Að vita eða vita ekki og stjórnmál líðandi stundar
9.12.2008 | 23:12
Það hefur verið sérstakt að fylgjast með framgöngu Viðskiptaráðherra undanfarið, þ.e. ef marka má fréttir af atburðum síðustu vikna. Auðvitað skolast alltaf eitthvað til og jafnvel rangt farið með staðreyndir, en það verður að segjast eins og er að Viðskiptaráðherra hefur of oft verið í fréttum þegar minnst hefur verið á að hann hafi ekki vitað eitthvað eða ekki verið kunnugt um eitthvað. Það er ekki gott fyrir stjórnmálamann að vera tengdur of mikið við slíka umræðu án þess að skaðast af henni. Það er í verkahring stjórnmálamanna að vita, sérstaklega þegar menn hafa yfir heilu ráðuneyti að segja og með aðstoðarmenn og ritara sér til hjálpar. Því hefur oft verið haldið fram að góður ritari væri sá eða sú sem að væri alltaf skrefi á undan og með svörin á reiðum höndum þegar á þyrfti að halda. Það virðist sem að aðstoðarmaður ráðherra sé núna farinn að skilja leikinn og er hann mættur í fjölmiðla skömmu seinna til þess að útskýra vanþekkingu ráðherrans á einstökum aðgerðum og verkefnum síðustu vikna. Jú það er nú betra að einhver viti og hafi svörin á reiðum höndum! Kannski eru stjórnmál líðandi stundar farin að líkjast of mikið laginu um manninn sem var á vitlausum stað í vitlausu húsi og á vitlausum tíma.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.