Að missa sjónar á kjarnastarfsseminni
31.5.2009 | 12:19
Það verður að segjast að dæmið um Soffanías Cecilsson hf. er sorglegt, og endurspeglar kannski þá hugsun sem að fylgdi því að taka erlend lán og endurfjárfesta í von um hagnað af annarri starfssemi en kjarnastarfssemi og náttúrulega var lánsfjármagnið á lágum vöxtum. Sú framtíðarsýn sem að býr að baki í svona tilfellum treystir á tvennt, í fyrst lagi að hlutabréfin sem að keypt voru hækkuðu í verði og svo hitt að gengi íslensku krónunnar yrði stöðugt eða myndi styrkjast gagnvart erlendum myntum. Þegar að dæmið var sett upp þá var ekki tekið með í reikninginn að hlutirnir gætu fari á versta veg, þ.e. að krónan myndi taka skell og að hlutabréfin myndu falla í verði, með öðrum orðum velgengnin var línuleg og ábatinn var handan við hornið. Ávinningur af slíkri hagfræði er nú flestum ljós og það er ótrúlegt að fjöldi fyrirtækja hafi ekki verið með neinar varnir í sínum stöðutökum og eins og dæmi sýna, sérstaklega þar sem að stærstur hluti lánsins fer í fjárfestingu á einum stað er í versta falli dæmi um óraunhæft stöðumat. Menn setja hreinlega traust sitt á að framtíðin gefi betur en nútíðin. Kannski gleymdu menn því fornkveðna, ávöxtun í nútíð segir ekkert til um framtíðina!
Þegar að menn eru búnir að skuldsetja fjöreggið þannig að það mun taka áratugi að greiða niður lánin, ef það er þá hægt, ef ekki þá eru menn búnir að taka sína eigin gröf. Það er raunar ótrúlegt að sjá að fjöldi íslenskra fyrirtækja hefur á síðustu árum sótt langt út fyrir kjarnastarfssemi sína og þar með aukið rekstraráhættu sína umfram það sem eðlilegt getur talist. Það er klárt mál, ef lög þessara hlutafélaga verða skoðuð þá mun koma í ljós að þau hafi mörg hver vikið verulega frá skipulagslegum markmiðum sínum og farið langt út fyrir eðlileg starfssvið sín, og inn á svið þar sem þekking stjórnenda var fyrst og fremst takmörkuð.
Samfélagsleg ábyrgð lykilfyrirtækja í smærri byggðarlögum er mikil og það verður að gera kröfur til stjórnenda þeirra að þeir hámarki hag samfélagsins þar sem að fyrirtækið er staðsett í stað þess að spila rússneska rúllettu.
Milljarða skuldir umfram eignir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.6.2009 kl. 22:06 | Facebook
Athugasemdir
Svo er fólk að segja að ekki megi fara fyrningarleiðina, hvað eigum við að borga skuldirnar fyrir þetta fólk líka? maður fær óbragð í munnin við að lesa svona frétt. Þetta er ekkert einsdæmi, það hafa farið út úr greinni 500 þúsund miljónir á þessum árum. Þarna hafa menn tekið stór lán og keypt hlutabréf eða bílaumboð og ætlast svo núna til að við almenningur borgum þetta fyrir þess menn. Kemur bara ekki til grein, ef menn eru búnir að gera upp á bak í þessum fyrirtækjum þá á bara að taka þau af þeim og einhverjir aðrir taka við. þannig er það bara í alvörunni, að ef fyrirtæki er illa rekið og fer á hausinn, þá taka aðrir við og halda áfram, alveg eins og með Morgunblaðið. Svo kemur fólk og ver þessa helvítis vitleysu, ég get ekki annað sagt.
Valsól (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 13:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.