Gullkorn af heimasíðu ráðherra sem nú er lokuð og verið er að endurskoða

Björgvin Guðni Sigurðsson(Verið er að endurskoða og breyta vefsvæðinu bjorgvin.is)

Þessi pistill að neðan á svo sannarlega erindi til þeirra sem vilja vera upplýstir. Í þessum pistli er vitnað til erlendra aðila sem sögðu að íslenska bankakerfið yrði ekki til eftir nokkra mánuði. Það er eins og menn hafi vaknað upp við vondan draum og saga H.C. Andersen um ,,Nýju fötin keisarans'' á vel við. Það er eins og allir hafa séð sannleikann en þeir sem stóðu hvað næst sáu ekkert og vildu ekkert af staðreyndunum vita. Hvað veit ég svo sem en pisitillinn er hérna að neðan og veitir góða innsýn inn í það sem menn voru að hugsa í byrjun ágúst mánaðar og er eign ráðherra.

,,5. ágúst 2008 Útrás og árangur bankanna

 

Þegar KB banki opnaði útibú í Lúxemborg fyrir nokkrum árum óraði líklega engan fyrir því hve vel íslensku fjármálafyrirtækjunum ætti eftir að ganga við að hasla sér völl á erlendri grundu. Ævintýralega vel er kannski rétta orðið yfir það. Kjarkur, þor og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu. Ekki síst þegar lagt er saman við aðra útrás Íslendinga erlendis í verslun, iðnaði og þjónustu ýmiskonar.

Auðvitað skortir ekki úrtölur eða þá sem telja sig knúna til að tala útrás og fjárfestingarævintýri Íslendinga erlendis niður. Þannig eru nú hlutirnir einu sinni og því er það mikilvægt nú þegar hægir tímabundið á útrásinni vegna þrenginga á erlendum mörkuðum að halda frábærum árangri þessara flaggskipa atvinnulífsins okkar ríkulega til haga. Þetta eru okkar voldugustu fyrirtæki og nokkrar af helstu undirstöðum efnahagskerfis okkar til lengri tíma.

Í árslok 2006 má ætla að hlutdeild fjármálafyrirtækja hafi numið um 10% af landsframleiðslu og verðmæti útflutnings þekkingar og þjónustu um 60 milljörðum. Í fyrra komu 52% af tekjum viðskiptabankanna erlendis frá og þótt erlendar tekjur vátryggingafélaga séu enn ekki svipur hjá sjón miðað við viðskiptabankanna stefnir þróunin þar í sömu átt. Þessar staðreyndir sýna svo ekki verður um villst að útrás fjármálageirans hefur orðið afgerandi þýðingu í okkar efnahagslífi.

Íslensku bankarnir hafa sums staðar sætt nokkurri gagnrýni undanfarið erlendis. Sérstaklega fyrir að vera ekki nógu burðugir og um of háðir skammtímafjármögnun. Um forsendur gagnrýninnar sem skapaðist vorið 2006 hefur verið fjallað um rækilega, meðal annars af Fredirik Mishkin og Tryggva Þór Herbertssyni. Niðurstaðan er sú að gagnrýnin var að verulegu leiti tilhæfulaus. Hinsvegar var ljóst að bankarnir þyrftu að fjármagna sig betur og til lengri tíma og að koma þyrfti betur á framfæri upplýsingum um rekstur þeirra

Samskonar gagnrýnir skýtur upp kollinum á nú í kjölfar þeirrar lausafjárkreppu sem kennd er við undirmálslán. Hún er þó ekki einskorðuð við íslenska banka, þar sem vandinn er alþjóðlegur.

Athygli vekur þó að háværasta gagnrýnin kemur frá samkeppnisaðilum bankanna á erlendum vettvangi. Löngum hafa sérfræðingar Danske bank haft horni síðu íslensku bankanna en fyrir skemmstu bættust Finnskir bankamenn í “grátkórinn”.

Aðstoðarmenn Nordea í Finnlandi, Markku Pohojla, gefur til dæmis opinberlega í skyn að íslensku bankarnir munu fljótlega lenda í miklum vandræðum. Hann gengur jafnvel svo langt að gera því skóna að íslensku bankarnir verði ekki til staðar eftir nokkra mánuði. Þessi stóru orð finnska bankamannsins byggja ekki á neinni greiningu á íslensku bönkunum. Nýleg ítarleg úttekt á stöðu þeirra og íslenska fjármálakerfisins alls, eftir þá Friðrik Má Baldursson og Richard Portes, gefur til að mynda ástæðu til að ætla að staðan tiltölulega góð í alþjóðlegu tilliti.

Gagnrýnin hlýtur því að skoðast í því samhengi að a.m.k. tveir íslenskir bankar, Glitnir og Kaupþing, hafa hafi sókn inn á markað fyrir sparifé í Finnlandi, með svipuðum hætti og Landsbankinn hefur áður gert í Bretlandi. Þessi markaðssókn kemur sér vitanlega illa fyrir Nordea sem til þessa hefur ekki treyst sér til að bjóða jafn góð kjör og íslensku bankarnir bjóða.

Ásakanir þessar eru alvarlegar þar sem þær beinast einnig að íslenskum eftirlitsaðilum, sérstaklega Fjármálaeftirlitinu en einnig að hluta Seðlabankanum. Ítarleg greining þessara tveggja lykilstofnanna gefa ekkert annað til kynna en að íslensku bankakerfið sé mjög stöndugt.

Í ofanálag eru innlán Finna í íslenskum bönkum tryggð með innistæðutryggingum. Að því leiti til sem finnskar reglur þar að lútandi veita betri réttindi en íslenkar myndu bankar bæta tjón sparifjáreigenda ef svo ólíklega vildi til að einvherjir bankar kæmust í lausafjárskort. Því er rétt að halda því til haga sem rétt er þegar reynt er að kasta rýrð á fjármálastofnanir okkar þegar kreppir að.

Til að fara yfir stöðuna og til að efla samvinnu stjórnvalda og fjármálafyrirtækja um fjárfestingar erlendis mun Viðskiptaráðuneytið kalla til fundar með Samtökum fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráðs í janúar. Ætlunin er að skapa varanlegan vettvang fyrir slíkt samstarf og verður janúarfundurinn fyrsta skrefið í þá átt.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Fróðleg lesning. Var janúarfundurinn áformaður í janúar 2009?

Eyþór Laxdal Arnalds, 2.11.2008 kl. 12:21

2 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Heill og sæll Eyþór,

Langt síðan við heyrðumst síðast, kannski tveir áratugir eða svo vestarlega í Vesturbænum. Skv. þeim upplýsingum sem að ég hef þá átti hann að eiga sér stað á nýju ári. Það er nokkuð sérstakt að síðunni hafi verið lokað og skrif ráðherra nokkuð sérstök sé tekið mið af stöðunni.

 Kv.

Guðmundur

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 2.11.2008 kl. 12:33

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já hérna!

5. ágúst 2008 Útrás og árangur bankanna

Sannfæringarkraftur viðskiptaráðherra er mikill. Það liggur við að bankarnir vakni upp frá dauðum við þessi skrif !

Þakka fyrir

Gunnar Rögnvaldsson, 2.11.2008 kl. 14:49

4 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Ég verð að segja að þessi pistill er vægt til orða tekið mjög sérstakur, sérstaklega þessi kafli:  ..Ásakanir þessar eru alvarlegar þar sem þær beinast einnig að íslenskum eftirlitsaðilum, sérstaklega Fjármálaeftirlitinu en einnig að hluta Seðlabankanum. Ítarleg greining þessara tveggja lykilstofnanna gefa ekkert annað til kynna en að íslensku bankakerfið sé mjög stöndugt."  Hér segir fagráðherrann að allt sé í lagi með kerfið en veruleikinn er allur annar í dag. Í flestum siðmenntuðum ríkjum þar sem að menn bera ábyrgð þá væru þeir búnir að skipta sér útaf. Það er því miður ekki lenskan á Íslandi því þar man enginn hvað gerðist deginum á undan.

Kveðjur

Guðmundur

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 2.11.2008 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband