Davíð fastur fyrir!

Það er greinilegt að Davíð Oddsson hefur engu gleymt, og þegar stóri maðurinn talar þá halda þeir litlu kjafti. Viðtalið í kvöld kallar á fleiri spurningar en svör fást við að sinni og það er hægt að taka undir það, að marga hluti vantar inn í hið svokallaða ,,rekum Davíð frumvarpið''. Hvernig mun það þjóna hagstjórninni hið nýja frumvarp? Hvaða aðgerðir hafa stjórnvöld sett fram til þess að slá skjaldborg um heimilin í landinu?

Það er hægt að taka undir með Davíð að fjölmiðlar hafi verið meðvirkir í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað og það er hægt að krefja þá um gagnrýna hugsun og spyrja af hverju þeim hefur ekki tekist að fjalla hlutlægt um hið nýja frumvarp um Seðlabankann. Í Svörtuloftum er bara einn kóngur og menn vita hver hann er og þegar hann setur í brýnar þá hlustar þjóðin af athygli. Eina vandamálið er að Svarthöfði er í vitlausum flokki, í vitlausu húsi á vitlausum tíma! Það dylst samt fáum að menn sjá raunverulega leiðtogahæfileika í Davíð Oddsyni, leiðtoga sem þorir og getur!

 


mbl.is Davíð í Kastljósviðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Lesið einnig blogg Baldurs....

Bretar saklausir - íhaldið sekt

24/02 2009 23:46/ 2009
Svör Davíðs Oddssonar í Kastljósi kvöldsins voru líkt og sérsniðin fyrir mig.  Ég hlýt að þakka fyrir.

Niðurstaða A

Davíð varaði við bankahruni frá því árið 2006 og ítrekaði mjög alvarlega 30. september 2008.

Hann sagði að á ríkisstjórnarfundi 30. september hefði hann fullyrt að allt bankakerfið yrði komið á hliðina innan tveggja til þriggja vikna.
(Eyjan.is 24.02 2009)

Þetta var áður en Bretar höfðu hreyft litla fingur gegn Landsbanka og Kaupþing og fellur því um sjálft sig hvað margir hafa haldið fram, að Kaupþing hafi staðið býsna sterkt fram að aðgerðum Breta.
Bankakerfi sem seðlabankastjóri er búinn að vara við linnulaust í tvö ár, án teljandi aðgerða stjórnvalda til að takmarka tjónið, þarf enga hjálp við að fara á hliðina.

Ég hygg reyndar að lögfræðingum sem verja bresk stjórnvöld í Kaupþingsmálinu muni þykja fengur að þessum upplýsingum, sem væntanlega eru skjalfestar.

Sérstaka athygli vek ég á því að viðvaranir sjálfs bankastjóra Seðlabanka Íslands (allt frá 2006) hefðu að sjálfsögðu mátt teljast fullnægjandi ástæða þess að hamla vexti bankanna, með inngripum FME áður en Landsbanka var gefið grænt ljós á Icesave í Bretlandi og Hollandi - og viðvörunum til FSA varðandi yfirtöku Kaupþing á S&F.

Til þess hafði FME öll tól og títtnefndar afsakanir um að ástæður hafi skort hefur Davíð nú fellt úr gildi.

Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust.
(Lög um fjármálafyrirtæki 2002 / nr. 161 / 36. gr.)

Ég geri hér ráð fyrir að Davíð hafi einnig varað FME við, allt frá 2006, líkt og honum bar skylda til samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands.

Seðlabanki Íslands skal veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem bankinn býr yfir og nýtast kunna í starfsemi Fjármálaeftirlitsins.
(Lög um SÍ)

Niðurstaða B

Davíð varaði við frá árinu 2006 - samnefnarinn í þeim ríkisstjórnum sem síðan hafa setið (fram að hruni) er Sjálfstæðiflokkurinn.

Það má því draga nokkuð afdráttarlausa ályktun af orðum Davíðs, sem reyndar var vituð áður; Sjálfstæðisflokkurinn er það pólitíska afl sem fyrst og síðast ber ábyrgð á hruni Íslands.
 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 25.2.2009 kl. 00:53

2 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Ekki held ég að það sé hægt að kenna Sjálfsstæðisflokknum einum og sér um það hrun sem varð. Þar spila inn í margar flóknar breytur, svo sem vanmat á stöðunni og of mikil skuldsetning bankanna sem að fjármögnuðu neyslugleði landans. Sterk króna virkaði ennfremur sem hvati á frekari fjárfestingar og bankarnir fjármögnuðu sig með nýjum og nýjum lánum og hagvöxtur margra fyrirtækja var fólginn í útþynntri starfssemi sem fólst í yfirtökum og með því að halda uppi hlutabréfaverði þar sem að efnahagsreikningurinn var útþaninn með óefnislegum eignum sem voru í raun einskis virði. Grein Stiglitz frá 2001 er áhugaverð og var í raun vegvísir sem að menn tóku ekki mark á: http://www.sedlabanki.is/uploads/files/WP-15.pdf

Ég get ekki tekið undir með þér að Ísland sé hrunið. Fyrirtæki hafa lagst og efnahagurinn erfiður nú um mundir en Ísland lifir eins og blómstrið eina.

Kveðjur

Guðmundur

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 25.2.2009 kl. 21:56

3 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Fyrirgefið!

Ég átti náttúrulega við Sjálfstæðisflokkinn með einu s-i. Of fljótur á lyklaborðinu.

Guðmundur

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 25.2.2009 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband