Færsluflokkur: Íþróttir

Áfram Ísland

Það var ánægjulegt að lesa um íslensku stelpurnar sem að unnu sigur í 4. deild Heimsmeistaramótsins í Íshokkí. Það er ekki sjálfgefið að íslensk landslið nái árangri á erlendri grund. Sennilega hafa stelpurnar þurft að vinna hörðum höndum og safna sér fyrir ferðinni sjálfar. Því miður búa íslenskir afreksíþróttamenn við ólíkar aðstæður og fyrirgreiðslu, allt frá því að þurfa að greiða allan útlagðan kostnað sjálfir eða sérsambandið getur borgað brúsann í sumum tilfellum. Því miður er það svo að flest smærri sérsamböndin búa við mjög þröngan kost og hafa úr litlu að spila. Það getur heldur ekki talist eðlilegt að íslenskir afreksíþróttamenn búi við svo þröngan kost að þeir eða foreldrar þeirra þurfi að borga brúsann eins og dæmi sýna. Auðvitað styrkja mörg stórfyrirtæki afreksstarfið en meira þarf til. Það er erfitt fyrir íslenska íþróttamenn að búa við landfræðilega einangrun sem að gerir allt starfið erfiðara og dýrara í framkvæmd. Ferðasjóður íþróttafélaganna var gott skref fram á við til þess að jafna út ferðakostnaðinum en það var heldur hlægilegt að lesa um 8000 kall til glímustelpunnar. Næsta markmiðið hlýtur að vera að fjölga tækifærum íslenskra ungmenna á að keppa á erlendri grund og jafna kostnað sérsambandanna í þessu tilliti fyrst að menn eru á annað borð farnir að beita jöfnuði í íþróttastarfinu.

Macao vekur athygli

Miðvikudaginn 10. mars sl. hitti ég fyrir 5 manna sendinefnd frá Macao, en Macao er eitt af sérstökum sjálfsstjórnarsvæðum Kínverska Alþýðulýðveldisins og fyrrum Portúgölsk nýlenda. Það var mjög sérstakt að ræða við sendinefndina og þá opinberu stefnu sem í lýði er en hún gengur út á að skipuleggja sem flesta alþjóðlega íþróttaviðburði.  Það sem vakti athygli mína var að sendinefndin tjáði mér að þeir hefðu litlar 40 milljónir evra til reiðu árlega. Íþróttayfirvöldin í Macao eru líka draumur margra sem að skipuleggja íþróttakeppnir þar sem að glæsihallir og frábær íþróttamannvirki eru til staðar. Gríðarlegur vöxtur spilavíta og leijastarfssemi ýmis konar er í fyrirrúmi á þessu litla landsvæði, en fregnir segja að þeir hafi vinningin fram yfir Vegas í dag. Veit ekki hvort það er satt en kæmi það ekki á óvart. Burt séð frá spilavítunum þá eru aðstaðan og fjármagnið til staðar og ljóst að menn kappkosta að gera þau sem veglegust. Í Macao hafa menn reist marga Laugardalsvelli án þess að blikna.


Havelange datt inn

Það er alltaf gaman þegar að þekktir einstaklingar reka inn nefið á skrifstofuna og maður fær að taka í spaðann á þeim og skiptast á nokkrum orðum. Að þessu sinni var það fyrrum forseti FIFA (Alþjóða Knattspyrnusambandsins) í síðustu viku en það var svo sem ekki í fyrsta skipti enda kært með honum og forseta FIVB. Ástæða heimsóknarinnar var að skoða hina nýju og glæsilegu höfuðstöðvar FIVB í Lausanne þar sem þær standa á einum glæsilegasta reit borgarinnar með útsýnið yfir vatnið allt yfir til Evian í Frakklandi þar sem að friðarsamkomulagið um Alsír var eitt sinn undirritað. Annars var Havelange ern að sjá þrátt fyrir að vera kominn á 85. aldursárið ef ég man rétt. Síðustu helgina i febrúar varð ég síðan þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta núverandi forseta FIFA, Sepp Blatter með fulltrúum WADA auk fulltrúa helstu Alþjóðasérsambandanna í höfuðstöðvum þess í Zurich. Bygging FIFA í Zurich er mikið mannvirki og ljóst að mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Havelange kom þar að málum en ef ég fer rétt með þá á hann að hafa sagt að hann hafi fundið gamalt hús og 20 dollara í sjóðum FIFA þegar hann tók við. Veit ekki hvort þetta er satt en þessir S-Amerísku herramenn eru þekktir fyrir að skreyta mál sitt. Það er gaman að vera í návist slíkra manna annað slagið og sjá hvernig þeir bera sig að eins og sannir aristókratar. Annars er mikið um heimsóknir fyrirmenna í höfuðborg heimsíþróttanna í Lausanne og Ólympíusafnið skartar Beijing skreytingum og limmarnir renna ótt og títt um stræti borgarinnar þar sem að forystumenn íþróttanna og aðrir erindrekar berast á þessi dægrin. Þeim á eftir að fjölga sendinefndunum hérna á komandi vikum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband