Að vera haldinn fullkomnunaráráttu

Afleiðing fjármálakreppunnar kemur fram í ýmsu, jafnvel þeir sem voru í skilum lentu í vanskilum. Eftir að bankinn minn SPRON féll þá mætti mér óvæntur vandi, þ.e. að byrja öll bankaviðskiptin upp á nýtt með nýjum aðilum. Það settist enginn kvíði að mér við að takast á við það verkefni en það tók langan tíma að koma einföldum hlutum í lag. Eftir að hafa fengið yfirlit yfir úttektir af reikningi mínum nýverið þá rak mig í rogastanz þegar að Síminn tók 450 kr. út af reikningi mínum vegna vanskila. Sökin var ekki mín en yfirgangurinn og frekjan eru mikil hjá Símanum, sama fyrirtæki og auglýsir að ég geti valið mér 6 vini, og ég sem hélt að Síminn væri einn af mínum helstu vinum enda hef ég verið í viðskiptum með farsímann hjá þeim frá þeim degi er Halldór Blöndal fyrrverandi Samgönguráðherra hleypti GSM kerfinu af stokkunum með mikilli viðhöfn og ætli vísa hafi ekki flotið með af því tilefni. Þrátt fyrir gylliboð hinna símafyrirtækjanna þá hef ég verið eins og húsbóndahollur hundur og ekki yfirgefið húsbóndann.

Namskeid vid Kvida

Eftir að hafa skýrt mál mín út fyrir Símanum og farið góðfúslega fram á að fá þessar 450 kr. endurgreiddar þá hafa engar efndir orðið, enda eru vanskil bara vanskil og það skiptir engu hvernig þau áttu sér stað. Það er samt hart að þurfa að sæta álagi vegna vanda í greiðslukerfinu, vanda sem að maður á enga sök á. Það er ljóst að Síminn hefur ekki eingöngu haft 450 kr. af mér heldur eru þar hundruð eða þúsundir viðskiptavina gamla SPRON í sömu sporum ef þeir hafa látið millifæra sjálfkrafa af reikningum sínum.Slíkt innheimtulag ber ekki vott um almenna skynsemi og þjónustulund heldur yfirgang! Já ég verð að segja og skil að það séu auglýst námskeið sem gera út á kvíða, sérstaklega í þjóðfélagi þar sem skilningur á núverandi ástandi virðist vera takmarkaður hjá lykilfyrirtækjum eins og Símanum.

Kannski glími ég við fullkomnunaráráttu og margir sem þekkja mig myndu án efa taka undir það þegar að ég ætla að reyna að ná 450 kallinum til baka. Það verður aldrei neinn efnahagsávinningur af því fyrir mig enda mun ég leggja meira út til þess að ná rétti mínum til baka. Málið er hins vegar hluti af fullkomnunaráráttu minni og þeirri vegferð við að reyna að standa í skilum og liður í baráttu neytenda við ofríki stórfyrirtækja og virðingu þeirra fyrir neytendum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband