Lýðræðið í kjörbúðinni
8.11.2008 | 18:58
Í kjörbúðinni geta neytendur gengið inn á milli hillanna og valið þær vörutegundir sem að þeim geðjast að. Þetta er hinn virki réttur neytandans að láta sig verð, gæði, útlit og þjónustu ráða för þegar að ákvarðanirnar eru teknar. Því miður þekkjum við öll að stundum hlaupum við á okkur og kaupum hluti sem eru okkur ekki til gagns né hafa þeir praktískt notagildi.
Þegar að stjórnmálunum kemur þá gilda þau lögmál að kjósendur geta valið eins og í kjörbúðinni, vörutegund a, b eða c. Í stjórnmálunum velja menn flokka og málefni og eftir að því ferli líkur þá eru engar tryggingar í boði fyrir því að menn hafi valið rétt. Það eru með öðrum orðum engar tryggingar fyrir því að flokkar með ólíkar skoðanir og bakland nái því fram sem að kjósendur ætlast til af þeim.
Nú þegar að stjórnmálin hafa tekið völdin í íslensku samfélagi og bankarnir ríkisvæddir þá er ljóst að menn verða að fara að spyrja grundvallarspurninga, eins og hvert stefnir þjóðin? Hvaða lausnir hafa stjórnmálamenn upp í erminni? Fjölskyldur vilja fá að vita hvort þær haldi fasteignum sínum og hvernig þau geta brúað bilið til þess að mæta skuldbindingum sínum?
Sennilega eru ráð hagfræðinganna, Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega skoðunarverð, þ.e. að ríkið hlaupi undir bagga með þeim fjölskyldum sem að standa illa en hægt er að bjarga. Slík greiningarvinnu þarf að vinna við snarasta og það þarf að leiðbeina fólki út úr vandanum. Það er líka ljóst að sumum verður ekki bjargað og er það miður en það þarf þá að finna aðrar lausnir til þess að tryggja stöðugleika fjölskyldunnar og hagsmuni hennar til framtíðar.
Fyrirtækin í landinu búa við enga greiðslumiðlun og það er eitt það alversta sem að getur gerst í frjálsum viðskiptum. Tjónið er þegar orðið verulegt og ljóst að menn eru við það að segja bingó og búið. Vinsamlega takið við þrotabúinu. Það er mörg stöndug fyrirtæki sem að eru fórnarlömb sérstakra aðstæðna og það þarf að hjálpa slíkum fyrirtækjum til þess að ná að sigla í örugga höfn svo að þau geti haldið uppi atvinnu. Það verður með öðrum orðum að dæla fjármagni inn í kerfið svo það sigli ekki allt í strand.
Það er ekki annað en hægt að reiðast þegar maður heyrir þingmenn á hinu háa Alþingi segja að þeir fái ekkert að gert og séu eins og afgreiðslufólk á kassanum í kjörbúðinni. Stjórnmálamenn eiga ekki að vorkenna sér, þeir eiga að blása kjark og þor í alþýðu Íslands, þor og þrek svo fólkið fái skilið að það hefur kosið sanna leiðtoga til þess að stýra málum. Ef menn bera ekki virðingu fyrir sjálfum sér og því hlutverki sem menn hafa valið sér þá eiga þeir hiklaust að stíga til hliðar.
Lýðræðið í kjörbúðinni er gott og virkt þegar að allar breyturnar eru þekktar og ekki kastast í kekki, en þegar neytendur telja að þeir hafi verið hafðir að ginningarfíflum þá sneiða menn framjá viðkomandi kjörbúð þegar að versla á næst. Það er hið virka lýðræði í hnotskurn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.