Eru þetta framtíðarleiðtogarnir?
29.5.2010 | 12:26
Það er alltaf gaman að fylgjast með kosningum og sjá síðan hvað kemur upp úr kjörkössunum. Lýðræðið í kosningum er oft þyrnum stráð. Kjósendur fá oft aðra útkomu heldur en þeir væntu og oft á tíðum er lýðræðið annað eftir kosningar. Ég velti því fyrir mér eftir gærkvöldið hvernig framtíðin lítur út í Reykjavík og hvaða leiðtoga ég sé í fólkinu sem er að berjast um völdin. Mín greining er hér að neðan:
Besti flokkurinn - Jón Gnarr - Skemmtilegur, alþýðulegur, óvenjulegur leiðtogi sem að mun gera óvænta hluti og öðruvísi hátt en menn hafa áður gert. Það á þó eftir að koma í ljós hvort að veruleikinn verði annar þegar að menn verði komnir við stýrið.
Samfylkingin - Dagur B. Eggertsson - Dagur kemur vel fyrir og virðist ákveðinn og hefur fastar skoðanir á málum en hann virðist líða fyrir það að vera of tengdur inn í landsstjórnina. Hefur ekki náð að sameina fólk að baki sér og það háir honum.
Framsóknarflokkurinn - Einar Skúlason - Einar virðist vera jarðtengdur en hann er greinilega rangur maður á röngum tíma og í rangri borg. Hann virðist eiga erfitt með að koma skoðunum sínum á framfæri og á erfitt með að tala til fólksins á traustvekjandi hátt. Kannski að reynsluleysi hái honum og hann vantar meiri stuðning frá forystunni.
Sjálfsstæðisflokkurinn - Hanna Birna Kristjánsdóttir - Sennilega besta sending sem að Sjálfstæðisflokkurinn gat fengið í Reykjavík. Virðist eiga gott með að hrinda hlutum í framkvæmd og kemur málunum frá sér á skýran hátt. Virðist líða fyrir ástandið í þjóðfélaginu en hún er sennilega besti kosturinn í stöðu borgarstjóra nú um stundir.
Vinstri Grænir - Sóley Tómasdóttir - Skellegg kona sem að hittir ekki í mark. Fer fram með öfgafullum málflutningi eins og það að segja að hún muni ekki starfa með ákveðnum flokkum eftir kosningar. Slíkar yfirlýsingar eru ekki leiðtoga sæmandi, sérstaklega þegar að viðkomandi hefur ítrekað að hún standi fyrir kvenfrelsi en útlokar síðan að ræða við aðra kvenleiðtoga til þess að skapa sátt um stjórn borgarinnar.
Kosningar eru tímapunktsathuganir og þar fá íbúarnir að segja sína skoðun. Ég velti því hinsvegar fyrir mér hvaðan fólkið kemur sem að sækist eftir að stjórna málefnum okkar hinna og hvað það er sem að drífur það áfram. Er það reynsla úr einhverjum rekstri, störfum í þágu hins opinbera eða hvort menn hafi hreinlega bara verið listamenn á launum og stundað kaffihúsin í henni Reykjavík? Stjórnmálin fara ekki í manngreiningarálit þegar að kemur að því að velja forystumennina, þeir eru læknar, femínistar, atvinnustjórnmálamenn, kennarar, lögfræðingar nýskriðnir úr skóla o.s.frv. Það er einhvern veginn svo að þessir ,,grand old men" hafa horfið og ný kynslóð fólks með takmarkaða reynslu hafi stigið upp.
Ég er fyrrum vesturbæingur af gamla skólanum sem að nægði að hafa hrein torg og fagra borg, og geta gengið öruggur um stræti borgarinnar. Nokkuð sem að virðist vanta núna, svo einfalt er það!
VG útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.