Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Er hamingjan á Fríkirkjuvegi 11?
26.4.2008 | 11:47
Það er merkilegt hvað margir hafa tjáð sig um Fríkirkjuveg 11 og kaup félags Björgólfs Thors Björgólfssonar á þessu gamla og reisulega ættaróðali. Ég man vel þá tíð er ég tölti mína leið í Verslunarskólann upp á Grundarstíg en þá stytti ég mér oft leiðina í gegnum garðinn og velti því fyrir mér hvort einhver byggi í þessu gamla húsi. Ég held að þetta sé gott mál að þessi eign sé loksins kominn í hendur á aðila sem mun gera veglegar endurbætur á húsinu. Mér hefur hins vegar alltaf fundist þessi garður illa nýttur og húsið hálf viðhaldslítið eins og það birtist mér í þau skipti sem ég átti þar erindi til ÍTR. Þessi frægi garður hefur lengst af verið illa nýttur og það var ekki fyrr en menn fóru að vekja athygli á honum í fjölmiðlum að hann varð einskonar tákn um frelsisbaráttu og það vonleysi sem að borgarfulltrúar í Reykjavík hafa sýnt í málefnum miðbæjarins, uppbyggingu Laugavegarins svo ekki megi gleyma viðhaldi og umhirðu á mörgum húsum í bænum. Slíkir fulltrúar fólksins þurfa sko ekki að segja mér barnfæddum Reykvíkingum hvað er gott og hvað er slæmt. Ég er ekki í vafa um það að sá aðili sem að nú á húsið mun viðhalda eigninni með sóma fyrir Reykvíkinga og gera húsið að skemmtilegum viðkomustað í framtíðinni. Það hefur verið átakanlegt að heyra svo viðtöl við borgarfulltrúa í Reykjavík um söluna og alla vankantana á henni en þeir hafa ekki komið með neinar framtíðarhugmyndir um nýtingu á henni svo vit væri í. Kannski hamingjan hafi loksins tekið völdin á Fríkirkjuvegi 11?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vér mótmælum allir
23.4.2008 | 21:00
Það var með ólíkindum að horfa á mótmæli bílstjóra flutningabíla og sjá átök þeirra við lögregluna í sjónvarpinu. Það er ljóst að þau átök sem að urðu í dag eru kannski upphafið að nýjum tímum og ljóst að þjóðfélagið er ekki það sama eftir svona atburð. Grundvallaratriðið er samt að menn verða að virða landslög og það er hlutverk lögreglu að tryggja almannaheill. Það er ljóst að þær aðgerðir bílstjóranna að loka aðal samgönguæðunum í Reykjavík eru til þess fallnar að raska almennu öryggi borgaranna. Mér er til efs að slík mótmæli væru látin óátalin annarsstaðar í Evrópu. Það sem brennur á mér er hinsvegar sú staðreynd að við búum í breyttu þjóðfélagi þar sem aukin harka og almennt skeytingarleysi virðist vera ríkjandi. Virðing fyrir lögum og reglum hefur því miður verið á undanhaldi og það líður ekki sá dagur orðið að ekki séu kveðnir upp dómar vegna hinna ýmsu glæpa. Þessr atburðir í dag færðu okkur rétta mynd af þeim ólíku aðstæðum sem skapast getur vegna tiltölulega fámenns hóps sem að getur hreinlega haldið stórum hluta lögreglunnar í herkví með því að skapa sérstakar aðstæður sem að hleypa öllu í bál og brand. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að það þarf að efla löggæsluúrræði og styrkja almennu lögregluna sem og sérsveitina til þess að takast á við nýja tegund af löggæslu sem mótast af því að tryggja almanna hagsmuni með afgerandi hætti. Það er eins og sumir stjórnmálamenn trúi því ennþá að Ísland sé land þar sem að engin hætta á átökum séu til staðar. Slík hugsun er hreinlega skaðleg og léttvæg þegar staðreyndirnar sýna annað. Það er líka sorglegt að sjá að menn kjósa að hverfa frá orðræðunni til aðgerða sem eru beinlínis andsnúnar hagsmunum þorra borgaranna. Sú gagnrýni sem hefur verið sett fram um framgöngu lögreglunnar mótast kannski af því að menn eru ekki vanir því að sjá lögregluna beita sérsveitinni í návígi en nú vita menn að hún er til og það gefur líka ákveðin skilaboð. Annars er bara að vona að menn sjái að sér og reyni að leysa málin með heilbrigðri umræðu í stað aðgerða sem verða ekki aftur teknar og gildir þá einu hvort um er að ræða lögreglu eða bílstjórana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dalai Lama tekur af allan vafa
12.4.2008 | 12:22
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni um að sniðganga Ólympíuleikana í Peking í sumar. Hvað sem þeirri umræðu líður þá heldur Alþjóða Ólympíunefndin og Alþjóðasérsamböndin áfram fullum undirbúningi að framkvæmd leikanna enda er ekki gert ráð fyrir því að stjórnmál og pólitík taki af skarið með framkvæmdina. Það er því heldur hjákátlegt að heyra viðtöl við ráðamenn víðsvegar um heiminn um að sniðganga Ólympíuleikana þegar svo Dalai Lama stígur sjálfur fram á stokk og segir að menn eigi ekki að sniðganga Ólympíleikana. Það er eins og menn gleymi að íþróttastarfið er rekið áfram af frjálsum hagsmunum þar sem öllum pólitískum og trúarlegum afskiptum er hafnað. Það er hins vegar allt annað mál hvort að einstakur ráðherra eða forystumaður í ríkisstjórn ákveður að vera eða vera ekki við setningarathöfn leikanna enda er setningarathöfnin ekki liður í sjálfri íþróttakeppninni. Það er ljóst að ef menn byrja á því að sniðganga Ólympíuleika hvar setja menn mörkin næst. Hætta forystumenn ríkisstjórna að mæta á einstaka viðburði á stórmótum eins og knattspyrnu, frjálsum o.s.frv. vegna stjórnmálaskoðanna eða utanaðkomandi þrýstings alþjóðasamfélagsins.
Ég velti því fyrir mér hvort að slík skilaboð séu þau réttu og hvort að það væri ekki nær að menn settust að samningaborðinu til þess að ná hagfelldri lausn. Ég verð samt að viðurkenna að það er erfitt að vera ráðherra í dag og þurfa að treysta á aðra ráðherra í öðrum löndum hvað þeir muni gera eins og mér skildist á Menntamálaráðherra í viðtali í sjónvarpi á dögunum. Í frjálsu og fullvalda ríki eiga íslenskir hagsmunir af mótast af íslenskum skoðunum fyrst og fremst nema hvað! Það dylst hins vegar engum að Ólympíuhugsjónin og Ólympíuleikarnir hafa beðið hnekki eftir alla þá neiðkvæðu umræðu sem hafa verið til staðar í heimsfjölmiðlunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að sniðganga Ólympíuleikana
5.4.2008 | 13:08
Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með umræðunni um að sniðganga Ólympíuleikana i Peking 2008. Frá sjónarhóli Alþjóðasérsambandanna, Alþjóðaólympíunefndarinnar, Ólympíunefnda, sérsambanda og íþróttamanna þá snúast Ólympíuleikarnir um að efla þau heit er íþróttir standa fyrir. Því miður eru þau heit ekki af pólitískum toga því að kjarninn í Ólympíusáttmálanum er sá að íþróttasamtök hafna öllum pólitískum og trúarlegum afskiptum enda ljóst að ef pólitísk viðmið ættu að ráða ferðinni þá væri alþjóðleg mót og alþjóðleg íþróttasamvinna fyrir bí þar sem að sífelld afskipti yrðu höfð. Það er líka ljóst að gildi íþróttanna standa fyrir samvinnu og að brjóta niður hvers konar múra er hefta mannlega reisn. Ef Ólympíuleikar eiga að taka mið af pólitískum afskiptum þá er ljóst að íþróttastarfið mun bíða skipbrot. Flestir þeir sem starfa að íþróttum skilja hagsmuni Tíbets og íbúa landsins en aðrar leiðir verður að fara en að beita pólitískum afskiptum af frjálsri íþróttastarfssemi. Margur kann hins vegar að benda á að mörkin séu oft á tíðum óljós og get ég svo sem tekið undir það eftir að hafa heimsótt ríki í Asíu þar sem að hið opinbera skilur stundum eftir fingraförin á starfinu. Slík afskipti eru ekki til fyrirmyndar en þegar að hið opinbera kostar starfið þá er oft erfitt að gagnrýna. Það má heldur ekki vanmeta þau jákvæðu gildi sem að Ólympíuleikarnir standa fyrir og sérstaklega þegar þeim er varpað yfir heimsbyggðina alla í gegnum frjálsa fjölmiðlun. Eru menn tilbúnir að setja slíka hagsmuni til hliðar? Það er auðvelt að koma fram og segja við styðjum Tíbet og við erum á móti ÓL í Peking, en hvað svo?
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýr lyfjasáttmáli á leiðinni
1.4.2008 | 21:17
Það var sannur vorþeyr í loftinu í Lausanne í dag þegar að horft var yfir Ouchy eða Lac Leman eins og heimamenn kalla vatnið sitt. Þegar horft var yfir vatnið frá Ólympíusafninu þá var einstök ró og friður yfir öllu og engir bílstjórar að mótmæla eins og Austurvelli. Annars var efnið að greina frá ráðstefnu Alþjóða Lyfjareftirlitsstofnunarinnar (WADA) í Lausanne í dag en þar var verið að kynna drög að nýja alþjóðlega lyfjasáttmálanum sem að verður tekinn í gagnið 1. janúar 2009. Margar breytingar hafa verið gerðar frá því að síðasta alheimsráðstefnan fór fram í Madrid í nóvember sl. en þar náðist ekki að klára endanlega útgáfu eftir að mörg alþjóðleg flokkaíþróttasambönd eins of FIFA, FIVB, FIBA og fleiri gerðu margar athugasemdir við fyrirliggjandi drög, sérstaklega hvað varðaði túlkun sáttmálans á hagsmunum og séreinkennum flokkaíþróttanna, en margir hafa gagnrýnt að sáttmálinn taki of mikið mið af einstaklingsíþróttunum svo sem frjálsum, sundi o.s.frv. Ekki verður farið í smáatriðin hér en það er ljóst að vinnubrögðin og samvinnan hefur verið mun nánari en við gerð núverandi sáttmála sem að var staðfestur í Kaupmannahöfn 2003. Auðvitað hafa menn áttað sig á þeim agnúum sem hafa verið til staðar eins og títt er um nýjar reglur í þessum viðkvæma málaflokki. Því fer fjarri að menn séu sammála um alla hluti en það er ljóst að nýr iðnaður hefur orðið til þar sem að upp hafa risið sérhæfðar rannsóknastofur og ráðgjafar sem að selja ráðgjöf og ýmsa þjónustu tengda lyfjaeftirliti. Það er líka búið að setja í nýja sáttmálann að engin þjóð fær að skipuleggja heimsíþróttaviðburði þ.e. ef viðkomandi land hefur ekki gerst aðili að UNESCO samþykktinni. Það vekur athygli að mörg ríki höfðu uppi stór orð í baráttunni gegn notkun ólöglegra lyfja í íþróttum í Madrid hafa ekki enn samþykkt UNESCO ályktunina. Það verður fróðlegt að fygljast með framhaldinu og sjá hvort að þeim ríkjum fjölgi sem að muni samþykkja ályktunina enda ljóst að þau ríki sem að skrifa ekki undir þessa samþykkt fá ekki að halda opinber stórmót . Í dag hafa einungis 85 ríki skrifað undir þessa samþykkt og ljóst að mikið þarf að gerast í þessum málum á næstunni ef vissar þjóðir ætla sér að fá að skipuleggja stórmót eftir 2010. Rétt er að geta þess að Ísland er eitt af þeim ríkjum sem að hefur samþykkt UNESCO ályktunina annars má sjá hérna: http://www.wada-ama.org/en/dynamic.ch2?pageCategory.id=484
Íþróttir | Breytt 5.4.2008 kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)