Skák og mát
30.5.2009 | 22:53
Það er nokkuð sérstakt að lesa ummæli formanns viðskiptanefndar Alþingis á Vísi.is þar sem að hann segir að við séum með ónýtan gjaldmiðil og það sé verið að leiðrétta ákveðið misræmi sem að hafi verið komið upp á milli bensíns og díselolíu, og því hafi orðið að hækka bensín- og olíugjald. Síðar í sama viðtali klikkir hann út með því, að segja að það hafi verið nauðsynlegt að hækka þessi gjöld til þess að auka ekki frekar á þann vanda sem að Íslendingar standa frammi fyrir.
Hvað á maðurinn við með því að segja að það hafi verið nauðsynlegt að hækka gjöld til þess að auka ekki á vandann? Veit þingmaðurinn ekki að þúsundir fjölskyldna standa núna frammi fyrir afarkostum og allar hækkanir á bensín og olíuvörum hafa stórkostleg áhrif á útgjöld heimilanna auk þess sem að vísitala neysluverðs fer ekki varhluta af aðgerðinni enda áhrifin þekkt þar sem að höfuðstóll fasteignalána hækkar umtalsvert. Þessi aðgerð hefur einnig umtalsverð áhrif á keypt aðföng fyrirtækja sem að mörg hver neyðast til að hækka verð á vöru sinni og þjónustu. Dagar víns og rósa eru liðnir hjá núverandi ríkisstjórn og það er ljóst að gengið mun fram af hörku við að hækka skatta og aðrar álögur enda virðast menn ekki hafa önnur úrræði. Í aðstæðum sem nú ríkja þá vekur athygli að ekki hafi verið lækkaðir tollar og innflutningsgjöld á bifreiðum til þess að hjálpa bílgreininni sem er núna nánast sjálfdauð enda lítið um innflutning á bifreiðum, landbúnaðarvélum og skyldum tækjum.
Ef efnahagsaðgerðir ríkisstjórnar Íslands miðast við það að hækka álögur og gjöld, í stað þess að koma með aðgerðir sem eru til þess fallnar að hjálpa fyrirtækjum til þess að halda úti atvinnustarfssemi þá er illa komið. Ríkisstjórn þessa lands verður að skilja að fjölskyldum og fyrirtækjum blæðir út og það þarf aðgerðir sem örva neyslu, auka atvinnuþátttöku og styrkja innviði samfélagsins. Þegar hefur dregið stórlega úr neyslu og fjárfestingum, jafnt almennings sem fyrirtækja og því verða ummæli formanns Viðskiptanefndar að teljast úr tengslum við raunveruleikann. Alþingisgarðurinn kann að vera að grænka núna og þar er sumarið komið í allri sinni dýrð en það þarf ekki að fara langt til þess að sjá sárin í grassverðinum á Austurvelli. Hvar er Hörður Torfa og fólkið sem að mótmælti í vetur? Á að bíða þar til við erum skák og mát? Að auki er rétt að benda á, að það er þingmanninum til vansa að tala niður til íslensku krónunnar og þess sem íslenskt er.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.6.2009 kl. 23:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.