Sjaldan er ein báran stök
14.9.2008 | 20:51
Ég verð að segja að mér brá nokkuð eftir að hafa séð fréttir í kvöld þar sem að stjórn Eimskips tilkynnir um að það muni fara fram innanhúss rannsókn á tilteknum atriðum er tengjast rekstri félagsins frá fyrri tíð. Það verður sérstakt að fylgjast með áframhaldi þessa máls og vonandi leiðir þessi skoðun ekki til neitt misjafnt í ljós. Rekstur Air Atlanta skilaði Eimskipafélaginu stórfelldu tapi eins og þekkt er og fjárfestingarnar í Versacold og Atlas í Kananda eiga enn eftir að sanna sig og skuldsetning félagsins mikil. Velta Eimskipafélagsins 3 faldaðist á milli áranna 2006 og 2007 en rekstrartekjurnar í lok síðasta árs námu 1.459 milljónum evra. Það er ljóst að krafa upp á liðlega 26 milljarða er erfið í núverandi rekstrarumhverfi en eins og segir í fréttatilkynningu Eimskipafélagsins 2007 þá var hagnaður af undirliggjandi starfssemi félagsins 9 milljónir evra það ár en tap eftir skatta 9 milljónir evra að teknu tilliti til aflagðrar starfssemi. Nú er bara að vona að óskabarn þjóðarinnar hressist á komandi mánuðum og að verð hlutabréfanna taki við sér. Ég er ekki viss um að málsókn gegn Eimskipafélaginu muni skila neinu öðru en aukinni neikvæðri umræðu sem að verði hluthöfum ekki til góðs. Fyrsta skrefið er væntanlega að bíða eftir skýrslu stjórnarinnar á ,,þessum tilteknu atriðum''.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 15.9.2008 kl. 11:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.