Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Morgunblaðið komið til að vera!

Það var ágætt viðtalið við Óskar Magnússon, lögmann í Kastljósi kvöldsins, en hann fer fyrir hópi fjárfesta sem hafa keypt Árvakur hf., útgáfufélag Morgunblaðsins. Ég var sammála mörgu sem að Óskar sagði og ég tel að flaggskip íslenskrar blaðaútgáfu, Morgunblaðið, hafi einatt haft vandaða umfjöllun að leiðarljósi þegar málefni líðandi stundar hafa verið krufin til mergjar. Gæði blaðsins  hafa verið mikil og það er á engan hallað þó sagt sé að alþýðufróðleikurinn hafi lifað með þjóðinni í gegnum blaðið. Auðvitað munu margir deila á mig fyrir að segja þetta en þannig er þetta nú bara. Auðvitað hefur maður ekki alltaf verið sammála því sem sett hefur verið fram á síðum blaðsins, en kjarni málsins og vönduð efnistök hafa ávalt skilað sér til lesandans. Kannski er lykillinn að langlífi blaðsins einmitt fólginn í þeim sannleik að blaðið hefur þróast hægt en ákveðið, á meðan íhaldssemin hefur ráðið ríkjum í útliti og efnistökum. Morgunblaðið er svo sannarlega í heimsklassa og það fer vel á því að framtíðin sé tryggð þegar mikið ríður á að fagleg umfjöllun eigi sér stað.


Davíð fastur fyrir!

Það er greinilegt að Davíð Oddsson hefur engu gleymt, og þegar stóri maðurinn talar þá halda þeir litlu kjafti. Viðtalið í kvöld kallar á fleiri spurningar en svör fást við að sinni og það er hægt að taka undir það, að marga hluti vantar inn í hið svokallaða ,,rekum Davíð frumvarpið''. Hvernig mun það þjóna hagstjórninni hið nýja frumvarp? Hvaða aðgerðir hafa stjórnvöld sett fram til þess að slá skjaldborg um heimilin í landinu?

Það er hægt að taka undir með Davíð að fjölmiðlar hafi verið meðvirkir í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað og það er hægt að krefja þá um gagnrýna hugsun og spyrja af hverju þeim hefur ekki tekist að fjalla hlutlægt um hið nýja frumvarp um Seðlabankann. Í Svörtuloftum er bara einn kóngur og menn vita hver hann er og þegar hann setur í brýnar þá hlustar þjóðin af athygli. Eina vandamálið er að Svarthöfði er í vitlausum flokki, í vitlausu húsi á vitlausum tíma! Það dylst samt fáum að menn sjá raunverulega leiðtogahæfileika í Davíð Oddsyni, leiðtoga sem þorir og getur!

 


mbl.is Davíð í Kastljósviðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt stöðumat Gylfa

Það er sennilega mjög raunhæft stöðumatið hjá Gylfa. Alveg frá fyrsta degi hefur það sem kallað er samskipti og PR mennska verið á lágu plani og það hefur ekki bætt úr skák öll hin misvísandi ummæli höfð eftir helstu forystumönnum þjóðarinnar og nægir þar að vísa í mörg ummæli forseta Íslands undanfarið. Utanríkisráðuneytið hefur einnig staðið sig illa í því að koma málefnum Íslands á framfæri erlendis. Það virðist sem að helstu fréttir frá Íslandi séu tengdar óvissu og óreiðu og eins og Gylfi segir óbilgirni gagnvart lánadrottnum. Lykilatriðið núna er að koma bönknum í eigu einkaaðila og fagaðila sem eru líklegir til þess að bæta úr því ástandi sem við búum við núna en það er erfitt í núverandi árferði.

Lykilatriðið núna er samvinna og fagleg samskipti en það hefur farið lítið fyrir því þar sem að stjórnmál líðandi stundar hafa miðast við það að undirbúa kosningar og koma nýrri ríkisstjórn á koppin. Ástandið á Íslandi hefur ekki breyst mikið frá því Ingólfur nam land, við þurfum að eiga í samskiptum við umheiminn og án viðskipta og verslunar þá verður ekki skapaður sá hvati sem þarf til þess að knýja hjól atvinnulífsins áfram af ábyrgð og festu. Það er skortur á alþjóðlegu trausti þegar að kemur að vörumerkinu Ísland og það traust er ekki sjálfgefið það þarf að vinna fyrir því.


mbl.is Gylfi Zoëga: Svartar horfur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlendar umsagnir og meðvirkni

Það er orðið hálf hjákátlegt að fylgjast með gengisskráningu okkar ágæta gjaldmiðils og ég held að best væri að birta upplýsingar frá Glitni og athuga síðan í leiðinni hvaða gengi erlendir miðlarar gefa upp. Það er ljóst að það yrðu tvær niðurstöður þar. Það eru jafnvel erlendis miðlarar sem að segja "almost impossible to value" það nánast ómögulegt að verðmeta íslensku krónuna. Íslendingar sem að búa erlendis og leggja inn erlendan gjaldmiðill inn í viðskiptabanka sinn á Íslandi geta ekki millifært þann gjaldeyri út aftur nema þá að þeir framvísuðu farseðli sem að sýndi að viðkomandi væri að fara erlendis, og þá fengist einungis ákveðin upphæð til ráðstöfunar. Það er ljóst að neyðarlögin hafa sett alla fjármagnsflutninga úr skorðum og gengisskráningin eða svokölluð uppboðsskráning gefur ekki rétta mynd af stöðunni.

Í grein vefsíðunnar This is money frá því í mars 2008 segir hreinlega að íslenskir bankar hafi tapað miklu og það er hreinlega sagt menn telji líkur á því að Kaupþing banki verði þjóðnýttur. Greinin er hérna:

http://www.thisismoney.co.uk/news/article.html?in_article_id=434432&in_page_id=2&in_page_id=2#StartComments

Tilvitnunin er skýr en þar segir að orðrómur um að Kaupþing banki verði þjóðnýttur ..Icelandic banks have had millions of dollars wiped off their share prices recently and Kaupthing, the biggest lender there, has been the subject of nationalisation rumours. ´´

Það er eins og margir í okkar ágæta þjóðfélagi hafi ekki viljað hlusta á erlendu aðilana sem að sendur sterk viðvörunarskeyti, á þetta við um þá sem stýrðu bönkunum, opinberar eftirlitsstofnanir sem og almenning.

Þann 16. mars segir á sama vef að íslenskir bankar séu á toppi listans yfir þau fjármálafyrirtæki sem að séu í mikilli hættu á að falla. Því miður voru við of meðvirk og trúðum ekki því sem að erlendir aðilar sögðu okkur. Það voru fáar forsendur fyrir því að íslenskir bankar myndu komast óáreittir í gegnum þá kreppu og vantraust sem að ríkti á markaðnum og felldi m.a. Bear Stearns, Nothern Rock og fleiri. Hér má sjá pistil um málið:

http://www.thisismoney.co.uk/investing-and-markets/article.html?in_article_id=433257&in_page_id=3

Það er ljóst að áhættuálagið á íslensku bankana var ekki tilviljun ein eins og menn héldu fram en menn sögðu hvað eftir annað að hátt áhættuálag endurspeglaði ekki þann veruleika og stöðugleika sem að íslenskir bankar byggju við.

Meðvirkni var eitthvað sem að gerði ástandið enn verra og það vitum við fyrir víst núna.


mbl.is Óbreytt gengi krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífið á Kalkofnsvegi

Það er greinilegt að stjórnunarleg kreppa ríkir nú í Seðlabankanum, og án efa eru margir starfsmenn bankans í lausu lofti þessa stundina þar sem að það virðist ekki vera á hreinu hvernig áhrif nýrrar lagasetningar mun gæta á starfssemi bankans. Bankaráð og bankastjórnin eru undir miklum þrýstingi og það sendir ekki út góð skilaboð þegar að forsætisráðherra landsins talar við helstu stjórnendur bankans í gegnum fjölmiðla. Það flokkast ekki undir stjórnvisku hjá stjórnmálamanni sem að hefur setið hvað lengst á þingi. Hvernig sem þessi slagur fer um völdin í Seðlabankanum þá er ljóst að það er búið að skaða orðspor bankans enn frekar og hreint með ólíkindum hvernig stjórnviskan birtist hjá svo reyndum þingmönnum eins og forsætis- og fjármálaráðherra. Í lögum nr. 36 frá 22. maí 2001 segir að bankastjórar Seðlabanka Íslands við gildistöku laga halda störfum sínum til loka skipunartíma síns. Ákvæði 2. mgr. 23. gr. um skipun bankastjóra gildir frá og með fyrstu skipun í embætti bankastjóra eftir gildistöku laganna.

Auðvitað eiga stjórnmálamenn sem að mynduðu fyrri ríkisstjórn sem á stóran þátt í núverandi ástandi eftir að hafa haft forystu í bankamálum þjóðarinnar í gegnum embætti Viðskiptaráðherra ekki að setja öðrum afarkosti, sérstaklega þegar umboðið er takmarkað og varla starfhæfur meirihluti til staðar.

Það er ekkert óeðlilegt við það að starfssemi Seðlabankans sé skoðuð eins hjá öðrum ríkisstofnunum en lykilatriðið er að skapa starfsfrið á meðan unnið er að endurskipulagningu og úrbótum. Mér er til efs að bréfaskipti á milli bankastjóra og forsætisráðherra hafi stuðlað að betri sátt í þjóðfélaginu heldur þvert á móti opnað augu alheimsins fyrir því hversu veikt stjórnarfarið er nú um stundir á Íslandi og það sendir ekki traustleikamerki út á fjármálamarkaðina né til fyrirtækja sem að hafa áhuga á að eiga í viðskiptum við íslenska aðila.

 


mbl.is Vill að Eiríkur hætti strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skák en ekki mát!

Það mun verða fróðlegt að fylgjast með framhaldinu og sjá hvernig forsætisráðherra í minnihlutastjórn mun taka á málum Seðlabankans. Það er hreint með ólíkindum að þeir sem að mynduðu fyrri ríkisstjórn og fengu viðamiklar skýrslur og umsagnir Seðlabankans um vöxt og skuldsetningu bankakerfisins séu núna siðapostularnir, sérstaklega þegar þeirra hlutskipti var að hafa yfirumsjón með fjármálakerfinu í landinu. Eru embættismennirnir blórabögglar ástandsins eða eru það stjórnmálamennirnir sem að neita að gangast við fyrri verkum sínum? Forsætisráðherra sagði í viðtali í liðinni viku að hún vonaðist eftir því að bankastjórar Seðlabankans sæju að sér og hjálpuðu til við að gera nauðsynlegar skipulagsbreytingar. Sennilega er besta lausnin á því ástandi sem nú er uppi, að ný ríkisstjórn, sem að hefur umboð endurskipuleggi opinbera geirann og þar á meðal störf Seðlabankans. Þegar reitt er til höggs með sverð hefndarinnar á lofti þá gleymist oft að sá sem mundar sverðið kann að rista djúp sár, sár sem að kunna að kljúfa þjóðina í andstæðar fylkingar til langframa. Er það hið nýja Ísland?


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðan ég man!

Eftir að hafa lesið í íslensku fréttamiðlunum að íslenskir knattspyrnumenn séu að ganga til liðs við Vaduz liðið í Liecthenstein þá rifjast upp fyrir mér að sumir miðlar töluðu niður til Liechtenstein og íbúa landsins eftir að íslenska knattspyrnulandsliðið beið þar lægri hlut um árið. Það rifjast einnig upp fyrir mér að menn voru að tala um að stærð landsins og að það væri eins og eitt úthverfi á Íslandi. Þessir sömu fréttamiðlar minnast ekki einu orði á þetta núna og telja vistaskipti knattspyrnumannanna hið besta mál og það geri ég líka enda gott að sækja Liechtenstein heim. 


Ísland í kastljósi fjölmiðla víðsvegar um heiminn

Það var ítarleg umfjöllum um Ísland of íslensk málefni í La Republica í gær sem er áreiðanlegasta dagblað Ítalíu. Ítalskur félagi minn ýtti blaðinu hreinlega í andlitið á mér og tjáði mér að það væri varla hægt að opna fyrir sjónvarp eða blöð svo að það væri ekki  minnst á Ísland. Ég verð áþreifanlega var við þetta þar sem að ég hitti fyrir fólk sem kemur víða að. Kynhneigð forsætisráðherra hefur líka vakið almenna athygli í fjölmiðlum og sumir miðlar hafa einnig rætt um langa stjórnmálareynslu forsætisráðherra. Vonandi fara að koma jákvæðari fréttir frá Íslandi og það er greinilegt að ímynd okkar hefur beðið hnekki og landið orðið einhverskonar tákn fyrir þá kreppu sem nú gengur yfir. Það er lykilatriði að menn sinni ímyndarvinnunni betur og það er atriði sem að má ekki gleymast.


mbl.is Gerir óspart grín að Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á 80 dögum

Efnahagslegur veruleiki Íslands er nú annar en verið hefur. Með þeim skelli sem að hin alþjóðlega lánsfjárkreppa hefur kallað fram, hrun á hlutabréfmörkuðum, samdrátt í neyslu og fjárfestingum auk ríkisvæðingar bankanna þá er ljóst að hið opinbera þarf að aðlaga útgjöldin að nýjum veruleika. Fjárhagur margra fyrirtækja og heimila er ekki beysin nú um stundir og að sama skapi er ljóst að það verður ekki sótt aukið fé í sjóði heimilana í landinu. Við núverandi aðstæður þá þarf hið opinbera að ganga fram fyrir skjöldu og hagræði í sínum rekstri þar sem hægt er enda sendir það út skilaboð um að það sé farið á undan með góðu fordæmi og t.d. er hægt að leggja af aðstoðarmannastöður þingmanna.

Kaupmáttarþróunin hefur ekki verið hagstæð undir það síðasta og það er rétt að geta þess að kaupmáttur hefur dregist saman um 8,4% sem er mesti mælanlegi samdráttur síðan 1990, eins og efnahagsvísar Seðlabanka Íslands skýra frá. Koma þarf bönkunum í hendur aðila sem að kunna með þá að fara. Slíkt mun senda út jákvæð skilaboð til aðila á fjármálamarkaði enda ekki vanþörf á nú um stundir. Flot krónunnar hlýtur líka að vera mál sem þarf að komast á dagskrá enda ríkir mikil óvissa um raunverulega gengisskráningu og slíkt ástand er óþolandi fyrir fyrirtækin í landinu sem að starfa undir innbyggðri spennu í fjármálakerfinu. Þann tappa þarf að losa svo erlendir aðilar fái aftur trú á því að hægt sé að stunda viðskipti og fjárfesta á Íslandi.

Opinberar framkvæmdir þarf að skoða í efnahagslegu samhengi, þ.e. að skapa atvinnu við skilyrði þar sem þúsundir vinnufærra manna er án atvinnu. Ef það á ekki að ráðast í mannfrekar framkvæmdir núna, hvenær þá? Það hlýtur að vera lykilkrafa að ríkið flýti framkvæmdum enda mun það hafa jákvæð áhrif á atvinnustig í landinu. Ef atvinnuleysi verður lengi viðvarandi þá munu fylgja því alvarleg samfélagsleg vandamál, vandamál sem að erfitt verður erfitt að takast á við og alsendist óvíst að úrræði séu til staðar. Ríkið verður að taka á núverandi hagsveifluatvinnuleysi af trúverðugleika og semja t.a.m. við bæjar- og sveitarfélög um möguleg verkefni.

Það verður fróðlegt að sjá hversu mörg störf skapast á næstu mánuðum og hvort að hugtakið um að slá skjaldborg um hagsmuni heimilana fáist staðist.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband