestir sem að hafa fylgst með vexti bæjarins. Lykilatriðið er að menn hafa ekki ráðist í meira heldur en þeir hafa getað staðið undir. Á síðustu árum má kannski segja að margar krítískar ákvarðanir hafi verið teknar en þær voru samt ekki teknar að láni eins og víða og það er kjarni málsins.

Síðan 1962 hafa íbúar Seltjarnarness veitt Sjálfstæðisflokknum á Seltjarnarnesi skýrt umboð til þess að starfa í þágu íbúanna, og mér segir svo hugur að margir hafi ekki eingöngu kosið eftir flokkspólitískri línu heldur fylgt skynseminni og valið þá sem þeir hafa treyst hvað best til þess að hámarka hag bæjarbúa. Það þarf ekki annað en að horfa á alla framkvæmdirnar við skólana, leikskólana, íþróttamannvirkin og sundlaugina til þess að skilja að það hefur verið reynt að þjónusta íbúana. Það er af mörgu öðru að taka en ég læt vera að rekja það hér.

Umhverfis- og skipulagsmál

Eitt brýnasta hagsmunamál íbúanna á Seltjarnarnesi eru umhverfis- og skipulagsmál enda eru landgæðin takmarkandi þáttur. Hvað sem allri uppbyggingu líður þá mega menn ekki gleyma því að þegar að pólitíkinni sleppir þá er eitt mikilvægasta hagsmunamál íbúanna fólgið í verndun lífríkisins og bættu skipulagi á Seltjarnarnesi. Lífsgæðin eru ekki eingöngu mæld í því sem eytt er í rekstur kerfisins heldur í þeim miklu náttúrugæðum sem til staðar eru á Seltjarnarnesi og ljóst að það þarf að halda vel á málum í framtíðinni. Það þarf líka að koma lífi inn á Hrólfsskálamelinn að nýju og vinna sig út úr vandamálunum þar enda virkar það skrítið að engir séu íbúarnir þar.

Af fjárhag

Mikið hefur verið rætt um fjárhagsstöðu Seltjarnarnesbæjar undir það síðasta og þá með neikvæðum formerkjum og þar hafa framsóknarmenn á Seltjarnarnesi verið fremstir í flokki að gagnrýna. Ég get reyndar tekið undir það að ákveðin hættumerki eru í rekstrinum hjá Seltjarnarnesbæ þar sem 85% af skatttekjum fara í beinan rekstur, laun og launatengd gjöld. Þetta er auðvitað áhyggjuefni og það er ljóst að það verður að hagræða verulega og finna nauðsynlegt jafnvægi fyrir bæjarsjóð.

Það segir sig sjálft að það er ekki hægt að halda áfram á sömu braut, tekjustofnarnir leyfa það ekki og það eru engar forsendur í spilunum aðrar en að hagræða í rekstrinum. Þetta á ekki bara við um Seltjarnarnes heldur gildir þetta um flest bæjarfélög í landinu miðað við núverandi efnahagsforsendur.

Framsóknarflokkurinn á Seltjarnarnesi hefur gagnrýnt fjárhagsstjórnina á Seltjarnarnesi en þeir hafa ekki bent á neinar leiðir til þess að skera niður í rekstrinum. Það sama á við um Samfylkinguna á Seltjarnarnesi. Af hverju geta menn ekki talað hreint út og sagt að það þurfi t.d. flatan niðurskurð í rekstrinum í stað þess að segja við kjósendur að álögur verði ekki hækkaðar. Hvað þýða slíkar yfirlýsingar frá framboðum sem að koma fram á síðustu metrunum? Hafa menn ekkert lært?  Það verður ekki bæði sleppt og haldið!

Um hvað snýst málið

Spurningin er: Hverjum treystum við til þeirra verka sem framundan eru?  Ég er í engum vafa með það að Sjálfstæðismenn munu taka til hendinni og hagræða í rekstrinum. Það þarf að gerast af ábyrgð og með skilningi á rekstri bæjarins. Lykilkrafan í dag er ráðdeild og aðhald!


Eru þetta framtíðarleiðtogarnir?

Það er alltaf gaman að fylgjast með kosningum og sjá síðan hvað kemur upp úr kjörkössunum. Lýðræðið í kosningum er oft þyrnum stráð. Kjósendur fá oft aðra útkomu heldur en þeir væntu og oft á tíðum er lýðræðið annað eftir kosningar. Ég velti því fyrir mér eftir gærkvöldið hvernig framtíðin lítur út í Reykjavík og hvaða leiðtoga ég sé í fólkinu sem er að berjast um völdin. Mín greining er hér að neðan:

Besti flokkurinn - Jón Gnarr - Skemmtilegur, alþýðulegur, óvenjulegur leiðtogi sem að mun gera óvænta hluti og öðruvísi hátt en menn hafa áður gert. Það á þó eftir að koma í ljós hvort að veruleikinn verði annar þegar að menn verði komnir við stýrið.

Samfylkingin - Dagur B. Eggertsson - Dagur kemur vel fyrir og virðist ákveðinn og hefur fastar skoðanir á málum en hann virðist líða fyrir það að vera of tengdur inn í landsstjórnina. Hefur ekki náð að sameina fólk að baki sér og það háir honum.

Framsóknarflokkurinn - Einar Skúlason - Einar virðist vera jarðtengdur en hann er greinilega rangur maður á röngum tíma og í rangri borg. Hann virðist eiga erfitt með að koma skoðunum sínum á framfæri og á erfitt með að tala til fólksins á traustvekjandi hátt. Kannski að reynsluleysi  hái honum og hann vantar meiri stuðning frá forystunni.

Sjálfsstæðisflokkurinn - Hanna Birna Kristjánsdóttir - Sennilega besta sending sem að Sjálfstæðisflokkurinn gat fengið í Reykjavík. Virðist eiga gott með að hrinda hlutum í framkvæmd og kemur málunum frá sér á skýran hátt. Virðist líða fyrir ástandið í þjóðfélaginu en hún er sennilega besti kosturinn í stöðu borgarstjóra nú um stundir.

Vinstri Grænir - Sóley Tómasdóttir - Skellegg kona sem að hittir ekki í mark. Fer fram með öfgafullum málflutningi eins og það að segja að hún muni ekki starfa með ákveðnum flokkum eftir kosningar. Slíkar yfirlýsingar eru ekki leiðtoga sæmandi, sérstaklega þegar að viðkomandi hefur ítrekað að hún standi fyrir kvenfrelsi en útlokar síðan að ræða við aðra kvenleiðtoga til þess að skapa sátt um stjórn borgarinnar.

Kosningar eru tímapunktsathuganir og þar fá íbúarnir að segja sína skoðun. Ég velti því hinsvegar fyrir mér hvaðan fólkið kemur sem að sækist eftir að stjórna málefnum okkar hinna og hvað það er sem að drífur það áfram. Er það reynsla úr einhverjum rekstri, störfum í þágu hins opinbera eða hvort menn hafi hreinlega bara verið listamenn á launum og stundað kaffihúsin í henni Reykjavík? Stjórnmálin fara ekki í manngreiningarálit þegar að kemur að því að velja forystumennina, þeir eru læknar, femínistar, atvinnustjórnmálamenn, kennarar, lögfræðingar nýskriðnir úr skóla o.s.frv. Það er einhvern veginn svo að þessir ,,grand old men" hafa horfið og ný kynslóð fólks með takmarkaða reynslu hafi stigið upp.

Ég er fyrrum vesturbæingur af gamla skólanum sem að nægði að hafa hrein torg og fagra borg, og geta gengið öruggur um stræti borgarinnar. Nokkuð sem að virðist vanta núna, svo einfalt er það!

 


mbl.is VG útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr náði á forsíðu 20 minutes í Lausanne

Það er alltaf gaman að sjá þegar að landanum tekst vel upp. Margan stjórnmálamanninn dreymir um að verða frægur, jafnt heima sem í útlöndum. Kannski að Jóni Gnarr sé að takast þetta tvennt þ.e. að verða afburða stjórnmálamaður og afburða grínísti sem tekið er eftir. Jón Gnarr rataði á forsíðu blaðs í Lausanne í Sviss eins og sést hér að neðan. Það er vonandi að frægðin standi lengur en í 20 mínútur!

Jón_Gnarr

 

 

 

 


Efnahagur og velferð þjóðar

Það er að koma í ljós það sem flestir vissu fyrir þ.e. að gífurlegur samdráttur yrði í einkaneyslu landsmanna eftir þær auknu álögur sem að lagðar hafa verið á fyrirtæki og fjölskyldur þessa lands. Það þarf ekki að koma á óvart, en þær tölur sem birtar hafa verið segja manni að um ,,efnahagslegt svartnætti" sé að ræða. Til dæmis hefur samdráttur í sölu á húsgögnum mælst allt að 60% og nærri því helmings samdráttur í sölu á raftækjum og það þarf ekki að tala um endurnýjum bíla o.s.frv. Það getur hver maður skilið að það þarf að reka hið opinbera og afla fjár til þess að standa undir samneyslunni. Ég verð að segja að ég skil ekki fjármálaráðherra að hreykja sér af því að hafa náð í fleiri krónur með skattahækkunum, þegar eftir stendur að sennilega er um mesta samdrátt að ræða á lýðveldistímum. Kannski fer ég rangt með en þá leiðréttir einhver góður maður það.

Við erum einungis að ræða um skammtímaáhrifin og þau segja ekki nema takmarkaða sögu. Hvað gerist þegar að samdrátturinn verður langvarandi og umsvifin í hagkerfinu halda áfram að minnka og tekjustofnar hins opinbera hrynja, á þá að róa á sömu mið? Er ekki verið að skapa efnahagsástand sem að dregur máttinn og viljann úr fyrirtækjum og fjárfestum til þess að standa í atvinnustarfssemi, og vissir aðilar telja jafnvel betra að hætta rekstri þar sem að tekjurnar fara að stærstum hluta í fastan kostnað.

Efnahagsstjórnin í núverandi árferði þyrfti að snúast um að lækka skatta og skapa ríkinu langtíma tekjustofna. Sá bóndi sem að hlúir ekki að bústofni sínum missir fljótt þann ávinning sem að skepnurnar gefa. Er það ekki einmitt sem er að gerast núna í íslensku samfélagi? Er þetta sú velferð og fyrirhyggja sem við viljum á Íslandi framtíðarinnar?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband