Austurvöllur eða Aðgerðarvöllur
20.1.2009 | 22:09
Það hefur verið sérstakt að fylgjast með atburðum dagsins á Austurvelli og án efa eru margar skoðanir á málum, allt frá framgöngu lögeglunnar til aðgerða mótmælenda sem hafa tekið sér stöðu fyrir utan Alþingishúsið. Eftir að hafa fylgst með viðtölunum í sjónvarpi þá er ljóst að það djúp gjá á milli aðila, þeirra sem segjast vera raddir fólksins og þeirra sem þjóna röddum fólksins. Slíkt kann ekki góðru lukku að stýra.
Mótmælendur krefjast kosninga strax eins og það eitt og sér muni leysa þann bráðavanda sem er til staðar. Það er nákvæmlega engin trygging fyrir því að kosningar einar og sér muni skila þeirri niðurstöðu sem að menn eigi eftir að sætta sig við, og það er átakanlegt að horfa á forystumenn í stjórnmálum koma fram í fjölmiðlum og jafnvel tala í hálfkveðnum vísum um stjórnarsamstarfið. Það sér hver heilvita maður að slíkt er ekki uppbyggilegt. Á sama tíma koma forystumenn stjórnarandstöðunnar einnig fram í viðtölum og skjóta föstum skotum og kvarta yfir getuleysi ríkisstjórnarinnar. Er ekki eðlilegt að menn komi með tillögur og hugmyndir að því hvernig megi leysa bráðavandann? Festa, agi og ábyrgð er það sem skiptir máli við núverandi aðstæður en kannski er það óskhyggja að svo verði, sérstaklega á meðan hver höndin er uppi á móti annarri og meiri fréttir berast af aðgerðum mótmælenda en þeirra sem leiða eiga þjóðina fram úr vandanum.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá munu mótmæli ein og sér ekki leysa þau vandamál sem að þjóðin á í núna. Það sama gildir um stjórnmálamenn sem að reyna að slá sig til riddara á ástandinu og telja öðrum trú að þeir hafi lausnir á takteinum. Slíkt er lýðskrum af verstu sort. Við þurfum að treysta innviði samfélagsins og halda virðingu okkar gagnvart helstu stofnunum samfélagsins þrátt fyrir að það sé erfitt nú um stundir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.1.2009 kl. 23:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.