Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
Af kjöri til framkvæmdastjórnar Alþjóða Ólympíunefndarinnar
30.8.2008 | 11:36
Það hefur verið í mörgu að snúast hjá Alþjóða Ólympíunefndinni (IOC) á meðan á Ólympíuleikarnir í Peking fóru fram. Kjör til framkvæmdastjórnar hefur ekki hlotið mikla umfjöllun en það er rétt að geta þess að Bretar fengur ekki sinn mann kjörinn í framkvæmdastjórnina, Sir Craig Reddie, þrátt fyrir að hann hafi verið að reyna í annað skiptið að komast inn. Bretar hafa ekki átt fulltrúa í framkvæmdastjórninni í meira en hálfa öld, og það verður líka að teljast mjög sérstakt þar sem að næstu leikar fara fram í London 2012. Það er ljóst að þetta mun verða atriði sem að Bretar mun taka á í framhaldinu, enda einstök staða komin upp þar sem að enginn fulltrúi er frá framkvæmdaaðilum í æðstu stjórn Alþjóða Ólympíunefndarinnar, en það hafa verið óskrifuð lög að svo hafi verið. Ein kona var kjörin í framkvæmdastjórnina Nawal El Moutawakel frá Marokkó fyrrum gullverðlaunahafi frá Los Angeles leikunum 1984 en hún var jafnframt fyrst arabískra kvenna til þeirra afreka. Í dag er hún eina konan í selskap með 15 körlum. Þessi staða og mismunur á milli kynjanna eru náttúrulega neikvæð skilaboð og það er ljóst að Alþjóða Ólympíunefndin verður að taka á þessu, en erfiðleikarnir liggja náttúrulega í menningu og arfleið marga aðildarríkjanna þar sem að konur eiga erfitt með að starfa á opinberum vettvangi. Það má með sanni segja að Alþjóða Ólympíunefndin hafi fullnægt algjörum lágmörkum með þessari aðgerð og skilboðin út á við eru ekki jákvæð.
Þessir voru kjörnir í framkvæmdastjórnina í Peking og sitja næstu 4 árin:
Forseti IOC: Jacques Rogge, Belgíu (2001)
Varaforsetar: Lambis Nikolao, Grikklandi (2005)
Chiharu Igaya, Japan (2005)
Thomas Bach, Þýskalandi (2006)
Zaiquing Yu, Kína (2008)
Meðlimir: Gerhard Heiberg, Noregi (2007)
Denis Oswald, Sviss (2008)
Mario Vazquez Rana, Mexíkó (2008)
Rene Fasel, Sviss (2008)
Richard L. Carrion, Puerto Rico (2008)
Ser Mian NG, Singapúr (2005)
Mario Pescante, Ítalíu (2006)
Sam Ramsamy, S-Afríku (2006)
Nawal EL Moutawakel, Marokkó (2008)Frank Fredericks, Namibíu, (2008)
Íþróttir | Breytt 3.9.2008 kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það ku vera kyrrlátt í Kína þar keisarans hallir skína
29.8.2008 | 20:08
Það hefur verið merkilegt að fylgjast með fréttunum á vettvangi íslenskra þjóðmála og þá sér í lagi umræðunni um íslenska handboltalandsliðið. Ég bara hélt að það væri ekki hægt að sjá svona marga vinkla á henni. Ég sá sjónvarpsstöðina SF 2 í Sviss sýna frá heimkomu svissneska júdómannsins sem komst á verðlaunpall. Hans heimkoma var hógvær og það voru þó teknar myndir og allt var nú lágstemmdum nótum svona eins og háttur þeirra er hér í fjallaríkinu. Ég held samt að sú móttökuathöfn sem að fram fór fyrir íslenska handboltalandsliðið hafi gert þjóðarsálinni gott til, og þjóð í greiðsluerfiðleikum og með fallandi gengi hefur gott af slíkum sýningum.
Það hefur margur spekingur kvatt sér hljóðs og menn hafa kvartað og kveinað yfir því að ráðherra íþróttamála hafi farið yfir hafið og stutt við bakið á sínu fólki þar sem kostaðurinn var ógurlegur eða 16,67 krónur á mann sem að umreiknast í 5 milljónir. Sennilega hefði ráðherrann fengið far með Jóni Ásgeiri eða Björgólfi ef flug einkaþotna hefði verið leyft. Það er rétt að greina að félagi minn frá Portúgal sem að átti erindi til Peking eins og margir aðrir fyrirmenn þurfti að reiða fram 8000 bandaríkjadali til þess að láta uppfæra miða sinn á betra farrýmið og ekki orð um það meir. Alveg merkilegt hvað allt er dýrt í Kína.
Það versta af öllu er að samkeppniseftirlitið hefur misst af glæpnum og ætti hiklaust að grípa inn í málin þar sem ríkisstyrkir eru afurð liðanna tíma enda skekkja þeir samkeppnisstöðuna á milli íþróttagreina. Merkilegast eru þó þessi ummæli: Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að fá íþróttafélög hafi efni á því að bjóða borgarfulltrúum og embættismönnum í boð og veislur. ,,Það eru nokkur félög sem hafa efni á að halda slík boð og með því eru þau að kaupa sér ákveðna velvild." Er ekki rétt að varaborgarfulltrúinn birti þennan lista yfir þessi íþróttafélög enda alvarlegt mál ef um eina allsherjarspillingu er að ræða?
Það er eins og ein allsherjar maskína neikvæðni og öfundar hafi farið í gang og kannski verður ekki langt að bíða að Iceland Express kvarti yfir því að Icelandair hafi fengið að fljúga með silfurdrengina heim og að auki hafi þeir fengið milljóna auglýsingar út á lágflugið yfir Reykjavík og allt í beinni útsendingu á kostnað okkar hinna.
Eigum við að ræða þetta eitthvað frekar......Bloggar | Breytt 30.8.2008 kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af silfrinum skulum við þekkja þá
27.8.2008 | 20:34
Það var ánægjulegt að sjá íslenska handboltalandsliðið standa á verðlaunpallinum í Peking, og þrátt fyrir gullið hafi ekki skilað sér þá verða menn að vera ánægðir og raunsæir. Það var einhver tilfinning sem að sagði mér að það yrði að á brattann að sækja hjá landum í sjálfum úrslitaleiknum enda liðið búið að leika hreint frábærlega framan af. Frábær liðsheild og markvisst starf hafa greinilega skilað sínu. Á vellinum snýst þetta ekki um stærð þjóðanna sem í hlut eiga heldur fjölda leikmanna inn á vellinum.
Það var greinilegt að stíft leikjaprógramm og sennilega spennufallið eftir leikinn við Spán tók sinn toll. Árangurinn er samt einstakur og það má segja að framganga íslensku landsliðsmannanna hafi komið handboltanum í umræðuna, sérstaklega þar sem greinin er tiltölulega óþekkt í mörgum löndum, en það að New York Times fjalli um hið íslenska öskubuskuævintýri eru stórmerkilegar og jákvæð fyrir íþróttina í heild. Því miður hefðu fleiri ævintýri mátt líta dagsins ljós en það varð ekki raunin þar sem að stórþjóðirnar einokuðu verðlaunpallana. Sem starfsmaður hjá stærsta heimsíþróttasambandinu FIVB (Alþjóðablaksambandinu) með 220 aðildarsambönd innan sinna vébanda þá er rétt að greina frá því að fjölmargir vinir og félagar víða að heiminum hafa hringt til þess að óska mér til hamingju með íslenska handboltalandsliðið þó svo að ég hafi ekkert með það að gera og starfi að allt annarri íþrótt.
Það sýnir svo ekki verður um villst að menn hafa tekið eftir íslenska kraftaverkinu og er það vel. Handbolta landsliðið á það svo sannarlega skilið. Því fer samt fjarri að íslenskar afreksíþróttir standi undir nafni þegar að samanburðinum kemur við þær þjóðir sem að við viljum etja kappi við. Eftir að hafa starfað að íþróttamálum í langan tíma, jafnt á vegum sérsambands sem alþjóðasérsambands þá segir reynslan mér að starfsumhverfi sérsambandanna á Íslandi gæti verið mun betra en það er þeim þrautin þyngri að halda úti landsliðs og afrekstarfi þá sér í lagi í hópíþróttunum. Fjármagn eitt og sér gerir ekki allt þar sem að fagteymi, fastráðnir þjálfarar og virk framtíðarsýn þar sem að afrekshópar eru myndaðir með það fyrir augum að taka þátt í stórmótum 2010, 2012, 2014 og 2016 þurfa að vera í myndinni.
Það má heldur ekki gleyma stuðningi við íþróttamennina og þá sem að eiga að stýra skútunni. Það kerfi sem byggir á því að menn séu allt í einu, þ.e. stjórnarmenn, formenn, fjáröflunarmenn, sjálboðaliðar og framkvæmdaaðilar eru varahugavert. Auðvitað eru slík dæmi enn við lýði og ganga stundum upp en til langframa mun það ekki virka heldur leiða til þess að menn brenna út og hætta sjálfboðastarfinu og við það skerðist getan til afreka til mikilla muna. Sjálfboðaliðar eru og verða samt áfram mikilvægir í starfi frjálsra íþróttasamtaka eins og sérsamböndin eru en það þarf skilyrðislaust að búa til betri starfsskilyrði svo starfskraftar sjálboðaliðanna nýtist betur.
Í dag snúast hlutirnir um að starfið sé faglegt og það sé rekið af ábyrgð og festu. Krafan á hendur sérsamböndunum um að þau ali ekki bara upp afreksmennina, kosti útgerð þeirra, greiði jafnt þjálfunarkostnað, vinnutap, auk laun fagstarfsmanna og lykilstjórnenda sýnir svo ekki verður um villst að skyldurnar eru miklar og í raun mun meiri en raunveruleg geta oft á tíðum. Í raun er ekki hægt að reka afreksstarfið nema að stofna til mikilla fjárútláta á meðan á undirbúningstímanum stendur og oftast nær er boltanum velt áfram. Margur kann að segja menn verði að sníða stakk eftir vexti en það er nú sennilega raunveruleikinn hjá flestum sérsamböndunum sem starfa ekki á fullum afköstum í slíku umhverfi og geta þar af leiðandi ekki stutt nægjanlega við bakið á afreksfólki sínu eða getan til þess að halda úti afreksstarfi af einhverju viti er ekki til staðar.
Á meðan milljarða fjárfestingar hafa verið í íþróttamannvirkjum og mikill vöxtur í starfi sértækra samtaka sem að starfa eingöngu í héraði þá hefur afreksstefnan sjálf setið á hakanum. Til að mynda er staðan orðin þannig í sumum greinum að íþróttamennirnir eru að koma fram í eigin nafni til þess að afla fjár og þannig verður afreksstefnan fjarræn. Mörg sérsambönd eru í tilvistarkreppu og eiga ekki eingöngu í erfiðleikum með að reka starf sitt á landsvísu heldur eru þau líka í samkeppni við önnur innlend íþróttasamtök um fjármuni og bætta aðstöðu auk annarar fyrirgreiðslu. Það versta af öllu er þó þegar einkaaðilar, bæjar- og sveitarfélög eru farinn að reka eigin íþrótta- og utanríkispólitík án samráðs og samvinnu við sérsamböndin. Án efa kann ástandið að vera misjafnt á milli greina.
Við gleðjumst samt öll þegar vel gengur en gleymum oft því að mörg handtök liggja að baki árangri í þágu þjóðar. Árangur handboltalandsliðsins sýnir að að það er kominn tími til þess að sérsamböndin verði gerð að sterkari einingum, og hver getur ekki tekið undir það eftir að hafa séð þá landkynningu sem að streymt hefur frá erlendu fjölmiðlunum síðustu daga. Íþróttir eru ekki bara menning, heldur stórfelld landkynning, þar sem ný tengsl og ný tækifæri eru mynduð á milli einstaklinga og þjóða. Þar eru íþróttamennirnir í lykilhlutverki og það gleymist oft.
Íþróttir | Breytt 3.9.2008 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af lýðræðinu í kjörbúðinni
16.8.2008 | 18:30
Lýðræðið í kjörbúðinni er allt annað en í stjórnmálunum. Í stjórnmálunum ganga kjósendur að kjörborðinu og velja sér menn og málefni en það er samt engin trygging fyrir því að niðurstaða kosninga skili því sem upp úr kössunum kom. Sigurvegarar kosninga fara oft með skarðan hlut frá borði eins og þekkt er. Í kjörbúðinni geta menn valið úr hillunum þær vörutegundir sem að mönnum geðjast að og líkar við. Þar spila inn í þættir eins og verð, gæði og smekkur neytenda. Í pólitíkinni geta menn valið flokka, fólk og áherslur. Það er eins og menn gleymi þessu þegar þeir fjalla um vandræðaganginn í henni Reykjavík. Það er nefninlega svo lýðræðið í kjörbúðinni er annað og meira en það sem skilar sér upp úr kjörkössunum og kjósendur og fjölmiðlar geta hamrað járnin ótt og títt, en það gildir einu því í stjórnmálunum berjast menn fyrir líðandi stund og ef menn geta komist í þá stöðu að þeir verði verðmætari í dag en í gær þá grípa þeir gæsina þó stundum sé fiðrið fitugt eftir mikið volk um víðlendur tjarnarinnar. Það er svo gaman að sjá kjörna fulltrúa taka þátt í fjölmiðlafansinum og kasta steinum úr glerhúsinu á andstæðingana og telja þeim flest til foráttu og fjölmiðlafólkið sumt hefði mátt vera aðgangsharðara í að spyrja þessu sömu pólitíkusa afgerandi spurninga um þeirra eigin framgöngu á kjörtímabilinu. Það verður að segja Staksteinum Morgunlaðsins til hróss að þar var allavega gagnrýnin hugsun á ferðinni og er það vel. Ef menn geta ekki starfað saman þá er ljóst að menn verða að stokka upp spilin og gefa annan umgang það er einmitt einkenni stjórnmálanna og það er engin trygging fyrir einu eða neinu þó svo að menn myndi samstarfsstjórn eða einn flokkur fari með völdin það getur nefninlega kastast í kekki og þá verða kjörnir fulltrúar að standa sig í stykkinu eins og lög gera ráð fyrir en hvað veit ég kannski er ekkert lýðræði í kjörbúðinni lengur.
Bloggar | Breytt 31.8.2008 kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)