Hver getur læknað kramið hjarta
11.10.2008 | 11:00
Félagi minn í útlöndum sendi mér línu um daginn. ,,Nú sitjum við báðir saman í útlöndum með sært stolt og kalið hjarta." Það er erfitt að vera í burtu og geta bara fylgst með því sem gerist í fjölmiðlum. 9 ára sonur minn kom askvaðandi inn eftir leik með félögum sínum í gær og var mikið niðri fyrir: ,,Pabbi! Hann Francesco segir að Rússarnir ætla að lána Íslandi fullt af milljónum! Er það satt?" Francesco svissneskur bekkjarfélagi hafði fengið upplýsingarnar úr svissnesku fjölmiðlunum og auðvitað fræddi hann vin sinn um þessa nýju stöðu. Mikill er máttur fjölmiðlanna! Það er ljóst að orðspor landsins fer víða og líka á meðal þeirra yngstu. Auðvitað þurfum við að uppfræða börnin um hið breytta landslag, sérstaklega þegar þau eru fjarri heimalandinu ein á báti í öðru umhverfi en vanalega. Það er skrýtið að vera Íslendingur í útlöndum núna og það er eins og maður reyni að gera ósjálfrátt lítið úr uppruna sínum á meðan stormurinn gengur yfir.
Það verður fróðlegt að heyra nýja hlið á efnahagsmálunum í þætti Björns Inga Hrafnssonar sem er upprisinn eftir jakkafatamálið: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item187276/ Það sýnir svo ekki verður um villst að lífið heldur áfram með nýjum tækifærum og nýjum aðstæðum! Gangi þér allt í haginn Björn!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.