Mótmæli, múgæsing og hvað svo
23.11.2008 | 12:38
Það er með ólíkindum að horfa yfir hafið og sjá þau skrílslæti sem að áttu sér stað fyrir utan Lögreglustöðina v. Hlemm, og hreint með ólíkindum að fólk komist upp með skemmdarverk á almannafæri. Ég hef reyndar áður lýst þeirri skoðun minni að lögreglan eigi að sjá til þess að fólk fari ekki út fyrir almennt velsæmi. Auðvitað er það viðkvæmt eins og ástandið er núna. Mér er til efs að í nokkru siðuðu ríki hefði það verið látið átölulaust að fólk hefði í frammi skemmdarverk, afbakað styttu af lýðveldishetju okkar á Austurvellli, unglingar henda eggjum í Alþingishúsið o.s.frv.
Löghlýðnir borgar þessa lands eiga það skilið að lög og reglur séu virtar ef ekki þá er stutt í það að fólk fari að valda skemmdum á eignum almennra borgara með tilheyrandi eignatjóni og spjöllum. Hvað mun gerast í miðborg Reykjavíkur næsta laugardag. Munu verslunar- og fyrirtækjaeigendur eiga von á því að rúður verði brotnar og skemmdarverk unnin, allt í nafni friðsamra mótmæla. Það að alþingismaður standi svo í fylkingarbrjósti fyrir framan Lögreglustöðina á Hlemmi vekur upp spurningar? Mótmæli, múgæsing og hvað svo?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:44 | Facebook
Athugasemdir
Heil og sæl,
Jú jú ég hef íverustað í öðru landi en mín heimahöfn er Ísland og þar greiði ég líka skatta og skyldur, á mína húseign og hef af lánum að greiða. Er að mörgu leiti fangi í öðru landi og get ekki flutt heim. Auðvitað hefur maður aðra sín á málin utan frá og ef það er til margs um fáfræði og svívirðingu þá er illt í efni. Ég skil grunninn í þínum skrifum en auðvitað er oft erfitt að tjá sig þegar maður er reiður. Það hlýtur að vera krafa hins almenna borgara að eftir lögum og reglum sé farið. Ef engin virðing er fyrir grunngildunum þá hriktir í grunnstoðum samfélagsins.
Ég ætla samt að setja spurningarmerki við skemmdarverk. Ég gagnrýni að sumir geti gengið fram af offorsi og valdið skemmdum og réttlætt aðgerðir sínar í nafni mótmæla. Ef að það hefur ekki verið rétt staðið að málum þá verður það mál að vera útkljáð eftir þar til bærum leiðum. Almenningur getur ekki ruðst inn í opinberar stofnanir og tekið völdin, eða hvað?
Kveðjur
Guðmundur
Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 23.11.2008 kl. 14:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.